Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Skoðannasystur ósáttar.

Það þarf nú svosem ekki, í sögulegu samhengi, að koma á óvart að þau þrjú hafi valdið uppnámi á fundi Atvinnuveganefndar í morgun.  Enda þau þrjú oftar en ekki á skjön við það, sem þó er sátt um, þegar lög um stjorn fiskveiða eru til umræðu.

 Bókun Ólínu má sjá í fréttinni sem fylgir.  En hér að neðan birtast lokaorð bókunnar Lilju Rafneyjar:

 ‎,, Að lokum vil ég mótmæla harðlega að þeir þingmenn sem eru undirrituð og Ólína Þorvarðardóttir sem unnið hafa trúnaðarstörf fyrir stjórnarflokkana að sjávarútvegsmálum allt kjörtímabiliið hafi ekki verið tilnefndar í þann vinnuhóp sem skipaður var við þinglok síðastliðið vor."

 

Þegar um er að ræða hóp sem bara einn fulltrúi úr hverjum flokki situr í, þá hljóta menn að velja sína helstu talsmenn varðandi greinina í hópinn og þá væntanlega þá einnig sem líklegir væru til þess að ná breiðri sátt í málaflokknum. Hafi einhvern tímann staðið til að ná sæmilegri sátt í málinu. Fara byr beggja.   Við þær aðstæður, þá væri varla við hæfi að velja í hópnn manneskjur sem hafa ekki einu sinni hljómgrunn innan sinna eigin flokka í hópinn.

Hvorki Lilja né Ólína hafa getað tjáð sig um sjávarútveginn á annan hátt en að vekja upp væringar innan eigin flokka, svo ekki sé minnst á aðra flokka á þingi.

 Þær tvær fengu reyndar sinn séns til þess að koma með tillögur fyrir ári síðan, sem lítinn hljómgrunn hlutu, innan flokka þeirra eða þingsins. Það hefði af þeim sökum ekki verið klókt að skipa þær í þennan hóp.  

Góðu heilli er líklegra en ekki, að breytingar á kvótakerfinu verði bara hluti af því sem lagt var upp með í upphafi.   Enda þær breytingar það umdeildar að stjórnarflokkarnir sem undanfarin misseri hafa verið í frjálsu fylgisfalli, þora vart að leggja þær fram og þvæla þeim í gegnum þingið í undanfara kosninga.

 

Stóra fréttin er nú samt sem áður  sú, að eftir nærri þriggja og hálfs árs stjórnarsetu og vinnustundir sem enginn hefur varla lengur tölu á, eru stjórnarflokkarnir enn að karpa sín á milli og innbyrðis um sjávarútvegsmál.  Án árangurs og eru  enn í bullandi ágreiningi sín á milli. 


mbl.is Andsnúin vinnu nefndarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna og aukning húsnæðislána í vonlausri stöðu lántakenda.

Í umræðunni um ,,plástralækningar" stjórnvalda á skuldavanda heimilana, hefur nánast alveg gleymst að geta þess, að einn þeirra ráðherra er boðið hefur upp  á slíkar lækningar, er jú upphafsmaður þeirra vandræða hjá mörgum þeirra er í stærstum vanda eiga í dag.  

Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, kom eftirfarandi fram í ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar:

" Forsætisráðherra bætir um betur og segir að skuldir heimilanna hafi orðið til fyrir bankahrun. Þrátt fyrir að forsætisráðherra sé ekki alltaf nákvæmur þá er það rétt að það fólk sem tók sín lán á árinu 2008 er í langmestum erfiðleikum.

Hver lánaði til húnæðiskaupa árið 2008?

Það var bara einn banki sem lánaði það ár og setti reyndar met í útlánum! Og hvaða banki skyldi það nú vera, jú það var Íbúðalánasjóður.

Ráðherrann sem fór með þann sjóð, þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hreykti sér af því í fjölmiðlum að hafa náð að auka lán úr sjóðnum.

Það fólk sem tók Jóhönnulánin í góðri trú árið 2008 er ekki í góðri stöðu í dag."

 Stór þáttur í gríðaraukningu lána Íbúðalánasjóðs er sá að, snemma sumars 2008 rýmkaði Jóhanna, með reglugerð, lánsskilyrði hjá sjóðnum, með þeim afleiðingum að lántökur jukust um ca. 60% frá 1. júlí fram að hruni miðað við síðustu þrjá mánuði þar á undan. Eða úr u.þ.b. 1600 lánum frá 1. apríl til 30 júní í u.þ.b. 2800 lán tímabilið 1.júlí og fram að hruni. 


mbl.is Fullt tilefni til bjartsýni og sóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að standa vörð um heilbrigðiskerfið og kvennastörf.

Það er alveg hægt að fallast á það, að ,,báknið" (ríkið) hafi vaxið um of, árin fyrir hrun og fækkun ríkisstarfsmanna, því eðlileg afleiðing þess.

En það passar samt illa inn í mengi ríkisstjórnar sem gefur sig út fyrir að standa vörð um heilbrigðiskerfið og stöðu kvenna á vinnumarkaði, að störfum fækki mest í heilbrigðiskerfinu. Enda má nánast slá því föstu að ríflegur helmingur fækkunnar starfa í heilbrigðisgeiranum, hafi verið kvennastörf.

Enn á ný sést, hversu hlutur kvenna á vinnumarkaði, er í hávegum hafður.  Ekki nóg með það að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar brjóti jafnréttislöggjöfina, sem annar þeirra hafði reyndar veg og vanda að, þá hefur launamunur kynjanna, hjá ríkinu, aukist stöðugt frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum. En frá árinu 1998og fram að hruni, hafði launamunur kynjanna farið minnkandi, ár frá ári.  

Það er því alveg ljóst að loforð stjórnvalda um heilbrigðiskerfið og stöðu kvenna á vinnumarkaði, voru ekkert annað en, frasakennt bull sem ,,sándar" vel, líkt og orðin fögru um skjaldborg heimilana í landinu.   


mbl.is 16.433 ríkisstarfsmenn árið 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuræða Ögmundar.

„Magma fór sem sagt á svig við vilja löggjafans en gæti komist upp með undanbrögð í þröngri túlkun á lagabókstafnum og með hliðsjón af formlega skráðum eignatengslum. Með öðrum orðum, formlega séð kunni salan að standast þótt veruleikinn hrópi á allt annað!“

Undirritaður fær nú illa séð, hver andstaða löggjafans, Alþingis hafi verið við málið.  Í nefnd er fjallaði um málið er í sátu fulltrúar flokkanna á þingi, utan Hreyfingarinnar að ég hygg, voru viðskiptin samþykkt af fulltrúum flokka er hafa nærri 3/4 þingsæta.

Hafi leikið vafi á lögmæti ákvörðunarinnar, þá hefði auðvitað átt að fara með málið fyrir dómstóla.  Sú leið var hins vegar ekki farin, heldur var starfshópur settur í málið, að kröfu Vinstri grænna.  Það var þeim hins vegar ljóst frá upphafi, sem á það vildu koma auga, að sá starfshópur gæti aldrei og myndi aldrei, úrskurða um lögmæti viðskiptana.  Eins og ætla mætti að tilgangur starfshópsins, hafi átt að vera.

 Stofnun starfshópsins var í rauninni ekkert annað en ein af fjölmörgum leiksýningum sem stjórnarflokkarnir hafa sett  á svið Skjaldborgarleikhúsinu.  Ein af þessum leiksýningum sem engan annan tilgang hafa, en að halda hinni norrænu velferðarstjórn saman.

Ögmundur lætur þess hins vegar ógetið, að þrátt fyrir að viðskipti þau sem Magma átti með HS-Orku heyrðu undir Viðskiptaráðuneytið, þá má rekja upphaf þess til funda í Iðnaðarráðuneyti Össurar Skarphéðinssonar, þar sem fulltrúum Magma var, af einhverjum ástæðum, ráðlagt frá því að stofna íslenskt félag um kaupin.  Betra væri að notast við sænsku skúffuna.

Yðar einlægur veit svo sem ekki, frekar en aðrir, hvað kann að búa í veruleika Ögmundar.  Enda er það mál varla til, sem að hann hefur ekki stígið í eða úr . 

 Veruleikinn er hins vegar sá, að yfirgnæfandi líkur eru á því að viðskipti Magma hafi verið með lögmætum hætti.   Hvort þau séu siðlaus eða ekki, má svo deila um.

Það liggur hins vegar alveg morgunljóst fyrir, að hvorki Ögmundur né aðrir í þingliði Vinstri grænna, hafa lagt það til marktækum hætti, að þeim lögum sem viðskipti Magma rúmast innan verði breytt.  Enda eru þau lög hluti af EES-samningnum.

Krafa um breytingar á þeim samningi, myndu torvelda enn frekar aðildarferlið að ESB.  Aðildarferli sem Ögmundur er, að eigin sögn, mótfallinn ,,í prinsippinu" þó hann hafi ekki greitt atkvæði gegn því í þinginu þann 16.júlí 2009. 


mbl.is Óheiðarleiki sem ekki fór í dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyndilegur kynjahallaáhugi RÚV!

Fréttamenn RÚV fóru mikinn í kvöld yfir því að Ólöf Nordal, hafi ákveðið að láta gott heita í pólitík.  Í bili í það minnsta.  Var fréttin tengd við þann atburð þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skipti um þingflokksformann í vikunni þar sem Illugi Gunnarsson tók við af Ragnheiði Elínu Árnadóttur.

Var í fréttinni látið líta svo að þessar tvær konur, sem um er rætt, hafi horfið úr forystusveit flokksins. Það er í besta falli hálfur sannleikur, þar sem Ólöf mun flytjast búferlum til Sviss þar sem eiginmaður hennar starfar.  

Hins vegar er það meira en líklegt að Ragnheiður Elín muni leiða flokkinn í Suðurkjördæmi í næstu þingkosningum og ef að fer fram sem horfir, þá mun flokkurinn koma best út í því kjördæmi og vinna stórsigur.  Það er vart hægt að ímynda ser  að manneskja sem leiðir lista flokks í kosningum, sé ekki í forystusveit hans.  Auk þess sem að Ragnheiður Elín mun án efa sem oftar vera áberandi í þinginu í vetur.  Það er því vart hægt að segja hana hafa horfið úr einhverri forystusveit, þó titilinn kannski vanti.

Það er samt ekki annað að sjá, en að þessi kynjahallaáhugi Fréttastofu RÚV sé nýr af nálinni.  Ekki minnist ég þess að fréttastofan hafi talað eitthvað sérstaklega um kynjahalla í þingflokki Samfylkingar, þegar þær Steinun Valdís Óskarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir, sögðu af sér þingmennsku og tveir karlar settust á þing fyrir þær.  Ekki nóg með það, heldur var kynjahallinn svo enn frekar aukinn þegar Magnús Orri Schram var kosinn formaður þingflokksins við brothvarf Þórunnar.  En ekki einhver konan sem eftir var í þingflokknum.

Einnig þótti það lítil áhrif hafa á kynjahallann í Vinstri grænum þegar Guðfríði Lilju Grétarsdóttur var bolað burt úr embætti formanns þingflokks Vg.  Það þykir nefnilega ekki fín latína að tala um þessa hluti, eigi þeir sér stað innan raða vinstri flokkanna, flokka jafnréttis og réttlætis.  Skiptir það engu þó ráðherrar þessara flokka hafi á kjörtímabilinu í tvígang brotið jafnréttislöggjöfina og launamunur kynjana hafi einnig aukist á kjörtímabilinu.

Ætla má að sökum þessa skyndilega áhuga Fréttastofu RÚV á kynjahalla í stjórnmálaflokkum, að fréttastofan leggi hart að Jóhönnu Sigurðardóttur, að vera formaður Samfylkingarinnar eitthvað áfram, svo kynjahallinn aukist ekki þar.  Enda eflaust ekki biðröð af konum í flokknum sem sækjast eftir því að taka við þeirri flokksrest er hún mun skilja eftir sig. 


Er hægt að fjölnýta fleiri ríkisforstjóra?

Samkvæmt fréttinni, sem þessi pistill sprettur upp af, virðist það bara vera ca. 50% starf að vera forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss.  Landspítalinn er langstærsti vinnustaður landsins og eflaust einnig einn sá dreifðasti, þar sem starfsemin fer fram á tugum staða í borginni.

Það hlýtur að leiða hugann að því hvort að í öðrum ríkisfyrirtækjum, þar sem minna gengur á, væri ekki hægt að nýta forstjóranna í eitthvað annað, hálfan daginn eða brot úr degi.  Forstjóri ÍLS gæti t.d. svarað í símann eftir hádegi á meðan sá starfsmaður er það gerir fyrir hádegi, sér um þrif á skrifstofunni, fer í sendiferðir eða eitthvað viðlíka.  Báðir starfsmennirnir gætu svo þegið full laun fyrir aðalstarfið og eitthvað aukalega fyrir aukastarfið.

Þó eflaust væri þetta víða hægt, þá þetta nú líklegast ekki raunin. Enda ætti það nú bara að vera svo, að öll þau störf sem starfsmaður vinnur í venjulegum vinnutíma, ættu að vera innfalin í þeim launum sem í boði eru.  

 Undirritaður starfar í byggingageiranum og þar eru flestir verkstjórar iðnmenntaðir og aðrir yfirmenn tæknimenntaðir.  Margir verkstjóranna, gætu verkstýrt fyrir hádegi og komið hlutunum þannig fyrir að ekki þyrfti að verkstýra eftir hádegi.  Þeir gætu því unnið við sína iðn eftir hádegi og þegið laun fyrir hvoru tveggja.  Eins gætu margir þeirra tæknimenntuðu, klárað þessi ,,leiðinlegu" skrifstofustörf fyrir hádegi og t.d. unnið við mælingar eftir hádegi. Menn fengju auðvitað full laun fyrir aðalstarfið og svo eitthvað aukalega fyrir þau verk sem þeir taka að sér og heyra ekki beint undir þeirra verksvið.

Yðar einlægur starfar við að þjónusta það verk sem hann vinnur við.  Kannski væri nú bara hægt að skipuleggja þjónustunna þannig, að henni mætti ljúka á hálfum degi og nýta þá hinn helming dagsins í önnur verk á byggingastað.  Ég fengi samt full laun fyrir þjónustuna og svo eitthvað aukalega fyrir hin verkin. 

Sú réttlæting á launahækkun Björns er því á afar veikum grunni byggð.  Enda varla hægt að greiða honum full forstjóralaun, sé það starf eingöngu bara 50% starf.  Forstjóri í hálfu starfi, ætti því sem slíkur að fá bara hálf forstjóralaun. 


mbl.is Fjölhæfur forstjóri LHS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þú brýtur lög þá bara breytirðu þeim.....

,,Þá segir hann mikla umræðu hafa verið frá bankahruni um laun forstöðumanna ríkisstofnana og að sú umræða haldi áfram aðspurður um ákvæði laga um kjararáð. Þá standi til að breyta lögum um ráðið.“

Það má svosem setja þessa launahækkun til Björns í samhengi við laun annarra stétta og finna það út, að jafnvel hækkunin eingöngu, er  á við tvöföld ef ekki þreföld verkamannalaun.  Kannski er hækkunin fullbrött og kannski ekki.  En ætla má að hækkunin verði fordæmisgefandi  varðandi aðra ríkisforstjóra.

Það má svosem hafa hvaða skoðun sem er  á  launum Björns , hvort þau eigi að vera hærri eða lægri. En líklegast er hann verður launa sinna.

Hins vegar finnst mér tilvitnunin, hér að ofan, mun athyglisverðari með tilliti til uppákomna við ráðningar stjórnvalda, undanfarin misseri.

Eftir að tveir ráðherrar ríkisstjórnar sem kennir sig við jafnrétti og réttlæti, hafa brotið jafnréttislöggjöfina,  er farið að tala um að henni þurfi að breyta.   Það er í rauninni soldið skondið, þar sem annar hinna brotlegu ráðherra, hafði veg og vanda að þeirri jafnréttislöggjöf sem talað er um að breyta þurfi.

Guðbjartur Hannesson treystir sér ekki til þess að vinna innan ramma laga um kjararáð og þá fer í gang umræða um að breyta þurfi lögum um kjararáð.  Í það minnsta því ákvæði þess efnis að enginn ríkisforstjóri skuli hafa hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra.  En það var einmitt sá forsætisráðherra sem nú situr, sem kom því ákvæði á.

Það mætti því ætla að  tilgangur þessara lagasetninga  og lagabreytinga, hafi fyrst og fremst verið sá að láta þær  ,,lúkka vel“,  án þess að einhver metnaður hafi verið fyrir því að fara eftir þeim.


mbl.is Hækkaði laun forstjórans um 450 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðgjafinn Björn Valur.

„Ef dómur verður á annan veg verður ráðherra að mínu mati að víkja úr embætti. Það sama á við ef ráðherra leitar hvorki sátta né til dómstóla. Þetta á að mínu mati almennt við um mál af þessu tagi, óháð því hver ráðherrann er.“

Ekki minnist ég þess að Heilagri Jóhönnu hafi staðið til boða, ráðgjöf Björns Vals, er Héraðsdómur staðfesti úrskurð Kærunefndar jafnréttismála gegn henni.  Enda hefði það nú verið argast dónaskapur þar sem að Heilög Jóhanna átti nú veg og vanda að þeirri jafnréttislöggjöf sem hún síðar sjálf braut.

Svo er nú líka einnig mögulegt og í rauninni mun líklegra, að Heilög Jóhanna sé ekki á ,,hit list" stjórnarflokkanna.  Af þeim sökum hafi ekki verið gefið út skotleyfi á hana, líkt og greinilegt er að hefur verið gefið út á Ögmund.

 En við getum þó huggað okkur við það, að í ríkisstjórn réttlætis og jafnréttis, standa kynin hnífjöfn, hvað varðar gerendur í jafnréttislagabrotum.   Enn sem komið er, í það minnsta. 

 


mbl.is Björn Valur leggur Ögmundi línurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir punktar um jafnréttislagabrot.

Það eru  tveir punktar sem vert er að tína fram, varðandi þessi tvö brot á jafnréttislögum, sem Jóhanna og Ögmundur hafa orðið uppvís af.

1. Hæfnisnefndin sem dæmdi karlinn hæfari í Jóhönnumálinu, gaf konunni einkunnina 0 fyrir ensku, þrátt fyrir að hún hafi numið stjórnsýslufræði við bandarískan háskóla og unnið í stjórnsýslunni á tveimur stöðum í USA. Sú einkunn kann að hafa ráðið baggamuninn, varðandi hæfni umsækjenda. Hæfnisnefndin ætti í rauninni að mæta fyrir til þess bæra nefnd þingsins, Stjórnskipunnar og eftirlitsnefnd eða þá Allsherjarnefnd og gera grein fyrir því fyrir nefndinni, hvernig hún fékk þessa einkunn út varðandi enskuna og hvort að hæfnisnefndin hafi í rauninni verið þvinguð til þess að dæma konuna niður.

2. Í Ögmundarmálinu, metur hæfnisnefndin konuna jafnhæfa eða hæfari, en Ögmundur skautar framhjá því, sökum þess að erfitt er að reka embætti sýslumanns á Húsavík vegna fjárskorts.

 Hvað varð um kynjaða hagstjórn? Er hún bara einn af þessum spari og tyllidagafrösum stjórnarflokkanna?


mbl.is Sakar forystuna um að vilja kljúfa flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hæstvirtur afleysingaráðherrann að grínast eða.....?

„Það sem mér finnst vera jákvætt í því sem er að gerast núna er það að sveitarfélögin ætla að kaupa jörðina og þar með er hún komin í opinbera eigu,“ segir Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra spurð út í fyrstu viðbrögð sín.“

Fyrstu viðbrögð síðuritara voru þau, að vonandi væri hæstvirtur afleysingaráðherrann að grínast.  Ef ekki þá er ráðherrann líklegast sú eina sem ekki áttar sig á því að sveitarfélögin eru ekkert annað en leppur fyrir Nubo og hans fjárfestingafélag.

 Í heilan mannsaldur eða lengur munu hinir svokölluðu ,,eigendur" jarðarinnar, lítil sem engin yfirráð hafa yfir jörðinni.  Sá sem leigir mun í rauninni verða hinn eiginlegi eigandi jarðarinnar.  Þannig að sveitarfélögin eru í rauninni ekkert annað en ,,nytsamir sakleysingar" í áformum Nubos og félaga.

Hins vegar er það kannski athyglisverðast við þetta mál að hér kemur fram enn eitt málið þar sem stjórnarflokkarnir eru á öndverðum meiði um hvernig leiða eigi það til lykta.

Það eina sem haldi stjórninni saman, séu slæmar atvinnuhorfur margra stjórnarþingmanna og viðhengja stjórnarflokkanna, springi stjórnin.  Auk þess að sýna verði þjóðinni að ,,hrein" vinstri stjórn geti alveg lafað eitt kjörtímabil.

Það sé í rauninni afar auðvelt.  Annar stjórnarflokkurinn leggst bara á gólfið og verður gólfmotta fyrir hinn flokkinn. 


mbl.is Styðja kaup á Grímsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband