Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Það er fyrir löngu búið að "klára dæmið".

„Þannig að það er ekki okkar að tjá okkur um það hvað okkur finnst um afstöðu viðkomandi ríkis. Vilji það ganga í Evrópusambandið þá sendir það umsókn og heldur áfram viðræðuferlinu. Ef það vill ekki ganga í sambandið þá annað hvort hefur ríkið ekki viðræður eða stöðvar þær,“ sagði hann.

Þannig er það bara.  Umsóknarríki  eru ekki spurð að loknum viðræðum, hvort þau vilji ganga í sambandið.  Heldur verða þau að ákveða slíkt áður en viðræður hefjast.  Eftir að hafa fengið útlistingu á því til hvers væri ætlast af þeim sem aðildarríki.  Þau skilyrði samþykkti fyrri ríkissjórn og hóf að aðlaga Ísland að ESB.  Án þess að spyrja þjóðina hvort hún vildi í sambandið. Eins og hún hafði lofað.

Við þá sem standa að undirskriftasöfnuninni með yfrskriftinni "Klárum dæmið" er aðeins eitt að segja: Það löngu búið að klára dæmið. Það gerði hin norræna velferðarstjórn.  Án þess að spyrja þjóðina, líkt og hún lofaði.

Aildarferli að ESB gengur út á það að finna "dæminu" stað lögum, reglum og stjórnsýslu umsóknarríkis.  En ekki að klára það.  Enda er það óþarfi að klára það sem búið er.


mbl.is Virðir ákvörðun Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðildarsinnar stunda "hentitúlkun" ummæla í nauðvörn fyrir vondan málstað.

 

„Orð Gunnars Braga í síðustu viku vöktu umtal, en hann sagði að samkvæmt lögfræðiáliti kæmi fram að þingsályktanir, líkt og aðildarumsóknin byggði á, sem ekki studdust við sérstaka heimild í lögum eða stjórnarskrá, væru ekki bindandi fyrir stjórnvöld umfram það sem af þingræðisvenjunni leiddi.

,,Ég hef aldrei mótmælt því að þingið þurfi að taka endanlega ákvörðun. Það sem ég hef hins vegar sagt er að það megi lesa það út úr álitinu að þess þurfi ekki. Ég hef líka sagt að ég muni ekki eiga frumkvæði að því að leggja það til að svo verði gert. Því get ég tekið undir með Bjarna Benediktssyni að það sé eðlilegast að þingið taki þessa ákvörðun,“ segir Gunnar Bragi og bætir við: „Við Bjarni erum algjörlega að tala í takt varðandi þetta mál.“

Það sem einkennt hefur  umræðutækni aðildarsinna, síðstu daga og vikur og eflaust mun lengra aftur í tímann, er að andstæðingum aðildar eru stöðugt lögð orð í munn. 

Enda túlkuðu aðildarsinnar orð Gunnars Braga á þann hátt að hann ætlaði einn og óstuddur að slíta aðildarferlinu.  Það stóð auðvitað aldrei til.  Enda væri slíkt bæði gerræðisleg og ólýðræðisleg vinnubrögð.

Kannski má segja það um aðildarsinna, í þessu sambandi, að þeir hafi talið „Gunnar Braga sig“.

Síðan er  stöðugt hamrað á því sem viðkomandi var lagt í munn.  Eins og það hafi verið stóri sannleikur.  Rangtúlkunin er svo látin óma líkt og mantra í þeim eina tilgangi að fá fólk til þess að trúa því að viðkomandi hafi hagað orðum sínum, nákvæmlega eins og mantran ómar.

En það er kannski eðlilegt að aðildarsinnahjörðin hagi sér með þessum hætti, þegar formaður Samfylkingarinnar gerir það einnig.  En formaðurinn túlkaði orð Gunnars Braga, um að ESB liti svo á Ísland væri ekki enn í aðildarferli, þegar IPA styrkirnir hættu að berast, á þann hátt að Gunnar Bragi eða íslensk stjórnvöld væru hætt í aðildarferlinu.

Það vita hins vegar allir sem kæra sig um að vita það, að ekki stendur til að taka ákvörðun um áframhaldandi aðlögun að ESB, af eða á, fyrr en skýrsla utanríkisráðherra um málið liggur fyrir og þingið hefur tekið hana til umræðu og jafnvel ólíkt fyrri stjórnvöldum leyft þjóðinni að segja sitt álit á því hvort halda eigi áfram eður ei.

Það hentar hins vegar ekki málstað aðildarsinna að hafa rétt eftir mönnun.  Hvort sem um að ræða íslenska stjórnmálamenn eða embættismenn ESB.  Enda verður málstaður þeirra stöðugt veikari með hverju sannleikskorni, er lítur dagsins ljós.

 


mbl.is ESB bíður eftir úttekt Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það á að skattleggja tekjur af eignum en ekki að skattleggja verðmæti þeirra.

Ljóst er að með innheimtu aðlegðarskatts er mörgum gert að greiða margfaldar ráðstöfunartekjur sínar í þennan skatt. Enda hefur skatturinn ekkert að gera  með tekjur eða hagnað fólks af eignum sínum. Heldur er verðmæti eignarinnar sem slíkt skattstofninn.

Tvær eins fasteignir geta haft sitthvort verðmætið, sökum staðsetningar.  Jafnvel þó að á sínum tíma hafi bygging þeirra kostað jafn mikið eða svipað.  Fasteignamat annarar eignarinnar gæti gert það af verkum að eigenda hennar er gert að greiða auðlindaskatt. En ekki eigenda hinnar fasteignarinnar.

Einhvers staðar teldist það mismunun.  Svona eins og ef að skattleysismörk tekjuskatts væru mismunandi eftir búsetu manna.

Það að eiga fasteign með háu fasteignamati er ekki endilega ávísun á háar ráðstöfunartekjur. Nema að tekjur af fasteigninni séu þeim mun hærri. Það á að sjálfsögðu  að skattleggja þær tekjur, líkt og gert er við tekjur af annars konar eignum eins og arði af hlutafjáreign eða af fjármagnstekjum vegna sparnaðar.

Það má vel vera að einhverjir séu vel aflögufærir til þess að greiða sérstakan skatt af verðmæti eignar sinnar. En það réttlætir samt ekki endilega innheimtu hans með þessum hætti.

Það mætti þá allt eins afnema persónuafsláttinn af tekjuskattinum af því að margir kæmust vel af án hans.


Refsiskattur á ráðdeild og sparnað.

Samkvæmt svari efnahags og viðskiptaráðherra við fyrirspurn í þinginu, í fyrra ef ég man rétt,  voru 25% þeirra sem auðlegðarskatturinn var lagður á árið 2011 með milljón eða minna í ráðstöfunartekjur á ársgrundvelli.

 Engin ástæða er til þess að áætla að hlutfallið hafi breyst með afgerandi hætti árin 2012 og 2013.

 Í þeim hópi voru nánast bara eldri borgarar. Fólk sem sýnt hafði ráðdeild og sparnað í gegnum tíðina.

Sú staðreynd ein og sér segir að þessi skattur átti aldrei rétt á sér.

 Það á að skattleggja tekjur fólks þegar það aflar þeirra. Fólki er svo í sjálfsvald sett á hvaða hátt það ráðstafar sínum tekjum.

Hvort það kjósi að eyða því sem eftir stendur í sparnað, einhvers konar eignamyndun eða í eitthvað annað sem minna skilur eftir sig.

Þessi skattur sem vonandi verður aldrei aftur lagður á, er klassískt dæmi um það hvernig fólki sem er með sín mál í lagi peningalega er refsað fyrir það eitt að sýna ráðdeild og sparnað.


mbl.is Auðlegðarskattur ekki framlengdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af opnum bréfum og skriflegum fyrirspurnum þingmanna til ráðherra.

Eins og kunnugt ætti að vera, skrifaði sl. mánudag Árni Páll Árnason formaður Samfylkingar, utanríkisráðherra opið bréf, þar sem að hann spurði ráðherrann sex spurninga.

Ekki var um að ræða formlega fyrirspurn þingmanns til ráðherra, líkt og stundum er gert í þinginu. Spurningarnar höfðu því í rauninni ekkert að gera með hlutverk Árna Páls og annarra þingmanna, með að veita framkvæmdavaldinu aðhald í þinginu.

Engu að síður, tveimur sólarhringum síðar, hélt RÚV varla vatni yfir þeim "drætti" sem orðið hafði á svari ráðherrans. Hins vegar var varla að merkja neinn sérstakan viðbúnað á "fréttastofu allra landsmanna", þegar svörin bárust fjórum sólarhringum frá birtingu bréfs Árna.

Kannski að svörin við spurningunum, hafi bara ekki átt jafnmikið erindi við þjóðina og sú staðreynd að Árni Páll, hafi spurt þessara spurninga?

Á síðasta kjörtímabili, lögðu stjórnarandstöðuþingmenn ótal skriflegar fyrirspurnir fyrir þáverandi ráðherra í hinni norrænu velferðarstjórn. Samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar tíu virka daga til þess að svara slíkum fyrirspurnum. Ef ég man rétt.

Einungis var það þó í undantekningatilfellium sem svör við fyrirspurnum þingmanna til ráðherra, kæmu innan þeirra tímamarka. Ef að það þá gerðist nokkurn tímann.

Oftast nær skipti biðin eftir svörum ráðherra hinnar norrænu velferðarstjórnar, vikum frekar en dögum, umfram hinn lögboðna skilafrest samkvæmt þingsköpum.

Sjaldnast þótti það nú samt fréttnæmt á "fréttastofu allar landsmanna", þó slíkur dráttur yrði á svari. Jafnvel þó hiklaust megi halda því fram að sleifarlag og slugs ráðherra hinnar norrænu velferðarstjórnar, hafi gert þinginu erfiðara fyrir við að rækja sína  lögbundnu  aðhaldsskyldu  gegn framkvæmdavaldinu.

Til þess að gæta allrar sanngirni, þá má alveg áætla að í örfáum tilfellum hafi fyrirspurnirnar verið þess eðlis að "synda hafi þurft upp á náðina" í örfáa daga. En varla í margar vikur. En varla hafa allar skriflegar fyrirspurnir á síðasta kjörtímabili verið þess eðlis að margra vikna dráttur á svari hafi verið á nokkurn hátt réttlætanlegur.

Gaman verður á næstkomandi vetrum að fylgjast með áhuga "fréttastofu allra landsmanna" skriflegum fyrirspurnum þingmanna til ráðherra núverandi stjórnar. Hvort að skrifa þurfi um það frétt og jafnvel hóa í Gunnar Helga stjórnmálafræðing og leita hans álits. Verði einhver dráttur á svari ráðherra.


"Pakkinn" kom! Enda er samþykkt hans forsenda aðildarviðræðna.

Fyrri ríkisstjórn, sú sem sótti um aðild að ESB,  talaði alltaf um að þjóðin fengi að skoða í "pakkann" þegar hann kæmi og taka afstöðu til hans.
"Pakkinn" kom, fyrri ríkisstjón kíkti í hann og samþykkti . En þjóðin fékk hvorki að kíkja né kjósa.

Aðildarferli líkt og við erum eða vorum í fer ekki af stað, án þess að umsóknarríki samþykki þær óumbreytanlegu kröfur sem ESB setur fyrir inngöngu í sambandið.  Engar undanþágur eru í boði frá þeim kröfum.

 Eingöngu sérlausnir, sem í praxis virka þannig að umsóknarríki fær lengri tíma til þess að uppfylla þær óumsemjanlegu kröfur sem settar eru fram í þeim málaflokki sem sérlausnirnar ná til.

Umsóknarríki afsalar sér þó öllu lagasetningarvaldi í þeim  málaflokkum sem sérlausnirnar ná til.  Líkt og gerist með  þær kröfur sem uppfylltar verða strax við aðild umsóknarríkis að sambandinu.

Þessar kröfur eru í rauninni "pakkinn" sem talað er um.  Enda ekkert annað í boði en þessar kröfur ESB,  með möguleikum á áðurnefndum sérlausnum.

Ef að kjósa á um framhaldið, þarf þjóðin að fá að kjósa um þessar kröfur ESB.
Stjórnvöld gætu, til þess að auðvelda þjóðinni að taka upplýsta ákvörðun, útlistað fyrir þjóðinni á hvaða sviðum þau hyggðust fá "tímabundnar sérlausnir" frá kröfum sambandsins.


Rétt hjá Brynjari - Eins og oft áður.

Það er alveg hárrétt hjá Brynjari, að ekki er einhvern  „pakka“ að ræða.   Í það minnsta ekki lengur.

Síðan að viðræðunefndir Íslands og ESB tóku til starfa, þá hefur það verið ljóst hvað sé í þessum margumrædda „pakka“.  Enda er í gangi það sem  kallast aðildarferli.  Ekki samnings eða umsóknarferli.   Enda er þeim tveimur ferlum lokið.

Umsóknarferlið hófst þegar aðildarumsóknin var send út til Brussel.  Í kjölfar umsóknarinnar sendi ESB íslenskum stjórnvöldum greinargerð þar sem stöðluðu aðildarferli að ESB var lýst, ásamt því sem íslensk stjórnvöld voru sendir tugir spurninga um íslenska stjórnsýslu og lagaumhverfi, sem ESB þurfti svör við, svo sambandið gæti  tekið afstöðu til aðildarumsóknarinnar.

Eftir að íslensk stjórnvöld höfðu svarað spurningunum og sent svörin til Brussel fengu þau um hæl, senda úttekt á því með hvaða hætti þyrfti að breyta íslenskri stjórnsýlsu og lagaumhverfi.  Svo hægt yrði að aðlaga þessa hluti að ESB.

Eftir að íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt úttekina, gat ESB loksins tekið afstöðu til umsóknarinnar. Hvort samþykkja ætti hana , sem sambandið gerði.  Eða þá að  hafna henni.

Eftir samþykkt sambandsins á umsókn Íslands að ESB, lauk hinu svokallaða „umsóknar eða samningsferli".

Þegar hér var komið við sögu, var búið að taka allar umbúðir utan af „pakkanum“ svokallaða.  Í ljós kom að Íslendinga beið í stórum dráttum að undirgangast sams konar skilmála og öll umsóknarríki á þessari öld hafa þurft að gangast undir.

  Mögulegar væru þó einhverjar sérlausnir í þeim málaflokkum, sem Íslendingar þyrftu lengri  tíma til aðlögunnar á. Eins og hvað varðar sjávarútveg og landbúnað.  Svo eitthvað sé nefnt.

Að öðru leyti var allt annað óumsegjanlegt.

Þarna var sem sagt kominn þessi  „væntanlegi aðildarsamningur“ sem álýktun Alþingis frá 16/7 2009, segir að þjóðin eigi að fá að taka afstöðu til.

En ályktunin er svohljóðandi:

" Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning."

Næsta skref var þó ekki þjóðaratkvæði um „væntanlegan aðildarsamning“, eins og ályktun Alþingis kveður á um.  Heldur tóku viðræðunefndir  Íslands og ESB til við að ákveða hvenær en ekki hvort íslensk stjórnsýla og lagaumhverfi yrði aðlagað að ESB.

Fyrri ríkisstjórn sveik m.ö.o.  þjóðina um að taka afstöðu til „væntanlegs aðildarsamnings“.  Auk þess sem að hún braut gegn eigin ályktun.

Verði efnt til þjóðaratkvæðis um málið, dugir því ekki að spyrja eingöngu hvort haldið verði áfram með eitthvað.  Heldur þarf þá að spyrja þjóðina hvort hún samþykki þær breytingar (aðlögun) á íslenskri stjórnsýslu og lagaumhverfi sem ESB setur sem skilyrði fyrir  aðild Íslands að sambandinu.

Verði niðurstaðan úr því þjóðaratkvæði jákvæð, geta viðræðunefndir Íslands og ESB haldið áfram að ákveða tímasetningar aðlögunar íslands að Sambandinu.  Ásamt nokkrum mögulegum sérlausnum til þess að fá lengri tíma til aðlögunar í nokkrum málaflokkum.

Neikvæð niðurstaða, þýddi að málið væri úr sögunni, þangað til að til valda kæmu stjórnvöld er teldu hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB.

Verði hins vegar ekki efnt til þjóðaratkvæðis um málið.  Er borðleggjandi að lögð verði fyrir Alþingi um að umsóknin verði dregin til baka.  Það myndi þá bíða stjórnvalda er telja hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB að sækja um að nýju.

Þau stjórnvöld yrðu þá að ljúka ferlinu öllu á því kjörtímabili er sótt yrði um á.  Eða þá að ná endurkjöri í næstu kosningum  og ljúka ferlinu á því kjörtímabili er þá hæfist.

 

 

 


mbl.is Þjóðaratkvæði eða umsókninni hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi þarf að álykta að nýju varðandi ESB.

Það má vera hverjum mann það ljóst, sem sæmilega er læs á íslenskan texta, að samkvæmt samþykktum æðstu stofnanna beggja stjórnarflokkanna að báðir flokkarnir telji hagsmunum Íslands betur borgið utan ESB.  

Það er því alveg glórulaust að núverandi stjórnarflokkar, taki upp þráðinn í aðildarferlinu, þar sem frá var horfið.  Þegar fyrrum stjórnarflokkar ákváðu, til bjargar andliti annars flokksins, að gera hlé á aðildarferlinu síðastliðinn vetur eða haust.

Enda væri það í raun og veru argasti dónaskapur gagnvart ESB að ganga til viðræðna um lyktir máls sem engin pólitísk sannfæring væri fyrir.   Heiðarlegast væri því að láta staðar numið  í aðildarferlinu á meðan slíkar aðstæður eru viðvarandi.

Ákvæðið um þjóðaratkvæðið í samþykktum beggja flokka ber auðvitað ekki að skilja á þann hátt, að flokkarnir ætli að leita samþykkis þjóðarinnar um að ganga gegn eigin sannfæringu.  Heldur er það leiðbeinandi um þann sem hátt sem hafa skal.  Komist hér til valda stjórnvöld er sannfæringu hafa fyrir því að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan ESB.

Allt tal um þjóðaratkvæði um aðildarumsókn á yfirstandandi kjörtímabili er því fjarstæða. Hvað sem næstu kjörtímabil kunni að bera í skauti sér.

Stjórnarflokkarnir ættu því að leggja fram þingsályktunnartillögu á komandi þingi sem gæti verið eitthvað í þessa veruna:

„Alþingi samþykkir að fella úr gildi ályktun Alþingis frá 16/7 2009 er fjallar um aðildarumsókn að ESB. Alþingi ályktar einnig að ekki skuli að nýju lögð inn aðildarumsókn að ESB eða sú eldri endurnýjuð nema að undangengnu þjóðaratkvæði um málið.

Það skuli þó ekki gert nema fyrir liggi ótvírætt samþykki þeirra flokka er mynda ríkisstjórn á þeim tíma um að þeir telji hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB.

  Auk þess sem að á undan þjóðaratkvæðinu skuli fara fram ítarleg kynning á þeim samþykktum og reglum ESB er við yrðum undanbragðalaust að gangast undir.

 Með örfáum mögulegum undantekningum í formi sérlausna, sem að séu í eðli sínu ekki undanþágur frá reglum ESB.  Heldur tímabundin aðlögun landsins að breyttum aðstæðum.

Þau stjórnvöld er ákveði að leggja af stað í þetta ferli skuli því einnig kynna það fyrir þjóðinni, áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram, á hvaða sviðum stjórnvöld hyggist leita sérlausna í aðildarferlinu.“

Fari svo að til valda komist aðildarsinnuð stjórnvöld og þau ákveði að nema hugsanlega ályktun úr gildi,  t.d. í hefndarskyni, í stað þess að fylgja henni eftir og leita vilja þjóðarinnar undanbragðalaust með sannfærandi hætti.  Er hætt við því að ásetningur þeirra til þess að afla aðild þjóðarinnar að ESB fylgis, hljóti sömu örlög og hið misheppnaða aðildarferli sem fyrri stjórnarflokkar settu af stað og fjari út. Vegna skorts á pólitísku baklandi aðildarumsóknar.


Engan skal því undra...

Forystufólk fyrrum stjórnarflokka segist hissa á því að ekki hafi verið leitað til þeirra vegna setu í nefndunum tveimur sem forsætisráðherra skipaði í gær.

Það er nú samt ekki auðvelt að átta sig á því afhverju þetta fólk ætti að vera eitthvað hissa á því að vera skilið eftir heima.

Fyrrverandi ríkisstjórn, norræna velferðarstjórnin svokallaða, lýsti því yfir oftar en einu sinni, löngu áður en síðasta kjörtímabil rann sitt skeið, að ekki væri hægt að gera meira í skuldamálum heimilanna.

Í rauninni voru fyrrverandi stjórnarflokkar búnir að gefast upp á því að  leysa vandann  og höfðu með einbieittum ásetningi, lokað augunum fyrir vandanum.   Hvort sem að ástæðan sé sú að flokkarnir hafi ekki getað betur.  Eða hreinlega  ekki getað lesið stöðuna betur en raunin varð.

Kosningaúrslitin í vor, voru svo afgerandi skilaboð frá þjóðinni, um að fyrrum stjórnarflokkar hafi brugðist henni  og nyti ekki lengur trausts hennar  til þess að ganga til þeirra verka sem vinna þarf að lausn skuldavanda heimilanna. 

 Ásamt löngum lista annarra mála sem leysa þarf. Annað hvort vegna þess að flokkarnir gerðu  lítið sem ekkert til lausnar þeirra eða hreinlega gerðu stöðu þeirra mála verri en hún var í upphafi.

Engan skal því undra að að fólkið sem gafst upp á lausn vandans og glataði trausts þjóðar sinnar sé ekki hvatt til starfa til lausnar á þeim vanda sem það sjálft gafst upp á að leysa. 


Varanlega til bráðabrigða er engin lausn.

Vandamálið sem auknar vaxtabætur leysa ekki, er að skuldirnar lækka ekki. Þrátt fyrir viðaukann við bæturnar. Öðru nær þá hækkaði viðaukinn eins og hann var fjármagnaður af fyrri ríkisstjórn lánin. Enda voru auknir og nýir neysluskattar hryggjarstykkið í þeirri fjármögnun.

Vöruverð hækkar alltaf í réttu hlutfalli við ásókn ríkisins í vasa neytenda. Hærra vöruverð er verðbólguvaldur og hækkar lánin. Sú þróun heldur einnig vöxtum óverðtryggðra lána háum.

Langvarandi vaxtabótaauki er líka líklegur til þess að stækka hópinn sem slíkt úrræði þarf. Þar sem að aukinn kostnaður ríkissjóðs við að halda úti úrræðinu umfram kostnaðinn við standard vaxtabótakerfið, veldur því að vísitala lánanna heldur áfram að hækka meira en eðlilegt þykir.

 Það gæti  valdið því að lán þeirra sem enn ráða við sín lán hækki svo mikið að hækkandi greiðslubyrði þeirra setji þá í sérstaka vaxtabótar flokkinn.

Sér tækur vaxtabótaauki til bráðabrigða er eðli máls samkvæmt, aðgerð til tiltölulega stutts tíma.  Svona rétt á meðan  verið er að vinna að lausn á þeim vanda sem að steðjar.

  Fjögur ár dugðu ekki síðustu stjórn til þess að finna varanlega lausn á vandanum.   Reyndar má segja að vandinn hafi sums staðar vaxið og þá helst hjá þeim sem síst skyldi.   Þeim sem minnst hafa milli handanna og þola síst einhvers konar áföll eða frávik.

Reyndar var það svo að fyrri stjórn, hin norræna velferðarstjórn, var löngu áður en hún rann sitt skeið búin að gefast upp á því reyna að leysa vandann.   Stjórnin var  í raun og veru fyrir löngu búin að loka augunum fyrir vandanum. 

Af þeim sökum hvarflaði auðvitað ekki að hinni norrænu velferðarstjórn að framlengja bráðabrigaákvæðinu um síðustu áramót.

Vandlæting  forystumanna stærstu launþegasamtakanna  vegna afnáms bráðabrigðaákvæðisins ætti því að beinast gegn hinni norrænu velferðarstjórn.  Jafnvel þó að forystumennirnir þyrftu að hníta í samherja sína í pólitík.

Til lengri tíma litið eru því aðgerðir sem stuðla að lækkun höfuðstóls lána, alltaf mun hagstæðari leið. Bæði fyrir ríkissjóð og lántakandann.

Reyndar má segja að það enn frekar hag lántakandans, þar sem að hann er einnig skattgreiðandi og ætti því að hafa aukinn hag af því að jafnframt því lánin hans lækki þá lækki skattbyrði hans vegna lægri útgjalda ríkissjóðs.


Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband