Leita í fréttum mbl.is

Af almennu og sértæku aðgerðarleysi hinnar norrænu velferðarstjórnar.

Fljótlega upp úr hruni og sérlega eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vg. tók við, komu fram tillögur um almennar aðgerðir, til lausnar á skuldavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Var almennu aðgerðunum ætlað það að vera fyrsta skref af mörgum aðgerðum til lausnar á skuldavanda heimila og fyrirtækja í landinu.

Fyrst yrði gripið til almennra aðgerða og staðan tekin að þeim loknum og þeim hjálpað er þyrftu meiri hjálp.

Minnihlutastjórnin og núverandi stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur,  blésu á þessar aðgerðir.  Helsta ástæðan var sú, að það væru svo margir, sem hefðu ekkert við slíkar aðgerðir að gera. Enda ættu þeir alveg fyrir afborgunum á sínum lánum, þrátt fyrir það að lánin hefðu stökkbreyst.  Þeir sem væru því að fá ,,óþarfa“ aðstoð, væru því að græða meira en aðrir og slíkt myndi bara auka á ójöfnuðinn í þjóðfélaginu og þar fram eftir götunum.

Á móti var hins vegar bent á, að tjón allra væri í rauninni það sama.  Fólk og fyrirtæki hafi bara verið misvel búin undir þær hamfarir, sem áttu sér stað í hruninu og undanfara þess.  Auk þess var bent á það, að þeir aðilar sem ekki ,,þyrftu“ þessa aðgerð eða aðstoð og líka þeir sem  ,,þyrftu“ á henni að halda, myndu hafa meira fé á milli handanna.  Fé sem yki á veltuna í samfélaginu, sem kæmi þeim fyrirtækjum er framleiða fyrir íslenskan markað til góðs, auk þess sem skattstofn neysluskatta, hefði dregist minna saman, en raun var á.  Stærri skattstofn neysluskatta hefði svo aukið tekur ríkissjóðs, án allra þeirra skattahækkana er dunið hafa á þjóðinni, undanfarin tvö til þrjú ár.

Einnig hefðu fyrirtækin í landinu haft örlítið meira svifrúm til þess að vaxa, auka fjárfestingar, ráða fleira fólk eða í það minnsta halda í horfinu, þ.e. að  allar þær fjölda uppsagnir er dunið hafa á launþegum og í raun á þjóðinni allri, hefðu orðið mun fátíðari en raunin er.  Það hefði þýtt það, að skattstofn tekjuskatts einstaklinga og fyrirtækja hefði dregist minna saman og eins og með neysluskattanna, hefði minni rýrnun tekjuskattsstofnsins, skilað ríkissjóði mun meiri tekjum.

Núna í það minnsta tveimur árum eftir að áhrif almennu aðgerðanna, hefðu farið að ,,tikka inn“, telja menn sig sjá einhvern efnahagsbata í formi aukinnar neyslu landsmanna. 

Ástæður þess bata, er þó ekki hægt að rekja til þess að sértækar aðgerðir stjórnvalda og fjármálastofnanna séu svo vel heppnaðar. Nei öðru nær.  Hluta batans má skýra með því, að fólk hefur gefist upp á því að bíða eftir aðgerðum sem virka og hætt að borga af lánum sínum og hefur því meira fé á milli handanna.  Einnig hefur heimild til þess að taka út hluta séreignarsparnaðar, aukið ráðstöfunartekjur fólks .  Sú aukning kemur þó í bakið á fólki síðar meir, þegar það ætlar að njóta séreignarsparnaðarins, að lokinni starfsævi.  Einnig eru fyrirætlanir stjórnvalda um skattlagningu viðbótarlífeyris, sagðar muni auka á neysluna. En eins og með séreignasparnaðinn, þá kemur það bara síðar í bakið á fólki.

En kannski er stærsta mein sértækra aðgerða vegna skuldavanda heimila og fyrirtækja, allt flækjustigið og leyndin, sem þeim aðgerðum fylgja.  Fólk virðist ekki vera að fá það útúr slíkum aðgerðum, er þeim er ætlað að skapa.  Heldur virðist samkvæmt nýútkominni skýrslu nefndar um aðgerðir fjármálastofnanna, til lausnar skuldavandans, það vera svo að það reynist flestum í raun, nánast ómögulegt, að fá einhverja lausn á sínum málum. 

Það breytir því hins vegar ekki, að engu máli skiptir, til hvaða aðgerða er gripið til, við lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja, ef ekki fylgir í kjölfarið, aukin uppbygging og verðmætasköpun.

Hvort sem um er að ræða aðgerðir til lausnar skuldavanda heimila og fyrirtækja, eða til þess að skapa aðstæður til verðmætasköpunnar, hefur stjórnvöldum, mistekist frá A –Ö.  Það sem meira er og kannski enn alvarlegra er það, að stjórnvöld stæra sig af þeim árangri eða því árangursleysi, er einkennir störf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.


Magn er ekki sama og gæði.

,,Í upphafi yfirlýsingarinnar segir m.a. að ríkisstjórnin sé „mynduð um að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og leita þjóðarsamstöðu um leið Íslands til endurreisnar – nýjan stöðugleikasáttmála“.

Það vantar ekki að undirritaðir hafa verið stöðuleika sáttmálar, viljayfirlýsingar og sátt um nýja löggöf um stjórn fiskveiða. En það er bara einn hængur á. Allir þessir samningar eru í dag, varla pappírsins virði.

Það er þar að auki svo, að ekki er eins og allar fyrri ríkisstjórnir, hversu góðar eða slæmar þær hafa verið, hafa nú komið ymsu í verk, þó vissulega sé það mismikið, eftir ríkisstjórn.  

Gæði ríkisstjórna verða þó varla mæld með fjölda þeirra aðgerða, er þær ráðast í eða þá fjölda mála er þær þvæla í gegnum þingið.

Gæðin hljóta fyrst og fremst að mælast í hversu mikið af aðgerðum ríkisstjórnarinnar gagnast fólkinu í landinu.  

Hafi hinn norræna velferðarstórn Jóhönnu Sigurðardóttur, gagnast fólkinu í landinu, t.d.  skuldsettum fjölskyldum og fólki sem er án atvinnu,  þá væri það meira en velkomið að alþjóð yrði kynntar þær aðgerðir.  Enda eru  þær nær allar duldar þjóðinni sem landið byggir.


mbl.is Hafa lokið við 130 af 222
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfó og Bjögganir..........

Eins og fólk veit flest, þá kom Samfylkingin ekkert nálægt bankahruninu á Íslandi og vissi nánast ekkert af því, fyrr en það var yfirstaðið.  Jafnvel þó flokkurinn hafi verið í ríkisstjórn er ósköpin dundu yfir. 

Líklegast hefur það nú bara verið þannig, að ráðherrar flokksins í ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi verið ,,óvirkir" ráðherrar. 

En einhvern pata af hæfni neðangreindra einstaklinga, hljóta ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Jóhönnu að hafa haft.  Því eins og alþjóð veit, þá eru allar ráðningar ríkisstórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, gagnsæjar, hafnar yfir allan vafa og síðast en ekki síst faglegar.

 Reyndar gætu einhverir verið hættir í þeim störfum sem eru tilgreind hér að neðan.  En það breytir því ekki að þessir einstaklingar voru ráðnir á sínum tíma, hvað sem síðar varð.

Hér eru nokkrar af þeim ráðningum:
Ingvi Örn Kristinsson var altmuligt aðstoðarmaður félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar, en hann var framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs Landsbankans. Einnig starfar hann sem ráðgjafi Forsætisráðherra.
Benedikt Stefánsson var í Greiningardeild Landsbankans og síðan aðstoðarmaður Gylfa Magnússonar Efnahags- og Viðskiptaráðherra.
Björn Rúnar skrifstofustjóri í Viðskiptaráðuneytinu. Hann var forstöðumaður í Greiningardeild Landsbankans
… Edda Rós var fulltrúi Íslands í AGS-samstarfinu  í gegnum Samfylkinguna. Hún var forstöðumaður Greiningardeildar Landsbankans
Arnar Guðmundsson var í Greiningardeild Landsbankans. Hann er núna aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur Iðnaðarráðherra.

Við þetta má svo bæta að Vilhjálmur Þorsteinsson, er kosinn var gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins um daginn, hefur verið einn helsti viðskiptafélagi Björgólfs Thors, hérlendis undanfarin ár og á meðal annars í gagnaveri Verne Holding með Björgólfi.  Vilhjálmur er einnig formaður stýrihóps iðnaðarráðherra um orkunýtingu.
 Einhverjum þætti það eflaust vafasamt, að svo náinn samstarfsmaður iðnaðarráðherra, tengist fyrirtæki eins og Verne Holding, sem nýtir jú orku í þessu orkuveri sínu.

 

Áhugavert  að allir þessir ,,aðstoðarmenn"  eru fyrrum starfsmenn og samstarfsmenn Björgólfsfeðga.


Er það virkilega satt???

,,Búið er að skipa nýja stjórn Bankasýslu ríkisins. Stjórnarmenn eru Guðrún Ragnarsdóttir formaður, Jón Sigurðsson varaformaður og Hulda Dóra Styrmisdóttir. Egill Tryggvason er varamaður."

Ég get nú ekki sagt að ég kannist við þetta fólk, nema þó hugsanlega með einni undantekningu, Jón Sigurðsson varaformaður. 

Það væri hins vegar beinlínis galið, sé það svo að ég kannist við þann Jón Sigurðsson sem átt er við.

Sé þetta sá Jón er mig grunar, þá er þetta Jón Sigurðsson, fyrrv. iðnaðar og viðskiptaráðherra fyrir Alþýðuflokkinn, seint á síðustu öld.  Að loknum stjornmálaferli varð Jón svo seðlabankastjóri og síðar einn af bankastjórum, Norræna fjárfestingarbankans. 

Sík ferilsskrá, gæti þó þótt eftirsóknarverð, fyrir varaformann stjórnar Bankasýslu ríkisins, ef ekki væri til viðbót á henni, er hljómar ekki nógu vel.

Síðustu misserin fyrir hrun þá var Jón stjórnarformaður FME og gerðist sem slíkur ,,Icesave-stúlka" Landsbankans í Hollandi, vorið 2008.  Maður í sömu stöðu og Jón, hefði nú vart tekið slíkt að sér, nema kynna sér stöðu Landsbankans og afkomuhorfur hans næstu misserin. 

Því varla færi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, að  tala fyrir því, að fólk leggði peninga inn í banka, er hann teldi vera kominn að fótum fram.

Auk modelstarfa fyrir Landsbankann og formennsku í stjórn FME, þá var Jón einnig, varaformaður stórnar Seðlabankans og af þeim sökum, örugglega þátttakandi í flestum þeim ákvörðunum er þar voru teknar fyrir hrun og vikurnar eftir hrun.

Ég satt best að sega, vona að ekki sé um sama Jón að ræða og skrifað er um, hér að ofan.  En sé þetta sá sami, þá má spyrja stjórnarmeirihlutann á þingi, hvort hann telji að maður með slíka fortíð, sé til þess fallinn að auka á svokallaðan ,,trúverðugleika" Bankasýslu ríkisins, með setu sinni í varaformannssæti stjórnar Bankasýslunnar?


mbl.is Ný stjórn Bankasýslu ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg ályktun til heimabrúks.

Ályktun Vg. um utanríkismál, er nánast eins og við mátti búast.  Má segja að ,,hrós" forsætisráðherra um síðustu helgi, er Vg. var hrósað fyrir það að hafa komið aðildarumsókninni á koppinn, hafi endanlega neglt þessa ályktun.

Hins vegar er það svo og kannski það sem verra er, að ekkert verður gert með þessa ályktun svo heitið geti. Nema þá að menn muni skiptast á skeytum, hér í bloggheimum og á öðrum samskiptavefum netsins. 

Hafi þingmönnum Vg. ekki verið það ljóst, er sótt var um aðild, að í umsókninni fælist vilji stjórnvalda til þess að undirgangast regluverk ESB og Lissabonsáttmálann, stjórnarskrá ESB, þá eru þessir þingmenn annað hvort ekki nægilega upplýstir um það er þeir greiddu atkvæði um eða þá að um valkvæða vankunnáttu sé að ræða.

Einu mögulegu undanþágurnar frá regluverki ESB og Lissabonsáttmálanum, eru einungis tiímabundnar og fyrst og fremst æltaðar að gefa nýrri aðildarþjóð, tækifæri til þess að aðlaga sig ESB, en ekki til þess að EBS geti aðlagað sig að þjóðinni.  Eins og reyndar ályktun Vg. hljóðar upp á.  Það ættu allir þeir að vita er sitja eða sátu landsfund VG.  

Það verður samt sem áður að telja að ályktun þessi sé fyrst og fremst til heimabrúks, enda nær ógerningur að búast við því, að þeir þingmenn Vg. er hvað mest eru flæktir í ferlið, snúi af þeirri leið sinni.

En auðvitað gæti það gerst, að þingflokkur Vg. eða stór hluti hans, flytji í þinginu tillögu um að umsoknin verði dregin til baka, eða þjóðin fái að kjósa um hvort áfram skuli haldið, eða þá að þingflokkurinn styðji einhverja þeirra tillögu er fram hefur komið um sama efni og krefjist þess að einhver þeirra verði tekin á dagskrá þingsins.  Á því eru hins vegar hverfandi líkur.

 


mbl.is Ályktun um utanríkismál samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdáunnarverð vorkunnsemi Steingríms J.

Frétt á ruv.is þar sem Steingrímur J. Sigfússon, ber af sér allt foringjaræði og brigsl um svik við stefnu Vinstrihreyfingarinnar grænt framboð, endar á þessum orðum Steingríms:

,,Hann sagðist fyrst og fremst finna til með kjósendum sem hefðu lagt mikið á sig við að koma Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur á þing."

Steingrímur hlýtur þá einnig að finna til með kjósendum Borgarahreyfingarinnar, sem lögðu það á sig að mæta á kjörstað, svo Þráinn nokkur Bertelsson, kæmist á þing.

Svo þegar Steingrímur kafar enn dýpra í sinn ,,mjúka innri mann" hlýtur hann að vorkenna kjósendum Vg. á landsvísu, sem allir lögðu það á sig að mæta á kjörstað og merkja við flokkinn.  Flokkinn sem hafði jafnvel ákveðið, áður en loforðin voru gefin, að svíkja þau. 

En vorkunnsemi Steingríms, hlýtur einnig að ná til þeirra fjölmörgu heimila í landinu, er hann seldi erlendum vogunarsjóðum veiðileyfi á.

 


mbl.is Þarf styrk, trú og úthald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í kyrrstöðu, doða og niðursveiflu, er raunsæið svart á litinn.

Það skiptir nánast engu máli, hver dirfist að gagnrýna stefnu eða stefnuleysi hinnar norrænu velferðarstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.  Þeim sem verður slíkt á, er um leið, brigslað um svartsýni og niðurrif.

 ASÍ eins og reyndar allir aðrir landsmenn, hafa í þrígang, árin 2009, 2010 og 2011, hlutað á forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur lofa 7000 störfum og þá helst við eitthvað, sem ríkisstjórn hennar, gerir sitt besta og vel það, í að koma í veg fyrir.

ASÍ var aðili að stöðugleikasáttmálanum, sem undirritaður var árið 2009 og svikinn, nánast áður en blek undirskriftana var orðið þurrt.  ASÍ er líka aðili að viljayfirlýsingu er skrifað var undir fyrir rúmlega hálfu ári, vegna kjarasamninga.  Þar hefur a.m.k. eitt atrið verið svikið.  Hækkun skattþrepa fylgir ekki launavísitölu og af þeim sökum, verða laun að upphæð 217.000 kr.- skilgreind sem milliháartekjur í skattlagningu, frá og með næstu áramótum. 

ASÍ sem og aðrir landsmenn, hafa einnig horft upp á vandræðagang ríkisstjórnarinnar, með endurskoðun á lögum um fiskveiðar.  Töf á þeirri endurskoðun, strandar fyrst og fremst á sundurlyndi innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.  Töfin kostar það svo að fyrirtæki í sjávarútvegi, halda að sér höndum hvað fjárfestingar varðar og uppbygging er skapað gæti fleiri störf og verðmæti í greininni, sitja á hakanum af þeim sökum.

Hin norræna velferðarstjórn hefur þvælst fyrir hverri einustu hugmynd sem fram hefur komið á Suðurnesjum, varðandi fjölgun starfa og verðmætasköpun.  Skiptir það engu hvort það sé á sviði heilbrigðismála, flugrekstrarmála, gagnavera og lengi mætti telja.  Þess ber þó að geta, að gagnaver Verne Holding fer í gang von bráðar, en þó varla með þeim krafti og vænst var.

Hin norræna velferðarstjórn Jóhönnu hefur svo talað tungum tveim eða fleiri, þegar kemur að atvinnuuppbyggingu í orkufrekum iðnaði.  Verið með álver í Helguvík og á Bakka á ,,planinu" í sínum kortum, þó efast megi stórlega um að ríkisstjórnin, hafi nokkurn tíman ætlað að gera sitt, til þess að þessi verkefni yrðu að veruleika.  Þegar þetta er skrifað, eru efasemdir um hvort það borgi sig að hefja gerð Vaðlaheiðarganga, sem voru eitt af þessum verkefnum, sem stjórnvöld ætluðu að ráðast í, vegna þess að álverið á Bakka var blásið af.

Vel má vera, að stjórnvöld vilji ekki fleiri álver. En þá verða þau bara að tala það skýrt út og koma með eitthvað annað í staðinn.  Það verður þá að kallast eitthvað annað en ,,eitthvað annað", sem er eitthvað óskilgreint, sem ekki einu sinni stjórnvöld vita hvað er.  

Það hefur hingað til, í það minnsta, hvorki skapað störf eða verðmæti, að bíða eftir ,,einhverju öðru" sem enginn veit hvað er.

 


mbl.is Svartsýni hjálpar ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afskiptin sem ekki voru og verða ekki gerð opinber.

Rúmum þremur vikum eftir að stjórn Bankasýslu ríkisins kynnir Pál Magnússon til sögunnar sem nýjan forstjóra Br og Helgi Hjörvar ásamt fleiri þingmönnum úthropar þá ráðningu, ákveður stjórn Br að segja af sér.  Degi síðar afþakkar svo Páll starfið.

Fjármálaráðherra, er ber pólitíska ábyrgð á Bankasýslunni, krafði þó í millitíðinni, stjórnina um rökstuðning fyrir ráðningu Páls, sem og hann fékk.  Í þeim rökstuðningi, stóð stjórnin við sitt og færði rök fyrir ráðningunni. 

Á þeim tímapunkti, var aðeins tvennt í stöðunni boðlegt, að taka rökum stjórnar Bankaskýrslunar og bakka þau upp, kaupi ráðherrann rökin.  Að öðrum kosti, var að víkja stjórninni á grundvelli þess, að ekki hafi verið farið rétt að við ráðninguna.

 Upphlaupið í þinginu og beiðni fjármálaráðherra um rökstuðninginn, eru fyrir utan einstaka yfirlýsingu stjórnmálamanna í fjölmiðlum, einu opinberu pólitísku afskiptin af ráðningu Páls.

Það er því nær óhugsandi að þau afskipti, ein og sér, hefðu dugað til þess að fæla bæði stjórnina og Pál frá.

Það er því líklegra en ekki, að armslengdin svokallaða, hafi verið lögð til hliðar og bæði ráðherra og einstaka stjórnarþingmenn, beitt þrýstingi, bak við tjöldin til þess að þvinga fram þessa niðurstöðu.


mbl.is „Skylda mín að tjá mig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkvæð armlengd.

Eitt af því sem átti að ná fram, með stofnun Bankasýslu ríkisins, var að skapa svokallaða ,,armlengd" á milli stjórnmálanna og fjármálakerfisins.  Með öðrum orðum átti að klippa á pólitísk afskipti af fjármálakerfinu, að öðru leyti en að setja því lög til þess að fara eftir.

Við ráðningu Páls Magnússonar i embætti forstjóra BR, klofuðu stjórnarflokkarnir yfir þessa armlengd og höfðu uppi alvarlegar athugasemdir við ákvörðun stjórnarinnar, þ.e. höfðu pólitísk afskipti, með kröfunni um að ráðningin yrði dregin til baka.

Hreinlegra hefði verið að krefjast afsagnar stjórnar BR, enda eru afskipti sem þessi í raun vantraust á stjórnina og því í sjálfu sér eðlilegasti hlutur í heimi, að hún segi af sér, úr því að stjórnvöld höfðu ekki ,,pung" í sér að víkja stjórninni.  Heldur beittu hana þrýstingi í gegnum þessi afskipti sín, sem voru opinber og eflaust líka bakvið tjöldin.

Armlengd þessa hefur Steingrímur J. notað sem flóttaleið, frá pólitískri ábyrgð á óvinsælum ákvörðunum, hvað varðar eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. 

Steingrímur hefur einnig ,,klofað" yfir þessa  armlengd og í raun talið sig geta betur en Bankasýslan.  Semsagt vantreyst henni, er hann tók þá ákvörðun að halda Bankasýsluni frá eignarhlutum ríkisins í SP-Kef og Byr.  Sú ákvörðun fældi fyrri forstjóra úr embætti, enda sætti forstjórinn sig ekki við það vantraust sem fólst í ákvörðun og í raun lögbroti Steingríms, vegna Sp - Kef og Byrs.

Afskipti stjórnvalda af ákvörðunum stjórnarbankasýslunnar, hafa einnig gefið fordæmi að fleiri afskiptum af gjörðum, þeirrar stjórnar er við mun taka, fari svo að sú stjórn taki ákvarðanir sem ekki verða stjórnarliðum að skapi.  Hvort sem það verði á sviði mannaráðninga eða annarra hluta.


mbl.is Harmar afsögn stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það segir sig auðvitað sjálft......

... að baki umsókn verði að vera fyrir hendi vilji til þess að ganga þangað inn.  Aðildarferlið sem slíkt, hefst í rauninni ekki fyrr en sú þjóð er sækir um, hefur ,,skoðað í pakkann" / ,,hvað sé í boði". 

Pakkinn er löngu kominn.  Hann innihélt skýrslu framkvæmdastjórnar ESB, um svör íslenskra stjórnvalda á spurningum ESB, um íslenskt lagaumhverfi og stjórnsýslu.

Þegar komið er þeim punkti í ferlinu, þá er búið að skoða í pakkann.  Þá tekur við aðlögun á lögum og stjórnsýslu umsóknarríkis að ESB.  Um þá aðlögun eru stjórnarflokkarnir langt því frá sammála. 

Eins bent hefur verið á, alveg frá því að umsóknin var send út, þá býður ESB ekki upp á svokallaðar kynningarviðræður, vegna ESB-aðildar.  ESB í rauninni krefst þess að vilji stjórnvalda umsóknarlandi, sé til inngöngu í sambandið.  Aðildar/aðlögunnarferlið krefst þess að því stýri skýrt og óyggjandi pólitískt umboð frá báðum stjórnarflokkum, til þeirrar aðlögunnar sem að hér þarf að fara fram.

Slíku er ekki fyrir að fara, heldur svarar annar stjórnarflokkurinn, Vg. í hálfkveðnum vísum og útúrsnúningi, er á talsmenn hans í málaflokknum er gengið, til þess að fá uppgefna afstöðu flokksins til málefnisins.

 ESB ætlast ekki til þess að aðildarumsóknir, séu notaðar sem skiptimynt í hrossakaupum, við stjórnarmyndanir.  Líkt og varð raunin á hér á landi.  


mbl.is Þarf að byggja á vilja til inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband