Leita í fréttum mbl.is

Stefnan tekin á Mannréttindadómstól Evrópu.

Hvað sem fólki kann að finnast um málsókn Alþingis á hendur Geirs Haarde fyrrverandi forsætisráðherra og meintar sakargiftir hans, þá getur fólk vart skrifað upp á þá málsmeðferð  sem stjórnvöld og stjórnarmeirihlutinn viðhafa í málinu.

 Fyrsta klúður í málsmeðferðinni, eftir ákvörðun um ákæru, var kjör saksóknara og varasaksóknara Alþingis.  Þar var gróflega farið á svig við lög um landsdóm og jafnvel voru þá lögin brotin.  Í lögum um landsdóm segir að Alþingi skuli jafnframt kjósa saksóknara og varasaksóknara.  Orðið ,,jafnframt" merkir í þessu sambandi: Að um leið og ákvörðun um ákæru er tekin, þá skuli þessir tveir saksóknarar kosnir af Alþingi, á sama löggjafarþingi og tekur ákvörðun um ákæru. Ekki því næsta, eins og gert var.

 Forseti landsdóms, jafnan er forseti Hæstaréttar, lét hjá líða í rúma tvo mánuði að skipa lögmann fyrir Geir, þó svo að lög um landsdóm, segi svo um.  Fór þar dómforsetinn undan í flæmingi með aðstoð skrifstofustjóra síns, með orðhengilshætti um það að tæknilega séð, þá væri Geir ekki ákærður, þó ákvörðun um slíkt hafi legið fyrir í rúma tvo mánuði.  Forseti landsdóms ákvað svo að brjóta odd af oflæti sínu með því að skipa verjanda fyrir Geir, eftir að hafa ráðfært sig við saksóknara Alþingis (ákærandans).  Eins og að saksóknari eigi eitthvað með það segja hvenær einstaklingur með stöðu sakbornings, eigi að fá skipaðan verjanda.

 Síðan eru bæði saksóknarinn og dómforsetinn í ráðgjafavinnu fyrir Dómsmála og mannréttindaráðuneytið, vegna lagabreytinga um landsdóm, er fara á í nú tæpum þremur mánuðum, eftir að ákveðið var að ákæra Geir á grundvelli þeirra laga um landsdóm, er þá voru í gildi og það, þrátt fyrir að Alþingi hafi ekki talið ástæðu til lagabreytinga þegar ákveðið var að ákæra. 

Ef landsdómur vísar ekki málinu frá vegna hinnar fáheyrðu málsmeðferðar sem þegar er orðin að veruleika, er alveg ljóst að mannréttindadómstóll Evrópu mun dæma Geir í vil og ógilda málið. Það væri mikil skömm fyrir það fólk sem að þessu stendur. Ef það gerist, þá á forseti landsdóms auðvitað ekki annan kost en að segja þegar af sér sem hæstaréttardómari og í raun allir þeir hæstaréttardómarar er skipa munu landsdóm. Eins ættu þessar fíflalegu æfingar vegna málsins að verða í réttarsögu Íslands að dæmi sem kennt væri í skólum öðrum til varnaðar.  

Einnig ætti þá dóms og mannréttindaráðherra ( verði hann enn í embætti) ásamt þeim þingmönnum, er styðja þennan fíflagang ráðherrans að hugsa sinn gang, verði farsinn ekki stoppaður af, áður en að Mannréttindadómstóll Evrópu, tekur réttvísi ,, Nýja" Íslands til bæna.


mbl.is Allt rangt við þetta frumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír dæmdir ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu og einn aðstoðarmaður, hið minnsta.

Á síðustu metrunum  í embætti landbúnaðarráðherra vorið 1991 keypti Steingrímur í fullkomnu heimildarleysi mannvirki (níu refahús) af bændum á ríkisjörðunum Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi fyrir 47 milljónir króna. ( Hversu há skildi sú upphæð vera framreiknuð til dagsins í dag?) Var hann þar að gera þessum mönnum greiða af einhverjum ástæðum.

Ríkislögmaður taldi að þessi kaup væru ólögleg þar eð heimildar Alþingis var ekki leitað fyrir þeim eins og kveðið er á um í 40. grein stjórnarskrárinnar. Fór málið fyrir Héraðsdóm og Hæstarétt og töpuðu bændurnir málinu á báðum stigum. Komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að ríkið þyrfti ekki að efna samning Steingríms.

Í lögum um ráðherraábyrgð segir að ráðherra skuli sæta ábyrgð ef hann leitar ekki heimildar Alþingis þegar stjórnarskráin kveði á um það, eins og var í þessu dæmi.

Það liggur þá fyrir að að í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, ríkisstjórn Hins Nýja Íslands með allt upp á borðum, löðrandi af heiðarleika og faglegum vinnubröðgum, sitja þrír ráðherrar er fengið hafa dóma fyrir störf sín í ráðherraembætti.  Synjun Svandísar á skipulagi Flóahrepps var dæmd ólögmæt í undirrétti. Svandís áfrýjaði, en lögfróðir menn telja að Hæstiréttur staðfesti dóm undirréttar.  Jóhanna Sigurðardóttir var svo sjálf dæmd í undirrétti árið 2009, fyrir brot á jafnréttislögum, við mannaráðningar, er hún gengdi embætti félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Haarde. Jóhanna ákvað að una dómnum og var þeim aðila er brotið var á, greidd rúm milljón í bætur auk þess sem sakarkostnaður féll á Ríkissjóð.  

  Á síðasta áratug síðustu aldar fékk svo Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu dóm fyrir skattalagabrot, er hann ásamt Helga Hjörvari alþingismanni átti og rak fyrirtækið Arnarson & Hjörvar.  Sú staðreynd aftraði Jóhönnu hins vegar ekkert við það að skipa Hrannar sem fulltrúa Forsætisráðuneytisins í nefnd um skattamál.   


Ef engin aðlögun fer í gang, þá er ferlið stopp.

Það breytir því engu þó Steingrímur J. þræti fyrir það eins og argast sprúttsali, að engin aðlöðun verði, fyrr en samningur um aðild og samþykkt þjóðarinnar á honum liggi fyrir, að hann fer með rangt mál.  Vona samt hans vegna að það sé ekki gegn betri vitund sem hann geri það.  Enda er hann orðinn æði langur listi sá er hýsir bommertur Steingríms, framkvæmdar gegn betri vitund.

Sé það svo, eins og Steingrímur heldur fram, að engin aðlögun sé komin í gang og engin aðlögun eigi sér stað, fyrr en að loknu samningaviðræðum og þjóðaratkvæði um útkomuna, þá er aðildarferlið stopp. 

En hins vegar er ferlið á þeim stað, sem Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur lýst yfir að fram eigi að fara þjóðaratkvæði.  Í ályktunum Vg. stendur að greiða eigi þjóðaratkvæði um það hvað sé í boði, að loknu umsóknarferli.  Umsóknarferlinu lauk, er ESB sendi íslenskum stjórnvöldum kröfur sínar um aðlögun Íslands að ESB.

Í lögum ESB segir svo, að þegar umsókn um aðild að ESB berst sambandinu, þá fari í gang hjá umsóknarþjóðinni aðlögunnarferli að ESB, þegar ESB hefur samþykkt umsóknina. Eftir hvern kafla reglugerða og laga ESB, er lokið er að aðlaga umsóknarþjóð, þá eru gerðir samningar um kaflann og þær aðferðir er nýaðlagaðar reglugerðir, skuli praktiserast hjá umsóknarþjóðinni og hjá ESB, gagnvart umsóknarþjóðinni. Þannig gengur þetta fyrir sig koll af kolli þar til alger aðlögun hefur átt sér stað, og samningar vegna allra kaflana eru klárir.

 Viti Steingrímur ekki þetta, þá hefur hann annað hvort ekki lesið reglugerðir ESB, eða þá að hann skilur ekki það tungumál sem þær eru á.  Hann ætti því að biðja Össur vin sinn um að láta þýða fyrir sig eins og eitt eintak af reglugerðum ESB, svo hann skilji nú hvar í veröldinni hann er staddur.


mbl.is Ekki um fyrirfram aðlögun að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave og einkavæðing bankanna, ,,hin síðari".

Líklegast mun nú þessi rannsókn á Icesave ekki vera samþykkt á Alþingi í það minnsta á meðan Bretavinnuflokkarnir ráða þar ríkjum. En hver veit hvað gerast kann ef nýtt kjörtímabil, dettur snögglega inn.  Hins vegar þrátt fyrir að menn tali nú um "betri lausn" á Icesave, en nokkru sinni fyrr, þá gæti nú farið svo að sú lausn verði ekki eins glæsileg og menn lesa úr tölum.  Fyrir nokkrum vikum þá var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur dómsmál, þar sem kröfuhafar Landsbankans, aðrir en ríkið, Hollendingar og Bretar, stefna skilanefnd bankans.  Stefnan gengur er að mig minnir eitthvað tengd neyðarlögunum og kröfuröðinn í þrotabú Landsbankans.  Fari það má á versta veg, þá gæti kröfuröðin breyst á þann hátt að, mun minna náist upp í Icesaveskuld bankans en áætað er.  Það gæti snarhækkað þá upphæð sem Ríkissjóður (skattgreiðendur) þyrftu að láta af hendi, vegna Icesave, fari svo að boðaður Icesavesamningur sé nánast samhljóða þeim fyrri, bara breyttar vaxtatölur.

Einkavæðingu bankanna ,,hina síðari" á svo að sjálfsögðu að rannsaka, þó svo að það væri ekki nema fyrir það að þegar fyrsti gengislánadómur Hæstaréttar féll, þá hótuðu kröfuhafar bankanna skaðabótamáli á hendur ríkinu, ef allt færi á versta veg í dómskerfinu vegna gengistryggðra lána.  Samið var við kröfuhafa bankanna um færslu gengislánasafnana yfir í nýju bankana úr  þeim gömlu, þó svo að stjórnvöld hefðu þá, þrenn lögfræðiálit um ólögmæti gengislána undir höndum. Auk þess var umræðan um þau lán á þann hátt, að kröfuhöfum bankana má einnig hafa verið ljósar efasemdirnar um ólögmæti þeirra.  Skaðabótakrafan væri því varla uppi nema stjórnvöld hefðu ábyrgst það í samningaviðræðum um einkavæðingu bankana ,,hina síðari" hefðu lofað að bæta kröfuhöfum skaðann, færu gengislánin á versta veg.


mbl.is Rannsóknarnefnd um Icesave til umfjöllunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er í lagi að....

LÍÚ kosti vinnu stjórnvalda við nýja fiskveiðilöggjöf og kynningarherferð vegna hennar?
Er í lagi að Rio Tinto og Alcoa kosti vinnu stjórnvalda við nýja stóriðjulöggjöf og kynningarherferð vegna hennar?
Er í lagi að Bændasamtökin kosti vinnu stjórnvalda við nýja landbúnarlöggjöf og kynningafherferð vegna hennar?
 Er í lagi að bankar og aðrar fjármálastofnanir kosti vinnu stjórnvalda við nýja fjármálalöggjöf og kynningarherferð vegna hennar?
 Er í lagi að Actavis kosti vinnu stjórnvalda við nýja lyfjalöggjöf og kynningarherferð vegna hennar?
Er í lagi að 365 miðlar kosti vinnu stjórnvalda við nýja fjölmiðlalöggjöf og kynningarherferð vegna hennar?
Er í lagi að Hagar, Norvík og fleiri ráðandi aðilar í verslunarrekstri kosti vinnu stjórnvalda við gerð nýrra samkeppnislöggjöf og kynningarherferð vegna hennar?

Hefurðu svarað öllum þessum spurningum neitandi/játandi?

Finnst þér þá í lagi að ESB kosti stjórnsýslu og lagabreytingar í þágu ESB-aðildar og kynningarherferð vegna þeirra?


Það er enginn að misskilja, nema kannski Ögmundur og hans fólk.

,,Að flýta ferlinu, láta reyna á meginálitamálin, yfirráð yfir sjávarauðlindinni, landbúnaði og grunnatriðum í sjálfsákvörðunarrétti.

„Þennan skilning má lesa út úr framantilvitnuðu auk þess sem talað er um að stöðva aðlögunarferlið og fjárframlög til að smyrja samningsferlið og þar með viljann til aðlögunar," skrifar Ögmundur."

Ögmundur Jónasson og hans fólk eru að misskilja þá stöðu sem ESBaðildarmálið er í.  Það er ekki hægt að komast að neinni niðurstöðu um meginálitamálin, nema Íslendingar aðlagi þá kafla er meginálitamálin fjalla um, að íslenskum lögum og stjórnsýslu.

Ferlið er að umsóknarríki tekur upp og aðlagar hvern reglugerðarkafla ESB að sínum lögum. Að því loknu er látið reyna á meginálitamálin. ESB semur ekki um meginálitamálin fyrirfram, heldur eftir aðlögun.

Umsóknarferli það er Vinstri grænir segjast vilja ljúka og vísa niðurstöðum þess til þjóðarinnar er löngu lokið. Því lauk er ESB sendi íslenskum stjórnvöldum kröfurnar um það, hvað þyrfti hér að aðlaga í stjórnsýslu og lögum, að reglugerðum og lagabálki ESB.

Reiða lýðræðissinnaða fólkið í þingliði Vinstri grænna, sem í daglegu tali er kallað órólega deildin, eru því þátttakendur í blekkingarleik forystu flokksins um það, að hægt verði eftir einhverjum VG-leiðum að leiða ESB-viðræðuferlið til lykta.  

Aðildarviðræðuferli við ESB eru bara leidd til lykta á einn hátt og eftir einni leið og þá leið velur ESB, ekki Vinstri hreyfingin  grænt framboð, eða einstaka þingmenn flokksins.


mbl.is Misskilningur að umræðan snúist um persónulegan ríg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af einkavæðingu bankana, hinni síðari og skuldavanda heimila og fyrirtækja.

Þegar einkavæðingu bankana hinni síðari lauk sumarið 2009, barði Steingrímur J. Sigfússon, sér á brjóst og sagðist hafa náð farsælli lausn við einkavæðingu bankana, með samningum við kröfuhafa bankana. Orðin ,,farsæl lausn" á þessum tímapunkti, hljóma hins vegar hrollvekjandi í ljósi þeirrar farsælu lausnar á Icesavedeilunni, er félagi Svavar Gestsson, hafði borið hingað til lands nokkrum vikum áður.  Talaði Steingrímur um að snilld sín og sinna manna í samningaviðræðum við kröfuhafana, hafi lækkað framlag ríkisins um tugi ef ekki hundruðir milljarða frá þeirri upphæð, er gert var ráð fyrir í upphafi.

Á Facebooksíðu Lilju Mósesdóttur, þingmanns Vinstri grænna, stendur eftirfarandi:

,,Afsláttur nýju bankanna á lánasöfnum gömlu bankanna var að hluta notaður til að hækka virði eigna nýju bankanna sem skýrir mikla andstöðu við lánaleiðréttingu. Þetta var gert til að minnka framlag ríkissjóðs með nýju bönkunum eða til að lækka greiðslu ríkissjóðs vegna 100% innstæðutryggingar. M.o.ö. ætlunin er að láta ...skuldarar greiða fyrir innstæðutrygginga með stökkbreyttum lánum og hærri sköttum."

Í svipuðum tilgangi, var svo lögfræðiálitum um ólögmæti gengistryggðra lána, er fram komu er samningaviðræður við kröfuhafa bankana stóð yfir, troðið undir stól eða látið líta út eins og hún væri ekki til. 

  Flest bendir einnig til þess að kröfuhöfum bankana hafi verið ljós, vafinn um lögmæti gengislánana. Stjórnvöld hafi hins vegar boðist til þess að baktryggja nýju bankana, gegn þeim skaða, er dómar vegna gengistryggra lána gætu valdið þeim, þá fyrst og fremst í þeim tilgangi að minnka framlag ríkissjóðs með nýju bönkunum líkt og gert var með hin lánasöfnin.

Eins og fólk kannski man, þá komu hótanir kröfuhafa bankana um skaðabætur á henur Ríkissjóði, eftir fyrsta hæstaréttardóminn, vegna gengistryggðu lánana og voru kröfurnar í fyrstu miðaðar við það að samningsvextir þeirra lána yrðu látnir standa og skaðabótakrafan því, nálægt þeirri upphæð, er Ríkissjóður var sagður hafa sparað, í samningunum við kröfuhafana.

Eftir að þær kröfur komu fram, fóru því Seðlabankinn og FME að vinna við tilmælin um uppgjör gengistryggðra lána og niðurstaða þeirra, að lægstu verðtryggðu vextir Seðlabankans á lánstíma hvers láns, skyldi koma í stað, gengistryggingar og samningsvaxta.

 Það er því nokkuð ljóst, að þó svo að menn sjái eitthvað bókhaldslegt svigrúm bankana til tilslakana, þá munu þær tilslakanir ekki fást svo auðveldlega, án aðkomu Ríkissjóðs (skattgreiðenda), vegna samninga þeirra er stjórnvöld gerðu við kröfuhafa bankana á sínum tíma og kölluðu ,,farsæla lausn".

 


Eru Vinstri grænir viljandi að misskilja þau mismunandi ferli, er leiða til inngöngu í ESB?

Í ályktun flokksráðsfundar Vg., segir meðal annars:

,,Segir í ályktuninni að flokksráð ítreki einnig mikilvægi þess að niðurstaða þess umsóknarferlis sem nú standi yfir verði lögð í dóm þjóðarinnar."

Nú er það svo, ef að Vinstri grænir hafa ekki fattað það, að svokölluðu umsóknarferli er lokið. Því lauk er framkvæmdastjórn ESB og ráðherraráð, samþykkti umsóknina og lagði íslenskum stjórnvöldum línurnar, varðandi breytingar á stjórnsýslu og á þeim lögum, er breyta þarf, svo samningar um inngöngu og síðar innganga sé möguleg.

Núna er í gangi svokallaða aðlögunarferli, þar sem íslenskum stjórnvöldum ber að aðlaga íslenska stjórnsýslu að ESB-stjórnsýslunni og íslensk lög, að lögum ESB. Siðan eru gerð samningsdrög um hvern kafla ESB-regluverksins, uns allir kaflarnir hafa verið kláraðir.  Að því loknu verður þessu öllu sama dengt í aðildarsamning. Aðildarsamning sem Alþingi mun hafa lokaorð um, með samþykkt eða synjun á stjórnarfrumvarpi, um samninginn, að undangengnu ráðgefandi þjóðaratkvæði, sem er í raun ekkert annað en fokdýr skoðannakönnun ( 200-250 milljónir), með ca. 200.000 manna úrtaki.

Menn geta svo ímyndað sér líkurnar á því að stjórnarþingmenn úr röðum Vinstri grænna, felli stjórnarfrumvarp um aðildarsamninginn.

Ætli hins vegar Vinstri grænir að vera sjálfum sér samkvæmir og fylgja eigin ályktum, þá ber þeim að krefjast þess, að ferlinu verði slegið á frest á meðan kröfur ESB um stjórnsýslubreytingar og lagabreytingar eru kynntar þjóðinni og þjóðin fær að því loknu að kjósa um í bindandi þjóðaratkvæði, hvort áfram skuli haldið, eða hætt við.

  Allur annar málflutningur Vinstri grænna eða gjörðir,eru ekkert annað en svik forystu flokksins við meginþorra flokksmanna og kjósendur flokksins.


Órólega deild Vinstri grænna og atkvæðagreiðslur á Alþingi.

Eins og alþjóð ætti að vera orðið ljóst, þá er stærstur hluti almennra flokksmanna Vg. lítið sáttur við þá stefnu er forysta flokksins praktiserar í ríkisstjórn og á Alþingi.  Málsvarar þessa óánæguhóps, ganga undir nafninu ,,Órólega deild Vg.".

Í hvert skipti sem að upp koma mál, er grasrót flokksins mislíkar, eða er hreinlega á móti, þá er órólegu deildinni sleppt lausri og hún fær að þruma yfir landi óg þjóð, sínum skoðunum í undanfara þess sem þessi umdeildu mál, koma til afgreiðslu Alþingis.

 Í atkvæðagreiðslunni sjálfri, er svo gætt þess, að halda grasrótinni góðri, með því að ,,leyfa" ákveðnum hluta órólegu deildarinnar, að greiða atkvæði, gegn stefnu forystu flokksins.  Hins vegar er gætt að því að ekki séu á þingi, það margir úr órólegu deildinni, þegar atkvæðagreiðslan fer fram.  Hafa menn t.d. farið í frí til skrifborðstiltektar, til þess að þurfa ekki að greiða atkvæði gegn forystu flokksins og fella þar með þau mál sem ríkisstjórnin leggur fyrir þingið.

 Lúmskasta trixið var þó líklega þegar greidd voru atkvæði um Icesave 2, lögin sem forsetinn synjaði síðan staðfestingar.  Þá var staðan sú, að hefðu þeir meðlimir órólegu deildarinnar, er staddir voru í þingsalnum, greitt atkvæði eins og þeir vildu helst, þá hefðu þeir fellt frumvarpið. Enda hefðu þá 33 af 63 þingmönnum verið á móti frumvarpinu.

 Það sem að varð órólegu deildinni og í raun ríkisstjórninni til ,,bjargar" var tillaga stjórnarandstöðunnar, um að Icesavelögin færu í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Vegna þeirrar tillögu, gátu tveir meðlimir órólegu deildarinnar, greitt atkvæði, gegn sinni samvisku, með samningunum með þeirri réttlætingu að þeir ætluðu að greiða með þjóðaratkvæðinu. Hinir tveir af þeim fjórum meðlimum órólegu deildarinnar, greiddu hins vegar atkvæði gegn samningunum og þjóðaratkvæðinu.  Þar með var það tryggt að Icesavesamningurinn var samþykktur með 32 atkvæðum gegn 31, en þjóðaratkvæðið fellt með 31 atkvæði gegn 32.

 


Hlægilegar ályktanir flokksráðsfundar Vg.

Flokksfundur Vinstri græns framboðs haldinn 19.-20. nóv. 2010, ályktar meðal annars:

,,Segir í ályktuninni að flokksráð ítreki einnig mikilvægi þess að niðurstaða þess umsóknarferlis sem nú standi yfir verði lögð í dóm þjóðarinnar. Brýnt sé að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu fari fram opin og lýðræðisleg umræða í samfélaginu um kosti og galla þeirrar niðurstöðu sem kosið verði um.

„Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild. Flokksráðið hvetur til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis," segir ennfremur í ályktuninni sem var samþykkt í dag."

 Það sem Vg. eru í rauninni að biðja eða tala um þarna, hafi þeir einhver áhuga á vilja þjóðarinnar í málinu, er að aðildar/aðlöðunnarferlið verði stöðvað. Þær stjórnsýslu og lagabreytingar, er ESB krefst af okkur sem umsóknar og síðar aðildarþjóð, kynntar þjóðinni, sem kýs svo um það ferlinu verði haldið áfram.  Fari svo að Vinstri grænir standi fast á sínu, þá mun þjóðin ekki fá neinn samning í hendurnar til þess að taka afstöðu til. Umsóknarferlinu lauk nefnilega þegar ESB sendi til baka þær kröfur sínar um breytingar á íslenskum lögum og stjórnsýslu.

Eins og verið hefur undanfarin ár, þá fá stjórnvöld umsóknarþjóða í hendur gögn, frá Evrópusambandinu sem innihalda, þær breytingar á stjórnsýslu og lögum sem Evrópusambandið krefst lokið verði við áður en gengið er frá samningum. Það er eina mögulega leiðin til að ná samningum. ,,Norska leiðin" er ekki einu sinni til umræðu, heldur eingöngu það plan sem ESB leggur til, punktur.

Það sem að mun því vera í fréttum næstu vikur og mánuði, verða því fréttir af yfirlýsingaglöðum utanríkisráðherra Íslendinga, er vekur hlátur fundarmanna á fundum erlendis. 

Sá hlátur mun þó ekki vera af því að Össur sé  svona fyndinn, heldur vegna þess að fundarmönnum, mun finnast blaður hans á fundum, oftar en ekki til heimabrúks, hlægilega framsettar rangfærslur, sem engin rök eiga við að styðjast.

 Þessi ályktun Vg., er því hvorki né. Vg. í raun lýsa því yfir að þeir séu fylgjandi því að sækja um, en vilja hins vegar láta þar við sitja.   Hætt er þó við því að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, muni klára þá vinnu er lýtur að þeirra ráðuneytum, jafnframt því sem að þrýstingur á ráðherra Vg. mun aukast, með hótunum um stjórnarslit, að ,,þverum ráðherrum" verði skipt út fyrir ,,auðsveipari" og þar fram eftir götunum.  Með öðrum orðum mun ríkisstjórnin verða jafn óhæf til þeirra verka er þarf til að grípa, svo einhver séns verði á því að sjá fyrir endann á þeim dimmu göngum, sem þjóðin er í.

Samt er þó athyglisvert, hversu dræm mæting var á fundinum, aðeins 66 af 120 sem rétt hafa til setu á fundi sem þessum.  Það er því engu líkara, að flokksmenn óttist átök og klofning og kjósi frekar að sitja heima, en að mæta og taka afstöðu um jafnveigamikil mál.

Þá ályktuðu Vg. einnig um heilbrigðismál og þann mikla niðurskurð, sem ætlaður er í þeim málaflokki.  Sú ályktun er í raun, jafn hlægileg, ef ekki hlægilegri en ESB-ályktunin:

,,Samþykkt var ályktun um að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu verði endurskoðaður.  Flokkurinn hafi verið stofnaður til að standa vörð um jöfnuð og velferð. Leggur flokksráð VG áherslu á að þessi stefnumarkmið birtist í verki í fjárlögum næsta árs."

 Það sem gerir þessa ályktun hlægilega og í rauninni kjánalega, þó auðvitað megi virða viðleitnina, er að aðalábyrgðarmaður heilbrigðiskafla Fjárlaga, er einn af forystumönnum flokksins, Álfheiður Ingadóttir fyrrv heilbrigðisráðherra. Ábyrgðarmaður Fjárlagafrumvarpsins er svo formaður flokksins Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Reyndar var það nú svo, þegar Álfheiði var gert að víkja úr ríkisstjórn fyrir Ögmundi, þá lét hún hafa það eftir sér að það væri meðal annars til þess að hægt yrði að afgreiða Fjárlögin frá Alþingi.   Enda er það nær útlokað að þessar hryllilegu tillögur, er unnin var í hennar tíð í Heilbrigðisráðuneytinu,  verði nokkurn tíman samþykktur í þinginu.  Er þá allt ennþá á pari við það orðspor sem af Álfheiði fer, þ.e. að hún sé þver frekja sem ekki er nokkur von til að ná einhverjum sáttum við, séu þær sættir ekki á hennar forsendum.

Svo mætti alveg trúa því að þessar ömurlegu tillögur Álfheiðar hafi verið settar í frumvarpið í fýlukasti hennar yfir því, að til stæði að ýta henni til hliðar, til að rýma fyrir Ögmundi.

 

 

 


 


mbl.is Hagsmunum best borgið utan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband