Leita í fréttum mbl.is

Er ASÍ deild í Samfylkingunni?

Í pistli sínum á Pressunni segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akranes, frá formannafundi ASÍ vegna endurskoðunnar kjarasamninga sem haldinn var í gær.

http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/ekki-nog-ad-gelta-orlitid-og-meina-sidan-ekkert-med-thvi-
Í pistlinum kemur fram að Vilhjálmur  hafi minnt forseta ASÍ á það, að í janúar 2009 hafi miðstjórn ASÍ krafist afsagnar þáverandi ríkisstjórnar, vegna svika hennar við launafólk í landinu.  Núna sé upp svipuð staða, ekki eitt einasta loforð stjórnvalda efnt og því væri það, að mati Vilhjálms,  í raun skylda ASÍ að krefjast afsagnar ríkisstjórnarinnar.  Enda er ASÍ hagsmunasamtök launafólks, en ekki stjórnmálaflokka.
Pistillinn endar svo á þessum orðum:
,,Hið eina rétta væri að verkalýðshreyfingin lýsti yfir fullkomnu vantrausti á þessa ríkisstjórn og krefðist þess að efnt yrði til kosninga tafarlaust, vegna síendurtekna svika við íslenskt launafólk. Það á alls ekki að skipta máli hvort ríkisstjórn er til hægri eða vinstri þegar verkalýðshreyfingin lýsir yfir vantrausti á ríkisstjórn vegna síendurtekna svika."

Þetta er rétt hjá Vilhjálmi. Samtök launafólks eiga ekki að láta kennitölu svikarana, hafa nokkuð að segja til um hvort afsagnarkrafa á ríkisstjórn, sé lögð fram eða ekki, vegna síendurtekna svika hennar. Samtök launafólks eiga að berjast fyrir hagsmunum þess fólks sem þau kenna sig við, en ekki einstaka stjórnmálaflokka.

Einelti og pólitísk aðför í ,,smáa letri" stjórnarsáttmálans?

Í stjórnarsáttmála Hinnar Norrænu velferðarstjórnar,  segir eitthvað á þann veg, að sækja skuli um aðild að ESB.   Til þess að ,,lokka" Vg-liða, í það minnsta suma, til samþykktar á umsókninni var, því  bætt við að þingmenn mættu berjast gegn málinu eða flykkja sér á bak við það, eftir því sem samviska þeirra og sannfæring segði til um. 

Hins vegar stendur hvergi í stjórnarsáttmálanum, hvaða örlög bíða þeirra sem aðra sannfæringu hafa fyrir málinu, en Samfylkingarinnar og  ekki fallbjóða sannfæringu sína.

Kannski kveður á um, í ,,smáa letri" stjórnarsáttmálans um  pólitíska aðför og einelti. Líkt og  Jón Bjarnason og fleiri félagar í  Vinstri grænum hafa mátt búa við? Þeim sem annt er um  trúverðugleika flokksins og síns eigin og eru ekki reiðubúnir að standa að svikum við kjósendur sína ?  Já eða þá í gremjulegum svipbrigðum, ísköldu augnaráði og formælingum Jóhönnu.   Hver veit?


mbl.is Eigum ekkert erindi í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alls staðar annars staðar en í Skjaldborginni, væri allt þetta fólk rekið með skömm!!!

Ef að frá er skilinn sá tími sem svokölluð sáttanefnd um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar starfaði, þá hefur áðurnefnd endurskoðun, verið að velkjast um innan stjórnarflokkanna í tæplega eitt og hálft ár.

Stjórnarflokkarnir klömbruðu reyndar saman frumvarpi um þessa endurskoðun, sem lagt var fram á síðustu dögum þingsins, vorið 2011.

Í greinargerð með frumvarpinu, segir að það sé afrakstur mikillar vinnu þeirra þingmanna og þeirra ráðherra að málinu komu. Hljómar í rauninni líkt og Jón Bjarnason hafi bara ,,hreinskrifað" minnisblöð, allra þeirra funda, er haldnir voru um málið og úr því orðið frumvarp um stjórn fiskveiða.

Frumvarpið hafði svo ekki einu sinni stuðning innan stjórnarflokkanna, þó að um stjórnarfrumvarp væri að ræða, sem rætt hafi verið og samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna.
Endaði sú orusta með því að frumvarpinu var vísað aftur til nefndar, sem leita átti umsagna.

Eftir því sem fleiri umsagnir birtust, allar á sama veg (arfavitlaust og beinlínis þjóðhættulegt frumvarp) hljóp flótti í stjórnarliðið og hver stjórnarþingmaðurinn af fætur öðrum, afneitaði frumvarpinu. Hápunktur afneitunarinnar, var þegar Össur kallaði frumvarpið, er hann samþykkti sjálfur í ríkisstjórn, bílslys.

Eftir því sem best er vitað, þá er málið komið aftur í einhvern starfshóp stjórnarþingmanna og ráðherra og skal nú önnur umferð, reipitoga og pólitískra hrossakaupa, líkt og tekin var allan síðasta vetur á málinu. Hvort að það skili árangri á næstu vikum eða mánuðum, skal ósagt látið. Í það minnsta, er í ljósi reynslunar ekki ástæða til mikillar bjartsýni.

Eins og flestir vita, þá er opin og gegnsæ stjórnsýsla, með allt upp á borðum, ofarlega á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Það ætti því að vera hægt, án teljandi vandræða, að taka saman fjölda funda varðandi málið, lengd þeirra og  hverjir sátu þessa fundi.

Útúr þeirri samantekt kæmi þá hversu margir manntímar hafi farið í vinnslu málsins, sem segja má að hafi verið í gílsingu sundurlyndis stjórnarflokkanna mánuðum saman.

Án efa þætti afrakstur allra þeirrar vinnustunda, er þar kæmi fram frekar rýr, svo vægt sé til orða tekið. Enda árangur allrar þessarar vinnu  enginn og von um árangur, litlu meiri, þó einhverjar hundruðir manntíma, bætist í sarpinn.

 


Er ekki stuðningur við sameiningu ráðuneyta velferðarstjórnarinnar?- Eða tal um sameingu bara fyrirsláttur?

Sé einhver flugufótur fyrir þessari frétt, þá er nær öruggt að leiðtogar stjórnarflokkanna, sjá ekki fram á það, að þingmeirihluti sé fyrir fækkun ráðuneyta.  Á þó ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að heita meirihlutastjórn.

Hins vegar kemur það ekki á óvart að einhverjar þreifingar í þessa veru eða aðra. Sé til þess litið, að tillaga Jóhönnu um fækkun ráðherra og sameiningu ráðuneyta hlaut ekki samhljóða stuðning í þingflokkum stjórnarflokkanna.  Í þingflokki Samfylkingar voru tveir þingmenn á móti og einn sat hjá.  Í þingflokki Vg. létu hins vegar þrír þingmenn sér nægja að sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Eins og fólk eflaust man, þá stóð til að stofna nýtt Atvinnuvegaráðuneyti, sem Steingrímur J. færi fyrir, er taka ætti  yfir drjúgan hluta verkefna Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytis ásamt stórum hluta verkefna Iðnaðarráðuneytis. Auk þess átti Atvinnuvegaráðuneytið að taka yfir verkefni Efnahags og viðskiptaráðuneytis. Þau verkefni ráðuneytanna sem ekki yrðu flutt i Atvinnuvegaráðuneytið, yrðu flutt í nýtt Auðlinda og umhverfisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur.

Það segir sig því sjálft, að bæði  Sjávarútveg og landbúnaðarráðuneytið ásamt Iðnaðarráðuneytinu myndu heyra sögunni til, við þessar breytingar.

 Eftir ríkisráðsfundinn á Gamlársdag, var ekki annað að heyra en að þetta Atvinnuvegaráðuneyti ætti að verða að veruleika auk þess að Oddný G. Harðardóttir yrði bara fjármálaráðherra, fram í ágúst þangað til að Katrín Júlíusdóttur, kæmi úr fæðingarorlofi og tæki við af henni.

Fer það kannski bara svo, þegar Katrín Júlíusdóttir kemur til baka úr fæðingarorlofi, að þessar ráðuneytahrókeringar gangi til baka að hluta? Oddný hætti sem fjármálaráðherra og Steingrímur taki við því embætti og verði áfram sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, en láti verkefni Efnahags og viðskiptaráðuneytis í hendur Katrínar Júlíusdóttur, sem tekur að nýju við embætti iðnaðarráðherra.

Fari svo, er alveg óhætt að spyrja, hvort allt þetta sjónarspil, hafi verið sett upp í þeim eina tilgangi að losna við Árna Pál Árnason og Jón Bjarnason úr ríkisstjórn?  En allt tal sameiningu ráðuneyta og eflingu og skerpingu stjórnsýslunnar, verið fyrirsláttur einn

 


mbl.is Katrín komi í stað Katrínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ,,gera embætti pólitísk". - Og eftiráspeki nýrra andstæðinga forsetans.

Fyrir utan svokallað útrásardekur forsetans, er honum það helst legið á hálsi að hafa breytt embætti forseta Íslands, úr því að vera svokallað sameingingartákn þjóðarinnar, í eitthvað pólitískt embætti, sem reki eftir vindum þjóðmála hverju sinni.

 Það er nú samt athyglisvert, að hvað báða þessa hluti varðar, þá voru nú þónokkrir þeirra er skammað hafa forsetann hvað mest, í liði þeirra er stóðu að baki fyrstu alvarlegu áskoruninni á forsetann að gera embættið pólitískt.  Þegar sett var í gang undirskriftasöfnun, þegar forsetinn var hvattur til þess að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar.

Einn þeirra er mjög hafði sig frammi í þeirri undirskriftasöfnun, með sendingu hvatningartölvupósts um allar koppagrundir, er nú þingmaður Samfylkingarinnar, sem einnig beitti sér grímulaust við söfnun undirskrifta.   En þegar undirskriftasöfnunin var í gangi þá var sá hinn sami fréttamaður og síðar fréttastjóri, á fjölmiðli eins þeirra er kallaðir voru og eru reyndar enn kallaðir útrásarvíkingar. 

Fjölmiðli sem að líkt og aðrir fjölmiðlar, fjölluðu á frekar jákvæðan hátt um svokallað útrásardekur forsetans.  Enda var fosetinn að ,,liðka" um fyrir íslenskt viðskiptalíf, sem reyndar því miður stóð ekki traustari fótum, en  í ljós kom í október 2008. 

Án efa hefði áðurnefndur þingmaðuur, þáverandi fréttamaður á miðli útrásarvíkings, flutt harðorðar fréttir um sinnuleysi forsetans, gagnvart íslenski viðskiptasnilldinni, hefði forsetinn látið það vera að mæta í hin ýmsu boð útrásarvíkinga og að bjóða þeim til Bessastaða. 

Það er auðvelt en um leið þó lítilmannlegt að setjast í dómarasæti, með þeim hætti sem þingmenn og stuðningsmenn stjórnarflokkanna, hafa gert er þeir leggja dóm sinn á verk Ólafs Ragnars, með afleiðingar hrunsins beint fyrir framan sig.  Hruns sem varla er hægt að ætlast til þess að forseti Íslands, hefði átt að  sjá fyrir.  

 Þá væri jú alveg hægt að líta enn aftar í sögunna og skammast í fyrri forseta, fyrir að hafa ekki synjað EES-samningnum staðfestingar og sent hann í þjóðaratkvæði.  Eða þá þeim lögum er heimiluðu kvótaframsal, sem vinstristjórn Framsóknar, Alþyðubandalags og Alþýðuflokks, kom í gegnum þingið árið 1990.  


mbl.is Embættið pólitískt eftirsóknarverðara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrakapall endar í öndunnarvél.

Það er alveg ljóst, að innan beggja stjórnarflokkanna, er bullandi ágreiningur um þær breytingar á ríkisstjórn sem kynntar voru í gær.  Sex þingmenn, þrír úr hvorum flokki, greiddu ekki atkvæði með þessum breytingum.   Það getur varla talist traustvekjandi, í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn hangir á einu atkvæði, einhvers þeirra sexmenninga, eða þá einhvers annars í stjórnarflokkunum.

Til þess að ráðherrakapallinn gangi upp, þá þarf Alþingi nú á komandi vorþingi, að samþykkja stofnun nýs ráðuneytis, Atvinnuvegaráðuneyti.

 Þá mun væntanlega koma í ljós, hvort þessir sex stjórnarþingmenn  er ekki styðja breytingarnar  á stjórninni, styðji þær í raun og veru.  Eða hvort hjáseta þeirra og mótatkvæði, hafi eingöngu verið ætluð til heimabrúks.

Eins kæmi það sterklega til greina, að stjórnarandstaðan komi sér saman um að flytja vantrauststillögu á ríkisstjórnina.  Slíkt væri í rauninni stór greiði við kjósendur í landinu, hvort sem stjórnin lifi slíka vantrauststillögu af eða ekki.  Kjósendum yrði í versta falli ljóst, hvaða þingmenn, vilji axla með ríkisstjórninni ábyrgð á helstefnu hennar og hverjir ekki.

Einnig er ekki hægt að sjá annað, lifi ríkisstjórnin veturinn af, að í það minnsta ein ef ekki tvær breytingar verði gerðar á ríkisstjórninni á þessu tæplega eina og hálfu ári sem eftir er af kjörtímabilinu. 

Það er nokkuð ljóst að fari svo að aukalandsfundur verði haldinn í Samfylkingunni í vor, að þá veri kosin ný forysta flokksins.  Telja má nokkuð ljóst að engin  þeirra er nú gegni embætti ráðherra, taki við formennsku í flokknum.    Líklegt verður að telja, að Árni Páll hafi með því að hafa  í rauninni ,,bjargað“ flokknum og stjórninni frá háðung á flokkstjórnarfundinum í gærkvöldi, tekið forystu í komandi formannsslag, hafi hann á annað borð áhuga á því að starfa áfram í pólitík.

Árni Páll, eða sá/sú sem verður nýr formaður Samfylkingarinnar, getur varla hugsað sér það, að ganga til kosninga vorið 2013 með óhæfan og vita gagnslausan forsætisráðherra í eftirdragi.  Nýr formaður hlýtur því að þýða nýr forsætisráðherra.

Fari hins vegar svo að engar breytingar verði á ríkisstjórninni í kjölfar aukalandsfundarins, þá hljóta þær að verða, þegar Katrín Júlíusdóttir kemur úr fæðingarorlofi sínu í ágúst.  Enda varla við því að búast að hæstvirtur ráðherra jafnréttismála, svíki það loforð sitt, er hún gefur óléttri konu.

Varla verður þá ráðherrum fjölgað aftur til þess efna ,,loforðið“.  Varla verður skipt um fjármálaráðherra ,,korteri“ fyrir framlagningu fjárlagafrumvarps.  Ekki er eins að sjá, að eitthvað verði hróflað við embættum utanríkis og velferðaráðherra, þannig að þá er stóll Jóhönnu einn eftir.   Í það minnsta hvað varðar ráðuneyti Samfylkingarmegin.   

Við ofantalið bætist svo það við að endurskoðun kvótamála, er enn í algjöru uppnámi innan stjórnarflokkanna, ásamt fleiri málum, eins og stjórnarskrármálinu.

Það eru því engar ýkjur að halda því fram, að lagning ráðherrakapalsins, hafi hlotið frekar snautlegan endi í öndunnarvél.


mbl.is Ríkisstjórnin og forystan nær fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður handhafi meirihlutaeignar í banka æðsti yfirmaður FME?

 ,,Samkvæmt frétt vefritsins Smugunnar er talið líklegt að þessar breytingar felist í því að þeir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, yfirgefi ríkisstjórnina og aðrir komi ekki í þeirra stað."

 Gangi frétt Smugunnar eftir þá mun líklegast verða til nýtt Atvinnuvegaráðuneyti, sem Katrín Júlíusdóttir mun verða yfir, í það minnsta fram að fæðingarorlofi.  Ekki ólíklegt að Kristján Möller fengi að leysa Katrínu af á meðan hún verður í fæðingarorlofi.  

Ætli það fari svo ekki svo, að Steingrímur taki yfir verkefni Efnahags og viðskiptaráðuneytis, eins og hann bauðst til um daginn og taldi meira að segja nauðsynlegt að svo yrði.

Þá skapast sú staða að sá ráðherra sem ber ábyrgð  á meirihluta ríkisins í Landsbankanum verði einnig æðsti yfirmaður FME og beri pólitíska ábyrgð á stofnuninni.

 

 


mbl.is Steingrímur vill ekki tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annáll 2011, annar hluti. - Smíði kvótafrumvarps.

Nær allt vorþingið 2011, beið þingheimur og þjóðin eftir nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða.  Enda hafði svokölluð sáttanefnd, er skipuð var til þess að leggja drög að slíku frumvarpi, skilað af sér, nærri samhljóða áliti, í september 2010, að loknu eins árs starfi.

Að sögn þeirra er ríkisstjórnina leiða, skyldi nú ekki vera kastað til höndunum við smíði nýs frumvarps um stjórn fiskveiða. 

Var í kjölfarið stofnaður starfshópur fjögurra ráðherra og átta stjórnarþingmanna.   Segja má að þessi tólf manna hópur hafi lokað að sér og ekki talað við kóng né prest á meðan vinnan við gerð frumvarpsins stóð yfir.  Leitaði hópurinn ekki einu umsagna á meðal hagsmunaaðila, eins og oft er gert,  við gerð frumvarpa.

Tveimur frumvörpum um stjórn fiskveiða,  var svo kastað inn í þingið, örfáum dögum fyrir áætluð lok vorþingsins.  ,,Litla kvótafrumvarpinu“ sem ætlað var að vera nokkurs konar biðleikur, þangað til að ,,stóra kvótafrumvarpið“ tæki gildi.

Upphófst þá málþóf mikið í þinginu og óvíst var um þinglok, sökum þess.  Náðist þó á endanum að semja um afgreiðslu á litla frumvarpinu, en senda stóra frumvarpið aftur til sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar, er leita skyldi umsagna um málið.

Reikna verður með því að stjórnarliðar þakki stjórnarandstöðunni, fyrir það málþóf er hún stóð fyrir, vegna kvótafrumvarpana, því varla er hægt að álykta sem svo að stjórnarflokkarnir yrðu ánægðir með það að hafa þvingað með látum ónýtu frumvarpi í gegnum þingið.

 Enda hefur hver stjórnarliðinn á fætur öðrum, afneitað stóra frumvarpinu og látið sem að það sé eingöngu verk sjávarútvegsráðherra.  Gekk utanríkisráðherra meira að segja svo langt að líkja frumvarpinu við bílslys.

Eftir  vetrarlöng hrossakaup og toganir á milli stjórnarflokkanna um málið, sem var að lokum lagt fram sem stjórnarfrumvarp.  Frumvarp verður ekki stjórnarfrumvarp, nema það sé rætt og samþykkt í ríkisstjórn og stjórnarflokkum. 

Utanríkisráðherra og reyndar fleiri stjórnarliðar, hljóta því að vera að lýsa ástandinu þannig, að stórslysahætta sé af stjórnarsamstarfinu.

,,Stóra kvótafrumvarpið“ fór svo í umsagnarferli í sumar.  Það er ekki ofsögum sagt, að ekki hafi frumvarpið fengið jákvæðar umsagnir umsagnaraðila.  Enda voru þær nær allar á þann veg, að um ónýtt frumvarp væri að ræða.

Fékk sjávarútvegsráðherra þessar umsagnir í hendur í haustbyrjun og setti ráðherrann í framhaldi af því starfshóp, til þess að vinna úr þeim umsögnum, breyta frumvarpinu eða skrifa nýtt.

Eflaust af fenginu reynslu, var ráðherrann ekkert að flagga þeirri vinnu ofmikið, fyrir öðrum í stjórnarsamstarfinu. Minnugur þess hvernig síðasti vetur nýttist til frumvarpssmíða.

Sjávarútvegsráðherra kynnti þó í ríkisstjórn vinnuplagg um málið sem starfshópurinn hafði unnið, með starfsfólki ráðuneytisins og birti síðan plaggið á heimasíðu ráðuneytisins, við lítinn fögnuð samstarfsflokksins í ríkisstjórn.

 Enda hefur Samfylkingin, nánast frá fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, viljað losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn, vegna andstöðu hans í ESB-málinu.

Var málið, aftur tekið af ráðherra og skipaður starfshópur ráðherra um málið og eflaust fá valdir stjórnarþingmenn að leggja eitthvað til málanna, likt og síðasta vetur, með þekktum árangri.

Þannig stendur málið í dag og eins og með nær öll önnur mál, sem á borð ríkisstjórnarinnar lenda, þá er frétta að vænta af því á ,,næstu dögum“ , ,,næstu vikum“,  ,,eftir helgi“ o.s.f.v.

Það eru engar ýkjur að halda því fram, að þetta mál sé stjórnarflokkunum ofvaxið, líkt og nær öll önnur mál.  Slík er sundrungin innan og á milli stjórnarflokkanna og hver höndin upp á móti annarri, svo vægt sé til orða tekið.

Það er í það minnsta varla hægt að álykta sem svo að ríkisstjórnin sé með málið ,,undir control“, eins og sagt er, miðað við forsögu þess. 


Annáll 2011. - Fyrsti hluti.

Seint í janúar 2011, ógilti Hæstiréttur kosningu til stjórnlagaþings.  Lögspekingar líkt og Róbert Spanó sögðu niðurstöðu réttarins vel rökstudda.  Sama gilti þó ekki um velflesta er barist höfðu fyrir stjórnlagaþinginu. 

  segja að velflestir þeirra, hafi látið gremjuna verða skynseminni og rökhyggjunni yfirsterkari og leitað sökudólga fyrir ógildingunni á meðal útvegsmanna og andskotans íhaldsins.

 Töldu velflestir þeirra er gramdist niðurstaða Hæstaréttar, að andskotans íhaldið og útgerðarmenn hefðu haft óeðlileg áhrif á Hæstarétt, án þess þó að geta bent á eitthvað því til staðfestingar.

  Þess ber þó að geta, að allir þeir er málið varðaði, vissu með nokkurra vikna fyrirvara, hvaða dómarar myndu taka afstöðu til þeirra ákæra er réttinum bárust vegna kosninga til stjórnlagaþings.  Þessir sömu höfðu því nokkurra vikna frest til þess að gera athugasemdir um hæfi þeirra dómara er úrskurðuðu í málinu.  Það gerði hins vegar enginn, fyrr en rétturinn hafði úrskurðað á annan hátt, en þeir sem höfðu hvað hæst um vanhæfi réttarins, höfðu óskað sér.

Það var svo samþykkt, með naumum meirihluta, eftir mikið japl, fum og fát, að hunsa niðurstöðu Hæstaréttar á þann hátt, að stjórnlagaþingið skyldi haldið, hvað sem niðurstöðu Hæstaréttar liði. Var breytt um nafn á fyrirbærinu og það kallað stjórnlagaráð og þeim boðin seta í ráðinu er kosningu höfðu hlotið í ógildum kosningum.

Með þessari ráðstöfun Alþingis má segja að Alþingi hafi ráðið tuttugu og fimm verktaka, til þess að sinna þeirri vinnu sem Alþingi ber jú samkvæmt núgildandi stjórnarskrá að vinna. 

Eins og allir vita, sem eitthvað hafa kynnt sér stjórnarskrána, þá er það löggjafans (Alþingis) að setja þjóðinni nýja stjórnarskra, en ekki einhverra annarra einstaklinga, hvort sem þeir séu kosnir af þjóðinni eða ráðnir til verksins af Alþingi sjálfu.

Þjóðin kaus í rauninni fólkið sem breyta átti stjórnarskránni í alþingiskosningum þann 25. apríl 2009, en ekki í stjórnlagaráðskosningum þann 27. nóvember 2010.

Stjórnlagaráðið skilaði svo síðastliðið sumar, forseta Alþingis, afrakstri vinnu sinnar, frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, með ósk um að þjóðin fengi að kjósa um efni þess.

Hvaða afstöðu sem þjóðin kann að taka til frumvarps stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í ,,ráðgefandi þjóðaratkvæði“ , þá skiptir sú afstaða í rauninni engu, við hliðina á vilja þeirra sextíu og þriggja þingmanna er sitja munu á Alþingi Íslendinga, þegar og ef að frumvarpið, verður tekið þar til efnislegrar meðferðar. Líkt og lög gera jú ráð fyrir.

Þar ber þeim er á þingi sitja, að láta niðurstöðu ,,ráðgefandi þjóðaratkvæðis“ um frumvarpið, sem vind um eyru þjóta, sé sannfæring þeirra önnur en þjóðarinnar fyrir efni frumvarpsins.  Það yrðu engin svik við einn eða neinn, að greiða atkvæði gegn frumvarpinu, þó þjóðin greiddi atkvæði með því, sé sannfæring þingheims önnur . 

Enda undirrita allir er á Alþingi setjast drengskaparheit að stjórnarskránni.  Í þeirri stjórnarskrá stendur meðal annars að þingmenn séu eingöngu bundnir sannfæringu sinni, en ekki boðum kjósenda sinna. (48. Gr.)


Ráðherrar í málþófi.

 Þekkt er málþóf stjórnarandstæðinga á Alþingi, þegar að umdeild mál eru til umræðu.  Er málþófinu beitt til þess, að hindra eða tefja afgreiðslu mála sem umdeild eru.  Oftast fer þó svo á endanum, að meirihlutinn fær sínu fram og málin eru afgreidd í þinginu.
Hins vegar voru þau nýmæli, tekin upp af ráðherrum hinnar norrænu velferðarstjórnar, að einstaka ráðherrar eða ráðuneyti haldi uppi ,,málþófi“ til þess eins að berjast gegn ákvörðunum meirihluta lýðræðiskjörins Alþingis.

,,Hún (Guðfríður Lilja) segist hafa fengið þær skýringar frá forsætisnefnd að beðið væri eftir niðurstöðu um málið frá fjármálaráðuneytinu sem sé furðulegt í ljósi þess að það hafi verið Alþingi sem sett hafi fyrirvara við það og viljað fá fram svör við ákveðnum spurningum. "

Hvað hefur Fjármálaráðuneytið með þá ósk Alþingis að Vaðlaheiðargöngin fari í óháð arðsemismat hjá Hagfræðistofnun að gera? Fjármálaráðuneytið starfar skv. vilja þingsins, eða á að gera það, en ekki öfugt.

Fjármálaráðuneytið eða önnur ráðuneyti hafa  því ekkert með það að gera, að hægja á þeim málum sem nefndir þingsins hafa til umræðu og afgreiðslu.

Líklegast er það nú samt svo, að þetta ,,málþóf“ fjármálaráðherra, sem ber jú ábyrgð á Fjármálaráðuneytinu, sé afsprengi þeirrar ákvörðunarfælni sem háð hefur stjórnarmeirihlutann frá upphafi.

Ákvarðanafælni þessi hefur einnig sett mörg mál er varða atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í gíslingu einstaka ráðherra, þrátt fyrir að ætla megi að meirihluti Alþingismanna, sé fylgjandi því málefni sem haldið er í gíslingu.

Í stað þess að hleypa málum í lýðræðislegt ferli og leyfa til þess bærum aðila, Alþingi að fjalla um málið og fá í það niðurstöðu, láta stjórnarflokkarnir, hinn stjórnarflokkinn ,,kúga“ sig til þess að ,,samþykkja“ gíslingu máls, af ótta við endalok ríkisstjórnarsamstarfs og stjórnmálaferil margra þeirra er á þingi sitja fyrir annan hvorn stjórnarflokkinn.


mbl.is Málið fast í forsætisnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband