Leita í fréttum mbl.is

Nóg að sinni. -Kveðjuorð.

Ég hef ákveðið að blogga ekki meira hér, að sinni hið minnsta.  Að baki því liggur í sjálfu sér engin önnur ástæða en sú, að ég hef komið mér upp bloggsíðu á Wordpress og skrifa mín blogg þar í framtíðinni.

Síðan er stefnan tekin á það bráðlega að fjárfesta í léni og eigin heimasíðu þar sem ég mun reyna að koma hugsunum mínum og meiningum í orð.

Fyrir þá sem vilja er slóðin á nýja bloggið mitt eftirfarandi:

http://kristinnbrynjarsson.wordpress.com/ 

Takk fyrir allt, súrt og sætt.

Kristinn Karl Brynjarsson.

 


Á þá að mæta auknum kostnaði borgarsjóðs með minni tekjum?

Útsvarið er í botni... en sjálfsagt einhverjar matarholur í þjónustugjöldum margs konar.
Fyrirsjáanleg er  hækkun fasteignagjalda, reyndar í skrefum skv. væntanlegu frumvarpi innanríkisráðherra.
Svo stóð til að hækka gjaldskrá Bílastæðasjóðs um tugi prósenta í jan. sl. En það var víst bara misskilningur eins og flest allt annað sem illan hljómgrunn hlaut á síðasta kjörtímabili.


Síðasta haust var því lofað að fyrirhgaðar gjaldskrár hækkanir yrðu teknar til baka. En þó með því skilyrði að ef forsendur breyttust, þá gæti orðið hækkun.
Nú hafa forsendur vissulega breyst. Efnahagsástand í landinu með því besta síðan fyrir hrun, þannig að auðvitað ættu útsvar og gjaldskrár að lækka.


En stóraukinn rekstrarkostnaður borgarinnar mun hins vegar ræna borgarbúa þeim ávinningi sem ætti að bíða þeirra í bættu efnahagsástandi. Þeim kostnaðarauka verður ekki mætt nema með auknum tekjum borgarsjóðs (gjaldskrárhækkunum) eða frekari lántökum.  Frekari lántökur þýða aukinn kostnað borgarsjóðs um ókomin ár.


Árið 2013 var borgarsjóður rekinn með "fiffuðum" hagnaði. Lífeyrisskuldbindingum frestað (þarf að borga síðar) og nýtt hækkað eignarmat Félagsbústaða skópu þann hagnað. Engu að síður var handbært fé frá rekstri mun minna en árin á undan, þegar borgarsjóður var rekinn án bókhaldsbrellna þ.e. með tapi.


mbl.is Munu ekki hækka álögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningaloforð á undanþágu?

Í fyrsta og vonandi síðasta skipti hefur stjórnmálaflokkur á Íslandi, sótt um undanþágu til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um að fá að hrinda kosningaloforði sínu í framkvæmd.

Fyrir hönd Samfylkingar liggur fyrir hjá ESA beiðni, frá borgarstjórn Reykjavíkur umundanþágu til þess að fá að nýta skattfé borgarbúa til þess að vera með stórfellda íhlutun á frjálsum leigumarkaði í Reykjavík.

  Í ljósi þess að Samfylkingin telur nauðsynlegt að fá undanþágu frá ESA vegna kosningaloforðs um húsnæðismál, má ljóst vera að um verulegar upphæðir af opinberu skattfé er um að ræða.

Enda fara varla einhverjir  smáaurar úr sameiginlegum sjóðum borgarbúa í að greiða niður leigu á 2500 til 3000 íbúðum.


Áttu 400 þúsundkall aflögu?

Á kjörtímabilinu sem nú er að líða hafa álögur hækkað um rúmlega 400 þúsund krónur á hverja meðalfjölskyldu í Reykjavík.  Útsvarið hefur verið  sett í hæstu mögulegu hæðir og þjónustugjöld borgarinnar hækkað langt umfram verðlagsbreytingar.  Auk þess sem að skuldir borgarsjóðs hafa aukist um 625 þúsund krónur hverja klukkustund yfirstandandi kjörtímabils.

  Maður  skyldi ætla að við slíka hækkun hefði annað tveggja gerst, að  þjónusta við borgarbúa hefði stórbatnað eða að borgarsjóður væri rekinn með gríðarlegum hagnaði.

Í nýlegri þjónustukönnun sem Gallup framkvæmdi í 16 stærstu sveitarfélögum landsins , var Reykjavíkurborg í neðsta sæti  hvað ánægju íbúa varðar.  Þannig að ekki er hægt að halda því fram að þjónustan hafi batnað svo einhverju nemi.

Þó svo að með bókhaldsbrellum hafi verið hægt að láta rekstur borgarsjóðs koma út í plús árið 2013, er samt ekki hægt að sjá mikinn bata á rekstrinum.  Enda handbært fé frá rekstri mun minna árið 2013 en það var árið 2012 þegar borgarsjóður var rekinn með tapi.

Það er því ekki annað að sjá en að hækkandi álögur á borgarbúa hafi að mestu farið í hít óábyrgrar fjármálastjórnunar, þar sem fjámunum er forgangsraðað í þágu gæluverkefna á kostnað grunnþjónustu.

Þegar fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár var kynnt, var gert ráð fyrir enn frekari hækkunum á þjónustugjöldum borgarinnar. .   Eftir nokkurn þrýsting, m.a. frá aðilum vinnumarkaðsins neyddust borgaryfirvöld til að draga þessar hækkanir til baka.  Þó ekki með meira afgerandi hætti en að:

 „Ef forsendur bregðast hins vegar áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014."

Eftir því sem næst verður komist hafa engar forsendur fyrir því að taka hækkunina til baka breyst, hvað varðar almenna stöðu efnahagsmála í landinu.  Engu að síður er það þó svo, að vissulega munu forsendur breytast, verði sami meirihluti enn við völd eftir  kosningarnar  í lok vikunnar.   

Hvorki Samfylking né Björt framtíð, boða beinlínis ábyrga fjármálastjórn í borginni, haldi þessir flokkar umboði sínu til meirihluta.  Öðru nær er það svo öll þeirra kosningarloforð og þá sér í lagi loforð Samfylkingar munu hafa í för með sér stóraukinn kostnað fyrir borgarsjóð.

Auknum kostnaði verður eingöngu mætt með gjaldskrárhækkunum  og eða frekari lántökum borgarsjóðs.

Sú spurning hlýtur því að brenna á vörum kjósenda í Reykjavík, áður en þeir kjósa aftur yfir sig núverandi meirihluta í borginni; hvort þeir eigi annan 400 þúsundkall aflögu?

Grein birt á visir.is 27.5. 2014.

Þöggun og undanhald meirihluta borgarstjórnar.

Það segir sína sögu um það hvað borgarstjórnarmeirihlutanum finnst um eigin skipulagstillögur, þegar hann reynir að þagga þær niður með því að fjarlægja þær af vef Reykjavíkurborgar.

Sá sem þetta skrifar er ekki frá því að, hann myndi hugleiða það sama  honum  dottið slík fásinna í hug sem  stærstur hluti þessara tillagna býður upp á.

  Þær bjóða meðal annars upp á, innrás í rótgróið og vinsælt útivistarsvæði Reykvíkinga í  Laugardalnum með blokkarlengju við norðanverða Suðurlandsbraut frá Reykjavegi að Glæsibæ.

 Þá er hægt að nefna, innrás í rótgróin íbúðahverfi eins og Vesturbæinn með niðurbroti á bílskúrum í einkaeigu til þess að koma fyrir fleiri blokkum.

Í umferðarmálum bjóða þessar tillögur upp á það, að þrengt verði að stofnæðum innan rótgróinna íbúðahverfa og umferðinni beint í gegnum íbúðagötur, sem mörgum hverjum verður breytt  úr botngötum í götur opnar í báða enda.

Fyrir fjórum árum mátti bæði heyra og sjá fulltrúa núverandi meirihlutaflokka í borgarstjórn, lofa auknu samráði við borgarbúa ásamt auknu íbúalýðræði.  Afrek þessara flokka hvað varðar samráð og íbúalýðræði eru þó varla nokkuð til þess að að monta sig af.  Sér í lagi ef að skólasameiningar og málefni Reykjavíkurflugvallar ber á góma.  En þess verður þó geta, svo sanngirni sé gætt, að íbúar Reykjavíkur hafa fengið að kjósa á milli verkefna í íbúakosningum, sem alla jafna eru ynnt af hendi af sveitarfélögum, án þess að um þau sé kosið sérstaklega.

Það væri kannsk hægt að virða það við meirihlutann að vissulega er um að ræða samráð og íbúalýðræði varðandi hverfisskipulag meirihlutans,  ef að samráðið og íbúalýðræðið væri ekki eftirá.

Og auðvitað mætti svo fagna því, væri það svo að hvarf þessara skipulagstillagna af vef borgarinnar þýddi það að fallið hafi verið frá þeim.  Svo gott er það því miður ekki, gott fólk.   Eina raunhæfa  leiðin til þess að fá þessar tillögur út úr heiminum er að koma þessum meirihluta frá völdum. 

Það getur varla verið að borgarbúar ætli  kjósa til valda flokka  sem eru  á hröðum flótta undan eigin tillögum og beitir þær sömu tillögur þöggun. 

Það yrði í besta falli mjög súrealískt, ef að borgarbúar veittu núverandi meirihluta áframhaldandi umboð til aðgerða sem flestar ef ekki allar eru í andstöðu við vilja meirihluta borgarbúa.

Grein birt á visir.is 23.5. 2014.


Höfnum miðstýrðri loforðafroðu vinstri manna í húsnæðismálum og kjósum lausnir.

Það má rekja  húsnæðisskortinn í Reykjavík  nokkur ár aftur í tímann, nánar tiltekið til áranna 2000-2006. „Á því tímabili var húsnæðisverð í borginni markvisst hækkað og húsnæðisbóla búin til með mikilli takmörkun lóðaframboðs og síðan uppboðs á lóðum. Slíkt leiddi til þess að fjölskyldur neyddust til að kaupa lóðir á uppsprengdu verði og síðar kom í ljós að margar þeirra stóðu ekki undir því. Samfylkingin, þá  með Dag B. Eggertsson sem formann umhverfis og skipulagsráðs,  hafði mikla forystu í þessari óheillavænlegu stefnumótun og ber þannig mikla ábyrgð á hinu háa húsnæðisverði sem margar reykvískar fjölskyldur, og þá einkum ungt fólk, glíma við í dag.

Þessi miðstýrða framköllun á okurverði lóða og íbúða, varð  til þess að margar reykvískar fjölskyldur er  stækka vildu við sig, neyddust til þess að flytja til nágrannasveitarfélaganna.  Sama má einnig segja um fjölmargar fjölskyldur og einstaklinga af landsbygðinni  sem fluttu til höfuðborgarsvæðisins.  Stærstur hluti þeirra kaus frekar að flytja til einhverra nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, sökum ónógs lóðaframboðs sem framkallaði, eins og áður sagði verðbólu á húsnæðisverði í borginni.

Þessi miðstýrða aðgerð R-listans með Samfylkingu og Dag B. Eggertsson  í broddi fylkingar var svo einnig stór þáttur í þeirri þróun að íbúum fjölgaði mun hægar í Reykjavík en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.  Hefur sú þróun kostað borgina háar fjárhæðir, í formi útsvarstekna er fóru annað.

Loforðaflaumur byggður á froðu.

Nú ætlar Samfylkingin, sem  framkallaði  okurverð á lóðum með miðstýringu að koma til bjargar með nýjar miðstýrðar patentlausnir.  Hætt er þó við því að þær lausnir valdi enn meiri skaða til lengri tíma litið, en almenn markaðsaðgerð, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn mun hrinda í framkvæmd, komist hann til valda í borginni.

Þær miðstýrðu patentlausnir sem Samfylkingin býður  líta í sjálfu sér ekkert illa út á blaði svona í fyrstu.  En þegar betur er að gáð, bendir flest ef ekki allt til þess að lausn Samfylkingarinnar í húsnæðismálum borgarbúa, verði áður en langt um líður þungur baggi á borgarbúum.   Að áætlaður kostnaður borgarinnar við uppbyggingu Reykjavíkurhúsa, verði í engu sambandi við endanlegan kostnað við aðgerðina.   Borgin muni því á endanum borga hundruðir milljóna með aðgerðunum.  Tapa fjármunum sem hvergi verða sóttir nema í hærri leigu, hærri þjónustugjöld fyrir borgarbúa alla eða þá með auknum lántökum borgarinnar.   Auknar lántökur munu engan vanda leysa, heldur eingöngu fresta honum  og gera hann í rauninni enn meiri þegar uppi verður staðið.

.  Í upphafi kjörtímabilsins var áætlað að árlega þyrftu Félagsbústaðir 90 -100 nýjar íbúðir á ári til þess að anna eftirspurn.  Niðurstaðan er hins ekki nema 75 íbúðir á kjörtímabilinu öllu. Það má því segja að núverandi meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/ Bjartrar framtíðar hafi  gersamlega brugðist, er kemur að félagslegu húsnæði.  Enda  hefur meirihlutinn aðeins uppfyllt 20% af þörf Félagsbústaða á nýjum íbúðum á kjörtímabilinu sem er að líða. Við þær aðstæður hafa myndast langir biðlistar eftir húsnæði hjá Félagsbústöðum. 

Það sér hver maður sem vill það sjá, að loforð  Dags B. Eggertssonar um 2500 íbúðir í svokölluðum Reykjavíkurhúsum á næsta kjörtímabili, er í besta falli byggt á sandi.  Líklegast er þó að undirstaða loforðins stóra sé loft eða einhvers konar froða.

Lausnir Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum.

Sjálfstæðisflokkurinn mun sjá til þess að þörf Félagsbústaða á nýju húsnæði til úthlutunar verði sinnt með þeim hætti að ekki safnist þar fyrir tugir eða hundruðir einstaklinga og fjölskyldna á biðlista eftir nýrri íbúð.

 Sjálfstæðisflokkurinn mun jafnframt  bjóða upp á markaðslausn í húsnæðismálum , komist hann til valda, með því að tryggja nægt framboð lóða á kostanaðarverði, hvort sem að lóðirnar verði undir leigu eða eignaríbúðir.  Þeim fyrirtækjum  er reisa vilja og reka leiguíbúðir munu standa það til boða að bjóða í lóðir er teknar verða frá undir leiguíbúðir.  Samið verður t.d. 25 ára við þau fyrirtæki er bjóða munu læagstu leiguna í þeim íbúðum er þau byggja og mun lóðaverðið greiðast niður á samningstímanum.  Fyrirtækin munu skuldbinda sig til þess að halda leiguverðinu innan ramma verðlagsþróunar á samningstímanum.

Jafnframt er það afar mikilvægt að nægt lóðaframboð fyrir eignaríbúðir verði fyrir hendi.  Enda á fólk að hafa val um það, hvort það kaupi eða leigi það húsnæði er það býr í.

 Sjálfstæðisflokkurinn mun, komist hann til valda, endurskoða og breyta gatnagerðargjöldum og öðrum föstum byrjunargjöldum á þann veg, að þau verði ekki fast gjald  á íbúð, heldur miðist við stærð íbúðar.  Það mun gera byggingu lítilla og meðalstórra íbúða enn hagkvæmari en nú er og mæta þar með kalli markaðsins á nýsmíði lítilla og meðalstórra íbúða í borginni.

Kjósum lausnir sjálfstæðismanna í húsnæðismálum í stað froðu vinstri manna og gerum Reykjavík að nýju að raunhæfum búsetukosti á Höfuðborgarsvæðinu.

Grein mín á visir.is 21. maí 2014.


150 milljónkróna misskilningur?

Sá fáheyrði atburður átti sér stað á fundi borgarráðs þann 2. maí  sl. að fulltrúar meirihlutans felldu eigin tillögu um skipulags og matslýsingu fyrir hverfi borgarinnar sem  þeir höíðu áður samþykkt í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði. Tillöguna sem þau höfðu samþykkt með mótatkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þar mátti sjá hugmyndir um þéttingu byggðar inn á grónum lóðum. Þar sem bílskúrum í eigu íbúa borgarinnar og grænum svæðum í borginni yrði rutt í burt til þess að rýma fyrir nýbyggingum á svokölluðum þéttingarreitum.

Nú er það ekki svo að tillögur þessar hafi fallið af himnum ofan á borð umhverfis- og skipulagsráðs. Heldur býr að baki þeim töluverð vinna arkitekta og annarra og lætur nærri að sá kostnaður sem nú þegar er fallinn á borgina, sé á bilinu 150 – 160 milljónir króna.

Eftiráskýringar kjörinna fulltrúa borgarstjórnarmeirihlutans eru  afar haldlitlar og bera afar glöggt vitni þess að  núverandi meirihlutaflokkar  eru á hröðu undanhaldi frá eigin stefnu af ótta við töpuð atkvæði í borgarstjórnarkosningunum þann 31. maí næstkomandi.

Páll Hjaltason formaður umhverfis og skipulagsráðs borgarinnar sagði  að tillögurnar hafi verið umræðugrundvöllur til frekari vinnu í skipulagsmálum en ekki tillögur að aðgerðum. Þær hafi ekki verið nógu skýrar. “Tillögurnar voru greinilega villandi í veigamiklum atriðum. Það var ekki metið þannig að það væri rétt að halda áfram með þær eins og þær liggja fyrir. Þetta var verkefnalýsing og í heildina yfir 1.000 blaðsíður og var mjög flókið og greinilega olli misskilningi og það er alls ekki þannig sem við höfum hugsað okkur að skipuleggja borgina í framtíðinni.“

Skýring Páls er afar furðuleg.  Þar er farið undan í flæmingi með einhver tæknileg atriði sem í fáu koma málinu við.   Afhverju í veöldinni var tillagan lögð fram til samþykkis ?  Ekki bara í umhverfis og skipulagsráði, heldur einnig í borgarráði, ef um svo villandi og óskyrar tillögur var að ræða?   Voru tillögunar einn stór misskilningur upp á 150 – 160 milljónir króna?  Úr því að um misskilning var að ræða, eru þá þessar 150 til 160 milljónir sem fóru í kostnað við þennan stóra misskilning tapaðar?  Ef ekki, er þá ekki ætlunin að hrinda þeim í framkvæmd á næsta kjörtímabili, þegar kosningar innan fárra vikna verða ekki að þvælast fyrir framkvæmdinni?

Staðreyndir málsins eru auðvitað þær, að fulltrúum meirihlutans var og er full alvara með þessum tillögum.  Á því leikur ekki nokkur vafi  að tillögum þessum verður hrint í framkvæmd að loknum kosningum, verði sömu flokkar í meirihluta borgarstjórnar að þeim loknum.   Hörð viðbrögð og mótmæli íbúa í Vesturbæ og öðrum hverfum  borgarinnar urðu einungis til þess að fresta samþykkt og framkvæmd þessara tillagna.  Enda meirihlutaflokkarnir skíthræddir  við að bíða afhroð í þeim hverfum borgarinnar sem stærstur hluti þeirra fylgis kemur frá.

Stefnan hefur verið mörkuð, en framkvæmd hennar einungis verið frestað framyfir kosningar, vegna ótta við töpuð atkæði.  Í besta falli gæti orðið um breytingar sem lítl áhrif hafa á heildarmyndina.

Kosningar snúast ekki um tæknilega útfærslu heldur stefnumörkun. Verði Samfylking og Björt framtíð enn við völd í Ráðhúsinu að kosningum loknum í vor verður sömu stefnu fylgt. Ráðist verður inn í rótgróin hverfi um alla borg, bílskúrum rutt úr vegi á Hjarðarhaganum og græn svæði víða um borgina eyðilögð til þess að rýma fyrir nýjum byggingum.  Nýbyggingum sem skerða munu verulega búsetugæði þeirra sem nú þegar byggja þessi hverfi.

Það er bara ein leið til þess að forða þessari vá.  Hún er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum þann 31. mai.   XD fyrir dásamlega Reykjavík.

Grein mín í Morgunblaðinu 14.5. 2014


Dásamlega Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn vill, komist hann til valda, efla grunnþjónustuna og gera þá þætti hennar er snúa að persónulegum þörfum fólks enn  notendavænni.  Flokkurinn vill forgangraða fjármunum í þágu grunnþjónustu  og  tryggja að í allri persónulegri grunnþjónustu, frá vöggu til grafar, muni fé fylgja þörf.

Flokkurinn vill að í rekstri borgarinnar verði augljós stærðarhagkvæmni hennar  nýtt til hins ýtrasta og ávinningur af slíku komi fram í lækkun á útsvari og þjónustugjöldum borgarinnar. Jafnframt sem hægt verður að stöðva stórfellda skuldasöfnun borgarinnar og greiða niður skuldir.

Flokkurinn vill auka frelsi foreldra barna á báðum skólastigum, til að velja þann skóla er þeir telja börnum sínum fyrir bestu.  Flokkurinn mun stuðla að og efla samráð og samstarf við foreldrasamtök grunn og leikskóla. Ásamt því að stefna ákvarðanatöku í þeim málaflokki enn frekar í farveg, faglegra vinnubragða og samráðs.  Foreldrar eiga jú fullan rétt á því að vita hvar skóli barna þeirra stendur í samanburði við aðra skóla í borginni.

Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að bætingu á öllum sviðum samgöngumála.  Efla samgöngur út í úthverfin og á milli þeirra.  Stuðla að stórauknu viðhaldi stofnbrauta og annarra gatna borgarinnar.  Vinna þarf markvisst að auknu umferðarflæði.  Til þess að hægt verði að stuðla að allsherjar bætingu á sviði samgöngumála í borginni þarf að taka upp samning um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu  sem núverandi borgarstjórnarmeirihluti gerði við fyrri ríkisstjórn. Þó svo að greina megi aukin áhuga fólks á breyttum samgönguvenjum, þá réttlætir sú breyting ekki þá kúvendingu sem í samningunum fellst á kostnað umferðaröryggis í borginni.  Einkabíllinn er og verður aðal samgöngutæki borgarbúa um ókomin ár.

 Þá vill flokkurinn tryggja nægan tækjakost borgarinnar til snjómoksturs í borginni.  Hvort sem það verði gert með kaupum á tækjum eða með verktakasamningum.  Það er ekki boðlegt að embættismenn borgarinnar eða þá borgarfulltrúar, afsaki ónógan snjómokstur með því að, ekki hafi verið búist við öllum þessum snjó!  Ennfremur mun flokkurinn, komist hann til valda, tryggja það að grassláttur í borginni verði með þeim hætti að sómi verði af.  Flokkurinn vill stuðla að því að hreinsun í borgarlandinu verði betur sinnt en nú er.  Það er trú okkar sjálfstæðismanna, að standi borgin sig vel í því sem að henni snýr við að halda borginni hreinni, þá muni einnig virðing borgarbúa og gesta borgarinnar fyrir umhverfi hennar aukast..  Sjálfstæðisflokkurinn auka valmöguleika í sorphirðu og endurskoða 15 metra gjaldið. Enn fremur vill flokkurinn stuðla að veigamiklu átaki í viðhaldi á eigum borgarinnar.

Flugvöllurinn er í Vatnsmýri og verður þar um fyrirsjáanlega framtíð. Nefnd um staðarval er að störfum og mun skila af sér á þessu ári.  Sjálfstæðisflokkurinn stendur fastur  á því að innanlandsflug fari ekki til Keflavíkur.  Flokkurinn mun berjast gegn því að þrengt verði að núverandi starfssemi á flugvellinum, uns endanleg niðurstaða varðandi flugvöllin liggur fyrir.   Við sjálfstæðisfólk í borginni teljum  að virkja beri íbúalýðræðið miklu meira í stórum málum og munum berjast fyrir því að borgarbúar komi að endanlegri ákvarðanatöku um flugvöllinn í íbúakosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn mun stuðla að því að borgin leggi sín lóð á vogarskálarnar við að lækka byggingakostnað íbúða  í borgarlandinu og. Með því að tryggja nægt framboð lóða og með því að taka til endurskoðunar gjaldtöku og greiðsluform hinna ýmsu byrjunargjalda við húsbyggingar, eins og gatnagerðar, holræsa og tengigjöld. 

 

Uppbygging og góð nýting borgarlandsins er nauðsynleg og skilar betri nýtingu á þeim umferðarmannvirkjum sem fjárfest hefur verið í. Þétting byggðar þarf að eiga sér stað um alla borg en við viljum byggja hvert hverfi upp fyrir sig til þess að mynda enn betri sjálfbær hverfi. Stuðla þarf að framboði fjölbreyttra húsagerða og búsetukosta á hverjum tíma, í þéttri byggð og í hefðbundnum íbúðarhverfum. Markmið er fallegri borg, heilbrigði og sjálfbærni.

Við þéttingu byggðar þarf þó umfram allt að gæta að því að búsetuskilyrði þeirra sem við þéttingarétinina búa skerðist ekki.  Tryggja þarf að nýjum íbúðum í rótgrónum hverfum borgarinnar fylgi næg bílastæði.  Það eru engin skýr teikn á lofti um að einkabílaeign borgarbúa eða annarra landsmanna minnki svo einhverju nemi næstu áratugi.  Af þeim sökum þarf því að gera ráð fyrir því að við þéttingu byggðar í rótgrónum hverfum, að umferð í þeim aukist í réttu hlutfalli við fjölgun íbúa í hverfinu. Sjálfstæðisflokkurinn vill klára uppbygginu Úlfarárdals.  Bæði með það fyrir augum að hraða auknu framboði lóða í borginni og að hægt verði að koma upp sjálfbærum þjónustueiningum borgarinnar í hverfinu.

Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr og hún skilur sig frá stefnum annarra flokka sem í framboði eru til borgarstjórnar.   Það er bara einn flokkur sem býður upp á dásamlega Reykjavík í vor.

Grein í Morgunblaðinu 2. maí.


Ábyrg fjármálastjórn í Reykjavík- allra hagur.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 stóð til í fyrstu að stórhækka gjaldskrár borgarinnar til þess að standa undir sífellt hækkandi rekstrarkostnaði borgarinnar.   Eftir nokkurn þrýsting, m.a. frá aðilum vinnumarkaðsins voru þó þessar hækkanir dregnar til baka.  Þó ekki með meira afgerandi hætti en að:

„Ef forsendur bregðast hins vegar áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014."

Með öðrum orðum, ef sami  meirihluti stjórnar enn borginni að loknum kosningum í vor, þá hækkar bara gjaldskráin eftir kosningar. Af fenginni reynslu má þá búast við enn meiri hækkunum þá en áætlað var.  Enda ekki beinlínis hægt að halda því fram að kosningaloforðalisti Samfylkingar sé sérlega ódýr.

Að öðrum kosti, þ.e. ef annar meirihluti tekur við eftir kosningar, þá lendir það á þeim meirihluta að bregðast við  þeirri stöðu sem uppi verður að loknum kosningum.

Það er talið að það kosti Reykjavíkurborg u.þ.b. 300 milljónir að falla frá þessum hækkunum. Án hagræðingar í rekstri borgarinnar verða þeir fjármunir sóttir í vasa borgarbúa með einum eða öðrum hætti.

Þrátt fyrir að horfur séu á því að ráðstöfunartekjur heimilana aukist á næstu misserum, er ekki hægt að ætlast til þess að meðalfjölskylda í borginni, taki á sig anna kjörtímabilið í röð rúmlega 400 þús króna útgjaldaaukningu, vegna gjaldskrár og skattahækkana borgaryfirvalda.   Slík þróun, ef ekki verri, er klárlega i kortunum, ef borginni verður stjórnað  með þeim hætti og henni hefur verið  stjórnað á því kjötímabili, sem að góðu heilli tekur senn enda.

Á kjörtímabilinu hefur kostnaður við skrifstofu borgarstjórnar þrefaldast, farið úr rúmlega 160 milljónum í rúmlega 500 milljónir. Fyrir þeirri hækkun eru engin ástæða önnur en óábyrg fjármálastjórn og bruðl með skattfé almennings.   Enda er sú hækkun 300 milljónir umfram verðlagsbreytingar á kjörtímabilinu.
Skrifstofa borgarstjórnar, er bara eitt dæmi mörgum þar sem bruðl og óráðsía vinstri meirihlutans hefur gersamlega farið úr böndunum.

Það er  því af nógu að taka til þess að vega upp á móti þessum 300 milljónum sem tapast og meira til.
Það er stefna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að með  ábyrgri fjármálastjórn og hagræðingu í þágu grunnþjónustu í stað gæluverkefna eigi  klárlega að nýta það svigrúm sem af slíku skapast til þess að lækka gjaldskrár og útsvar borgarinnar.

Ábyrg fjármálastjórn mun svo einnig í framhaldinu draga úr þörf borgarinnar að fjármagna rekstur sinn með lántökum og skapa henni svigrúm til þess að greiða niður skuldir sínar, fremur en að auka við þær.

Það er  svo að sjálfsögðu stefna Sjálfstæðisflokksins, komist hann til valda í boginni, að setja „nóturnar á netið“, þ.e.  að gera borgarbúum og reyndar öllum öðrum það kleift að fylgjast með á auðveldan hátt í hvað fjármunum borgarinnar er varið.

Grein mín í Morgunblaðinu 23.4 2014.


Betri þjónusta í dásamlegri Reykjavík.

Til þess að tryggja hér í borginni hvað fjölbreyttast og lifandi mannlíf þarf að tryggja hér  að sú þjónusta sem borgin veiti verði hvað notendavænust.   Tryggja þarf borgarbúum eins fjölbreytta þjónustu og hægt er á sem hagkvæmastan hátt.

Samkvæmt viðamikilli  þjónustukönnun Capacent  hjá  sextán stærstu sveitarfélögunum  landsins  í janúar síðastliðnum var Reykjavíkurborg í neðsta sæti , þegar spurt var um grunnskóla, leikskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, fatlað fólk og aldraða og gæði umhverfisins.

Það eru því næg tækifæri til bætingar hvað  Þjónustu við borgarbúa  varðar  og er það bjargföst trú mín að stefna Sjálfstæðisflokksins sé hvað best til þess að nýta það tækifæri til fulls.  Vinstri flokkarnir, hvort sem það er hjá ríki eða borg, hafa margoft sýnt fram á það, að þeir eru gersamlega óhæfir til þess að hagræða fjármunum í þágu grunnþjónustu í stað gæluverkefna.  En það er einmitt lykillinn að hærra og betra þjónustu stigi hjá borginni, að fjármunum sé ráðstafað þar sem þeirra er þörf, en ekki í sérstök  áhugamál kjörinna borgarfulltrúa er lúta að breyttum samgöngumáta. Svo  eitthvað sé nefnt.

Helstu notendur þjónustu borgarinnar eru, foreldrar og börn þeirra á leik og grunnskólaaldri, fatlaðir og aldraðir.

Í þjónustu við þá hópa mun Sjálfstæðisflokkurinn, komist hann til valda í borginni, tryggja að fé fylgi þörf.  Enn fremur mun flokkurinn tryggja að sú þjónusta sem í boði verður, verði sem fjölbreyttust og veitt af þeim sem best geta.  Er þá bæði átti við  opinbera aðila jafnt sem einkaaðila.

Strax í upphafi  kjörtímbilsins mun flokkurinn tryggja það, að foreldrar barna að tveggja ára aldri verði veitt það frelsi að velja á milli dagforeldra, ungbarnaleikskóla eða nærfjölskyldu við að annast barnið, með því að láta daggjöld fylgja hverju barni frá lokum fæðingarorlofs þar til barnið  kemst á leikskólaaldur.

Sjálfstæðisflokkurinn vill efla og flýta fyrir greiningu á misþroska  börninum og börnum með sérþarfir, svo þau börn njóti sín sem fyrst í réttu skólaumhverfi og fái þá meðferð sem þau þurfa til þroska og vaxtar innan skólakerfisins.

Sjálfstæðisflokkurinn mun tryggja það, að fötluðum og öldruðum verði veitt sú þjónusta sem þeim ber.   Verði borgin ekki í færum til þess að veita þá þjónustu sem þarf, verður boðið upp á þjónustutrygginu sem dekka á þann kostnað við að einkaaðilar eða jafnvel ættingjar sinni þeim  er þjónustuna skortir.   Með þeim hætti er einnig hægt að vinna niður langa biðlista eftir þjónustu á vegum borgarinnar.

Samhliða því sem Sjálfstæðisflokkurinn mun tryggja nægt löðaframboð í borginni til bygginga nýs íbúðahúsnæðis, mun flokkurinn einnig tryggja að nægt lóðaframboð verði til nýbygginga húsnæðis fyrir fatlaða og aldraða.

 Grein birt á visir.is 22. apríl 2014.


Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband