Leita í fréttum mbl.is

Ég ætla að segja NEI! Hvað með þig?

Ert þú lesandi góður, einn af þeim sem hunsaði heimsetukvaðningu stjórnvalda þann 6. mars 2010 og  mættir á kjörstað og sagðir hátt og snjallt  nei við Icesave  II?   Ætlarðu kannski að endurtaka ,,leikinn“ þann 9.  apríl nk. Og  segja enn og aftur hátt og snjallt nei?  Eða ætlarðu að koðna undan tannlausum Icesavegrýlum og segja já ?  Má kannski vera að nei-ið þitt hafi breyst í já, því Icesave III er svo  miklu betri en Icesave I og II?  Eru Icesave III að einhverju leiti  eitthvað betri samningar en hinir fyrri? 

Eflaust má tína ýmislegt til í nýju samningunum, sem lítur betur út en í þeim fyrri.   En þess ber þó að geta að flest það, sem telja má þróun til betri vegar milli samninga, miðast við bestu hugsanlegar aðstæður. 

Að heimtur úr þrotabúi Landsbankans, verði í takt við spá skilanefndar bankans og samninganefndar.  Sú spá sýndi að heimtuhorfurnar höfðu batnað um heila 3 milljarða, síðan spá um heimtuhorfur var birt í undanfara þjóðaratkvæðisins, þann 6. mars 2010. Spáin sýnir hins vegar 15 milljarða betri heimtur en talið var er Icesave III var kynnt í lok síðasta árs.  Hins vegar höfðu heimtuhorfur í þrotabúið versnað um 12 milljarða, frá þjóðaratkvæðinu fyrir rúmlega einu ári, til kynningar á Icesave III.   Þetta sýnir að sveiflur á heimtuhorfum í búið geta verið töluverðar á ekki lengri tíma og jafnvel hæpið að sveiflan verði upp á við, þegar losa þarf um eignir búsins til þess að greiða af Icesavekröfunni.

 Ekki verður í boði, fari svo að markaðurinn hagi sér þannig að lægra verð fáist fyrir eignir búsins, að hægt verði að fresta sölu þeirra og bíða eftir því að markaðurinn jafni sig, því þá tefjast greiðslur úr búinu og vaxtagreiðslur Ríkissjóðs af þessari ólögvörðu kröfu snarhækka.  Þannig að það myndi kosta meira að bíða af sér niðursveiflu á markaði og selja á hærra verði, en það myndi kosta að selja, jafnvel á undirverði til þess að forðast vaxtakostnaðinn.

Einnig getur það vart talist traustvekjandi að ekki liggi fyrir óháð mat á heimtum úr búinu.   Samt má leiða að því líkum að Bretar og Hollendingar hafi framkvæmt mat á eignum búsins og horfum á heimtum úr því.   Það kemur ekki annað til greina en að þeir hafi framkvæmt sitt mat á búinu þegar þeir fengu tilboð frá íslensku samninganefndinni um  47 milljarða eingreiðslu  (jafnmikið og samningurinn var sagður kosta þjóðarbúið í fyrstu kynningu) auk þess að fá þær heimtur úr þrotabúinu sem neyðarlögin í raun skömmtuðu Icesavekröfunum, gegn afnámi ríkisábyrgðar á kröfunum.   Því tilboði höfnuðu hins vegar Bretar og Hollendingar, þar sem þeir treystu sér ekki til þess að taka þá áhættu sem í því fellst að falla frá ríkisábyrgðinni.

Telji Bretar og Hollendingar það stóra áhættu að falla frá kröfu um ríkisábyrgð, á þessum ólögvörðu kröfum, þá þarf ekki mikið hugmyndaflug, til þess að átta sig á því að það er stór áhætta að fallast á hana.

Í hverju fellst þessi áhætta sem Bretar og Hollendingar veigra sér við að taka, en krefjast þess að við tökum?   Er mat skilanefndar og samninganefndarinnar byggt á óraunhæfum væntingum, eða tilhnikruðum forsendum, sem henta þeim áróðri sem uppi er fyrir samþykkt samningsins?  Eða meta Bretar og Hollendingar stöðuna svo, að enn er uppi réttaróvissa, varðandi lögmæti neyðarlaganna?

Kostnaðurinn við öll þau frávik sem kunna að verða við framkvæmd þá, er Icesave III kveður á um fellur allur á íslenska skattgreiðendur.  Hvort sem það verða tafir á heimtum úr búinu, heimturnar minni en spáð er eða þá að það ákvæði neyðarlaganna  um forgang Icesavekrafnanna í þrotabú Landsbankans standist ekki lög og  neyðarlögunum, verði af þeim sökum hnekkt fyrir dómi.  Sá kostnaður getur numið, eftir atvikum allt að 1200 milljarðar.

Vissulega er Icesave III að einhverju leiti betri en Icesave I og II, enda hefur varla þurft mikla fyrirhöfn til þess að ná betri samningum en þeim tveimur fyrri er spörkuðu Versalasamningnum niður  í þriðja sætið yfir verstu samninga allra tíma.  En við lestur textans hér að ofan, sést glöggt að sú bæting milli samninga fellst þó ekki í því að staða okkar sé það miklu betri, þrátt fyrir skárri samninga að atkvæði þeirra er sögðu nei þann 6. mars 2010, hafi einhverjar vitrænar forsendur til þess að breytast í ,,já“.   Staðan er því enn sú sama og hún var þann 6. Mars 2010 og svarið enn það sama: ,,Hátt og snallt nei við Icesave þann 9. apríl nk. „


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já. Annað er fjarstæða. Að líkindum stendur þrotabú Landsbankans undir þessu öllu (þ.e. á forsendum þessa samnings). Með já-i er málið dautt og menn eins og þú geta farið að þrasa út af einhverju öðru. Með nei höfum við þetta hangandi yfir okkur líklega mjög lengi og með miklu meiri kostnaði. Valið er auðvelt.

ábs (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 15:24

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Málið er ekki dautt þó þjóðin samþykki að taka ábyrgð á ólögvörðum kröfum breta og hollendinga, þá fyrst byrjar ballið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.3.2011 kl. 15:44

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Vissulega vona ég að þrotabúið standi undir Icesavekröfunum.  Reyndar hafa Icesavesamingarnir, hvort sem það I II eða III, minnst með það að gera að ákveðið var að setja kröfur vegna Icesave í forgang í þrotabúinu. Slíkt er í ákvæðum neyðarlaganna.   Ég er bara alfarið á móti því  að samþykkja samning, sem felur í sér löglausa kröfu um ríkisábyrgð á Icesavekröfurnar. 

Samningurinn felur það í sér, að allar tafir sem kunna að vera á heimtum úr búinu, hækka verulega kostnað ríkissjóðs vegna samningsins, sem og hugsanlegt vanmat á eignum búsins.  Einnig er það svo að, fari svo að neyðarlögunum verði hnekkt fyrir dómstólum, þá fellur greiðsla kröfunnar öll á ríkissjóð.

 Einhver hlýtur áhættan fyrir  Ríkissjóð (skattgreiðendur)  að vera fyrst að frá upphafi, hafa Bretar og Hollendingar ekki fallist á neina aðra lausn málsins, en þá sem felur í sér skilyrðislausa, íslenska ríkisábyrgð á Icesavekröfunum.  

 Málið deyr ekki, hvort sem já eða nei verður ofan á.  Það er í besta falli misskilningur að halda slíku fram.  Verði lögin samþykkt, þá verður Icesave í umræðunni eða afleiðingar samningsins í umræðunni, svo lengi sem enn eitthvað ógreitt af kröfunni, hvort sem það verði árið 2016, 2046 eða einhvers staðar þar á milli. 

Og þá ekkert endilega vegna þess að menn séu enn að rífast um, hvort að betra hefði verið að nei, frekar en já, heldur allt eins að umræðan verði um það, hvernig í veröldinni við eigum að ná að standa undir kostnaði vegna vanmats á eignum þrotabúsins? Hvar sé hægt að skera enn frekar niður í velferðarkerfinu? Hvort að enn sé möguleiki á frekari skattheimtu?  Eða þá hvort að skuldsetja eigi ríkissjóð, vel uppfyrir rjáfur, til þess að standa í skilum vegna ríkisábyrgðarinnar?

Kristinn Karl Brynjarsson, 16.3.2011 kl. 16:08

4 identicon

Stórt NEI þegar maður les söguna þá var það þannig að þegar íslendingarnir ætluðu að færa út lögsöguna þá var hræðslu áróður líka um samningsbrot gegn þjóðum í kringum okkur bæði í 50 mílur og svo 200 mílur en við höfðum sigur og munum gera það aftur.

MUNIÐI að við vorum að leggja heilu borgirnar í rúst sem lifðu á sjávarútvegi í bretlandi en samt viðurkenna þeir nú að við áttum réttinn okkar meginn.

Áfram Ísland.

Óskar (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 20:22

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Massíft nei hér.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2011 kl. 22:00

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

ábs....fyrst þú ert svo skyggn að vita að eignir þrotabúsins dugi upp í þetta, hvers vegna í ósköpunum er þá þörf fyrir að samþykkja kröfu á okkur, sem engin er?

Ert þú bara ein af þessum andskotans rollum sem jarma eftir áróðursmaskínu Rúv?  Veist þú yfirleitt hvað þú ert að þvaðra??

Afsakaðu að ég reiðist, en réttast væri að einstaklingar mættu á kjörstað og skrifuðu undir eða höfnuðu sjálskuldarábyrgð. Þá fá þeir að borga sem vilja.

Þú hefur aldrei lesið stafkrók til að kynna þér máli, það blasir við. byrjaðu hér.

Ef þetta er verðmiðinn á inngöngu í ESB, sem þú ert til í að borga, þá bendi ég þér á þann kost að flytja bara austur um. 

Þú ættir að skammast þín.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.3.2011 kl. 22:08

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þeir sem ætla að játast þessum klafa, eru ekki bara að skuldsetja sig og sína, heldur okkur öll hin sem EKKI viljum taka á okkur óundirritaðan víxil.  Hafi þeir skömm fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2011 kl. 10:47

8 identicon

Ég tel meiri ástæðu til að taka mark á Lárusi Blöndal en hugarburði Moggabloggara í vígaham. Líklegt er að þrotabúið standi undir greiðslunni miðað við þennan samning. Verði samningurinn felldur verður höfðað dómsmál með miklu hærri kröfum - en Bretar og Hollendingar fá engu að síður sitt úr úr þrotabúinu sem kröfuhafar. Þess vegna er svo einstaklega heimskulegt að hafna samningnum. Í guðanna bænum notið þjóðrembuna í eitthvað annað en þetta.

ábs (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 12:36

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Lárus Blöndal er talsmaður þess, að sá samningur sem hann gerði verði samþykktur.  Menn standa alla jafna ekki í því að vinna að gerð samninga, til þess að geta talað gegn þeim síðar.

 Ég efast ekki um að Lárus hafi staðið sig með prýði í þeim störfum sem hann var ráðinn til.  Hann var samt í rauninni ekki ráðinn til þess að bregðast við úrslitum þjóðaratkvæðisins þann 6. mars 2010, þar sem 98% þeirra er tóku afstöðu, höfnuðu ríkisábyrgð á Icesavekröfum Breta og Hollendinga.  Hann og aðrir samninganefndarmenn fengu það umboð að semja um ríkisábyrgðina, sem þjóðin hafnaði, en bara með lægri vöxtum.

  Lárus lýgur eflaust litlu varðandi þrotabúið, enda byggja hans orð á þeim forsendum sem skilanefndin setur upp varðandi heimtur í búið.

Kristinn Karl Brynjarsson, 17.3.2011 kl. 13:00

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það veit enginn hvað fæst út úr þrotabúi bankans.  Það eru hreinar ágiskanir til og frá.  Aðalmálið er að með því að segja já erum við að samþykkja ríkisábyrgð á einhverja x milljarða, sem enginn veit í rauninni hverjar eru.  Allt byggt á líkum, og svo er spurninginn á hverju er byggt?

Við eigum ekki að taka á okkur skuldbingindar einstaklinga sem ekki hafa verið ennþá rannsakaðir eða reynt að finna peningana sem þeir komu undann.  Við höfum nóg með okkar eigin skuldbindingar.  Fólk verður að skoða málin frá öllum hliðum og komast að niðurstöðum.  En það er dálítið erfitt því allir fjöllmiðlar eru með þungan áróður með Icesave, nema Kjónsum.is og Svipan.is.  Lárus getur ekki verið hlutlaus aðili þar sem hann var sjálfur í samningum um þetta nýja Icesave. 

Minnir mig reyndar á hér um árið þegar Davíð kom í gegn ríkisábyrgð á DE Code vinar síns Kára Stefánssonar.  Við eigum ekki alltaf að taka á okkur tap fjárglæframanna, þegar þeir tapa, en svo eiga þeir gróðan þegar vel gengur.  Það er einfaldlega ekki sanngjarnt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2011 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 1678

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband