Leita í fréttum mbl.is

Framkvæmdavaldið, segir Hæstarétti fyrir verkum.

Það getur ekki verið annað en eindæmi í lýðræðisríki, með þrískipt vald, að framkvæmdavaldið sé að segja dómsvaldinu fyrir verkum.

 Stjórnvöld eru með þessu, bæði að setja Hæstarétt í óviðunandi stöðu, auk þess sem að vegið er að trúverðugleika Hæstaréttar.  Til þess að sátt náist í þjóðfélaginu, eftir að rannsóknum og dómsmálum lýkur, þarf Hæstiréttur á öllum þeim trúverðugleika að halda, sem hann getur haft.

  Það er í rauninni, verið að slá ryki í augum almennings, með þeim fullyrðingum, að þessi dómur Hæstaréttar skilji eftir sig fleiri spurningar en svör.

Í þessum tveimur málum sem dæmt hefur verið í, eru þeir samningar sem eru efnislega eins og þeir samningar, sem dómsmálið varð til út af, löglegir að öllu leyti nema því, að óheimilt var að gengistryggja þá.  Þá stendur eftir að samningurinn glidir, eins og hann er, án gengistryggingar. Allt annað varðandi samningana er löglegt og ekki Hæstaréttar, eða annara dómsstiga að breyta þeim á einn eða annan hátt. Alveg óháð stöðu lánafyrirtækjana, eða ríkissjóðs.

 Stjórnvöld gætu eflaust sett ný lög sem kveða á um aðra vexti, en standa í samningunum, en spurning er hvort að slík lög stæðust skoðun, gagnvart EES tilskipunum, eða þá jafnvel mannréttindum.


mbl.is Samningsvextir haldist ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru þá Gylfi og Már að verja?

Nokkrum dögum, áður en bæði Íslandsbanki og Arionbanki, gefa frá sér yfirlýsingu, eftir að hafa skoðað  stöðu eigin banka, að bankarnir muni "lifa" af dóm Hæstaréttar, gáfu Gylfi Magnússon Efnahags og viðskiptaráðherra og Már Guðmundsson, út yfirlýsingu um hið gagnstæða. 

 Að baki slíku, hljóta að liggja einhverjar ástæður, heldur en óígrundaðar yfirlýsingar, byggðar á tilfinningum þeirra.

 Ein ástæðan gæti verið sú, að Landsbankinn lifi þetta ekki af og til þess að hylma yfir þá staðreynd, þá séu hinir bankarnir, dregnir með inní myndina. Það hljómar kannski ekki ólíklega, í ljósi þeirrar umræðu sem að orðið hefur um 260 milljarða skuldabréf Landsbankans.  Vegna þessa skuldabréfs knúðu stjórnvöld í gegnum þingið á síðustu dögum þess, breytingu á lögum, sem kvað á um að kröfur vegna skuldabréfsins, yrðu settar fram fyrir innistæður, félli bankinn.  Slíkar lagabreytingar, gerðu menn varla, nema hafandi áhyggjur af afdrifum bankans.

 Svo gæti önnur ástæðan verið sú að stjórnvöld, hafi gert baksamninga, við kröfuhafa gömlu bankanna, sem fæi í sér, að ef endurreistu bankarnir yrðu fyrir skaða, vegna dóms Hæstaréttar, þá myndi ríkið bera skaðann.  

 Eigi síðari ástæðan við, er ekki annað að sjá, að stjórnvöld, hafi með þessum baksamningum, veitt ríkisábyrgð, án heimildar.  Það kveður skýrt um það í lögum um fjármál ríkisins, að ríkisábyrgð, megi ekki veita, án efnislegrar umræðu og samþykkis Alþingis.   


mbl.is Stefnir ekki efnahag bankans í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksráðsfundir stjórnarflokkanna.

Í það minnsta tvær vikur, hefur legið ljóst fyrir að á sömu helginni í lok júní, verði aukalandsfundur Sjálfstæðisflokksins og stjórnarflokkarnir halda sína flokksráðsfundi. Þrátt fyrir það virðast fjölmiðlar landsins, alveg hafa gleymt, flokksráðsfundunum, heldur velt sé upp úr öllum mögulegum og ómögulegum erjum, sem kunna að eiga sér stað á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins.  Hvort einhver bjóði sig fram gegn formanni flokksins og þá hver, ásamt því sem að fjölmiðlar hafa verið uppteknir af því að finna flokknum nýjan varaformann og uppdikta, einhverjar fléttur sem þar gætu komið.  Fjölmiðlar hafa miklar áhyggjur af því hvort landsfundinn samþykki ályktun, gegn ESB-umsókninni, hvort flokkurinn klofni þá og stofnaður verði nýr hægri flokkur, með ESB-áhuga.

 Fari svo að flokkurinn klofni, þá verður bara að vera svo, enda varla gott að halda uppi góðu flokksstarfi og skýrri stefnu, með "ESB-ráfandi sauði" innanborðs.  Nú kann einhver að segja að þetta muni kosta flokkinn, mikið fylgi.  Ég tel að svo þurfi ekki að vera.  Í síðustu þingkosningum, þá var flokknum refsað, bæði fyrir að hafa verið við völd í hruninu og vegna þess hversu "volgur" hann var í ESB-afstöðunni.

  Sá hluti "fastafylgisins" sem færðist yfir til Samfylkingar, kom að mínu mati frá ESB-ráfandi sauðunum að mestu og mun því þessi, hugsanlega nýi hægri flokkur, plokka fylgi af Samfylkingunni, eða í það mesta, mun meira fylgi en af Sjálfstæðisflokknum.  Sá hluti "fastafylgisins" sem vildi refsa flokknum, fyrir "hrunið", en var í andstöðu við ESB, kaus að stórum hluta VG, enda fékk sá flokkur óeðlilega góða kosningu, eða þá Borgarahreyfinguna.  Fólki eru nú orðin ljós afrek þessara tveggja flokka, eftir kosningar og mun því stórhluti þess fylgis sem flúði til þessara flokka, frá Sjálfstæðisflokknum, skila sér til baka.

 En snúum okkur þá að þessum flokksráðsfundum, sem ættu í rauninni að valda jafnmiklum, ef ekki meiri hugarangri hjá fjölmiðlum, bloggurum og álitsgjöfum, þar sem niðurstöður, eða skortur á niðurstöður þeirra funda hafa meira að segja um þá atburði, sem gætu átt sér stað hér á landi, á næstu vikum og mánuðum.  Þessir tveir flokkar eru jú þeir flokkar sem nú um stundir eru við völd.

Hvernig munu Vinstri grænir álykta varðandi ESB? Hvernig munu Vinstri grænir álykta um stöðu heimilana? Hvernig munu báðir flokkarnir álykta varðandi dóm Hæstaréttar?  Hvernig munu Vinstri grænir álykta um stöðu Icesavedeilunnar?  Hvernig munu Vinstri grænir álykta um Stjornarráðsfrumvarp forsætisráðherra? Mun órólega deildin í Vinstri grænum gera uppreisn? Mun Samfylkingin setja Vinstri grænum afarkosti? Munu Vinstri grænir setja Samfylkingu afarkosti?

Þetta eru nú bara þær helstu spurningar, sem ég held að fjölmiðlamenn mættu með ósekju snúa sér að, þar sem niðurstöður eða skortur á þeim af flokksráðsfundum stjórnarflokkanna, mun hafa meiri áhrif á fólkið í landinu, þ.e. lesendur, hlustendur og áhorfendur, þessara fjölmiðla.  

 

  


mbl.is Dagskráin liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íhlutun Seðlabankastjóra.

Það hlýtur að vera eindæmi í vestrænu lýðræðisríki, að Seðlabankastjóri, þess ríkis, komi fram með aðra eins íhlutun og beinlínis, hvetji til þess að dómur Hæstaréttar verði hundsaður.  Núna eru nokkrir klukkutímar frá þessari yfirlýsingu (íhlutun) Seðlabankastjóra og ekki hefur heyrst, hósti né stuna, frá stjórnvöldum.  Stjónvöldum, sem að fyrir ekki lengri tíma, en viku, voru að eigin sögn,  búin að velta fyrir sér mögulegri niðurstöðu Hæstaréttar, að varla væru stafirnir í stafrófinu nógu margir, svo að hægt væri að skreyta, hin mörgu "plön" stjórnvalda með bókstöfum. ( Samanber "plan A, "plan B" o.s.f.v.).

 Það vekur líka athygli að stjórnvöld voru ekki búin, eftir því næst verður komist, búin að verða sér út um lögfræðiálit, vegna gengistryggðu lánana, svo hægt yrði að móta stefnu, gagnvart þeim dómi Hæstaréttar, sem upp yrði kveðinn, á hvora leiðina sem að hann hefði orðið.

 Eins hlýtur það að verða furðulegt að þau lánafyrirtæki, sem að fá dóm fyrir ólöglega gengistryggingu lána, skuli hafa ekki upphugsað, einhver önnur viðbrögð við niðurstöðu dóms Hæstaréttar, en að bíða eftir því hvað stjórnvöld komi til með að aðhafast í málinu. Sú staðreynd, rennir reyndar stoðum undir þá kenningu, að fyrirtækjunum hafi verið "lofað" inngripum stjórnvalda, ef illa færi.  Réttaróvissan varðandi gengistryggðu lánin, varð ekki til við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar, heldur hefur hún varað um einhver ár og séu orð Valgerðar Sverrisdóttur fyrrv. viðskiptaráðherra, tekin góð og gild, hefur réttaróvissan verið fyrir hendi, frá árinu 2001, í Viðskiptaráðuneytinu hið minnsta og sá "grunur" um réttaróvissu, hverfur ekkert úr ráðuneytinu, við stjórnarskipti.

 Lykilatriðið í máli þessu, hlýtur að vera, hvað Hæstiréttur, dæmdi ólöglegt.  Samkvæmt dómi Hæstaréttar, þá eru þessir lánasamningar löglegir, fyrir utan það að ekki var löglegt að miða við gengistrygginguna. Það er þá borðliggjandi, að samningarnir standi að öðru leyti, nema um annað verði samið, óháð áhyggjum Seðlabankastjóra, stjórnvalda, fræðimanna eða fjármálafyrirtækjana sjálfra, af afkomu þeirra í kjölfar dóms Hæstaréttar. Það getur engan vegin staðist núverandi lög, að inní skilmálana séu sett önnur ákvæði, til björgunnar lánafyrirtækjunum, en heimil eru samkvæmt lögum, hvort sem það séu einhverjir Libor-vextir eða stýrivextir Seðlabankans, eða þá bara þeir vextir sem voru reiknaðir í þessum lánasamningum, fyrir utan gengistrygginguna, sem nú hefur verið dæmd ólögmæt.


mbl.is Hefðu lækkað vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nýjar fréttir.

það var ljóst, strax vikurnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, að Bretar og Hollendingar, væru fúsir til viðræðna um Icesave.  Þeir voru þá, eins og reyndar núna, eingöngu reiðubúnir að ræða lausn deilunnar, á grundvelli, þessa "betra tilboðs", sem lagt var fram vikurnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Það verður samt að segjast eins og er, að þetta svokallaða "betra tilboð", getur vart talist "betra", þar sem, ekki er tekið á þeim  ágreiningi, sem að í raun hefur "tafið" lausn deilunnar.  Sá ágreiningur, snýst ekki um vexti og vaxtakjör, heldur um greiðsluskyldu, eða öllu heldur ábyrgð Ríkissjóðs og þar með íslenskra skattgreiðenda á erlendum skuldum einkabanka. 

 Það var ríkisábyrgðin, sem þjóðin kaus gegn þann 6. mars sl.  þjóðin kaus ekki um vaxtakjörin, þó svo að Össur og fleiri hundtryggir starfsmenn Bretavinnunnar, rembist eins og rjúpa við staur, við að endurskrifa söguna á þann hátt.

Stjórnvöld hafa því ekki umboð þjóðarinnar, til annars en að ganga frá deilunni, án ríkisábyrgðar, hvað sem einbeittum vilja stjórnvalda til annars líður. Segja má að umboð stjórnvalda, lúti eingöngu að því, að leysa deiluna, á þeim grundvelli, sem sameiginlegt samningsviðmið stjórnar og stjórnarandstöðu, snerist um.  Í því samningsviðmiði, kvað á um að fyrst skildi leitast við að ná sem mestu upp í upphæðina úr þrotabúi Gamla Landsbankans, sem sannarlega stofnaði til skuldarinnar, að því loknu, myndu svo þjóðirnar þrjár, setjast aftur að samningaborðinu og semja um sameiginlega ábyrgð, á þeirri fjárhæð sem útaf stæði, þar sem tilvist Icesavereikninganna, var ekki eingöngu á ábyrgð Íslendinga og því síður á ábyrgð íslenskra skattgreiðenda.  Svo má líka segja, að stjórnvöld hafi umboð til lausnar deilunnar, á þann hátt, að fyrri Icesavesamningurinn, með fyrirvörunum, taki gildi með fyrirvörunum öllum óbreyttum.  

 Icesavereikningarnir, eða möguleikinn á því að stofna til þeirra af Landsbankanum, varð til vegna þess að stjórnvöld höfðu lögleitt, tilskipanir ESB um tryggingarsjóð innistæðueigenda.  Sú lögleiðing hlaut samþykki ESA, hvað sem að sú ágæta stofnun ályktar nú.  Í þeirri tilskipun er skýrt kveðið á um að ríkisábyrgð á tryggingarsjóðnum, er óheimil.

 Sú fullyrðing að Icesavedeilan og ESB-umsóknin og deilan þar með ESB óviðkomandi, er beinlínis röng.  Hið rétta er að ESB hefur verið á harðahlaupum undan þessu "skilgetna afkvæmi" sínu, afkvæmi vanhugsaðrar og meingallaðrar reglugerðar sinnar, sem að Icesavedeilan, er með sanni sprotin upp af.

 Næstu dagar og vikur munu því fara áróðursstríð, milli aðildarsinna og hundtryggra starfsmanna í Bretavinnunni, gegn stórum meirihluta þjóðarinnar, sem leysa vill deiluna á réttlátan og sanngjarnan hátt, en ekki á þann sakbitna hátt glæpamannsins, sem að stjórnvöld og þeirra fylgismenn vilja.


mbl.is Bretar reiðubúnir í Icesave-viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

David Cameron genginn í Heimssýn?

David Cameron talar um skaðabætur til Breta, vegna íslenska bankahrunsins.  Það hlýtur að kalla á óháða rannsókn á tilurð hryðjuverkalaga Breta, með hugsanlega málsókn í huga.  Slík málsókn, myndi eflaust kalla á opinberun á breska fjármálakerfinu, líkt og skýrslan hér, bauð uppá. Þar myndu leikar berast til skattaparadísa Breta á Ermasundseyjunum og í Karabíska hafinu. Það þarf ekki að dvelja lengi við það, til þess að sjá, að slík rannsókn myndi draga ýmislegt fram um breska fjármálakerfið, sem ekki þolir dagsins ljós.

 Þessi yfirlýsing Camerons, hlýtur líka að drepa endanlega áhuga íslensku þjóðarinnar á inngöngu í ESB, þó svo búast megi við að Samfylkingin og hennar aðstoðarfólk í Bretavinnunni, leggi sig enn frekar fram um að gangast undir ólögvörðum kröfum Breta og Hollendinga.

 Íslenska þjóðin ætti sjálfsagt núna að sameinast um að skrifa David Cameron þakkarbréf og þakka honum, þetta mikilvæga skref í því að hafa gert þjóðina, endanlega afhuga ESB-inngöngu.

 Það verður samt að teljast líklegast að yfirlýsing Camerons verði til þess, að Spuna og blogglúðrasveit Samfylkingar, verði kallaðar út í neyðarkall og hefji spunann um allan "skaðann" og efnahagshrunið, sem kann að verða, ef við borgum ekki með bros á vör.

 Þess ber þó að geta, að "efnahagshrunið" og "hörmungarástand" það sem að stórnvöld spáðu í kjölfar synjunar forsetans á lögum nr. 1/2010, hafa snúist upp í andstæður sínar, þrátt fyrir það að þjóðin hafi kosið gegn síðustu Icesavesamningum, þannig að ekki ættu endurteknar bölspár stjórnvalda, að bíta á þjóðinni, í andstöðu hennar gegn greiðsluvilja stjórnvalda, á ólögvörðum kröfum Breta og Hollendinga.  Jafnvel þó svo að slíkt kostaði þjóðina ESB-aðild.


mbl.is Beiti ESB í Icesave-deilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretavinnan að byrja á ný.

Gylfi Magnússon, "umboðslausi" efnahags og viðskiptaráðherrann, tekur hér "smá swing" í Bretavinnunni. 

 Ef  að samningur um Icesave, verður undirritaður í þriðja sinn, með sama inntaki og hinir fyrri, þ.e. að það fylgi ríkisábyrgð, þessum ólögvörðu kröfum Breta og Hollendinga, þá er það einboðið, að forsetinn synji þeim lögum, sem af slíkum samningi spretta.  Enda snerist þjóðaratkvæðagreiðslan, ekki um lánskjör eða þvíumlíkt, heldur snerist hún það, að þjóðin (skattgreiðendur) kusu um það hvort þeir vildu ábyrgjast, skuldir einkabanka í útlöndum.

 Eftir synjun forsetans á Icesavelögunum frá 30. desember sl. (hér eftir lög nr.1/2010), þá neyddust stjórnvöld, til þess að leita til stjórnarandsöðunnar, um myndun samninganefndar, sem allir flokkar á þingi, kæmu að.  Annars hefðu engar viðræður átt sér stað, fram að þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur hefði þá eingöngu verið rekin hér grimm og illvíg kosningabarátta, með og á móti lögum nr. 1/2010.

Samninganefndin hin nýja, fór svo út með sameiginlegt samningsmarkmið, sem hvað á um að þrotabú Gamla Landsbankans, yrði nýtt að því marki sem það dyggði til að greiða skuldbindingarnar, síðan tækju við nýjar viðræður stjórnvaldanna þriggja, um sameiginlega ábyrgð á því sem eftir stæði, ef að eitthvað yrði þá eftir.    

 Til að gera langa sögu stutta, þá var þessu samningsviðmiði, hafnað með því sama og lagt fram gagntilboð. Tilboð sem síðar fékk heitið "betra tilboð".  

 Þegar nær dró að þjóðaratkvæðagreiðslunni,  fóru að berast þær raddir úr búðum stjórnarliða, að þjóðaratkvæðagreiðslan, væri marklaus skrípaleikur, enda lægi betra tilboð á borðinu.  Eitthvað illa gekk þó að fá upplýst, hvað féllist í betra tilboðinu, svo þjóðin gæti tekið upplýsta ákvörðun, enda var þar vísað til trúnaðar á milli samningsaðila.  Það verður þó að teljast hæpið, að vísa til trúnaðar á milli samningsaðila, þegar að þjóðaratkvæðagreiðslan vofði yfir þjóðinni.  En trúnaðurinn, var vitanlega fyrst og fremst, settur á vegna þess að "betra tilboðið", var ekkert annað en lægri vextir, en áður hafði verið samið um og einhver vaxtalaus ár, en ríkisábyrgðin, sem lög nr. 1/2010 snerist um, var enn fyrir hendi.

 Í undanfara þjóðaratkvæðagreiðslunnar, lagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar, fram skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra, um það hvað fælist í þessu "betra tilboði", enda varla hægt að halda þjóðinni óupplýstri, um hvað annað en lög nr. 1/2010, væri í boði.  Samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar tíu virka daga, til þess að svara slíkum fyrirspurnum, en fyrirspurninni sem lögð var fram í marsbyrjun, var ekki búið að svara, þann 16. júní er þingið fór í sumarfrí.  Það sjá það allir, sem kunna að lesa á dagatal, að töluvert meira en tíu dagar voru þá liðnir frá framlagningu fyrirspurnar Vigdísar. Það bendir þá væntanlega til þess að "sagan" um betra tilboðið, var ekki jafnsönn og af var látið.

 Þjóðaratkvæðagreiðslan fór svo fram, eins og alþjóð veit, og voru lög nr.1/2010 kolfelld, með 98,2 % atkvæða þeirra sem kusu.   Síðan þá hefur ekkert frést af viðræðum, eða undirbúningi þeirra, enda viðsemjendur okkar, fyrir utan það að kosið hefur verið bæði í Bretlandi og Hollandi, ekki boðið annað en samning á grundvelli "betra tilboðsins", sem að er í raun bara gamli samningurinn sem felldur var í þjóðaratkvæðagreiðslunni, með vaxtaafslætti og myndi slíkum samningi fylgja samskonar lög og lög nr. 1/2010,  með þeirri smábreytingu að vaxtaprósentan væri lægri og einhver ár væru vaxtalaus.

 Slíkum lögum bæri forseta vorum, að sjálfsögðu synja staðfestingar og vísa til þjóðarinnar.  Ríkisstjórn sem ekki býður þjóð sinni, betur en svo, að hún býður þjóð sinni upp á nánast sömu lög aftur og þjóðin hafnaði,  er þá sjálf að grafa gröf sína, ekki þingið, forsetinn, eða þjóðin.


mbl.is Óvíst hvort stjórnin lifi af aðra atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilji fyrir þjóðstjórn, eða kattasmölun, vegna flokksráðsfundar Vg?

Ég tel vart ástæðu til þess að rjúka upp til handa og fóta, þó Össur tjái sig á þennan hátt.  Síðustu daga þingsins, blésu kaldir vindar milli stjórnarflokkanna, eða milli Samfylkingar og órólegu deildar Vg.

 Einn þingmaður Vg skrifaði sig, sem meðflytjandi á þingsályktunnartillögu Unnar Brár Konráðsdóttur, um að draga ESB-umsóknina til baka og þrir þingmenn Vg lýstu sig andvíga Stjórnarráðsfrumvarpi forsætisráðherra og mun andstaða þeirra þriggja eflaust fella frumvarpið, að öllu óbreyttu.

Reyndar hefur það verið þannig, þegar að meirihlutastjórnin, hefur orðið að minnihlutastjórn, vegna andstöðu órólegu deildar Vg, að leiðtogar stjórnarinnar, þá sér í lagi Jóhanna og Steingrímur J., leitað til stjórnarandstöðunnar um samstöðu, vegna þeirra mála sem órólega deildin, leggst gegn.  Annars er hætt við því að stjórnarandstaðan, liggi undir ámæli um óábyrg og ólýðræðisleg vinnubrögð.  Það hlýtur að vera einsdæmi í ríkjum þar sem það á að heita, að meirihlutastjórn sé við völd, að í stærstu málum og þá helst, helstu hugðarefnum forsætisráðherra, þurfi að leita til minnihlutans, svo málið hafi meirihluta í þinginu.

 Reyndar er það svo að flest þau mál sem lúta að atvinnuuppbyggingu, hafa þingmeirihluta, en vera VG í ríkisstjórn, stöðvar eða tefur þau mál velflest, þar sem frumvörp, frá ríkisstjórninni, þurfa samþykki beggja þingflokka ríkisstjórnarflokkanna.  Þau einu mál sem komast hávaðalaust frá ríkisstjórninni, inn á þingið, eru mál sem drepa alla atvinnuuppbyggingu, þ.e. skattahækkanir.

 Það verður því að teljast líklegra að þessar þjóðstjórnarhugmyndir Össurar, séu bara "ákall" um viðeigandi stjórnmálaályktun, frá flokksráðsfundi Vg, sem verður um næstu helgi.  Stjórnmálaályktun, sem lýsir ekki stefnu Vg, varðandi ESB, eða stjórnarráðsfrumvarpi Jóhönnu.

  Össuri, varð nú svo mikið um þegar hann heyrði orðið "þjóðstjórn" síðast, að hann bauð Ögmundi Jónassyni í kaffi, til að ræða við hann um stjórnarmyndun, án þátttöku Sjálfstæðisflokks, þó svo að Össur hafi þá setið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og hafi þar með farið bak við samstarfsflokkinn og í rauninni, brugðist trúnaði hans.

 


mbl.is Össur hlynntur þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus þráhyggja forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir, hefur ekkert með það að gera að setja nefnd Atla Gíslasonar fyrir.  Nefndin er skipuð af löggjafarvaldinu, en ekki framkvæmdavaldinu.  Nefnd Atla Gíslasonar, er ætlað samkvæmt skipunnarbréfi að rannsaka, hugsanlega vanrækslu ráðherra, sem gæti varðað við lög um ráðherraábyrgð og er innan fyrningarfrests, þess háttar mála, ásamt því að meta hvort að ástæða sé að senda til rannsóknar embættisfærslur, embættismanna þar sem hugsanlega, gætu hafa átt sér stað vanrækslubrot í starfi.

 Væri þá ekki rétt, fyrst að einkavæðing rikisbankanna "hin fyrri" er svona mikið hjartans mál forsætisráðherra, að hefja rannsóknarferlið í lok 9. áratugarins, þegar nokkrum illa stöddum einkabönkum var afhentur Útvegsbanki Íslands með 800 milljóna "heimamundi" frá ríkistjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknar? Það hlýtur að vera nauðsynlegt, sé forsætisráðherra alvara með því að rannsaka einkavæðingu, fyrri ára á ríkisbönkum.

 Þess má einnig geta að Rikisendurskoðun, gaf söluferlinu "heilbrigðisvottorð".  Efist fólk eitthvað um álit þeirrar stofnunnar, þá er sjálfsagt að starfsemi hennar sé rannsökuð, áratug aftur í tímann, enda þá varla bara þetta eina mál, sem orkar tvímælis í vinnu hennar.

 Þessar ásakanir um sölu á "undirverði" risu hvað hæst, þegar bankarnir birtu "uppblásnar" afkomutölur sínar, sem að í skýrslu Rannsóknarnefndar, er sagt að hafi verið byggðar á fölskum forsendum.

 Rætt var í upphafi um að sænskur banki eignaðist ráðandi hlut í Landsbankanum, en það máttu þáverandi stjórnarandstöðuflokkar (núverandi stjórnarflokkar) ekki heyra á minnst, að ríkisbankinn yrði seldur einhverjum útlendingum.  Einnig var rætt um dreifða eignaraðild, án kjölfestufjárfestis, en sú leið var viðhöfð, er Íslandsbanki varð til, við sameiningu Útvegsbankans, Verslunnarbankans, Iðnaðarbakans og Alþýðubankans árið 1990  og þótti mistakast og voru jafnvel efasemdarraddir innan Samfylkingar að lögleiðing á dreifðri eignaraðild stæðist lög EES.

 Það hefur margoft komið fram, hvernig þetta einkavæðingarferli var allt og allir mögulegir og ómögulegir aðilar rannsakað það. Það er einna helst að Spænski Rannsóknarrétturinn eða Vatíkanið, hefur ekki fengið málið til rannsóknar.  Það er meira vitað um þetta áratugsgamla einkavæðingarferli, heldur en margt sem gerist í nútímanum hjá núverandi stjórnvöldum og nægir þar að nefna, nýjustu einkavæðingu bankana, eða þá hver í stjórnsýslunni, tekur sér það "bessaleyfi" að véla með lagabreytingar svo að hægt sé að hækka lögbundin laun Seðlabankastjóra.

 Ef að forsætisráðherra, getur ekki hundskast til þess að hætta að lifa í fortíðinni og snúa sér að verkefnum framtíðar, þá er mál að linni og rétt að fólk sem treystir sér til þess að tryggja bjarta framtíð þjóðarinnar taki við keflinu.


mbl.is Einkavæðing bankanna rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á þá Kaupþing banka og Glitni banka og þá í raun ný-einkavæddu bankana?

Nú hefur Gylfi Magnússon efnahags og viðskiptaráðherra loks upplýst um kröfuhafa og eigeindur, nýeinkavæddu bankanna.  Var nokkuð djúpt á þessu svari Gylfa, því eins og og þingsköp kveða á um, þá ber ráðherrum að svara skriflegum fyrirspurnum, ekki seinna en tíu virkum dögum, frá framlagningu fyrirspurnar.  Gylfi tók sér hins vegar 40 daga til þess að svara þessari fyrirspurn.

 Vera má að þetta mál sé allt flókið og erfitt yfirferðar, en það í rauninni, afsakar ekki alla þessa bið eftir svarinu.  Það vill þannig til að ráðuneyti Gylfa er yfir bankamálum hér á landi og ætti því að hafa undir höndum upplýsingar um bankana, uppfærðar minnst vikulega. 

 Fram kemur í svari Gylfa að kröfuhafar eigi ekki Arion banka, heldur eigi ríkið 13% hlut og eignarhaldsfélagið Kaupskil ehf, sem er í 100% Kaupþings banka á svo  87%. Gera má ráð fyrir að svipað eigi við um Íslandsbanka, þ.e. að ríkið, eigi smáhlut og svo eitthvað eignarhaldsfélag í 100% eigu Glitnis banka eigi rest.

 Þessar upplýsingar ríma engan vegin við það sem, haldið var fram við einkavæðingu bankana, þar sem sagt var að bankarnir væru færðir að stærstum hluta úr eigu ríkisins í eigu kröfuhafa. Þessar upplýsingar hljóta þá einnig að gera orð þeirra Jóhönnu og Steingríms J, er þau sögðust ekkert geta aðhafst vegna aðgerða ný-einkavæddu bankana, því að þeir væru komnir í eigu kröfuhafa.  Nægir þar að nefna meðferð Arion banka á málefnum Haga og Samskipa.

 Sé það svo eins og Gylfi Magnússon, efnahags og viðskiptaráðherra segir, að eignarhaldsfélög í 100% eigu "gömlu", föllnu bankanna, eigi stærstan hlut í bönkunum á móti ríkinu, þá má spyrja, hvort að við yfirtöku ríkisins á föllnu bönkunum á sínum tíma, hafa ekki falið það í sér að ríkið eignaðist þá og eigi þar með bæði Arion og Glitni banka.


mbl.is 28.000 kröfur frá 119 löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 2020

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband