Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Allt í myrkri nema vaxtaprósentan og kosningaúrslitin 6. mars 2010.

 Hvað sem menn reyna að fegra Icesave III niðurstöðu Steingríms og co., þá er samningsniðurstaðan efnislega sú sama og áður. Íslendingum er gert að greiða ólögvarðar kröfur Breta og Hollendinga, þrátt fyrir afgerandi ,,nei" íslenskra kjósenda í þjóðaratkvæðinu 6. mars við slíkum gjörningi.

Það er í rauninni, þrátt fyrir lægri áætlaðar greiðslur, ekki hægt að tala um betri samning.  Það eina sem er öruggt í samningnum er vaxtaprósentan. 


  Áætlaðar greiðslur eru sagðar lægri, vegna þess að menn binda vonir við að þrotabú landsbankans, gefi meira af sér, gengi krónunnar hefur styrkst, þrátt fyrir spár Bretavinnugengisins, er þjóðin hafnaði fyrri samningi og vextir eru lægri, af þeirri upphæð sem á endanum greiðist.


 Þrotabú Landsbankans:
Málaferli geta breytt kröfuröð í þrotabúið og þar með sett Icesavekröfur aftar í röðina. Auk þess gætu áætlaðar heimtur verið ofmetnar og þar með minna virði en ætlað er.  Breyting: Hærra hlutfall upphæðar kemur úr Ríkissjóði (vasa skattgreiðenda). 


 Vextir að meðaltali 2,64 % ef ég man rétt.  Óbreytt prósenta, þó hærri upphæð falli á skattgreiðendur. En falli hærri upphæð á skattgreiðendur, þá auðvitað hækkar sú upphæð sem greidd er í vexti.


 Gengi krónunar: Það er hálfur sannleikur að sterkara gengi bæti stöðuna.  Það skiptir engu hversu veik eða sterk krónan er.  Evrurnar og pundin verða alltaf jafn mörg. Þannig að þetta mun kosta jafn háa upphæð af gjaldeyri, óháð gengi íslensku krónunnar.


mbl.is Erfitt að semja um óljósa upphæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami samningur, annar pappír.

Þó svo að þessi samningur eigi að vera margfalt betri en sá sem þjóðin felldi 6. mars sl. og jafnvel betri en ,,betra tilboðið" sem var aðalhvati heimsetuhvatningar forsætisráðherra, þá er ekki hægt að samþykkja þennan samning. Alla samninga er kveða á um greiðsluskyldu íslenskra skattgreiðenda á skuldum einkabanka, ber að fella.

Þann 6. mars greiddu rúmlega 90% þeirra er ekki sinntu heimsetukvaðningu forsætisráðherra, atkvæði gegn því að skuldir einkabanka féllu á Ríkissjóð og þar með á skattgreiðendur.  Þar var ekki kosið um vexti, vaxtafrí og önnur greiðsluform, ólögmætrar kröfu Breta og Hollendinga. Að mestu leyti eru nýir samningar, efnislega eins og þeir sem felldir voru í mars.  Það eina sem virðist breytt eru vextirnir, en eftir sendur óbreytt sú ólögvarða krafa viðsemjenda okkar studd af ESB, að íslenskir skattgreiðendur borgi erlendar skuldir einkabanka.  

Það er því ekkert annað í boði, en að hafna þessum samningi, enda er þetta nánast sami samningur og síðast. Eini munurinn er að nú er íslenskri þjóð boðið að vera lamin í hausinn með naglaspýtu með 3" nagla í, í stað 4" nagla.

Annars er þessi 200 milljarða munur á milli samninga glæpsamlegur. Steingrímur og Jóhanna geta ekki þakkað sér þann árangur, en þau geta beðið ýmsa aðlila afsökunnar og þakkað þeim fyrir að hafa að hafa haft vit fyrir sér. Að því búnu er afsögn þeirra tveggja óumflyjanleg.


mbl.is Greiðslur hefjast í júlí 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESA setur heimsmet í þolinmæði, enda vill Evrópa ekki að Icesave fari fyrir dómstóla.

Síðasti séns til að skila inn vörnum til ESA vegna Icesave rann út í á miðnætti.  Ég hef ekki dottið um neinar fréttir þess efnis, að ESA hafi fengið varnarbréfið, þannig að nær öruggt er að fresturinn hafi verið framlengdur.  Þessar eilífu framlengingar ESA á frestinum, hafa ekkert með manngæsku eða góðvild ESA til Íslendinga að gera.  Heldur er ástæðan ofureinföld. Fari málið fyrir dómstóla, þá eru í raun öll innistæðutryggingakerfi ríkja á EES-svæðinu undir.  Auk þess sem málareksturinn myndi leiða margt í ljós, sem nærri fokhelt ESB þyldi illa í því fárviðri sem þar geysar.

Hvað íslenska ráðamenn, sem að nota bene, ættu fyrir lifandis löngu að vera búnir að vísa málinu til dómstóla varðar, þá hafa orð þeirra undanfarna daga verið á þá leið, að eingöngu standi tvö til þrjú atriði út af borðinu.  Það er reyndar kolröng fullyrðing hjá áðurnefndum ráðmönnum.  Það er aðeins eitt sem stendur út af borðinu.  Það er að rúmlega 90% þeirra er hlýddu ekki heimsetukalli forsætisráðherra, þann 6. mars sl. greiddu atkvæði gegn því að ólögvarðar kröfur Breta og Hollendinga yrðu greiddar, með eða án vaxta.  Þjóðaratkvæðið snerist ekki um vaxtaprósentur og vaxtafrí, heldur um ólögvarða greiðsluskyldu Íslendinga (skattgreiðenda) á kröfum viðsemjenda okkar.

Nú er þetta Icesavemál orðið langlífara en nokkur þjóð hefur gott af og auðvitað væri það langbest að það leystist.  En mál sem þetta á ekki bara að leysa, til að verða laus við það, eða þurfa ekki að hafa það lengur hangandi yfir sér, líkt og Félagi Svavar sagði, er hann flaug til baka með  Farsæla-lausn taka I í Icesavedeilunni.  Icesavemálið snýst um lagalega þætti og túlkun á þeim, ekki um nennu manna til að vinna lausn þess, eða einhvers annars í þá veruna.

Reyndar er bara hægt að leysa þetta mál á tvo vegu. Þann pólitíska, sem þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæði þann 6. mars. En ESB og ESB-ásælni  Samfylkingarinnar krefst, enda pólitísk lausn á Icesave, með milljarða skuldbindingum á íslenska skattgreiðendur, aðgöngumiði að ESB.  Aðgöngumiði sem stærstur hluti þjóðarinnar vill ekki sjá.

 Hin leiðin til að leysa málið, er svo eftir lagalegum leiðum. Þeim leiðum hafna hins vegar bæði ESB, fyrir hönd viðsemjenda okkar og íslenskir aðildarsinnar. Lagaleg lausn lýtur að því að málið er leyst samkvæmt lögum og reglugerðum evrópska efnahagssvæðisins. Slíkur málarekstur myndi eflaust leiða í ljós fjöldan allan af glufum í reglugerðarfarganinu og valda titringi meðal Brusselherrana. Málareksturinn myndi svo að sjálfsögðu setja innistæðutryggingakerfi EES-ríkjana í uppnám, auk þess sem farið væri ofan í breskar skattanýlendur, bæði á Ermasundseyjum og í Karabíska Hafinu.

Það er því alveg ljóst að jafnvel þó það séu töluvert meiri líkur en minni  á því að málið vinnist fyrir dómstólum, eða þá að að það náist viðunnandi dómsátt, vegna þess sem ESB vill ekki að komi fram í slíkum réttarhöldum, hafa stjórnvöld ekki viljað ljá því máls að deilan fari fyrir dómstóla, slík er ESB-þráhyggja Samfylkingarinnar.


Vitringarnir þrír í Viðskipta og Hagfræðideildum H.Í.

Þórólfur heitir maður Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Þórólfur þessi tekur að sér í hjáverkum að flytja heimsendaspár í fjölmiðlum, fari svo að íslenska þjóðin, sameinist ekki liðinu í Bretavinnunni og taki á sig ólögvarðar kröfur Breta og Hollendinga í Icesavedeilunni.  Taldi Þórólfur Íslendinga standa það tæpt, að felldu þeir Icesavesamninga þeirra Steingríms J. og Indriða H. í þjóðaratkvæðinu mars sl., þá færi allt hér á hinn versta veg, það slæman að Ísland yrði á pari við Norður-Kóreu.  Einnig er Þórólfur fulltrúi Steingríms og Jóhönnu í eftirlitsnefnd Alþingis, sem fylgjast á með því, hvort bankar og þá sér í lagi Landsbankinn, sé innan reglna og siðferðismarka, í meðferð skuldamála fyrirtækja. Þórólfur tók þann kostinn, að segja pass við Vestia-viðskiptum Landsbankans, þó svo að forstjóri Bankasýslu ríkisins hafi beinlínis viðurkennt að reglur hafi verið brotnar í viðskiptunu. Einnig sagði hann pass, þegar Jón Ásgeiri og frú voru afhentir fjölmiðlar sínir á ný, með feitri skuldaniðurfellingu, þrátt fyrir það að  Jón Ásgeir hafi ekki getað rekið fyrirtæki án þess að skuldsetja fyrirtækið til Andskotans og keyra það í þrot.   Er það svöðusár sem skuldir Jóns Ásgeirs við gömlu bankana, talið vera í það minnsta þúsund milljarðir.

 Maður er nefndur, Gylfi Magnusson, viðskiptafræðiprófessor við Háskóla Íslands.  Gylfi tók sér frí frá kennslu, um stund og varð efnahags og viðskiptaráðherra í Skjaldborgarstjórn Jóhönnu í ca. eitt og hálft ár. Var Gylfi kallaður ,,fagráðherra", þó svo að fagmennskan hafi ekki risið hærra, en hjá öllum ráðherrum öðrum er sátu með honum í stjórn, að undanskilinni Rögnu Árnadóttur.  Fólki er eflaust í fersku minni, klúðrið og hringlandaháttur Gylfa, þegar upp komst um lögfræðiálitin vegna gengislánana. Var verkun Gylfa á málinu, með slíkum ólíkindum, Skjaldborgarparið treysti sér ekki lengur til að skjóta yfir hann skjólshúsi og er þá mikið sagt, því ekki þekkjast þau Jóhanna og Steingrímur, af vönduðum vinnubrögðum, svo mikið er víst.  Gylfi tók sér nú samt tíma til þess, líkt og Þórólfur og spáði hér hvílíkum harðindum, ef Icesave gengi ekki gegn, að Ísland yrði Kúba Norðursins.

Að lokum má svo nefna, Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.   Eftir að Þorvaldur spáði gósentíð með blóm í haga í Asíu, á síðasta áratug síðustu aldar, ári áður að allt fór þar til fjandans, þá taldi hann vissast svona til öryggis, að spá kreppu hér, árlega síðustu 10 - 15 árin fyrir hrun.  Það hins vegar hindraði Þorvald ekkert í því að vegsama Baugsveldið í vikulegum blaðagreinum sínum í Fréttablaði Jóns Ásgeirs.  Þar þrátt fyrir kreppuspár í öðrum miðlum, þá sá hann vart sólina, fyrir íslenska bankakerfinu, nánast fram að hruni. Þótti honum Jón Ásgeir og félagar þar, fremstir í flokki og þótti honum það beinlínis dónaskapur yfirvalda standa í sakamálaferlum við Baugsveldið.  Yfirvalda sem ekki veittu Jóni Ásgeiri og félögum, ekki neitt nema EES- samninginn, svo þeir félagar gætu stundað útflutning á meintri ,,viðskiptasnilld" sinni. 

 Næst mun líklega fréttast af Þorvaldi á stjórnlagaþingi.  Svona ofurmenni líkt og Þorvaldur, vonast til, ef hans hugmynd nær fram að ganga, að stjórnlagaþingið afgreiði ekkert nema eitthvað bráðabrigðaplagg, til frekari úrvinnslu síðar. ( Spurning hvort hann ætli þá að láta kjósa sig líka síðar á stjórnlagaþing, taka tvö? )  Einnig ætlar svo Þorvaldur sér, að fá sitt bráðbrigðaplagg af nýrri stjórnarskrá, samþykkt með því að skauta yfir 79. grein núgildandi stjórnarskrár. Grein sem segir til um það, að Alþingi og enginn aðilli annar, getur samþykkt breytingar á stjórnarskrá eða þá nýja stjórnarskrá.

Af þessari upptalningu sést, að framtíð þjóðarinnar er björt.  Í það minnsta hvað varðar viðskipta og hagfræðinga framtíðarinnar.


,,Best" að fara í gjaldþrot?

Verði Nýju Gjaldþrotalögin, samþykkt frá Alþingi, mun það ekki vera svo að þeir sem ,,ákveða" að keyra sig í gjaldþrot og verða ,, lausir" allra mála, tveimur árum síðar.  Það hljómar í það minnsta ,,of vel" til þess að vera satt.  Þó svo að fjármálastofnunum, verði gert það erfiðara að elta skuldara, tveimur árum eftir gjaldþrot, þá er það ekki þar með sagt, fjármálastofnunum muni ekki takast að viðhalda kröfum á skuldara enn lengur, en þessi tvö ár.  Eftir því sem fleiri myndu ákveða að fara þessa leið, þá yrði fjármálastofnunum í rauninni, gert það auðveldara að viðhalda sínum kröfum, á þeim forsendum, að sökum þess, um hversu mörg mál er að ræða þá, er það nánast hættulegt fjármálakerfinu að kröfurnar verði látnar niðurfalla.

Hér að neðan er svo dæmi, hvernig fjármálastofnanir, láta þá ráðdeildarsömu borga fyrir sig ,,skaðann" :

Fólk sem að tók 100% lán fyrir húsnæði 2007, er eftir að hafa fengið 110% úrræðið, nánast í sömu sporum og 1. jan 2008, sé tillit tekið til hækkun láns og lækkun fasteignaverðs.

 Fólk sem sýndi ráðdeild á sama tíma og tók ekki hærra lán en 50% -70 % af kaupverði eignar, hefur tapað því fé sem það lagði sjálft í eignina, þó svo að veðsetningin, sé ekki komin upp í 110% + hjá því.   Ráðdeildarfólkið, fær ekki niðurfellt og ekki það til baka sem það átti 1. jan 2008.

Samt er í rauninni ekki meiri munur á þessum hópum en svo, að ráðdeildarfólkið tapar sparnaði (tekjum) undangengna ára, en fólkið sem að tók 100% lánin, er forðað frá því að ,,tapa" meira af framtíðartekjum í afborganir, en 110% leiðin býður því. 

Það liggur því refsing við því að sýna sparsemi og ráðdeild, samkvæmt ,,ekki" úrræðum Skjaldborgarstjórarinnar í skuldamálum heimilana.

 Hvort ætli það sé verra að vera rændur því, sem að maður á, eða rændur því, sem að maður eignast hugsanlega í framtíðinni?

 


mbl.is Kjósa að fara í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er aðventan tími uppgjafar hjá íslenskum stjórnvöldum.

Í fyrstu viku aðventu, bárust fréttir af uppgjöf stjórnvalda, gagnvart bönkum og lífeyrissjóðum, við lausn á skuldavanda heimilana. 

Núna í byrjun annarar viku aðventu, berast fréttir, af uppgjöf íslenskra stjórnvalda, gagnvart hagsmunum ESB-þjóða, vegna Icesave.  Þrýst er mjög á lausn Icesavedeilunnar, fyrir framlagningu varnarbréfs Íslendinga vegna Icesave, fyrir ESA.

Þrýstingurinn eykst, því að á næsta þriðjudag þurfa stjórnvöld að grípa til varna og svara fyrir Icesave hjá ESA. Þrýstingurinn er samt ekki að uppruna frá Íslendingum, heldur Bretum, Hollendingum og restinni af ESB, þar sem lagaleg rök kr...afna Hollendinga og Breta standast ekki skoðun. Varnir Íslendinga fyrir ESA, gætu haft víðtæk áhrif á innistæðutryggingakerfisins innan ESB og í raun hleypt þeim málum í uppnám, eins og nóg sé ekki uppnámið vegna hrynjandi veldi evrunar.

Íslensk stjórnvöld taka hins vegar afstöðu með Evrópu og gegn hagsmunum Íslendinga, vegna ESB-þráhyggju Samfylkingar.

Heyrist hin minnsta jákvæða stuna frá stjórnarandstöðunni, varðandi nýjan samning, þarf þjóðin að taka sig til og fylla pósthólf stjórnarandstöðuþingmanna, sem og annarra þingmanna, með þeim skilaboðum, að eftir verði tekið, hvernig þeir standi með eða gegn íslenskum hagsmunum í málinu. Í framhaldi af því, þarf svo að minna forsetann á hans eigin orð, að auðvitað eigi íslenska þjóðin að greiða atkvæði um samninginn.
 
 Núna sem endranær, er það skylda íslenskra stjórnvalda, að standa í lappirnar í samræmi við það,takmarkalausa umboð, sem þjóðaratkvæðagreiðslan 6. mars veitti þeim til samninga um Icesave.  Eina umboð stjórnvalda vegna Icesave, hvort sem stjórnarandstaðan, láti plata sig með eða ekki, er að leggja málið í dóm þjóðarinnar.

 


mbl.is Samkomulag að nást um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni af 18 mánaða afmæli ,,Hinnar farsælu lausnar Félaga Svavars"

Núna þegar þetta er skrifað, er ca. eitt og hálft ár síðan Steingrímur J. kynnti farsæla lausn Félaga Svavars í Icesavedeilunni.  Þótti lausnin það góð, að óþarfi var að birta samninginn opinberlega.  Mestu máli skipti að hann yrði bara samþykktur á Alþingi óséður, hratt og örugglega, annars hefðu Íslendingar verra af.

Þar sem Jóhönnustjórnin hafði ekki einu sinni, þingmeirihluta fyrir samþykkt samningsins, þá neyddust stjórnvöld á endanum til þess að birta samninginn.  Kom þá í ljós hvers konar hraksmíði þessi farsæla lausn Félaga Svavars var, enda hafði hann gefið það út, að hann hefði bara hespað þessu af, því hann nennti ekki að hafa þetta hangandi yfir sér, því hann væri á leið í frí.

 Það sem síðan gerist hefur margoft verið rætt. Alþingi var nær allt sumarið 2009 að semja fyrirvara við Svavarssamninginn, sem það síðar samþykkti í lok ágúst og forsetinn staðfesti í byrjun september. Að því loknu lagðist íslenska samninganefndin aftur í ferðalög og nú undir forystu Indriða H. Þorlákssonar.  Kom sú nefnd heim eftir miðjan október, með enn einu farsælu lausnina.  Var sú lausn á þann hátt, að þeir fyrirvarar er Alþingi hafði sett við fyrri samninginn, voru úr sögunni og nánast það sama í boði og var í fyrri samningi.

Var sá samningur samþykktur á Alþingi 30. des 2009, eftir miklar leiksýningar og atkvæðaskammtanir órólegu deildar Vg, ásamt því sem Vg liðar andsnúnir samningnum, voru sendir í frí og auðsveipari varamenn þeirra tóku sæti á þingi á meðan afgreiðsla samningsins stóð yfir.

 Forsetinn synjaði svo samningnum í byrjun janúar og boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu, samkvæmt íslenskum stjórnskipunnarlögum þann 6. mars 2010.  Samningurinn var svo kolfelldur í þjóðaratkvæðinu, eins og fólk man flest, þrátt fyrir hvatningarherferð forsætisráðherra og annarra í Bretavinnunni um heimasetu á kjördag, þar sem betri samningur væri á borðinu. 

Þessi betri samningur var í rauninni sami gamli samningurinn, með þeim breytingum þó, að vextir höfðu verið lækkaðir og vaxtalausum tímabilum verið bætt við samninginn.  Að öðru leyti var samningurinn jafnslæmur þeim fyrri, enda fólst í honum sama ólögvarða krafa viðsemjenda okkar um greiðsluskyldu íslenskra skattgreiðenda á erlendum skuldum óreiðumanna. 

Sagt er að þeir samningar, er Steingrímur bíði nú færis að dengja inn á Alþingi í aðventuönnum þingsins, sé engu betri en fyrri samningar.  Það ætti því að vera hverjum manni ljóst, Steingrími og Bretavinnugenginu líka, að sá samningur fær líka sitt NEI á Bessastöðum. 

 Í nærri tvö ár, hefur Evrópa beðið eftir lausn Icesavemálsins og hafa ríki ESB óttast það eins og heitan eldinn að þessi deila fari fyrir dómstóla, því þá kæmi endanlegur úrskurður um það hver beri ábyrgð á innistæðutryggingum, slíkan úrskurð kærir ESB sig ekkert um að fá í það minnsta ekki strax. Enda óttast ESB, sigur Íslendinga í deilunni, meira en nokkuð annað, enda væri sigur Íslands enn eitt áfallið á ESB og þó af nægu að taka.

 Allt þetta samningsbrölt stjórnvalda, prinsippsafsal Steingríms J. og félaga í Vg, að kröfu ESB sækni Samfylkingar, er aðeins annar möguleikinn til þess að leysa deiluna. Möguleikinn sem þjónar ESB og ESBumsókn Samfylkingar best.  Hinn möguleikinn, lausn samkvæmt lagalegum leiðum og þá væntanlega dómstólum, drepur ESBdraum Samfylkingar og í raun rænir flokkinn eina stefnumáli hans. 

Af þeim sökum, þrátt fyrir nánast yfirgnæfandi líkur á sigri í deilunni fyrir dómstólum, hafa stjórnvöld ekki viljað ljá því máls að deilan, færi fyrir dómstóla. Jafnvel þó að deilan færi líklegast ekki alla leið fyrir dómstólum, heldur yrði áður en að málsóknin kæmi inn á of viðkvæm Evrópsk mál, gerð dómsátt um málið, sem losa myndi íslenska skattgreiðendur úr snörunni. 

En það ferli allt myndi einnig losa 70% þjóðarinnar úr ESB-snöru Samfylkingar og þess vegna er Steingrímur J. og Bretavinnugengið, enn og aftur í yfirvinnu við að troða ólögvörðum kröfum Breta og Hollendinga á íslenska skattgreiðendur í boði ESB-draums Samfylkingar.


mbl.is Icesave samkomulag áhugavert fordæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kattaþvottur og sögufölsun Umbótanefndar Samfó.

Þegar Samfylkingin settist í stjórn með Sjálfstæðisflokknum vorið 2007, þá voru tengsl flokksins við marga þeirra útrásarvíkinga, er mest komu við sögu í hruninu, ca. fjögurra ára gömul, eða síðan fyrir kosningar 2003,  eins og Borgarnesræða Ingibjargar, bendir svo greinilega á.

Mánuðina þar á undan hafði ýmislegt gengið á.  Eftir þriggja manna 300 milljóna tal í London, hófst umfangsmikil skattrannsókn á fyrirtækjum Bónusfeðga og á fyrirtækjum Jóns Ólafssonar, kenndan  við Skífuna.  Það var því engin tilviljun að nöfn þessara aðila hafi komið fram á áberandi hátt í Borgarnesræðu Ingibjargar, enda þurftu þessar viðskiptablokkir, pólitískan bakhjarl á þeim tíma.  Þeim var þess vegna tekið opnum örmum í Samfylkingunni, enda mikil von til þess að flokkurinn gæti með myndarlegum fjárstuðningi þeirra, keypt sig til valda. Afrakstur þessa fóstbræðralags, varð meðal annars barátta Samfylkingar gegn fjölmiðlafrumvarpinu auk þess sem þingmenn flokksins gagnrýndu oftar en einu sinni rannsóknina á Baugsmálinu í ræðum og í fyrirspurnum í þinginu.

Samfylkingin tók einnig Kaupþings-klikunni opnum örmum, eftir að þáverandi forsætisráðherra hafði blöskrað launamál stjórnenda bankans.  Á þeirri stundu varð stjórnendum Kaupþings það ljóst, að þyrftu þeir ,,pólitískt skjól", þá væri það ekki í Sjálfstæðisflokknu.  Fór því svo að Samfylkingin tók Kaupþingsgenginu einnig opnum örmum.

 Það er því í rauninni móðgun við þjóðina, að Samfylkingin skuli láta sér detta það í hug, að bjóða þjóðinni upp á þá söguskýringu að flokkurinn hafi verið haldin ,,Blair-isma" á háu stigi, eða ,,of" hlýðinn samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn í aðdraganda hrunsins.   Andvaraleysi flokksins í hruninu var keypt af stjórnendum þeirra banka er mestum skaða ollu í hruninu, nokkrum misserum, áður en Samfylkingin settist í ríkisstjórn þá, er var við völd í hruninu.


mbl.is Samfylkingin biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðdeildarsama fólkið borgar brúsann fyrir bankana.

Þetta lokasvar ríkisstjórnar, banka og lífeyrissjóðana til lausnar skuldavanda heimilana, er ekkert annað en kjaftshögg á þá sem í gegnum tíðina, reynt að sýna ráðdeild og varkárni í sínum fjárfestingum. Reynt að fjárfesta ekki í fasteign nema að geta átt einhvern hluta af henni frá upphafi. 

Þetta sama fólk reynir eflaust líka, að eignast bíla með því að borga hvað mest út í þeim. Þetta  er að öllum líkindum, ekki með önnur dýr lán, eins og t.d. yfirdráttarlán og önnur neyslulán á bakinu.  Þetta fólk á alla jafna betur með að standa skil á sínum skuldum, því að sparnaðarvenjur þess, hafa veitt því borð fyrir báru, ef eitthvað óvenjulegt kemur uppá.

Þetta er með öðrum orðum fólkið sem ekki hefur verið komið í vandræði með sín lán fyrir hrun. Þetta fólk, er kannski ekki enn komið í vandræði með að borga af sínum lánum.  En þetta fólk hefur engu að síður, tapað stórum fjárhæðum, vegna lækkandi fasteignaverðs á meðan lánin hafa hækkað.  Þetta er fólkið sem borgar  fyrir, meinta fórnfýsi  banka og lífeyrissjóða, samkvæmt útreikningum á Hagsmunasamtaka Heimilana. Eins og dæmið hér að neðan sýnir:

„Hver borgar þetta fyrir bankana því ekki gera þeir það sjálfir? Tökum dæmi: Tvær fjölskyldur keyptu sér sitt hvora íbúðina í sama húsinu 2007 á 25 milljónir. Önnur fjölskyldan tók 100 % lán og skuldar í dag um 33,2 milljónir. Hin fjölskyldan átti 10 milljónir og tók því 15 milljónir að láni og skuldar í dag um 20 milljónir. Gefum okkur að íbúðirnar kosti í dag um 20 milljónir og lánin hafi hækkað um c.a. 33 % samkvæmt verðtryggingu. Samkvæmt leið ríkisstjórnarinnar þá fær fyrri fjölskyldan sem tók 100 % lánið afskrifað niður í 110 % og skuldar því 22 milljónir og hefur engu tapað þó hún skuldi 2 milljónir umfram verðmæti.

Hin fjölskyldan fær enga leiðréttingu, skuldar 20 milljónir og er búin að tapa þeim 10 milljónum sem hún lagði fram í upphafi þannig að hún er búin að borga fyrir leiðréttingu hins aðilans í þessu dæmi og gott betur. Þetta kostar ekkert fyrir bankana þegar verið er að færa lán í 110 % veðsetningu, veðsetningin var ónýt áður og ef þeim tekst að fá fólk til að borga af 110 % veðsetningu þá eru þeir að græða en ekki tapa því eðlilegt er að skuldari skuldi ekki meira en nemur verðmæti eignarinnar ef hann lagði eitthvað fram sjálfur í upphafi, ef bankinn lánaði honum 100 % í upphafi þá verður bankinn sjálfur að taka tapið af því. Það er enginn akkur í því fyrir neinn að skulda umfram verðmæti húsnæðissins síns og sinnar fjölskyldu."

Síðan munu allir skattgreiðendur á einn eða annan hátt greiða fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem og björgun hennar á Íbúðalánasjóði.  Enda hlaupa þær aðgerðir á milljörðum. Þá milljarði er ekki að finna, nema með auknum tekjum ríkissjóðs, eða þá auknum niðurskurði. Niðurskurðurinn er kominn nánast að beini þannig að varla verður mikið skorið niður til viðbótar því sem nú er, án skelfilegar afleiðinga.  Þá er tekjuaukningin eftir. Henni er hægt að ná með sársaukafullu og röngu leiðinni, hækkun skatta, sem þó eru líkur á að skili ekki því sem til er ætlast, eða þá á þann hátt að allir ,,græði", þ.e. að stækka eða víkka skattstofnana, með aukinni verðmætasköpun og atvinnu.

 


mbl.is Hinir ráðdeildarsömu tapa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin skattheimta og niðurskurður?

Jæja þá hafa stjórnvöld í samstarfi við banka og lífeyrissjóði, gefið sitt lokasvar í fjórða skipti, varðandi skuldavanda heimilana. Hversu langt það kann að ná til lausnar vandanum, er kannski ekki hægt að koma auga á í fljótu bragði. Samt gætu mörg heimili enn verið í töluverðum vanda, vegna annara og jafnvel dýrari lána, en húsnæðislána, eins og t.d. yfirdráttarlána og/eða annarra neyslulána.

Líklegast eru bankar og lífeyrissjóðir bara að flýta óumflýjanlegu afskriftaferli. Þeim hefði líklegast líkað það betur, að fá að safna á afskriftarreikninga, áður en þeir byrja að afskrifa, frekar en að þurfa jafnvel að fjármagna þær á annan hátt.  Enda bankar og lífeyrissjóðir ekki að afskrifa neitt annað, en það sem ekki hefði innheimst af þessum lánum.

Hver einasta króna sem hins vegar felllur á ríkið (skattgreiðendur) hvort sem það, vegna hækkunnar bóta, eða frestunar á lækkun bóta, eða kostnaðar sem að fellur til vegna Íbúðalánasjóðs, mun krefjast aukinna tekna ríkissjóðs eða þá aukins niðurskurðar.

Skattboginn spenntur til fulls og vel það, þannig að varla liggja ósóttar tekjur ríkissjóðs þar, nema þá með aukinni verðmætasköpun og atvinnu.

Niðurskurður í því sem flestir ef ekki allir vilja standa vörð um, velferðinni, er töluvert yfir sársaukamörkum, þannig að vart verða meiri fjármunir sóttir í niðurskurð þar........

Það gæti því orðið þungur biti fyrir hina norrænu velferðarstjórn, að þurfa að fresta um óákveðna framtíð, kyngreindum fjárlögum, eða einhverjum álíka ,,mikilvægum" málaflokkum.


mbl.is Töfin kostaði milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 1683

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband