Leita í fréttum mbl.is

Samstarf stjórnarflokkanna ávísun á stórslys?

Össur veit það ósköp vel, að hann getur ekki talað um  Stóra kvótafrumvarpið, líkt og einhver kjáni út í bæ, hafi lagt það fram.  Frumvarpið kom inn í þingið sem stjórnarfrumvarp.  Frumvarp verður ekki að stjórnarfrumvarpi, nema sátt um það ríki í ríkisstjórn og innan stjórnarflokkanna.  Eða alla vega er það, það verklag sem ætlast er til að sé fylgt.

Það er líka ekki eins og að frumvarp þetta hafi, bara sisona allt í einu, fallið af himnum ofan.  Sjálfsagt er leitun að öðru frumvarpi, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, sem önnur eins vinna hefur farið í, innan ríkisstjórnar og stjórnarflokka.

Eftir að sáttanefndin lauk störfum haustið 2010, unnu stjórnarflokkarnir heila átta mánuði við samningu á frumvarpinu.  Í það minnsta fjórir ráðherrar og fjórir þingmenn úr hvorum stjórnarflokkanna, komu beint að gerð þess, með mismiklum hætti þó.

Það er því öllu nær að kalla samstarf stjórnarflokkanna ,,bílslys" eða þá ,,hópslys".

 


mbl.is Kvótafrumvarpið eins og bílslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt ef satt reynist!!

Heyrst hefur að Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni verði falið að halda upp vörnum fyrir Íslendinga hjá EFTA-dómstólnum.
Ef að satt reynist, þá er þetta klúður á pari við ,,afleik aldarinnar", Svavarssamninginn.

Ef að satt reynist, þá er það ljóst, að ríkisstjórnin sé staðráðin í að tapa málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Stærsta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar síðan í Þorskastríðinu á síðustu öld.

Jóhannes átti sæti í síðustu Icesave-samninganefndinni sem skilaði síðasta samningi sem felldur var í þjóðaratkvæði.

Áður en að þjóðaratkvæðisins kom, barðist Jóhannes ötullega fyrir samþykkt samningsins, bæði í fjölmiðlum og á fjölmörgum fundum sem haldnir voru vegna samningsins.

Það væri öruggara til árangurs, sigurs í málinu, að senda kókkassa til þess að halda uppi vörnum fyrir Ísland í málinu, en Jóhannes Karl Sveinsson.

Fari svo að Jóhannes Karl verði ráðinn til að halda uppi vörnum, þá mun útskýring á hugtakinu ,,einbeittur brotavilji“ vera einfaldari, en nokkru sinni fyrr.  Nægja mun að benda á þessa ,,ráðningu“ til útskýringar á hugtakinu.


mbl.is Birta stefnu gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nálgun Lilju og félaga kolröng frá upphafi.

 

Hún (Lilja) telur jafnframt að þjóðin og þingið þurfi að fá tíma til að kynna sér landsdómsmálið.


  Lilja sagði áður en umræðan um landsdómsákærur hófst, að þetta yrðu pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshyggjuna. Líkt og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að nýta dómstóla á þennan hátt.

Reyndar mátti  greina það á yfirlýsingum flestra þáverandi félaga Lilju í þingflokki Vg. að nálgun Lilju væri alveg á pari við það sem tíðkaðist þá í þingflokknum.

Það var reyndar svo, samkvæmt orðum Ögmunds og annarra þingmanna Vg., að orð Atla Gíslasonar á þingflokksfundi, hefðu sannfært þingflokkinn um að ákæra þá fjóra fyrrv. ráðherra, er tillaga Atlanefdarinnar kvað á um. 

Enda þyrfti þetta uppgjör við markaðshyggjuna, að fara fram og pólitísk réttarhöld, væru ekkert verri aðferð en nokkur önnur, til þess að knýja fram slíka niðurstöðu.

Það er því alveg ljóst að nálgun Lilju og þáverandi félaga í Vg. í landsdómsmálinu var kolröng frá upphafi. Enda þekkjast pólitísk réttarhöld ekki í þeim hluta heimsins, sem kenndur er við frelsi og réttlæti, sem að við Íslendingar teljum okkur vera hluti að.



mbl.is Lilja: Röng nálgun í máli Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Fráleit" greining Birgittu.

„Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru að leggja málið fram, ef til vill með stuðningi sitthvors þingmannsins úr stjórnarflokkunum, eða þar um bil. Það er hins vegar fráleitt að það sé meirihluti fyrir þessu á þingi.“  Segir Birgitta Jónsdóttir.


Þetta er eiginlega kostuleg greining hjá Birgittu. Eðli máls samkvæmt, hljóta allir þeir er greiddu atkvæði gegn málsókn, að greiða atkvæði með því að ákæran verði dregin til baka. Þá eru strax komin 30 atkvæði. Gæti reyndar verið spurning hvað Lúðvík Geirsson, sem tók sæti á þingi er Þórunn Sveinbjarnar fór í siðfræðina gerir.  En það lækkar samt töluna ekki meira en niður í 29.

Þannig að í rauninni, þurfa bara tveir til þrír þeirra er sögðu já við ákæru, að kjósa með því að ákæran verði dregin til baka, auk þeirra 29 til 30 sem nær örugglega munu gera það.

Standi þingflokkur Framsóknar heill á bak við þessa ályktun, þá bætast við þrjú atkvæð, ef ég man rétt. Svo er samkvæmt frétt á eyjan.is Guðfríður Lilja fylgjandi því að ákæran verði dregin til baka. Þá vilja 33 til 34  gegn 29 til 30,  í það minnsta, draga ákæruna til baka.


mbl.is Birgitta: Stormur í vatnsglasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milduð afstaða sjávarbyggða, keypt með misrétti fyrir aðra?

Stjórnvöldum og fleirum reyndar, er tíðrætt um að arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni eigi að renna til þjóðarinnar allrar og því sé hækkun veiðigjalds nauðsynleg.

Það er í sjálfu sér alveg  hægt að fallast á það sjónarmið, svo framarlega sem veiðigjaldið er innan skynsamlegra marka.  Reyndar er erfitt að ímynda sér það, að núverandi stjórnvöld innheimti skatt, sem veiðileyfagjaldið vissulega er, innan skynsemismarka.  En það er önnur saga.

Það hlýtur því að skjóta soldið skökku við þegar í tillögum starfshóps sem fjallar um ný lög um stjórn fiskveiða, gerir hluta þjóðarinnar hærra undir höfði með tillögum sínum og leggur til að að misréttið verði nánast, lögbundið sem tekjustofn til valinna sveitarfélaga.  

,,Í  tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldi skiptist þannig að 50% renni í ríkissjóð, 40% til sjávarbyggða og 10% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi.“

Eins og kunnugt er, þá fékk kvótafrumvarp það sem lagt var fram á síðasta vorþingi falleinkunn nær allra sem fjölluðu um málið. Þar með talið frá sveitarstjórnum sjávarbyggða, eða frá  þeim byggðum þar sem sjávarútvegurinn er  kjölfestan í atvinnulífinu.

Það hljóta samt að vakna upp spurningar hvort stjórnvöld telji sveitarfélög eins og Mosfellsbæ, Garðabæ, Fljótsdalshérað og fleiri sem ekki eru beint þekkt fyrir sjávarútveg, ekki vera hluta af þjóðinni.  Því varla verður þeim sveitarfélögum greitt af þessum 50% prósentum sem eyrnamerkt eru ríkissjóði.

Sé það virkilega svo, að stjórnvöldum sé einhver alvara með því að þjóðinn öll eigi að njóta arðsins af sjávarauðlindinni, þá hlýtur veiðigjaldið að eiga að renna til hennar allrar, með jafnari hætti, en þessar tillögur gera ráð fyrir. 

Ef þessi skipting veiðigjaldsins er eitthvað heilög, 50 – 40 -10, þá væri eflaust réttlátast að láta 40% renna til atvinnuuppbyggingar, á landinu öllu óháð því hvort um sé að ræða sjávarbyggð eða ekki. 

Eins gæti  það sem ekki fer til markaðs og þróunnarmála, runnið beint í ríkissjóð, sem er jú eini lögbundni móttakandi arðs þjóðarauðlindum.

 Stjórnvöld á hverjum tíma, sem fara jú með ráðstöfunnarvald á auðlindinni, í umboði þjóðarinnar, gætu þá ráðstafað þeim fjármunum á þann hátt, sem er þjóðinni fyrir bestu, á hverjum tíma.  Hvort sem það verði til atvinnuuppbyggingar, til eflingar á velferðarkerfinu eða til samgönguúrbóta, svo eitthvað sé nefnt.

Það er því allt eins líklegt, að tillögum starfshópsins sé fyrst og fremst ætlað til að milda umsagnir sveitarstjórna sjávarbyggðanna, en hafi í rauninni minnst með það að gera að leyfa þjóðinni allri að njóta arðsins af sjávarauðlindinni.

 


mbl.is Ánægja með ráðstöfun veiðileyfagjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski rétt að hlusta og bregðast við núna???

Það er athyglisvert að sjá viðbrögð sumra aðildarsinna við fréttum sem þessari.  Viðbrögðin fela það oftar en ekki í sér, að þessar aðvaranir og spár, séu í rauninni fátt annað en fagnaðarlæti þeirra sem vilja evrusamstarfið feigt.

Það er einnig athyglisvert að setja viðbrögðin í samhengi við umræðuna hér frá ca. 2006 og fram að hruni.  Þá voru allir þeir sem höfðu í orðaforða sínum orð eins og ,,bankahrun", stimplaðir fjandsamlegir og öfundsjúkir út í  ,,íslenska undrið".  Einnig veitti þá sumum ekki af endurmenntun.

En hvernig skildi það nú vera í þetta sinn?  Ætli ESB þurfi endurmenntun eða þá þessir illa innrættu blaðamenn sem flytja  þessar fréttir, eða þá sérfræðingar þeir sem vitnað er í fréttunum? 

Er kannski ekki bara kominn tími á það að við förum að nýta okkur reynsluna til lærdóms og hlusta á aðvaranir annarra?  Þó þær aðvaranir kynnu að setja pólitíska hagsmuni einhverra í uppnám.


mbl.is ,,Það brakar og brestur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eiga (mega) fjárfesta hér á landi?

Þó svo að fjárfestingar í ferðaþjónustu séu eflaust jafn nauðsynlegar flestar aðrar, vegna þess að nauðsynlegt er að hafa sem fjölbreyttast atvinnulíf.  Auk þess sem að slík fjárfesting gefur af sér ný störf. Svokölluð ,,umhverfisvæn kvennastörf" eins einum þingmanni Samfó varð að orði. Þá er staðan sú að mörg íslensk ferðaþjónustufyrirtæki, eiga í erfiðleikum með að manna öll störf, sökum bágra kjara er þau bjóða upp á. 

 Varla er við því að búast, að ferðaþjónustufyrirtæki á vegum Nubo eða annarra fjárfesta, bjóði önnur og miklu betri kjör, en nú eru í boði í þessari grein.

 Langir vinnudagar geta jú híft heildarlaunin eitthvað upp.   En varla er það eftirsótt hlutskipti að vinna 16 til 18 klukkutíma á dag, á sumarleyfistíma flestra annarra landsmanna.


Fjárfesting í iðnaði eða einhvers konar framleiðslu, kallar oftar en ekki á nýja eða bætta tæknikunnáttu, þeirra sem við slíkt starfa. Hvort sem það sé við greinina sjálfa eða afleidd störf.


Eftirspurn eftir nýrri /bættri tæknikunnáttu kallar á eftirspurn eftir viðeigandi námi og eykur þá um leið almenna tæknikunnáttu þjóðarinnar.  Kunnáttu sem einnig má nýta annars staðar en hér á landi.

Einnig er líklegt að aukin tækniþekking og aukin eftirspurn eftir námi í tæknigreinum,  auki  nýsköpun hér á landi.  Nýsköpun sem gæfi af sér fleiri ný störf, ekki endilega tengd þeirri grein sem upphaflega var fjárfest í og kom ,,snjóboltanum „ af stað.

Stjórnvöld á hverum tíma, eiga því nær undantekningalaust, að sýna öllum þeim sem hafa ,,raunhæfar“ fjárfestingarhugmyndir, þá sjálfsögðu kurteisi, að ræða við þá alla á jafnréttisgrundvelli.  Án þess að hygla einum umfram annan.

Nú kann einhver að benda á það, að stór hluti hagnaðar stóriðjunar hér á landi, sé fluttur út til eigenda stóriðjufyrirtækjana, sem leiði það af sér að íslenskt efnahagslíf, fái ekki að njóta gróðans.

  Íslenskt efnahagslíf og líf þeirra er landið byggja, nýtur  jú gróðans á þann hátt, að við starfssemi þessarra fyrirtækja verða til störf, sem að öðrum kosti væru unninn í öðrum löndum.  Störf sem gefa af sér tekjur í þjóðarbúið, skatta af tekjum og virðisauka af neyslu.

Heldur fólk kannski að Nubo eða einhver annar erlendur fjárfestir, sem fjárfesta myndi hér í ferðaþjónustu, muni gera eitthvað annað við hagnað sinn af starfssemi hér á landi, en að flytja hann úr landi?

 


mbl.is Vill enn fjárfesta á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töluglöggir vinstrimenn með sumt á hreinu, annað ekki.

Margur vinstrimaðurinn sem kann að reikna, segir sem svo. Úr því að eingöngu ca. 44% þeirra er þátt tóku í umtalaðri skoðunnarkönnum gáfu upp afstöðu sína, þá geti fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki verið meira en 22 %. Enda eru 50% af 44 ekki nema  22.

Enginn þessara töluglöggu einstaklinga, minnist á það að fylgi Samfylkingar og Framsóknar er þá ekki meira en  7,5% hjá hvorum flokki, 5,7  % hjá Vinstri grænum og einungis 1,3% hjá Hreyfingunni.
Enda hlýtur sama reikningsformúlan að gilda, við mælingu á fylgi þeirra flokka , líkt og gildir við fylgismælingu á Sjálfsstæðisflokknum.

mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir ,,veiku" verða veikari.....

Nýjasta samkomulag ESB-ríkja um aðgerðir til lausnar á efnahagsvanda evruríkja og annarra ríkja ESB, ber að sama brunni og flestir fyrri samningar þessarra ríkja um sama mál.  Það er að lífskjör þeirra sem búa í þeim hluta ESB, sem telst veikari efnahagslega, munu nær örugglega skerðast meira en þeirra er búa í ,,sterkari" hlutanum.

 Líklegast munu samræmdar reglur um  fjárlagagerð evruríkja og annarra ríkja í ESB viðhalda eða jafnvel auka á þann mun á lífsgæðum, sem er á milli ,,sterku" ESB-ríkjana og þeirra sem veikari eru. Lögbundið lágmark á halla fjárlaga þessara ríkja, mun fyrst og fremst bitna á þeim sem standa hvað verst í dag og þeim ríkjum sem hvað minnstu möguleika hafa á aukinni verðmætasköpun, sem breikkað gæti skattstofna þessara ríkja.

 Í öllum þessum ríkum, sterkum sem veikum, mun á næstu áratugum verða aukin þörf á útgjöldum til velferðarmála, sökum þess að meðalaldur þegna þessarra þjóða fer stöðugt hækkandi og fjöldi  þeirra sem verða á opinberu framfæri mun snaraukast á kostnað þeirra sem vinna þurfa fyrir þessari útgjaldaaukningu.

Til þess að mæta þessari þróun án verulegs niðurskurðar til velferðarmála, þurfa þessar þjóðir, sem og flestar aðrar að sækja sér auknar tekjur á móti auknum kostnaði.  

 


mbl.is Öll ESB-ríki nema Bretar sammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alræði eða samræmd verkaskipting, við stjórn efnahagsmála?

„Það var eitt af því sem fór úrskeiðis, að dreifa efnahagsmálum á þrjú ráðuneyti. Forsætisráðuneytisins sem fór með Seðlabankann, viðskiptaráðuneyti með sína hluti og síðan fjármálaráðuneyti með sumt. Hvernig sem þessu verður fundinn staður innan stjórnarráðsins til frambúðar þá á yfirstjórn efnahagsmála að vera samræmd á einum stað. Svo mikið vil ég segja,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Að mínu mati, er það nú ekki rétt hjá Steingrími, að það að dreifa efnahagsmálum á þrjú ráðuneyti hafi verið eitt af því sem fór úrskeiðis.   

Það er öllu nær, að ekki hafi verið hugað að nægu samráði þessara ráðneyta, fremur en að of mörg ráðuneyti hafi verið að vasast í efnahagsmálunum.

Væri það ekki öllu heldur, hætt við því að eitthvað færi úrskeiðis, færi svo að efnahagsmálin öll yrðu sett undir einn ráðherra, fjármálaráðherra.  Alveg óháð því, hver situr í því embætti núna?

Væri það til góðs, að sá ráðherra, sem færi með eignarhlut ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, bæri pólitíska ábyrgð á því lagaumhverfi sem bankarnir starfa eftir? 

Væri það til góðs, að sá ráðherra sem færi með eignarhlut ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, bæri pólitíska ábyrgð á því lagaumhverfi sem Seðlabanki Íslands starfar eftir?

Væri það til góðs, að sá ráðherra er færi með eignarhluti íslenska ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, væri æðsti yfirmaður samkeppnismála, líkt og efnahags og viðskiptaráðherra er í dag?

Væri það til góðs, að sá ráðherra er færi með eignarhluti íslenska ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, bæri pólitíska ábyrgð á FME og því lagaumhverfi sem sú stofnun starfar eftir? 


mbl.is Yfirstjórn efnahagsmála á einum stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband