Leita í fréttum mbl.is

Katrín og Gylfi, vilja breyta lögum núna. Afhverju ekki í fyrra haust, þegar beiðni um slíkt var borinn fram í ríkisstjórn?

"Bæði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra kváðust á fundinum vilja breyta lögum um erlenda fjárfestingu, að sögn Margrétar. Þá hefur meirihluti nefndar um erlenda fjárfestingu ítrekað hvatt ráðherra til þess að breyta lögunum, en ekkert hefur hreyfst í ráðuneytunum í þá átt. Því er nokkuð ljóst að ekki er sátt í ríkisstjórninni um það hvort og þá hvernig eigi að breyta lögunum um erlenda fjárfestingu."

 Nú er það ljóst, að snemma síðasta haust, eftir að OR seldi Magma sinn hlut í HS-Orku, að þingflokkur Vinstri grænna fól, formanni flokksins, að leita leiða í ríkisstjórninni, til þess að breyta lögum um erlenda fjárfestingu og koma þar með í veg fyrir sölu Geysis Green Energy á hlut sínum í HS-Orku, eins og vitað var, strax síðasta haust, að stóð til.

 Hver var afstaða þessara ráðherra þá?  Hafi þeir viljað breyta lögum þá, afhverju var ekki drifið í því þá, þegar vitað var að salan á meirihluta HS-Orku, var framundan? Hvað stoppaði þau?

 Þessi orð Gylfa og Katrínar eru ekki sannfærandi og verða að skoðast sem nokkurs konar "hvítþvottur" og yfirklór yfir þá skömm blasir við vegna aðgerðaleysis þeirra. 

Hafi þau eða aðrir metið svo að lagasetning þessi gæti beðið, þá lýsir það engu öðru en vanhæfi núverandi stjórnvalda, til þess að vernda hagsmuni þjóðarinnar.


mbl.is Íhugar að kæra málið til ESA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver greiddi fyrir þýðingu greinarinnar? Varla skrifaði Össur hana á ungversku.

Fyrir ekki svo löngu þá fóru fram í Evrópuþinginu, umræður um aðildarumsókn, Íslendinga að ESB.  Fram hefur komið á Evrópuvaktinni, að Utanríkisþjónustan hyggist ekki birta efni þeirrar umræðu á íslensku, þar sem "umræðan" þar, flokkast ekki undir "lykilskjöl" í aðildarferlinu. Auk þess benti ráðuneytið á það, að umræðurnar væri hægt að nálgast á ensku og dönsku og miðað við kunnáttu íslensku þjóðarinnar í þessum tungumálum, þá ætti þjóðinni ekki að verða "skotaskuld" úr því að kynna sér þessar umræður,  þó textinn væri allur á þessum tungumálum.

 Össur hefur undanfarna daga, gert víðreisn um Evrópu og víða gustað af honum,  í "umboðslausri krossferð" sinni, fyrir bjölluatinu í Brussel.

 Þó svo að Össurri sé ýmislegt til lista lagt, þá er ég þess nokkuð viss, að greinaskrif á ungversku, er ekki innan þess "ramma". Það er því nokkuð ljóst, að Össur mun hafa skrifað greinina upphaflega á því tungumáli, sem hann hefur eitthvað vald á og svo hafi"þýðandi" fengið greinina og þýtt hana yfir á ungversku og sent svo að lokum reikning, fyrir viðvikið.

 Þýðing á grein Össurar, er eflaust mun minni vinna, en þýðing á þeim umræðum, sem fram fór í Evrópuþinginu um daginn. En sé litið til skýringar Utanríkisráðuneytisins, fyrir því að þær umræður, voru ekki þýddar yfir á íslensku, þá hlýtur það að vekja upp spurningar, hver tekur ákvörðun um það hvaða efni skuli verða þýtt og hvað ekki.  Hver tekur ákvörðun um það, hvað eru "lykilskjöl" í aðildarferlinu?  Verða þær upplýsingar, sem þjóðinni er ætlað að vega og meta, við ákvörðun um inngöngu í ESB, valdar ofan í þjóðina, með það fyrir augum að "lykilskjölin" þjóni málstað aðildarsinna?  

 Afstaða utanríkisráðherra til ESB-aðildar, vekur ekki vonir um það, að það val á þýddu efni, varðandi aðildarferlið, verði hlutlaust, verði það hlutverk Utanríkisráðuneytisins, að velja það, fyrir þjóðna, hvað teljist til lykilskjala og hvað ekki. 

 Það hljóta því að liggja fyrir nokkrar spurningar, eins og: Eru greinaskrif utanríkisráðherra í erlend dagblöð lykilskjöl?  Hvað kostaði þýðingin? Hver greiddi fyrir þýðinguna? 


mbl.is Ráðherra ritar í ungverskt dagblað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt lög, henta auðmannadekri Samfylkingar.

"Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra spyr hvort ekki væri heiðarlegast að Magma Energy gæti stofnað dótturfélag á Íslandi vegna kaupa fyrirtækisins á HS Orku, því þá kæmu skatttekjur af starfseminni til landsins. Slíkt er ekki hægt skv. lögum."

Katrín svarar því hins vegar ekki, hvort að það sé eðlilegt að lögin séu þannig, að hægt sé að storfna skúffufyrirtæki í Svíþjóð, til þess að komast yfir eignarhlutinn í HS-Orku, aðeins að aðalatríðið sé að það sé löglegt. 

 Vera má að stofnun skúffufyrirtækisins í Svíþjóð hafi verið, eftir lagabókstafnum.  Það breytir því hins vegar ekki, að Samfylkingunni, þótti engin ástæða til þess að breyta þeim lögum sem að farið var eftir, þrátt fyrir að ráðherrar Vinstri grænna í ríkisstjórn, hafi kallað eftir lagabreytingum.

Sá "lagabókstafur" sem Katrín segir að farið hafa verið eftir, er tekinn upp úr tæplega tuttugu ára gömlum lögum, um erlenda fjárfestingu á Íslandi, eða lög nr. 34/1991, sem samin voru og samþykkt í undanfara þess að EES-samningurinn var gerður.  

 Sé litið til þeirra breytinga, sem hafa orðið á viðskiptaumhverfinu hér á landi og annars staðar, þá má alveg fullyrða það skuldlaust, að lög þessi eru barn síns tíma.  Árið 1991, var það t.d. nánast óhugsandi að orkufyrirtækin væru í eigu annarra en ríkis og sveitarfélaga.

Síðasta sumar eða haust, þá lá það fyrir, að lögin frá 1991, voru í raun orðin úrelt, ef stefnan væri að halda orkuauðlindum og nýtingu þeirra, í íslenskri eignaraðild.  Það varð ljóst þegar OR og Hafnarfjörður, seldu hlut sinn í HS-Orku til Magma.  Sú sala var, reyndar vegna þess að samkeppnislög bönnuðu OR og Hfj, að eiga þessa hluti sína í HS-Orku.

 Þingmenn Vinstri grænna (samstarfsflokks Samfylkingar í ríkisstjórn), sáu þegar þessar sölur fóru í gegn, að nýrra laga væri þörf og fól þingflokkur Vinstri grænna, formanni flokksins Steingrími J. Sigfússyni, að taka málið upp í ríkisstjórn og æskja þess að samin yrðu ný lög, sem kæmu í veg fyrir frekari eignaraðild Magma á HS-Orku og fleiri orkufyrirtækjum. 

 Slíkum umleitunum Steingríms var fálega tekið af samstarfsflokki Vinstri grænna í ríkisstjórn, eins og sjá má af orðum Árna Þórs Sigurðssonar sem höfð voru eftir honum í viðtali við fréttamann RÚV, þegar hann svaraði, ummælum flokkssystur sinnar Lilju Mósesdóttur, sem birtust á Facebooksíðu hennar og birtast ummæli Lilju fyrst og síðan ummæli Árna.

"Ármann Jakobsson réttlætir Magma-klúðrið með því að Icesave-skrípaleikurinn hafi tafið góð mál. Ég kannast ekki við þá töf. Þingflokkurinn ræddi málefni Magma við ráðherra sína á fundum í sumar og haust. Þingflokkurinn samþykkti að fela fjármálaráðherra að finna leið til að tryggja að hlutur Geysis Green í HS orku færi í almannaeigu. Þingflokkurinn vissi ekki betur en að sú vinna væri í gangi."

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna, segir að Samfylkingin hafi síðastliðið haust stoppað bráðabirgðalög um söluna á HS Orku. Segir Árni að það sé lítilmótlegt af flokkssystur sinni að ráðast að formanni flokksins vegna þess að kanadíska fyrirtækið Magma Energy hafi eignast HS orku. Ráðherrar VG hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja innlend yfirráð yfir orkufyrirtækinu.

 Þessi orð Árna segja meira en þúsund orð um raunverlega stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum.  Þeirrar Samfylkingar, sem segist vilja setja í stjórnarskrána, að auðlindirnar, verði í eign þjóðarinnar.  Sjá má af þessu að sá "Blairismi" sem formaður flokksins sagði að lagst hafi á flokkinn eins og slæmur vírus, lifir enn góðu lífi í flokknum og "svokölluð" stefnuskrá flokksins, handónýtt plagg, uppfullt af einskis meintu lýðskrumi.

 Vinstri grænir, geta samt ekki setið hjá öskrað og bent á samstarfsflokkinn í þessu máli, sem og öðrum.  Flokkurinn er jafnsekur á meðan hann situr með Samfylkingunni í stjórn og veitir "afslátt" frá eigin prinsippum og stefnumálum, nema auðvitað að stefnumál Vinstri grænna, séu jafnlítils virði og stefnumál Samfylkingar.

 


mbl.is Bentu á lagabókstafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Iðnaðarráðuneytið að "hvítþvo" sig og "benda" á Viðskiptaráðuneyti?

Síðan fréttin um "meinta" ráðgjöf Iðnaðarráðuneytisins, til fulltrúa Magma Energy birtist, hafa bloggheimar og fjölmiðlar logað stafna á milli, auk þess sem eldar hafa eflaust logað annars staðar líka.

 Í upphafi, var það þessi yfirlýsing, forstjóra Magma Energy Iceland, sem öllu kom af stað, í gær.

„Bæði iðnaðarráðuneytið og lögfræðingar Magma bentu á þessa leið [að stofna fyrirtækið Magma Energy Sweden], hún er fullkomlega lögleg og ekkert við hana að athuga. Magma vildi stofna fyrirtæki hér en fékk ekki, því var þessi leið farin."

  Síðan í hádegisfréttum útvarps, neitar Katrín Júlíusdóttir því alfarið að ráðuneytið hafi, að einhverju leyti ráðlagt fulltrúum Magma.  Sagðist reyndar hafa heyrt af fundi í ráðuneytinu, á meðan Össur Skarphéðinsson var iðnaðarráðherra, ekki fundið nein skjöl í ráðuneytinu, um þann fund.  Það þarf kannski ekki að koma á óvart, að ekkert finnist, hafi starfsmenn ráðuneytisins ráðlagt Magma í eins veigamiklu máli og um ræðir.

 Eftir útvarpsviðtal það sem útvarpað með Katrínu, þá breytir forstjóri Magma orðalagi þeirrar yfirlýsingar sem hann er sagður, hafa gefið í gær og vitnað er í hér að ofan.

Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri Magma á Íslandi, segir ekki rétt sem haldið var fram í fréttum Sjónvarps í gærkvöldi að hann hafi sagt að iðnaðarráðuneytið hafi ráðlagt fyrirtækinu að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð, til að geta eignast HS orku á Íslandi. Hins vegar hafi verið rætt á fundi í iðnaðarráðuneytinu "hvernig lögin virkuðu„.

„Magma menn áttu fund með iðnaðarráðuneytinu á síðasta ári," segir Ásgeir um þetta. „Iðnaðarráðuneytið veitti þar ekki leiðbeiningar heldur sagði einfaldlega hvaða lög væru í gildi og svo var rætt um það hvernig lögin virkuðu. Það voru síðan lögfræðingar okkar [hverra, kemur ekki fram en á þessum tíma var Ásgeir, forstjóri Geysis Green, sem átti hlut í HS Orku, sem Magma vildi eignast] sem ráðlögðu Magma um það með hvaða hætti hægt væri að stofna félagið."

Þú segir að rætt hafi verið um hvernig lögin virkuðu. Var þá rætt um þennan möguleika?

„Nei, það var bent á að lögin væru þannig að félög á Evrópska efnahagssvæðinu mættu fjárfesta hér. Magma sagðist þá vilja stofna félag á Íslandi til að gera þetta, en þá kom fram að þetta tiltekna félag sem stofnað væri utan um fjárfestinguna mætti ekki vera á Íslandi heldur yrði það að vera annars staðar á EES-svæðinu. Síðan var farið að ráðum okkar lögfræðinga um það hvernig þetta yrði sett upp."

 þarna birtist eiginlega bara lengri útgáfa forstjóra Magma á Íslandi og í rauninni, það eina sem breytt, er að í seinni yfirlýsingunni, er landið Svíþjóð ekki nefnd á nafn, heldur bara sagt að það þurfi að vera annað EES-land en Ísland.

 Síðdegis í dag, 11. júlí birtist svo yfirlýsing frá Iðnaðarráðuneytinu, þar sem "beinni" ráðgjöf þess er neitað, en samt sagt að frá því lagaumhverfi sem um ræðir í málum sem þessu hafi verið rædd. Síðan kemur eiginlega rúsínan í pylsuendanum.  Ráðuneytið ber af sér sakir um að hafa veitt, ráðgjöfina, enda málið ekki á forræði ráðuneytisins, heldur á forræði, Efnahags og viðskiptaráðuneytis.  Er þá Iðnarðarráðuneytið að hvítþvo sig af "skömminni", þar sem málið var ekki á þeirra forræði og að reyna að koma höggi á viðskiptaráðuneytið og þann ráðherra, sem þar situr og sat í apríl 2009, Gylfi Magnússon sem þótti áður en þetta mál kom fram valtur í sessi, svo ekki sé meira sagt, vegna klúðurslegra viðbragða, við dóm Hæstaréttar í Gengislánamálinu.  Er Iðnaðarráðuneytið að reyna með klækjum að koma sér undan málinu og viðskiptaráðherra frá í leiðinni?  Veik staða Iðnaðarráðherra í stjórninni, myndi í það minnsta styrkjast lítillega við brotthvarf Gylfa og minnka líkurnar á því að því að Iðnaðarráðherra, yrði látinn taka poka sinn, er ráðuneytum verður fækkað eins og frumvarp forsætisráðherra segir til um.  

 En hér kemur svo yfirlýsing Iðnaðarráðuneytisins og getur fólk bara dæmt hvert fyrir sig.

„Hið rétta er að fimmtudaginn 30. apríl 2009 áttu fulltrúar iðnaðarráðuneytis fund með fulltrúum fyrirtækjanna Magma Energy og Geysir Green Energy. Fundurinn var haldinn að beiðni fyrirtækjanna til að upplýsa um lagalegt umhverfi orkumarkaðar á Íslandi. Á fundinum gerðu fulltrúar ráðuneytisins grein fyrir helstu ákvæðum þeirra laga sem varða orkumál og heyra undir iðnaðarráðuneytið....Þá fóru fulltrúar ráðuneytisins einnig yfir þau ákvæði laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem lúta að takmörkunum á fjárfestingum erlendra aðila í orkuauðlindum og orkufyrirtækjum, en jafnframt var útskýrt að lögin heyrðu undir viðskiptaráðuneytið... Fulltrúar ráðuneytisins leiðbeindu ekki fyrirtækjunum um stofnun dótturfélags á EES-svæðinu utan Íslands til að eignast HS Orku, enda málið ekki á forræði iðnaðarráðuneytis."  

 

 

 


Ráðgjöfin og stjórnarsamstarfið.

Hvort sem að "meint ráðgjöf" Iðnaðarráðuneytis, hafi verið veitt á vakt Katrínar Júlíusdóttur, eða Össurar Skarphéðinssonar, skiptir ekki öllu máli.  Það sem skiptir máli í þessu fyrst og fremst, eru viðbrögð og gjörðir, eða ekki gjörðir stjórnvalda í ferlinu, sem að í gang fór síðar.

 Það hefur komið fram, að þegar OR seldi sinn hlut í HS-Orku, "nauðbeygð" vegna samkeppnislaga, þá fól þingflokkur Vinstri grænna, formanni flokksins, að taka málið upp í ríkisstjórn, með lagasetningu um erlenda eignaraðild á íslenkum orkufyrirtækjum í huga.

 Bæði Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, hafa staðfest að svo hafi verið.  Það má alla vega klárlega lesa, það úr ummælum þeirra tveggja sem að birtast hér að neðan.  (Ummæli Lilju, fyrri ummælin eru tekin af Facebooksíðu hennar, en ummæli Árna eru úr viðtali við fréttamann RÚV).

"Ármann Jakobsson réttlætir Magma-klúðrið með því að Icesave-skrípaleikurinn hafi tafið góð mál. Ég kannast ekki við þá töf. Þingflokkurinn ræddi málefni Magma við ráðherra sína á fundum í sumar og haust. Þingflokkurinn samþykkti að fela fjármálaráðherra að finna leið til að tryggja að hlutur Geysis Green í HS orku færi í almannaeigu. Þingflokkurinn vissi ekki betur en að sú vinna væri í gangi."

Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna, segir að Samfylkingin hafi síðastliðið haust stoppað bráðabirgðalög um söluna á HS Orku. Segir Árni að það sé lítilmótlegt af flokkssystur sinni að ráðast að formanni flokksins vegna þess að kanadíska fyrirtækið Magma Energy hafi eignast HS orku. Ráðherrar VG hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja innlend yfirráð yfir orkufyrirtækinu.

  Á þessum tilvitnunum báðum sést, að málið fór vissulega fyrir ríkisstjórnina og af orðum Árna að skilja, þá höfnuðu ráðherrar Samfylkingar því að sett yrðu lög sem hindruðu frekari eignaraðild útlendinga á íslenskum orkufyrirtækjum. ( Erfitt að ímynda sér að hægt hafi verið að setja lög "hávaðalaust" um orðinn hlut, þ.e. sölu OR á sínum hlut í HS-Orku).

 Spurningar varðandi þetta mál allt, ættu þá að beinast að forystusveit Samfylkingarinnar.  Þeirrar Samfylkingar sem hefur í sinni stefnuskrá, að bundið verði í stjórnarskrá, að auðlindir þær sem landið okkar hefur uppá að bjóða, verði í eign þjóðarinnar. 

Ekki verður annað séð í fljótu bragði, en að meðvituð neitun Samfylkingarinnar, við beiðni Vinstri grænna um áðurnefnda lagasetningu, vinni gegn því stefnumáli Samfylkingarinnar.  Eins hlýtur þetta, að vekja upp spurningar, um raunverulegan áhuga Samfylkingarinnar, á því að aðrar auðlindir þjóðarinnar, verði í eign hennar, eða annarra.

 

Við þessar aðstæður hlýtur einnig að koma til alvarlegrar athugunnar Vinstri grænna, hvort að flokknum sé sætt í þessari ríkisstjórn. Hvort að endalaust sé hægt að bæta við þennan svokallaða "ásættanlegan kostnað" við stjórnarsamstarfið? Hvort að endalaust sé hægt að gefa "afslátt" á stefnumálum Vinstri grænna, svo stjórnin megi lifa?  

 Vinstri grænir verða líka að átta sig á því að þessi "fórnarkostnaður" lendir fyrst og fremst á þjóðinni, þeirri þjóð sem flokkurinn eða þingmenn hans og ráðherrar, hafa heitið hollustu, með drengskapareið þeim sem þeir skrifuðu undir, er þeir tóku fyrst sæti á þingi. 

 Nefndin sem að skar úr um lögmæti sölunnar, tók enga ákvörðun um að "hleypa" sölunni í gegn. Sú ákvörðun, mun á endanum vera á hendi Efnahags og viðskiptaráðherra, samkvæmt lögum 34/1991, sem fjalla um nefnd um erlendar fjárfestingar. 

 


mbl.is Veitti Magma ekki ráðgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindastefna Samfylkingar og hugsjónarkaffi Vinstri grænna.

Fram kom í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld, að Magma Energy hefði fengið leiðbeiningar úr Iðnaðarráðuneytinu, um stofnun dótturfélags (skúffufyrirtækis) í Svíþjóð, svo fyrirtækið gæti eignast hlut í HS-Orku. 

 Síðast þegar að var gáð, þá var það stefna Samfylkingarinnar að, auðlindir þjóðarinnar, skildu vera í þjóðareign.  Samfylkingin og ráðherrar hennar sýna hér enn og aftur að stefnuskrá flokksins er réttlægri en þjónkunn við útrásaröflin.  

 Iðnaðarráðherra, mun eflaust gera líkt og forsætisráðherra gerði, þegar upp komst um þátt  ráðuneytis hans  í kjaraviðræðum Más Guðmundssonar í undanfara ráðningar hans til Seðlabankans, og afneita allri vitneskju og þátttöku í ráðgjafastarfi eigin ráðuneytis. 

Trúverðugleiki Samfylkingarinnar og þar með ríkisstjórnarinnar, rýrnar nú með degi hverjum, enda er hvert stefnumálið úr stefnuskrá ríkisstjórnarinnar  og kosningaloforð flokkanna svikin nánast daglega, þessa daganna.  Síðasti séns ríkisstjórnarinnar, til þess að vernda trúverðugleika Skjaldborgarinnar, hvarf með tilmælum FME og SÍ og eftirfylgni sinni við þau, vegna dóms Hæstaréttar. 

 Vinstri grænir ræddu um daginn, hvort stuðningur við aðildarferlið að ESB væri ásættanlegur fórnarkostnaður við stjórnarsamstarfið.  Spurning er hvort Vinstri grænir treysti sér til þess að bæta beinni þátttöku ráðherra Samfylkingarinnar í söluferlinu á HS- Orku, við þann kostnað eða ekki?

 Hvort sem Vinstri grænir, láti þetta yfir sig ganga eins og hvert það annað sem Samfylkingin, hefur látið þá beygja sig í andstætt sinni stefnuskrá, skal ósagt látið.  En hins vegar er það alveg ljóst, að "hugsjónakaffi" Vinstri grænna er orðið lapþunnt (hafi það einhvern tíman þá verið þykkt) og alveg örugglega "Export" bætt.


Ríkisstjórnin og Magma.

Talsvert hefur verið fjallað um úrskurð nefndar þeirrar sem úrskurðaði, að sala á meirihlutaeign HS-Orku til Magma Energy, hafi staðist lög.  Varla þarf þessi úrskurður að koma á óvart, þar sem þessi sama nefnd gaf, fyrir nokkrum mánuðum, samskonar úrskurð, varðandi sölu OR á þriðjungshlut sínum í HS-Orku til Magma.

Ég ætla að leyfa mér það, að áætla að niðurstöður nefndarmanna, byggist fyrst og fremst á þeirra túlkun á lögunum og sú túlkun, sé laus við alla pólitík. (Hvernig sem að það er nú hægt)

 Sá lagabókstafur sem heimilar söluna, samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar, er að finna í EES-samningnum, þ.e. að fyrirtækjum frá löndum evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt meirihluta í íslenskum orkufyrirtækjum.  Við gerð EES-samningana, á sínum tíma, fengu stjórnvöld hins vegar, sett inn undanþágu, sem bannaði útlenda eignaraðild á íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Á þeim tíma er þeir samningar voru gerðir, hafa menn eflaust ekki séð fyrir sér, þá framtíð sem að síðar varð í orkumálum Íslendinga og því ekki sett, samskonar ákvæði inn varðandi orkufyrirtækin.

 Í umræðunni um orsakir efnahags og bankahrunsins, hefur verið talað um að íslensk stjórnvöld hafi unnið samkvæmt þeim tilskipunum, sem EES-samningurinn bauð upp á.  Aðrir hafa hins vegar sagt, að hægt hefði verið að taka þær tilskipanir inn með öðrum hætti og þá með einhvers konar takmörkunum.

 Í upphafi, þegar Magma Energy ákvað sínar fjárfestingar hér á landi, má áætla að þar sem fyrirtækið er í raun kanadískt og Kanada ekki aðili að EES samningum, af skiljanlegum ástæðum, að menn þar á bæ, hafi hafið vinnu við að finna leiðir framhjá þessum lögum.  Niðurstaðan mun þá hafa verið þetta "skúffufyrirtæki" í Svíþjóð.

 Þó svo að þetta ferli varðandi HS-Orku og Magma hafi staðið yfir í rúmt ár, með kaupunum á hlut OR og samningaviðræðum um meirihlutaeingnina í HS-Orku, þá hafa viðbrögð stjórnvalda, verið frekar fálmkennd og meira svona til að sýnast, frekar en hitt.  Stjórnvöld hafa beðið um frest til þess að kanna mögulega aðkomu sína að kaupunum, slag í slag, en allir frestir liðið án þess að nokkuð raunverulega gerðist hjá stjórnvöldum.

 Fyrsta törnin í umræðunni um Magma, kom svo um mánaðarmótin ágúst- september 2009, þegar OR seldi Magma þriðjungs hlut sinn í HS-Orku.   Vakti salansterk viðbrögð nokkurra stjórnarmanna, þó að viðbrögð þingmanna V, hafi verið sínu sterkari og mun nauðsyn lagabreytingar hafa verið rædd á þeim tíma í þingflokki Vg, eins og tilvitnunin hér að neðan bendir til:

"Ármann Jakobsson réttlætir Magma-klúðrið, með því að Icesave-skrípaleikurinn, hafi tafið ýmis góð mál. Ég kannast ekki við þá töf. Þingflokkurinn ræddi málefni Magma við ráðherra sína á fundum í sumar og  haust. Þingflokkurinn samþykkti að fela fjármálaráðherra að finna leið til að tryggja, að hlutur Geysis Green í HS-Orku færi í almannaeigu. Þingflokkurinn vissi ekki betur, en að sú vinna væri í gangi."

 Þetta skrifaði Lilja Mósesdóttir á Facebook-síðu sína, þegar tilkynnt hafði verið um sölu Geysis Green á hlut sínum í HS-Orku til Magma.  Ég hef ekki ástæðu til annars en að trúa orðum Lilju.  Hins vegar er "Icesave-afsökun" Ármanns Jakobssonar, bróður Katrínar Jákobsdóttur, varaformanns Vg., frekar ódýr.  Meginþungi Icesave-málsins, hvíldi og hvílir á Fjármálaráðuneytinu, en málefni Magma og annarra orkufyrirtækja á Iðnaðarráðuneytinu. 

 Má ganga út frá því vísu, hafi fjármálaráðherra, farið að samþykkt eigin þingflokks,  þá hafi hann tekið málið upp í ríkisstjórninni.  Hafi málið komist lengra, en á "umræðustig" í ríkisstjórninni, þá er líklegt að Iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, hafi verið falið að kanna möguleika á lagasetningu, varðandi frekari kaup Magma á hlutum í HS- orku.  Má á þessum tímapunkti áætla, að ekki hafi verið hægt, með góðu móti, að setja lög sem afturkölluðu sölu OR á sínum hlut í HS-Orku, en svo sannarlega, hefði verið hægt að semja frumvarp og leggja fyrir þingið, sem takmarkar erlenda eignaraðild á íslenskum orkufyrirtækjum, t.d. banna stærri eignarhlut en 40%, þar sem Magma hafði þá þegar keypt þriðjung í HS-Orku. Flest bendir hins vegar til, að í Iðnaðarráðuneytinu og í flokki iðnaðarráðherra, Samfylkingunni hafi ekki verið áhugi fyrir slíkri lagasetningu.  Í það minnsta benda orð Árna Þórs Sigurðssonar, þingflokksformanns Vg til þess að svo hafi verið.

"Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri Grænna, segir að Samfylkingin hafi síðastliðið haust stoppað bráðabirgðalög um söluna á HS Orku. Segir Árni að það sé lítilmótlegt af flokkssystur sinni að ráðast að formanni flokksins vegna þess að kanadíska fyrirtækið Magma Energy hafi eignast HS orku. Ráðherrar VG hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja innlend yfirráð yfir orkufyrirtækinu."

 Á orðum Árna og Lilju má því skilja, að það sem Vinstri grænir kalla "ásættanlegan fórnarkostnað", við stjórnarsamstarf sitt við Samfylkingu, snýr ekki eingöngu að málefnum tengdum aðildarviðræðum  að ESB. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvort að Vinstri grænir hafi óbragð í munni, yfir fleiri málum, sem þeir leyfa yfir sig að ganga í stjórnarsamstarfinu, mál sem þeir skrifa á "ásættanlegan fórnarkostnað". Þingmenn Vinstri grænna, koma samt aldrei til með að greiða þennan, "fórnarkostnað", nema hugsanlega með "töpuðu" þingsæti, næst þegar kosið verður til Alþingis.  Að öðru leyti mun þjóðin greiða þennan "fórnarkostnað" sem  Vinstri grænir telja "ásættanlegan" fyrir veru flokksins í ríkisstjórn. 


Sóun stjórnvalda á verðmæti fjárfestinga.

Eins og segir í greininni, sem blogg þetta er hengt við, standa margar byggingar, sem hannaðar hafa verið fyrir heilbrigðisþjónustu auðar.  Margar þessara byggingar standa auðar með öllum tækjum og tólum sem notuð voru, áður en kreppan skall á og skera þurfti niður.

 Allt þetta húsnæði ásamt tækjum og tólum sem þar inni eru fjárfesting, sem hugsað var á sínum tíma til þess að skila verðmætum.  Ekki endilega verðmætum í beinhörðum peningum, heldur fyrst og fremst þeim verðmætum sem búa í góðu heilbrigði þjóðarinnar. Að fólk hafi sem minnstar fjarvistir af vinnumarkaði og geti sem fyrst hafið störf að nýju, að lokinni meðferð og skilað inn sínum skerf af verðmætasköpun í landinu, í ríkiskassann.

 Núna er staðan reyndar þannig, að lítil þörf er á vinnuafli í landinu, enda ríkir hér ca 8-10 % atvinnuleysi, sem eflaust væri töluvert meira, ef að fjöldi fólks hefði ekki flutt burt frá landinu.  Það gæti slegið á rökin um þau verðmæti sem glatast, þegar annars vinnufært fólk er frá atvinnu vegna einhverra meina og ætla ég ekki að mótmæla því að svo stöddu.

 En eins og ástandið er í heilbrigðismálum þjóðarinnar, þá eru vart til fjármunir til þess að halda úti lágmarks heilbrigðisþjónustu, nema með herkjum og vona að ekkert óvænt komi uppá sem sett gæti kostnaðinn við heilbrigðiskerfið í uppnám.

 Við þær aðstæður sem nú eru uppi, er það því nánast glæpsamlegt af heilbrigðisyfirvöldum, að láta þessar fjárfestingar allar standa tómar og skila engum arði til þjóðarbúsins, þó svo að ríkið hafi ekki efni á því að reka þær sjálft.

 Það er glæpsamlegur og barnalegur þrái heilbrigðisráðherra, að láta allar þessar fjárfestingar, standa auðar, vegna þess að skoðanir ráðherrans, hníga ekki að einkavæðingu.  Leiga á þessari aðstöðu til einstaklinga, sem gætu þar hafið rekstur á heilbrigðissviði, gæti ekki eingöngu skapað ríkinu tekjur, heldur einnig orðið til þess, að læknar kæmu heim að loknu námi í mun meira mæli en nú er.  Þeim mun lengur sem læknar dvelja erlendis að loknu sérnámi, minnka líkurnar á því að þeir flytji nokkurn tíman heim, eða flytji heim í bráð, heldur ílengist erlendis og komi ekki hér til starfa þegar, upp birtir hér í þjóðfélaginu.  Mun þá einnig glatast sú fjárfesting, sem stofnað var til við það nám í læknisfræði, sem þessir læknar stunduðu hér á landi.

 Það er því lífsnauðsyn að stjórnvöld láti af þessum þráa sínum og fari að kanna möguleikan á því að leigja alla þessa ónotuðu aðstöðu út, eða hluta hennar í ákveðinn tíma, til þess að skapa tekjur og sýna smá viðleitni til þess að halda dýrmætri þekkingu heilbrigðisstétta í landinu.


mbl.is Breytingar á heilbrigðiskerfinu eru nauðsynlegar til að laða heim íslenska lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála eða ekki, skiptir ekki máli. Hæstiréttur hefur talað.

„Í fyrsta lagi lá fyrir að fjármálafyrirtækin þurftu að fá leiðbeiningu um hvernig þau ættu að ganga frá sínum hálfsárs uppgjörum. Það gat ekki komið síðar en í lok júní. Þau gátu því ekki verið ótímabær og gátu ekki komið seinna en þau birtust," segir Gylfi í Morgunblaðinu í dag. „

Þarna leyfir Gylfi sér það, að skauta yfir það sem er "mergur málsins".  Fjármálafyrirtækin, höfðu fengið tilmælin, tveimur vikum fyrr, eða þann 16. júní, með dómi Hæstaréttar. Dómur Hæstaréttar dæmdi myntkörfulánasamninganna, löglega nema að því leyti, að ekki mátti binda höfuðstól þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla. Allt annað í samningunum stendur, eins og lánstími, fjöldi og tíðni afborganna, sem og þeir vextir sem getið er í samningnum.  Fjármálafyrirtækin, þurftu því engin "sérstök tilmæli", frá stjórnvöldum.  Samkvæmt stjórnarskrá þá hefur Hæstiréttur síðasta orðið, en ekki FME eða SÍ og heldur ekki ríkisstjórnin.  Fjármálafyrirtækin gátu því alveg hafið vinnu við sín hálfsárs uppgjör, fyrsta virka dag eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.

 Hæstiréttur er æðsta dómsvald lýðveldisins og niðurstöðu hans verður ekki breytt, nema með endurupptöku þess máls sem dæmt var í.

 Hver sem skaði Ríkissjóðs kann að verða við dóm Hæstaréttar, réttlætir heldur ekki nein tilmæli, sem vinna gegn dómsorði Hæstaréttar. Skaði Ríkissjóð, ef einhver verður, verður ekki vegna dóms Hæstaréttar.  Skaðinn skrifast þá reikning þeirra vinnubragða, sem viðhöfð voru af stjórnvöldum, þegar lánasöfn föllnu bankanna, voru færð yfir í ný-einkavæddu bankanna og á þá samninga, sem stjórnvöld gerðu við kröfuhafa föllnu bankanna.  Frá árinu 2001, hefur í efnahags og viðskiptaráðuneytinu, verið uppi efi um lögmæti mynkörfulánanna, efi sem að hverfur ekkert, þó að skipt er um ráðherra í ráðuneytinu.  Einnig var ljóst ca. hálfu ári, áður en að Steingrímur J. fjármálaráðherra, tilkynnti þjóðinni "snilldarlausn" við einkavæðingu bankanna, mun ódýrari fyrir Ríkissjóð, en áætlaðð var í upphafi, að myntkörfulánin, gætu endað fyrir dómi og dómsorðið orðið það sem það síðan varð.  Má telja það nokkuð ljóst, að miðað við "efann" í efnahags og viðskiptaráðuneytinu, um lögmæti lánanna, að stjórnvöldum ættu að hafa verið kunnar afleiðingar þess, ef dómur Hæstaréttar, yrði sá sem svo varð.  Viðbrögð kröfuhafa Glitnisbanka, eftir uppkvaðningu dómsins þ.e. að hóta Rikissjóði, skaðabótum vegna dóms Hæstaréttar, bendir hins vegar til þess, að við einkavæðingu bankanna, "hina síðari" hafi stjórnvöld látið sem vind um eyru þjóta, "efann" um lögmæti lánanna, eða gert baksamning við kröfuhafa föllnu bankanna, þess efnis að Ríkissjóður, bæti kröfuhöfunum þann skaða, sem orðið gæti, dæmi Hæstiréttur myntkörfulánin ólögleg, eins og raunin varð.  Slíkir baksamningar, fela í sér ríkisábyrgð og því ekki heimilt að gera, án þess að þeir samningar, fari í efnislega meðferð Alþingis og séu samþykktir af Alþingi.  Hafi stjórnvöld hins vegar látið undir höfuð liggja, að taka "hugsanlegt" ólögmæti myntkörfulánanna með í reikninginn, þá hafa stjórnvöld, meðvitað boðið hættunni á skaðbótamálum og greiðslu skaðabóta heim.  Ef annar þessara möguleiki er réttur, þá verður ekki betur séð, en að stjórnvöld hafi brotið gegn 91. grein Hegningarlaganna, sem hljóðar svo:

" Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum."

 Staða lántakenda myntkörfulána vs. staða lántakenda, með verðtryggð lán, réttlætir heldur ekki nein tilmæli, sem vinna gegn dómsorði Hæstaréttar. Myntkörfulánin, stóðu flestum ef ekki öllum til boða, er þurftu lánsfjármagn, líkt og verðtryggðu lánin, auk þess sem bankarnir buðu, lántakendum verðtryggra lána, að skuldbreyta yfir í myntkörfulán.  Allur málflutningur um það að lántakar verðtryggra lána, séu beittir einhverjum órétti, vegna dóms Hæstaréttar, stenst því enga skoðun og er eingöngu til þess fallinn að slá ryki í augu almennings og etja saman þessum hópum lántaka.

 


mbl.is Er ósammála ummælum félagsmálaráðherrans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maki "byltingarleiðtogans".

Ég veit ekki, hvort að hægt sé að kalla þetta, fáranlega, grátbroslega eða einkennileg tilviljun, að verjandi Lýsingar í gengislánamálum fyrir dómstólum, er Sigurmar K. Albertsson.

 Sigurmar þessi, er maki Álfheiðar Ingadóttur "byltingarforingja" í Búsáhaldabyltingunni, byltingunni, gegn spillingu "auðvaldsins".  Sú Álfheiður, sem "óbreyttur" þingmaður, gaf fyrirmæli og leiðbeiningar innan úr Alþingishúsinu, með farsíma sínum, hvar varnir hússins væru verstar. Hvar best væri að ráðast á húsið og inn í það.  

Sú Álfheiður, sem sagði svo, að það hefði verið í góðu lagi, þó að fólk hefði í hópum ruðst inn í Alþingishúsið og brotið þar allt og bramlað. Það væru hvort eðer, bara "dauðir hlutir" þar inni.

 Þessi sama Álfheiður situr svo sem heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók við eftir byltinguna og hét því að loksins færu nú stjórnvöld að beita sér fyrir fólkið í landinu. Þessi ríkisstjórn sem skellti hurðinni á fólkið í landinu, þegar stólarnir voru tryggðir og stimplaði sig inn í lið fjármálafyrirtækja, auðróna og "ennþáuppistandandi" útrásarvíkinga og bankaböðla.


mbl.is Bankar fara að tilmælum Samtaka fjármálafyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 2020

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband