Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Tímarammi á þing, þjóð og forseta.

Í frétt á ruv.is er sagt frá því að tímarammi sé á því að Íslendingar afgreiði, eða samþykki nýjan Icesavesamning, annars geti Bretar og Hollendingar sagt sig frá honum.  Á ruv.is segir meðal annars:

"Er miðað við áramót í því sambandi. Takist Alþingi ekki að ganga frá frumvarpinu og fá forseta Íslands til að staðfesta lögin fyrir þann tíma geta Bretar og Hollendingar því sagt sig frá samkomulaginu. Að því er heimildir fréttastofu herma óskuðu Bretar og Hollendingar eftir því að tímaramminn yrði settur inn í samkomulagið svo málið dragist ekki um of á langinn."

Telja má líklegt að Bretar og Hollendingar, sjái í gegnum fingur sér með það, málinu verði ekki lokið í þinginu fyrir áramót.  Enda vilja hvorki Bretar og Hollendingar, frekar en Samfylkingarhluti íslenskra stjórnmála, að málið fari fyrir dómstóla.  

 Líklegast hafa Steingrímur og Jóhanna skrifað Bresku og Hollensku samninganefndunum þakkarbréf, fyrir það að hafa sett þennan tímaramma inn í samkomulagið.  Tímaramminn verður þá Grýlan, sem tryggja á hraða og ,,örugga" afgreiðslu málsins í þinginu.   Heyra mátti á Jóhönnu í kvöldfréttum Sjónvarps, að það væri rúmlega æskilegt, að málið yrði keyrt hratt og ,,örugglega" gegnum þingið.  Verða þá allar beiðnir um frekari gögn og athugun á vafaatriði, litnar hornauga og sagðar auka möguleikan á uppsögn Breta og Hollendinga á samningnum. 

 Grýlunni verður svo beitt af hörku, spyrjist það út að, þrýstingur sé forsetann, að synja þessum samningi staðfestingar líkt og þeim fyrri.


Í upphafi skildi endirinn skoða.

Núna gæti allt eins farið svo að desember uppbót sú er félags og tryggingamálaráðherra fékk samþykkta í þinginu hér um daginn til handa atvinnulausum , nái ekki til þeirra er hennar eiga að njóta fyrr en eftir jól, eða í lok desember.

 Það er vissulega hvimleitt ef að svo verður, en þetta mál lýsir því kannski bara best hversu mörg mál stjórnvalda eru vanbúin og sjaldnast hugsuð til enda.  Í þessu máli t.d. er engu líkara, en að ákvörðun hafi verið tekin, án athugunnar á því, hjá Vinnumálastofnun, að þetta væri framkvæmanlegt fyrir jól. 

Í örðu máli frá sama ráðuneyti, en þá reyndar undir stjórn annars ráðherra, voru lög um greiðsluaðlöðun samþykkt, án þess að tryggja það að lögin stæðust stjórnarskrárbundinn eignarrétt.  Fór það mál svo að ábyrgðarmaður láns, er fékk greiðsluaðlöðunarmeðferð, var krafinn eftir að dómur féll í Hæstarétti, að greiða fjármálastofnun þeirri er höfðaði málið, það ,,tap" sem fjármálastofnunin varð fyrir við eftirgjöf þeirrar skuldar er ábyrgðarmaðurinn gekk í ábyrgð fyrir.

Nóg þvælast nú nauðsynleg mál til uppbyggingar fyrir stjórnarflokkunum, á milli þeirra og jafnvel innbyrðis flokkana tveggja, að vanbúin lög og reglugerðir, sem standast svo ekki skoðun þegar til framkvæmda kemur eru vart til þess að bæta ástandið.


Að hafa eða ekki vit á samningum og afleiðingum þeirra.

Þegar það kom til tals á sínum tíma að Svavars/Indriðasamningarnir færu í þjóðaratkvæði, þá létu Steingrímur, Jóhanna og meðhlauparar þeirra í Bretavinnunni hafa það eftir sér, að samningarnir væri það viðamiklir og flóknir, að það væri ekki á færi almennings að vega þá og meta og taka ákvörðun varðandi þá í framhaldinu.

 Nú hefur það hins vegar komið í ljós, að þeir samningar, sem Steingrímur, Jóhanna og meðhlauparar þeirra í Bretavinnunni, börðu með ofbeldi og hótunum í gegnum þingið, hefðu hæglega getað valdið þjóðargjaldþroti.

Það varð samt svo að forsetinn stóð vaktina, hafði vit fyrir Bretavinnugenginu og tók fram fyrir hendurnar á því, með því að synja samningunum staðfestingar.  Hafði forsetinn litlar þakkir fyrir frá Bretavinnugenginu og strax eftir að forsetinn tilkynnti um synjun sína, þá var haldinn blaðamannafundur í gamla fangelsinu við Lækjartorg.  Á þeim fundi, spáðu forsprakkar Bretavinnugengisins, Steingrímur og Jóhanna hinum verstu harðindum er dunið gætu yfir vora þjóð, algjört efnahagslegt hrun og þaðan af verra.

 Núna ellefu mánuðum síðar, er þriðji Icesavesamningurinn kominn í umræðuna og þrátt fyrir synjun hinna fyrri, þá hefur ekkert af því sem þau Steingrímur og Jóhanna spáðu ræst og það sem meira er, þá er nýjasti samningur, skömminni skárri hvað kostnað varðar, þó efnislega sé hann líklegast jafn óásættanlegur.  Eini munurinn á þessum samningi og þeim fyrri, er kannski helst að líkurnar á þjóðargjaldþroti eru mun minni en áður og kannski næstum því hverfandi, komi ekkert upp á varðandi heimtur úr þrotabúi Landsbankans.

 Þrátt fyrir allt ofangreint, hefur þó orðið mistök ekki hrokkið af vörum, þeirra Steingríms og Jóhönnu eða þeirra meðhlaupara í Bretavinnunni.  Þeirra réttlæting á þeim ósköpum er þau nærri létu dynja á þjóðinni, er að aðstæður hafa breyst.  Það má vera að aðstæður hafi eitthvað breyst.  En það réttlætir samt ekki það, að í ljósi aðstæðna er voru áður hafi það verið réttlætanlegt að keyra þjóðina í gjaldþrot með fyrri samningum.

 Hvaða einkunn skildi stjórnarandstæðingurinn Steingrímur Jóhann Sigfússon, gefa núverandi stjórnvöldum? Ætli hann öskri úr sér lungun á afsögn stjórnvalda og landsdóm?


Ögmundur á endastöð !?

Ögmundur fer á bloggi sínu yfir stöðuna í Icesave eins og hún kemur honum fyrir sjónir í dag.  Reiknar hann frekar með því að samningurinn verði samþykktur í þinginu, eins og reyndar flestir hljóta að gera, enda hefur ríkisstjórnin þingmeirihluta.  Telja verður einnig mjög líklegt, að ólíkt því sem gerðist 30 des. sl. þá muni Ögmundur samþykkja samninginn, enda fer hann varla að láta henda sér tvisvar út úr sömu ríkisstjórninni, vegna sama málsins.

 Ennfremur reiknar Ögmundur með því að forsetinn staðfesti nýja samninginn, enda býst hann ekki við sömu eða svipuðum aðstæðum og voru hér fyrir ári síðan.  Inní þá breytu sína, tekur hann hins vegar ekki nýlega yfirlýsingu forsetans, þess efnis að íslenska þjóðin eigi að fá að taka sjálf ákvörðun um það, hvort hún vilji borga erlendar skuldir einkabanka.

Þrátt fyrir nýjan og jafnvel mun betri samning, hvað upphæðir og kostnað varðar, þá er þessi samningur efnislega á sömu nótum og fyrri samningar. Það sem ekki fæst úr þrotabúi Landsbankans lendir á skattgreiðendum. Reyndar gæti farið svo að greiðslur úr þrotabúinu dragist vegna málaferla. Verði það rauninn, eða þá að einhverjir aðrir atburðir verði til þess að greiðslur úr þrotabúinu tefjist eða þá hreinlega verði ekki fyrir hendi. Eins gætu heimtur úr þrotabúinu verið ofmetnar, sem gæti allt eins gerst, þar sem ekki hefur farið hlutlaust mat fram á eignum og framtíðarheimtum þrotabúsins. Fari svo, þá fellur kostnaðurinn vegna þess á íslenskum skattgreiðendum.

Eins sneiðir Ögmundur hjá því líkt og aðrir stjórnarsinnar, að tala um fyrri samninga sem mistök, þó svo að hann, líkt og aðrir stjórnarsinnar, þakki þeim er vit höfðu fyrir stjórnvöldum og tóku fram fyrir hendurnar á þeim. 

 Að lokum klikkir svo Ögmundur út með því að þakka tveimur samflokksmönnum sínum og ,,byltingarfélögum" í órólegu deildinni, fyrir sinn þátt í því að forsetinn hafði vit fyrir óhæfri ríkisstjórn í málinu:

En þetta gerði forsetinn ekki fyrr en um það bil þriðjungur kosningabærra manna í landinu höfðu undirritað áskorun þess efnis. Hann tók og ákvörðun sína með skírskotun til þess að innan þingsins - í stjórnarmeirihlutanum, væru einstaklingar sem réru að því öllum árum að koma málinu á annað og æðra stig - til fólksins - þaðan sem allt vald á uppruna sinn - svo vísað sé til orða Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanns VG, sem hart gekk fram í þessu. Það gerðu einnig fleiri stjórnarþinggmenn. Var haft á orði að nokkur þúsund manns hefðu bæst á undirskrifatalista Indefence eftir að Ásmundur Einar Daðason hafði flutt sína hvatningarræðu í beinni útsendingu við atkvæðagreiðsluna 30. desember,“ skrifar Ögmundur.

 Þarna lætur Ögmundur það hins vegar ógert, að minnast þess, að þau Ásmundur og Guðfríður Lilja, höfðu það í hendi sér, að fella samningana í atkvæðagreiðslunni, en þorðu það ekki.  Eins höfðu Ögmundur og Lilja Mósesdóttir, það í hendi sér, að málinu yrði vísað til þjóðarinnar, án aðkomu forsetans, sem hefði jú verið rökrétt af þeim að gera, þar sem þau greiddu atkvæði gegn samningnum, en þeim brást einnig kjarkur til þess að greiða atkvæði, með tillögunni um þjóðaratkvæði, sem borin var upp, eftir að samningurinn hafði verið samþykktur 33-30 í þinginu.


mbl.is Icesave á endastöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að borga tvisvar fyrir sömu framkvæmdina.

Núna berast fréttir af milklum vegaframkvæmdum, Vaðlaheiðargöngum, tvöföldun Suðurlandsvegar að Selfossi, tvöföldun Vesturandsvegar að Hvalfjarðargöngum og tvöföldun Reykjanesbrautar sunnan Straums.

  Hvort sem að ríkið eða lífeyrissjóðirnir kosti þessar framkvæmdir, þá hugsunin að borga þessar framkvæmdir til baka með vegatollum. Samkvæmt nýjustu fréttum, þá eru lífeyrissjóðirnir útúr myndinni og mun Ríkissjóður (skattgreiðendur) kosta framkvæmdirnar.  Að loknum framkvæmdum munu svo skattgreiðendur, borga til baka í Ríkissjóð, kostnaðinn í formi vegtolla. 

Tvær þessara framkvæmda, Suðurlandsvegurinn og Vaðlaheiðargöngin eru umdeildar, hvor á sinn hátt að einhverju leiti.  

Þrátt fyrir að reiknað hafi verið út af erlendum sérfræðingum, 2+1 vegur frá Rvk til Selfoss dugi vel næstu áratugina hið minnsta og kosti mun minna, en 2+2 vegur, þá ætla stjórnvöld að ráðast í gerð 2+2 vegar. Auðvitað hafa þessar framkvæmdir þann jákvæða kost að þær skapa atvinnu og er ekki vanþörf á því, eins og ástandið er í dag.  En það er hins vegar ekki sama, hvernig staðið er að slíku og ekki má kosta til þess meiru en þarft er.

 Ef áform stjórnvalda um vegtolla á leiðinni Rvk-Selfoss-Rvk, verða að veruleika, þá mun kosta 7 kr. pr km. að aka þessa leið, eða 700 kr. Verði ekki í boði afsláttarkjör, líkt og t.d. er í boði vegna Hvalfjarðarganga, þá mun það kosta einstakling sem býr á Selfossi, borga 700 kr á dag fyrir aka þessa leið daglega, eða 14.000 kr á mánuði miðað við 20 vinnudaga í mánuði. Það eru þá 154.000 kr á ári, miðað við að viðkomandi taki eins mánaðar sumarfrí, annars 168.000.   Til að koma út úr þessu á sléttu miðað hvernig þetta er í dag, þyrfti því þessi einstaklingur, að hækka í tekjum um ca. 350.000. kr, svo upphæð þessi verði tiltæk eftir skatta.

Verði þetta á endanum eitthvað nálægt þessu, þá má búast við því, að tvennt gæti gerst.  Fólk ferðast enn frekar saman í bílum, þ.e. fleiri um hvern bíl yfir heiðina, eða þá að fólk taki rútuna í mun meiri mæli en nú er.  Það mun svo þýða mun lægri tekjur af umræddum vegtolli og þá lengri borgunartíma á framkvæmdinni, sem mun þá líklegast á endanum hækka fjármagnskostnað við framkvæmdina og þá um leið frekari kvaðir á skattgreiðendur.

 Er framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng lýkur, er gert ráð fyrir að innheimta kr. 1000. kr fyrir að aka þar í gegn.  Samkvæmt því sem að menn hafa reiknað, þá er þetta gjald, rúmlega þrefalt hærra en talið að það mætti vera svo hagkvæmara væri að keyra göngin í stað Víkurskarðs, þegar færð og veður býður upp á slíkt. Semsagt hámark 300kr. pr. ferð í göngin, svo alltaf borgaði sig að aka þar í gegn.  Heyrst hefur af áformum stjórnvalda um loka Víkurskarðinu, eftir að göngin verði komin í gagnið til þess að neyða vegfarendur í gegnum göngin og þar með borga ca. 700 kr. hærri upphæð í hvert skipti sem farið þar er um, þegar veður og færð bjóða upp á akstur um Víkurskarð.

Þó það sé óumdeilt að þessar framkvæmdir muni á endanum vera samgöngubót og að þær muni skapa atvinnu á meðan að á þeim stendur, þá er það alveg ljóst að kjarabót þeirra sem þessar leiðir fara oft, verður ansi takmörkuð og í raun ekkert nema frekari fjáraustur úr pyngju þeirra.

 


mbl.is SI: Framkvæmdir skapa hundruð nýrra starfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymda klappstýran.

Aðalklappstýra Landsbankans, er þeir stofnuðu Icesave í Hollandi vorið 2008, heitir Jón Sigurðsson. Jón þessi var á þeim tíma stjórnarformaður FME, auk þess sem að Jón var og er eflaust enn, eitt af aðalgúrúum Samfylkingar í efnahagsmálum. 

Í annars fallegum kynningarbæklingi þeirra Landsbankamanna vegna nýstofnaðra Icesavereikninga, var mynd af hinum ,,trausta" stjórnarformanni FME, auk stutrar greinar Jóns um hina duglegu Landsbankamenn og allt það traust sem Hollendingum væri óhætt að leggja á Landsbankann.

En var það ekki bara besta mál, að mæla með íslenskum banka erlendis, sem að fær verðlaun úr hendi viðskiptaráðherra fyrir vel uppsettan og traustan ársreikning árið 2007?  Eða átti kannski áðurnefndur ársreikningur, frekar að fá Bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta?


Svona studdi órólega deildin stefnu stjórnarinnar í Icesave......

... á sama tíma og hún setti upp ,,lýðræðisástar-grímuna" og vökvaði grasrótina.

Þegar Alþingi greiddi atkvæði um Icesavesamninginn þann 30. des sl. fór atkvæðagreiðslan á þennan veg:

já:

Anna Pála Sverrisdóttir, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Valur Gíslason, Guðbjartur Hannesson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Bjarnason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Þráinn Bertelsson, Þuríður Backman, Össur Skarphéðinsson

nei:

Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Birgitta Jónsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þór Saari, Ögmundur Jónasson.

 

 Þegar þeirri atkvæðagreiðslu var lokið, var greitt atkvæði um tillögu frá stjórnarandstöðunni, um að vísa samningnum til þjóðarinnar.  Þegar sú atkvæðagreiðsla er skoðuð, þá vekur athygli, að nær allir er sögðu nei við samningnum, sögðu já við þjóðaratkvæðinu, að undanskildum þeim tveim sem eru feitletruð á lista þeirra er sögðu ,,nei". Hins vegar komu þeir feitletruðu þingmenn af þeim er samþykktu samninginn í stað Ögmundar og Lilju í hóp þeirra er samþykktu þjóðaratkvæðið.

Þau Ásmundur og Guðfríður Lilja, réttlættu atkvæði sitt með samningnum ( þó það væri gegn þeirra vilja og sannfæringu), með því að þau ætluðu að samþykkja þjóðaratkvæðið.

Hins vegar glötuðu þau Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, því einstaka tækifæri til þess að sýna í verki yfirlýsta lýðræðisást sína í verk, með því að samþykkja þjóðaratkvæðið.  Það er nefnilega þannig að lýðræðisást, meðlima órólegu deildar Vg. má sín lítils þegar líf óhæfrar Jóhönnustjórnar er að veði.  

 Þingflokkur Vinstri grænna, greiddi með öðrum orðum, atkvæði í þessum tveimur atkvæðagreiðslum á þann hátt, að hægt var bæði að setja upp leikþátt um uppreisn órlegu deildarinnar og að styðja óhæfa ríkisstjórn.


Hægara að tala um, en að framkvæma!

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sendi Lílju Mósesdóttir, þingmanni Vg. tóninn að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Jóhanna sagði að eflaust hefði mörgum stjórnarþingmönnum langað að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni um fjárlagafrumvarpið eftir aðra umræðu. Það hafi hins vegar ekki verið í boði fyrir þingmenn stjórnarliðsins.  Þó hafi Lilja Mósesdóttir gerst svo ósvífin að gera það. Leit Jóhanna málið það alvarlegum augum, að hún taldi að Lilja þyrfti að athuga sinn gang.

Jóhanna er eflaust búin að gleyma því, eða vonar að aðrir hafi gleymt því að hún sem félagsmálaráðherra í Viðeyjarstjórninni, sagðist ekki vera bundin af fjárlagafrumvarpi, árið 1993.  Jóhanna samþykkti svo reyndar fjárlagafrumvarpið, eftir nokkur frekjuköst og hurðaskelli, sem leiddu til þerra breytinga á frumvarpinu sem hún krafðist. 

Maður er nefndur, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.  Steingrímur settist í ríkisstjórn, eftir nærri 18 ára veru í stjórnarandstöðu.  Nær hvert einasta ár af þessum 18, öskraði Steingrímur úr sér lungun um að hinir og þessir sem ábyrgð bæru, ættu að axla hana, færu hlutir á annan veg, en búist var við í upphafi. 

 Steingrímur fékk svo langþráðan séns til þess að axla og bera ábyrgð, eftir 18 ára öskur í stjórnarandstöðu.  Steingrímur, líkt  og allir sem á undan honum voru og borið höfðu ábyrgð á einhverju, veðjuðu á einhvern ákveðinn kost og báru á því ábyrgð.  Þeir sem töpuðu þá, þurftu að mati Steingríms, að axla ábyrgð á því sem þeir veðjuðu á.  

Núna þegar Steingrímur stendur sjálfur í sömu sporum, er ekkert að marka, enda breyttust aðstæður!!


Eitt og annað um Steingrím, Icesave og landsdóm.

Allar götur síðan að Steingrímur J. fór að leita allra leiða til þess að troða Icesaveklafanum á þjóð sína, þá hefur hann staglast á því að hann beri ábyrgð og ætli að axla hana.  Hann sagðist bera ábyrgð á þeim samningi er Félagi Svavar hespaði af, því hann nennti ekki að hafa hann hangandi yfir sér.  Það var á ábyrgð Steingríms, að lög um ríkisábyrgð, vegna Icesavesamnings no. 1 voru lögð fram.  Í það skiptið var gerð tilraun til þess, að fá ríkisábyrgðina í gegn, án þess að þingheimur fengi að sjá, þann samning, er ríkisábyrgðin vegna.  Var borið heiti um trúnað við viðsemjendurna, þegar spurt var, af hverju fólk fengi ekki að sjá samninginn.  Samningurinn fékkst þó birtur á endanum, eftir mikið stapp og læti.  Ég persónulega, hefði ég sett nafn mitt við þá samningshörmung sem Svavarssamingurinn var, þá hefði ég líka reynt að halda því leyndu sem lengst, því slíkur var afleikur Svavarsnefndarinnar er Steingrímur bar ábyrgð á, að líklega hefði ómálga barn gert betri samning, með bundið fyrir augun.

 Frumvarpið vegna Svararssamningsins, fór svo sína leið í þinginu, með öllum þeim fyrirvörum er við þá voru settir.  Bretar og Hollendingar, höfnuðu hins vegar fyrirvörunum og var þá sest að samningaborðinu aftur.  Nú var Indriði H. Þorláksson, formaður samningsnefndar og enn bar Steingrímur ábyrgð og sagðist axla.  Þó svo að Indriðasamningurinn hafi verið lítt skárri en Svavarssamningurinn, þá bar og axlaði Steingrímur enn ábyrgð.  Fannst Steingrími sá samningur meira að segja svo góður, að hann lofaði, eða hótaði því að hætta, ef hægt yrði gera betri samning, en þá lá fyrir. 

Þeir samningar voru svo samþykktir í þinginu 30. des 2009 og forsetinn synjaði lögum nr. 1/2010, er vörðuðu þann samning. Þjóðin hafnaði svo lögunum og samingnum í þjóðaratkvæði 6. mars 2010.   En í atkvæðagreiðslunni 30. des. gerði Steingrímur grein fyrir atkvæði sínu á þennan hátt:

,,Ég greiði þessu frumvarpi atkvæði og ég mæli með því að það verði samþykkt vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín að það sé betri kostur fyrir Ísland og það firri meira tjóni en að gera það ekki. Í krafti þessarar sannfæringar minnar greiði ég atkvæði með góðri samvisku þótt ég viðurkenni um leið að því fylgir þung ábyrgð. Undan þeirri ábyrgð víkst ég ekki. Ég hef ekki eytt tæpum 27 árum ævi minnar hér til að víkjast undan ábyrgð eða flýja það (Gripið fram í: Snýst ekki um þig.) að taka erfiðar ákvarðanir þegar þær eru óumflýjanlegar. Ég hef engan mann beðið og mun engan mann biðja að taka neitt af mínum herðum í þessum efnum. Ég trúi því (Gripið fram í.) að sagan muni sýna að við séum hér að gera rétt, að endurreisn Íslands, sjálfstæðs og velmegandi í samfélagi þjóðanna, muni verða sönnunin. Ég mun reyna að leggja mitt af mörkum til að svo verði (Forseti hringir.) meðan lífsandinn höktir í nösum mér og ég má vinna Íslandi nokkurt gagn. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)"

 Lárus Blöndal samninganefndarmaður í síðustu Icesavenefnd, nú undir forystu Lee Buchheit, sagði svo í viðtali í gær, að sá samningur sem þá hafði verið nýlokið við, hefði í rauninni nánast verið klár í fyrir ca. þremur mánuðum, eða í september sl. Það hafi bara verið eftir að hnýta örfáa lausa enda.  Það er því alveg ljóst, að Steingrímur sá, sem ber og axlar ábyrgð á öllu heila klabbinu, vissi nákvæmlega hver staðan var í málinu þá.  Hins vegar sagði Lárus að því hefði verið frestað að klára samninginn í september, vegna ólgu í þjóðfélaginu. Landsdómur og aðgerðaleysi stjórnvalda vegna skuldavanda heimilana. 

 Þegar Alþingi hafði nýlokið við að samþykkja að ákæra Geir H. Haarde fyrrv. forsætisráðherra fyrir landsdómi, sagði Steingrímur að sér hafi ekki fundist þessi ,,skylda" sín ljúf að ákæra Geir, enda væru það aðrir í hans huga sem ættu heima fyrir landsdómi.  Síðustu þrjá mánuði hefur fólk haldið að hann hafi átt við þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson.   En það skildi þó ekki vera, að með hliðsjón af því sem hann vissi þá um væntanlega lendingu í Icesavemálinu, að Steingrímur hafi átt við sig sjálfan og sína dyggustu þjóna í Bretavinnunni, þegar hann sagði að réttara hefði verið að ákæra aðra, en Geir.


mbl.is „Ég ber ábyrgð á Svavarsnefndinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lee Buchheit á villigötum.

Lee Buchheit, formaður íslensku samninganefndarinnar sagði meðal annars í Kastljósinu í kvöld að það hafi ekki verið markmiðið, að ná efnislega betri samningi, heldur lækka upphæðina.  Nú er það svo, að upphæðin sem slík, var ekki deilumálið hérlendis, varðandi fyrri samninga, heldur ólögvarin greiðsluskylda íslenskra skattgreiðenda á erlendum skuldum einkabanka.

Það hentar hins vegar ekki pólitískum hagsmunum stjórnvalda, að hafna greiðsluskyldunni alfarið vegna ESB-drauma Samfylkingar.

Lee Buchheit sagði einnig að nóg ætti að vera að Alþingi samþykkti ,,nýjan" samning, þar sem hann væri svo mikið betri en sá, sem forsetinn synaði og fór í þjóðaratkvæði.  Vel má verða að samingur þessi, sé að einhverju leiti betri en sá gamli.  En þessi samningur tekur samt ekki á þeim þáttum sem þjóðin kaus gegn, ólögvarinni greiðsluskyldu íslenskra skattgreiðenda á erlendum skuldum einkabanka.  

 Á meðan greiðsluskyldan stendur óbreytt, þá er ekki annað í boði en að þjóðin greiði atkvæði um samninginn. Það var þjóðin sem vildi ekki sjá þessa greiðsluskyldu, þó svo að Alþingi hefði samþykkt hana.

 Sér Bessastaðabóndinn enn, gjá milli þings og þjóðar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband