Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Allt eins skýrt og af er látið?

Það má segja að úrslitin kosninganna í gær séu skýr, þ.e. tveir þriðju sem þátt tóku vilja að tillögur stjornlagaráðs verði að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem lagt verði fram á Alþingi. Eða að breytingarferli, í einhverri mynd, á stjórnarskránni haldi áfram. 

Afgerandi eru úrslitin með auðlindir í þjóðareign. Þjóðkirkjuákvæði verður áfram í stjórnarskrá samkvæmt þessum úrslitum. Persónukjör leyft í meira mæli, þ.e. opnaður möguleiki á auknu persónukjöri en því ekki komið á.  Jöfnun atkvæðisréttar nær örugglega samþykkt á landsvísu, þó að í tveimur landsbyggðarkjördæmum sé töluverð andstaða við slíkt.  Nær öruggt er einnig að beint lýðræði verði í þessum  tillögum sem Alþingi fær til umfjöllunar, sem nýtt frumvarp að stjórnarskrá.

Kjörsóknin hefði þó mátt vera mun meiri, til þess að gera umboðið skýrara og sterkara.  Rök eins og þeir sem sátu heima, leyfðu þeim sem kusu að ráða fyrir sig og að kjörsókn hafi verið með svipuðu móti og þjóðaratkvæðum í löndunum í kringum okkur, duga kannski í bili. Hið minnsta.  

Atkvæði þeirra sem heima sátu, verða virk þegar kosið verður til Alþingis í vor. Í það minnsta flest þeirra.  Enginn getur með vissu sagt, hvað olli heimsetu þessa fólks í kosningunum í gær.  Hvort að því fólki sé einfaldlega „bara sama“ eða hafi skýra afstöðu til málsins.  En  hafi af einhverjum ástæðum eins og t.d. þeirri að um ráðgefandi kosningu var að ræða og að forsætisráðherra hafi lofað breytingum á stjórnarskrá hvernig sem kosningarnar færu, ákveðið að sitja heima.

Þegar gengið verður til þingkosninga í vor, mun væntanlega heimasetufólkið bætast í hóp kjósenda. Þó ekki verði beinlínis kosið um úrvinnslu þingsins á tillögum stjórnlagaráðs, nema kosið verði sérstaklega um hana, þá mun sú vinna eflaust vera undir. Líkt og öll hin stóru málin.

Enginn veit hvaða einkunn lögfræðihópurinn sem Stjórnlaga og eftirlitsnefnd þingsins skipaði til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs gefur þeim.  Hvort hópurinn telji einhver ákvæði ekki standast, einhverjum þeirra sé  ofaukið o.s.f.v..  Eins er það óljóst hvort eða hvaða breytingum tillögurnar taka í meðförum þingsins.

Í ljósi þess að tillagan um jöfnun atkvæðisréttar var felld í tveimur kjördæmum,  má alveg leiða að því líkum, að þingmenn þaðan verði hikandi við samþykkt hennar eða hreinlega bara berjist gegn henni. Enda gæti áframhaldandi þingseta þeirra staðið og fallið með því hvernig þeir tækla þá tillögu.

Nokkuð víðtæk sátt er um í þinginu að einhvers konar auðlindaákvæði verði í stjórnarskrá.  Enda eru þau úrslit mest afgerandi  í kosningunum.Hins vegar er eflaust himinn og haf meðal þingmanna um orðalag slíks ákvæðis. 

Að öllum líkindum verður ákvæði um þjóðkirkju sett í nýja stjórnarskrá, þó eflaust verði deildar meiningar um slíkt ákvæði í þinginu.

Persónukjörið mun væntanlega ná í gegn.  En eins og það ákvæði hljómar, þá er það í rauninni verkefni næstu þinga að koma því á. Sé til þess vilji á þeim þingum.  Það er því ekki hægt að segja að persónukjör hafi beinlínis verið tryggt.

Beina lýðræðið nær nokkuð örugglega í gegn þó allt eins megi búast við því að þröskuldurinn verði eitthvað hærri en  10% sem talað hefur verið um.

Afdirf annarra tillagna, en þeirra sem ekki var beinlínis kosið um, eru hins vegar óljós ennþá.  Enda hafa afar fáir þingmenn gefið upp afstöðu sína til þeirra. 

Ég gæti svosem alveg ímyndað mér að innan allra flokka á þingi sé vilji til þess að ráðherrar séu ekki samtímis þingmenn einnig. Þó eflaust sé slíkt ekki samróma álit í öllum flokkum. Svo eitthvað sé nefnt.

Það er því kannski ekki beinlínis hægt að tala um sigur eða tap einhverra í þessum kosningum í gær.  Enda allteins hægt að áætla að stór hluti já-anna í þeim hafi fremur lýst vilja fólks til breytinga á stjórnarskrá, fremur en beinlínis hafi það verið að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs sem slíkar. Er þá kannski nær að líta til svara við spurningum 2-6, ætli fólk að tala um skýra efnislega niðurstöðu úr þessum kosningum. 

Hlutdeild manna í sigrinum er því kannski víðtækari en af er látið.  Enda flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, hvort sem eiga fulltrúa á þingi eða ekki, talað fyrir breytingum  á stjórnarskrá. Eins og t.d. auðlindaákvæði.  Þó vissulega séu þær breytingar mismiklar eftir flokkum.

Hinn eiginlegi sigurvegari verður að lokum þjóðin. En til þess að svo verði, verður ekki bara að ríkja víðtækari sátt um stjórnarskrárbreytingar en nú er. Heldur þarf stjórnarskráin  einnig í fyllingu tímans að standa tímans tönnn og gagnast þjóðinni á þann hátt sem stjórnarskrám er ætlað.


mbl.is „Er afskaplega stolt af þjóðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldaður "sannleikur" rithöfundar.

Hallgrímur Helgason rithöfundur fer mikinn í bloggi sínu á dv.is.  Það eru svosem engin tíðindi að Hallgrímur fari mikinn. Enda gerir hann það í flestu sem hann tekur sér fyrir hendur.  Nema kannski þegar hann leitar sannleikans.  Blogg Hallgríms má sjá hér, fyrir þá sem nenna að lesa það:

http://www.dv.is/blogg/hallgrimur-helgason/2012/10/19/hverjir-eru-skrillinn/?fb_comment_id=fbc_217359051727507_774265_217361908393

Yðar einlægur ætlar hins vegar bara að gera hluta þessa blogs Hallgríms að umtalsefni.

"Sjálfstæðisflokkurinn er og verður helsta ógn íslensks samfélags. Með honum frýs allt fast. Án hans er allt hægt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun tekið við gamla neikvæðnikeflinu, sem VG geymdi forðum. Sjálfstæðisflokkurinn í dag er eins og VG var: Á móti öllu. Hann er á móti nýrri stjórnarskrá, á móti samningaviðræðum við Evrópusambandið, á móti endurskoðun kvótakerfisins, á móti þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá, á móti nýjum lausnum í gjaldeyrismálum … you name it."

Það segir sig auðvitað sjálft að Hallgrímur er rithöfundur. Enda þessi orð hans ekki raunveruleg lýsing á stöðu mála. Heldur hugarburður hans og fleiri vinstri manna, sem nálgast sannleikann sjaldnast nema til hálfs, hið mesta.

Sjálfstæðisflokkurinn eða flokksmenn margir eru á móti drögum stjórnlagaráðs í heild sinni, þó þeir telji margt í þeim jákvætt. Þar á bæ er vilji til breytinga á stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn vildi fara í vinnu við stjórnarskrána fyrr á þessu kjörtímabili og byggja þá vinnu á gögnum frá þjóðfundinum, stjórnlaganefnd og fleiri aðilum. Því var hins vegar hafnað af stjórnarmeirihlutanum og meðhlaupurum hans.

 Formaður flokksins hefur hins vegar sagt að flokkurinn sé ekki bundinn niðurstöðu stjórnlagaráðs.  Enda þarf ekki annað en að lesa núgildandi stjórnarskrá, til þess að sjá að enginn þingmaður getur ekki  lýst sig ,,bundinn“  niðurstöðum  stjórnlagaráðs, með eða án þjóðaratkvæðis um þær, án þess að brjóta 48. grein hennar  og rjúfa þannig drengskaparheit sitt við stjórnarskrána.

Sökum þess að pólitískt bakland ESBumsóknar er í mýflugumynd, vill Sjálfstæðisflokkurinn að aðildarviðræðum sé hætt. Í gang fari vinna þar sem það er metið útfrá lögum og reglugerðum ESB, hvað í stærstum dráttum fellst í því að vera aðildarþjóð að ESB. Að þeirri vinnu lokinni yrði niðurstaðan lögð fyrir þjóðina og hún fengi að kjósa um hvort taka ætti að nýju upp viðræður við ESB.

Hvað kvótakerfið varðar, þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki andvígur breytingum á því. Heldur þeim breytingum sem núverandi ríkisstjórn vill gera á því.  Sjálfstæðisflokkurinn er líka vel til umræðu um hækkun á veiðigjaldinu.  En er andvígur þeirri hækkun er stjórnarflokkarnir leggja til.

Það er ekki hægt að halda því fram að einhver sé á móti þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá, þar sem ný stjórnarskrá liggur ekki fyrir. Það er hverjum manni ljóst að það er hvorki hægt að vera með eða móti einhverju sem ekki er til.  Kosningarnar á morgun snúast ekki um nýja stjórnarskrá.  Heldur er þjóðin spurð álits á tillögum að nýrri stjórnarskrá.  Hins vegar liggur ekki fyrir hvort efnislegri niðurstöðu kosninganna verði fylgt eða ekki.

Hvað gjaldmiðilsmálin og lausnir varðar, þá er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur þeirri einu lausn sem stjórnarflokkarnir og meðhlauparar þeirra bjóða upp á, upptöku evru. Enda felur slík lausn í sér aðild að ESB. En flokkurinn telur, eins og reyndar allir aðrir flokkar nema Samfylkingin, hag Íslendinga betur borgið utan ESB.

 

Ef að maður nýtir sér það rými sem "you name it" gefur, er Sjálfstæðisflokkurinn einnig á móti skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem er murka lífið úr fyrirtækjunum og fólkinu í landinu, markvissri baráttu stjórnarflokkanna gegn verðmæta og atvinnusköpun, pólitískum hrossakaupum stjórnarflokkanna um faglega unna rammaáætlun, ásamt mörgu fleiru.... 


Er skilyrðið um að "standa í skilum" mannréttindabrot?

„Ég tel að þessi dómur staðfesti að ef staðið er í skilum með svokallað ólögmætt gengistryggt lán og greitt hafi verið af því þá dragast allar greiðslur inn á höfuðstól frá stöðu lánsins áður en það er vaxtareiknað,“ segir Skarphéðinn Pétursson lögmaður Borgarbyggðar í málinu.

Það liggur fyrir að margir þeirra sem eru með ólögmæt gengistryggð lán, hafa ekki getað staðið í skilum. Enda ruku þau lán, upp úr öllu valdi þegar gengishrun krónunnar varð.  Það sem olli hækkuninni  var ólögmætt ákvæði lánasamningsins, gengistryggingin.

Auk þess sem afturvirkt vaxtaákvæði laga 151/2010, sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmætt, hefur einnig haft íþyngjandi áhrif á flesta ef ekki alla lánþega gegnistryggðra lána.

Skilningur lögmannsins, hér að ofan, er sá að lánþegi þurfi að hafa staðið í skilum til þess að eiga rétt á því að fá rétt sinn bættan.  Þeir sem ekki gátu staðið undir ólögmætu vaxtaokri og ólögmætri gengistryggingu, eiga hins vegar engan rétt.

Það hlýtur þvi að vekja upp þá spurningu hvort ekki sé verið að brjóta á mannréttindum þeirra er ekki stóðu undir ólögmætum kröfum fjármálafyrirtækja. Með því að skilyrða  réttarbætur lánþega við það að hafa getað staðið undir lögbrotinu? 

 


mbl.is Milljarðar í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkvæður misskilningur um lýðræði.

Það má alveg hafa af því gaman, í hófi, að fylgjast með því hvernig stuðningsmenn stjórnlagaráðstillagnanna keppast við líkt og enginn sé morgundagurinn við það að misskilja orð formanns Sjálfstæðisflokksins, um ólýðræðislegar kosningar á laugardaginn kemur.

 Enginn þeirra talar þó um kosningarnar sem slíkar, að einhverju marki.  Heldur er klifað á því, hvað tillögurnar séu verk margra einstaklinga.  Það hafi verið haldinn 950 manna þjóðfundur  og svo þjóðin "kosið" sér stjórnlagaþing, sem varð eftir ógildingu Hæstaréttar á kosningunum að stjórnlagaráði, eftir að Alþingi skipaði þá er "náðu" kjöri í ógildu kosningunum í ráðið. 

Flestum, ef ekki öllum þessum snillingum yfirsést það þó, á kjörseðlinum mun vera fyrirvari sem gerir kosningar þessar ólýðræðislegar.   En í fyrirvaranum stendur:

Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Við þetta má svo bæta, að frumvarpið gæti jafnvel einnig tekið breytingum, áður en það er verður lagt fyrir þingið.  Fari svo að lögfræðiteymir sem  Stjórnsýslu og eftirlitsnefnd Alþingis skipaði, telur á því einhverja meinbugi, hvað varðar alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar eða innbyrðis mótsagnir í frumvarpinu.

Það er því alveg morgunljóst, að þau skilyrði sem þarf til  þess að hægt sé að kalla kosningarnar lýðræðislegar, eru ekki fyrir hendi.   Enda er þess getið í fyrirvara á kjörseðli að endanlegar lyktir þess máls, sem kosið er um,  geti orðið aðrar en  „lýðurinn“ kýs að þær verði.   Lýðræðislegar kosningar ganga einmitt út á það að úrslit þeirra séu endanlegar lyktir þess máls sem kosið er um.  


Sjaldan eiga slæmur málstaður og sannleikurinn samleið.

Sjaldan fellur Álfheiði Ingadóttur satt orð úr munni....
Í tíufréttum sjónvarps sagði hún fullum fetum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað fyrr en nú ræða efnislega tillögur stjórnlagaráðs. 

Nær allan síðasta vetur, var það krafa þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að efnisleg umræða færi um tillögurnar. Bæði í þinginu sjálfu og í Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þingsins. 

Öllum beiðnum um slíkt var hafnað. Utan þess sem að almennar umræður voru um tillögurnar. Þær umræður fóru hins vegar það snemma fram eftir að tillögum stjórnlagaráðs var skilað þinginu, að varla má ætla að þingmenn hafi náð að kynna sér tillögurnar að því marki, að sú umræða hafi getað talist efnisleg.


Álfheiður hefur hins vegar verið í hópi þeirra þingmanna, sem hrópað hafa:"Málþóf-málþóf!!", í þinginu ef einhver þingmaður þingmaður Sjálfstæðisflokksins , hefur dirfst til þess að beina orðum sínum efnislega að tillögum stjórnlagaráðs, í ræðustól Alþingis.


Undragleraugu Stefáns Ólafssonar.

Líklegasta ástæða þess að árangur stjórnvalda í baráttunni við skuldavanda heimilanna er ekki betri en svo, að notast verði við gleraugu Stefáns Ólafssonar, til þess að greina hann, er sú að í kjölfar svokallaðra aðgerða stjórnvalda, sem kostuðu jú  allar einhverja fjármuni, voru neysluskattar þ.e. skattar á tóbak, áfengi og eldsneyti, svo eitthvað sé nefnt.

 Sú skattahækkun hækkaði verðlag, sem hækkaði svo vístölu lánanna og gerðu stöðu þeirra sem "hjálpað" var lítið skárri en  hún var áður.

Yfirgnæfandi líkur eru þó á því að þessar aðgerðir hefðu virkað í mun betur en reyndin varð, ef að stjórnvöld hefðu áttað sig á því að auknum útgjöldum ríkissjóðs þarf að mæta með aukinni verðmætasköpun og atvinnu. En ekki með gramsi í vösum skattgreiðenda.

Reyndar merkilegt að undragleraugu Stefáns skuli ekki nema þá einföldu og alkunnu staðreynd.


Baráttan um "já-ið".

Þessa daganna hamast hópur manna, líkt og enginn sé morgundagurinn,við það að fá sem flesta til að segja já við tillögum stjórnlagaráðs. Alveg óháð því hvort fólk sé sammála tillögunum sem slíkum.  Í held eða bara litlum hluta þeirra.

Þrátt  fyrir það að fólk sé beðið um að greiða tillögunum atkvæði sitt, þó ekki sé það sammála þeim öllum eða þess vegna bara hluta þeirra, þá er  það krafa ýmissa að Alþingi láti sér ekki detta það í hug að breyta neinu efnislega í tillögunum.  Fari svo að „já-in“ verði fleiri en „nei-in“.

 Jafnvel þó vitað sé að reynt sé með ýmsum bolabrögðum að þvinga fram  „jáið“ án „raunverulegs samþykkis“ þess er það veitir.  Enda forsendur þess eingöngu byggðar á samþykki hluta tillagnanna.

 Frösum  eins og: "Viltu að LÍÚ eignist allan fiskinn í sjónum?" , er gjarnan haldið að fólki sem þráast við að segja já við tillögum stjórnlagaráðs í heild sinni.

 Það vill auðvitað enginn maður, að LÍÚ eða einhver annar en þjóðin eigi fiskinn í sjónum.  Enda almennur "þjóðarskilningur" að hann sé í þjóðareign.  Enda er það svo að fulltrúar þjóðarinnar, sem hún kýs sér á löggjafarþing  þjóðarinnar, setja lög um nýtingu og umgengni þeirrar auðlindar.

En þá kemur þessi fordæmalausa og ósanna fullyrðing: "Ef að þjóðin samþykkir ekki tillögur stjórnlagaráðs, þá falla gæði lands og sjávar í fárra hendur."

Auðvitað á enginn að gjalda einhverju samþykki sitt nema hann sé því sammála, efnislega í nánast öllum atriðum.  Að öðrum kosti hlýtur hið eina rökrétta svar að vera „nei“ svo atkvæði þess sem kýs lýsi raunverulegum vilja hans.

Hvort að hinum almenna kjósenda finnist drögin almennt betri en núgildandi stjórnarskrá, ætti heldur ekki að skipta lykilmáli.  Heldur hvort að hinum almenna kjósenda finnist tillögurnar ásættanlegur arftaki núgildandi stjórnarskrár.   Enda eiga kosningar um einstaka málefni ekki að snúast um hvort það sé betra en það sem fyrir er, heldur hvort mögulegar lyktir þess séu ásættanlegar að mati þess sem greiðir atkvæði sitt.

 Það getur því varla kallast málefnalegt og því síður lýðræðislegt,  að berjast með þeim hætti fyrir samþykkinu og lýst er hér að ofan.  Eða þá að útkoma kosninganna geti talist lýðræðisleg, verði samþykkt tillagnanna fengin með þeim óheiðarlega hætti og lýst er hér að ofan.

Hins vegar er örvænting stjórnarliða og meðhlaupara þeirra eðlileg. Sökum þess hversu illa hefur verið á málum haldið af Jóhönnustjórninni, liggja í rauninni engar tillögur að nýrri stjórnarskrá eða breytingum á henni, sem hægt yrði með góðu móti að fara í og afgreiða fyrir vorið,  aðrar en tillögur stjórnlagaráðs.

Yrði þeim tillögum kastað út í hafsauga, þá væru stjórnarflokkarnir í slæmum málum, vegna þess að loforðið um nýja eða breytta stjórnarskrá, myndi "gufa upp" á lokaspretti kjörtímabilsins.

Stjórnarflokkarnir, viðhengi þeirra og meðhlauparar, gætu hins vegar engum öðrum en sjálfum sér kennt um þær ófarir. Enda hafa þeir aðilar slegið hendinni á móti hverslags málamiðlunum eða efnislegri umræðu um þær tillögur að breyttri stjórnarskra, er nú þegar liggja fyrir, með eða án tillagna stjórnlagaráðs.


"Hálfsannleikur" Seðlabankans kallar á stjórnsýsluúttekt.

"Skuldir þjóðabúsins eru mun meiri en áður hefur verið haldið fram af Seðlabankanum og öll áform um afnám gjaldeyrishaftanna verða ótrúverðug uns heilstætt mat hefur verið gert á skuldastöðunni." 

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri sagði í viðtali við Morgunblaðið að:

,,Undirliggjandi hrein staða er hrein staða þegar búið er að leggja mat á hreina skuld sem stafar af uppgjöri fjármálafyrirtækja í slitameðferð, leggja þá stærð við það sem á þeim tíma er flokkað sem hrein staða án fjármálafyrirtækja í slitameðferð og draga frá skuld Actavis." 

 Í riti Seðlabankans, Hvað skuldar þjóðin, er ekki tekið tillit til þessarar ,,undirliggjandi hreinu stöðu", þó svo að Arnór hafi einnig sagt, að auðvitað hafi alltaf staðið til að fara þá leið sem farin hefur verið og varpar í raun réttu ljósi á skuldastöðuna. Í því samhengi hlýtur því að mega spyrja: "Afhverju var þess ekki getið í "ritinu" um skuldir þjóðarinnar, á sínum tíma?"

Ef að mig misminnir ekki þá kom ritið út á sama tíma og þriðji og síðasti Icesavesamningurinn var til umræðu í þinginu.Alveg burtséð frá því hvort að samþykkja hefði samninginn eða ekki, þá hlýtur ritið eða sú staða sem þar birtist  hafa verið lögð til grundvallar því, að óhætt væri að samþykkja hann.

 

 

Í ljósi þess hlýtur að mega spyrja, hvað vakti fyrir Seðlabankanum er hann undanskildi þessa "undirliggjandi stöðu" frá þeim tölum er hann birti í ritinu? 

Eins hljóta þessar meintu falsanir Seðlabankans á stöðunni, að kalla á athugun á því, hvort að í öðrum gögnum Seðlabankans undanfarin misseri, sé ekki að finna áþekkt misræmi eða falsanir á þeim raunveruleika sem þjóðin í raun býr við.  Er staða heimila og fyrirtækja í landinu í raun jafn sönn og Seðlabankinn hefur haldið fram?  

Getur verið að trúverðugleiki Seðlabankans standi fyrst og fremst með því, hversu raunverulega mynd stjórnvöld, vilji á hverjum tíma að sé birt af ástandinu?

Að öllu þessu sögðu, hljóta að koma fram spurningar, eins og:  "Hvað veldur því að ekki er enn farin í gang stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum og FME, líkt og Alþingi samþykkti að fara í, þegar niðurstaða "Atlanefndarinnar"  er innihélt slíka tillögu, var samþykkt 63-0?


mbl.is Skuldum 90% meira en áður var talið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaman af því...

Það er gaman af því, að ungu mennirnir sem sungu af innlifun og sannfæringu saman "það er bara einn flokkur ....Samfylking...", hafi fundið "bjarta framtíð".  En án Samfylkingar...

 http://www.youtube.com/watch?v=qrtb7Ewuzdk

En kannski er Samfylkingin ekki svo langt undan hjá þeim félögum.  Þó svo að Guðmundur Steingríms hafi skroppið yfir í Framsókn, þá var það nú meira svona eins og að hann hafi nú helst bara boðið sig fram þar, til þess að eiga von um þingsæti.  Enda yfirgaf hann Framsókn, þegar hann komst að því að það væri bara ,,ein Samfylking" og hún ekki í Framsókn.
 
 Reyndar fóru þær sögur af ungum jafnaðarmönnum í Norðvesturkjördæmi, að þeir hafi verið það ánægðir með Guðmund, að þeir hafi skráð sig í Framsókn, bara til þess eins að tryggja honum brautargengi þar.  En það er önnur saga... 

Róbert sá sæng sína útbreidda í Suðurkjördæmi. Enda lítil von um betra sæti en síðast í prófkjöri Samfylkingar í kjördæminu.  Vonin um þingsæti, væri þó snöggtum minni.  Enda Samfylkingin svikið nánast allt sem lofað var vorið 2009 og algert fylgishrun nánast óumflyjanlegt og ekkert þingsæti í boði fyrir piltinn.

 Hann reyndi þó að sýna smá kokhreysti í óraunhæfu bjartsýniskasti og tilkynna framboð í Reykjavík og hugsanlegt forystuhlutverk í Samfylkingunni.   En líklega hefur það þó bara verið vegna þess að hann hefur haft kjark til þess að horfa framan í fólkið sem hann sveik, fyrir tæpum fjórum árum.  En hefur sjálfsagt komist að því, að eftirspurning sér hafi verið minni en engin, hjá samfylkingarfólki í Reykjavík.

Svo er það bara spurning hvort það verði nógu mikil ,,Samfylking" fyrir þá félaga í Bjartri framtíð. Því ekkert hægt að segja að það sé björt framtíð í Samfylkingunni.  Þó eflaust sé það líklegra en ekki að hjörtu þessara sveina, muni slá með þeim flokki, þó fram þeir fari undir annarri kennitölu. 

 

 


Leynisamningar og rammaáætlun.

„Álfheiður Ingadóttir sagði að þegjandi samkomulag ríkti um að ríkisfyrirtæki héldu að sér höndum í virkjanamálum, á meðan rammaáætlun hefði ekki verið afgreidd á Alþingi.“ 

".......á meðan Alþingi fjallar um rammaáætlun, þá skal ríkja hér algert verkstopp í orkugerianum“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Það liggur því í augum uppi að svokallað ,,samráð“ stjórnarflokkanna um rammáætlun, er í rauninni ekkert annað en hluti þess leynilega þegjandi samkomulag stjórnarflokkanna um verkstopp í orkugeiranum.

Það er nærri því eitt og hálft ár, síðan vinna við rammaáætlun lauk. Og var niðurstaðan afhent Svandís Svavarsdóttur umhverfisráðherra og Katrínu Júlíusdóttur, þann 6. júlí 2011. Hálfu ári síðar mælti Svandís svo fyrir þingsálykunartillögu í þinginu um hana.

Ekki náðist þó, sökum pólitískra hrossakaupa og innbyrðisdeilna innan og í millum stjórnarflokkanna, að koma þingsályktunartillögunni í aðra umræðu  og afgreiðslu, þó enn hafi þrír mánuðir verið til stefnu fram að þinglokum og brann því tillagan inni.

Núna nýverið flutti Svandís tillöguna aftur í þinginu og þrátt fyrir allan þennan tíma, sem liðinn er síðan rammáætluninni var skilað inn, þá er enn verið að "ræða" hana. Eða öllu heldur að svæfa af pólitískum ástæðum. Meðfram því sem faglegri vinnu byggðri á rannsóknum er fórnað í nafni pólitísks rétttrúnaðar.

Hvernig má það vera, að faglegri vinnu sem þverpólitísk samstaða er að fara í, er sýnd slík óvirðing og dónaskapur, að pólitískur rétttrúnaður er æðri faglegri niðurstöðu, sem tíu ára vinna liggur að baki við?

Svarið  liggur  í augum uppi. Svokallað ,,samráð“ stjórnarflokkanna um rammáætlun, er í rauninni ekkert annað en hluti þess leynilega þegjandi samkomulag stjórnarflokkanna um verkstopp í orkugeiranum.


mbl.is Leynisamkomulag stjórnarflokkanna ólíðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband