Leita í fréttum mbl.is

Samfylkingin að gera upp "gamlan greiða"?

Skildi Samfylkingin, með skipun Runólfs vera að launa honum þann greiða, að taka við Bryndísi Hlöðversdóttur, sem kennara á Bifröst? 

 Eftir þingkosningar 2003, þar sem Samfylkingin ætlaði að brjótast til valda í "boði" Baugs, með Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi, sem forsætisráðherraefni flokksins.  Árangur Samfylkingarinnar og Ingibjargar í þeim kosningum, varð svo ekki meiri en svo, að það baráttusæti, sem "forætisráðherraefnið " tók, skilaði ekki "forsætisráðherraefninu" þingsæti.  Því "þurfti" Bryndís að víkja.  Það gefur enginn íslenskur pólitískus, eftir þingsæti, baráttulaust, nema eitthvað "gott" bjóðist í staðinn.

 Ef að síðuritara bregst ekki minnið, þá man hann ekki betur, en að Runólfur hafi hröklast úr embætti rektors á Bifröst, vegna hneykslismáls, tengdu fjármálum.  Svo má eflaust eigna honum að töluverðu leiti þann fjárhagsvanda, er Háskólinn á Bifröst er að berjast við, í dag.

  En sjálfsagt, gildir það sama um þetta og annað hjá Samfylkingunni, að það sé sama hvaðan "gott" kemur.


mbl.is Nýr umboðsmaður skuldara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það nokkuð furða, þó margir telji ríkisstjórnarsamstarfið dautt?

Maí 2009, fyrsta „hreina" vinstri stjórnin tekur við völdum á Íslandi.

Júní 2009.  Fjármálaráðherra og forsætisráðherra, gangast kröfum Breta og Hollendinga Icesavedeilunni og heimila undirskrift samnings. Undirskrift samnings sem fól í sér ríkisábyrgð heimiluð, þrátt fyrir það að ljóst var að ekki væri þingmeirihluti fyrir ríkisábyrgðinni. Fjórir þingmenn Vinstri grænna andvígir samningnum. Aðrir  stjórnarþingmenn fylgjandi samningnum.

Júlí 2009. Samfylkingin þvingar í gegnum þingið samþykkt þess efnis, að sótt skuli um ESB-aðild.  Málið reyndar í stjórnarsáttmála, en þingflokkur Vg féllst á að „málið" væri þar, gegn því að þingmenn flokksins, gætu fylgt stjórnarskrárbundinni skyldu sinni og greitt atkvæði í málinu, samkvæmt sinni sannfæringu.  Málið engu að síður þvingað í gegnum þingið, með hótunum sem þekkjast vart í lýðræðislega kjörnum þjóðþingum, í hinum siðmenntaða heimi.

Ágúst 2009.  Fyrirvarar við Icesavesamning samþykktir, eftir mikla vinnu allra flokka á þingi.  Við þá samþykkt talar forsætisráðherra, líkt og það sé nánast bara „formsatriði" að fá þá fyrirvara samþykkta hjá viðsemjendum okkar.  Eins og skilja má af orðum forsætisráðherra, enda má ætla að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sem málið varða, hafi verið í sambandi við viðsemjendur okkar, kynnt þeim þá fyrirvara, sem voru í „vinnslu" og fengið viðbrögð frá viðsemjendum okkar, vegna  þeirra.  En forsætisráðherra, sagði eftirfarandi, er gengið var til atkvæða um málið:

„Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt og ítrekað að þessir fyrirvarar eru í stórum dráttum þess eðlis að hvert þjóðþing mundi telja sér fært að setja sambærileg öryggisákvæði til að leggja áherslu á að ekki megi skerða fullveldi þjóðar sinnar og tiltekna grundvallarhagsmuni eins og framtíðarefnahag þjóðarinnar. Þess vegna leyfi ég mér að vera vongóð um að Bretar og Hollendingar sýni málinu í þeim búningi sem það fer nú fulla sanngirni og skilning. Það er það sem við förum fram á við þessar þjóðir nú í kjölfar samþykktar þessara laga.

Það er alþekkt úr sögu evrópskrar samvinnu að þjóðþing eða dómstólar setji fyrirvara þegar verið er að afgreiða mikilvæga milliríkjasamninga. Eins og áður segir er verkefnið nú að sannfæra viðsemjendur okkar um að við séum ekki að hlaupast undan ábyrgð heldur þvert á móti að axla ábyrgð en með þeim hætti að við fáum örugglega undir henni risið."

September 2009. Magmamálið. „Taka eitt".  Þegar OR selur Magma Energy, sinn hluta í HS-Orku, er fjármálaráðherra, falið af þingflokki Vg að leita leiða, til þess að annað hvort setja „bráðabrigðalög", sem hindra söluna, eða breyta lögum um erlenda fjárfestingu á þann hátt, að Magma geti ekki eignast HS-Orku alla.  Að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vg, var málið tekið upp í ríkisstjórn, en hlaut ekki brautargengi, vegna andstöðu ráðherra Samfylkingarinnar.

 Október 2009.  Fer að hylla undir „nýjan Icesavesamning", þar sem viðsemjendur okkar samþykktu engan vegin, þá fyrirvara sem Alþingi setti við fyrri samninginn, þrátt fyrir orð forsætisráðherra, um að gengi líklegast eftir.  Ögmundur Jónasson, þáverandi heilbrigðisráðherra, hrökklast úr ríkisstjórninni, þegar ljóst verður þar, á hvaða nótum „nýi samningurinn" verður.  En Ögmundur var og er einn þeirra þingmanna Vg sem voru andvígir fyrri samningnum.  Nokkrum dögum síðar, er tilkynnt um „nýjan, glæsilegan samning". Samning sem felur í sér verulega útþynningu á þeim fyrirvörum, er Alþingi hafði sett við fyrri samninginn.  Hefjast í kjölfarið umræður á Alþingi um „nýja samninginn", sem standa með hléum í um það bil tvo mánuði, með hléum.

Desember 2009. Umræðum um „nýja samninginn" lýkur með atkvæðagreiðslu á Alþingi.  Enn eru sömu fjórir þingmenn Vg andvígir samningnum og hefði hann að öllu óbreyttu verið felldur í atkvæðagreiðslunni.  Tillaga Sjálfstæðisflokksins þess efnis að samningurinn, færi í þjóðaratkvæðagreiðslu, gáfu þessum fjórum þingmönnum, „ákveðna" útgönguleið.  Útgönguleiðin fólst í því að þessir fjórir þingmenn Vg, skiptu sér á milli í fylgni við þjóðaratkvæðagreiðsluna eða samninginn, samt þannig að þeir þingmenn sem andvígir voru samningnum, voru andvígir þjóðaratkvæðagreiðslunni og svo öfugt.  Skiptu þessir fjórir þingmenn Vg í þessar tvær fylkingar, tveir og tveir og komu þar með í veg fyrir stjórnarslit.

 Janúar 2010. Forseti Íslands, synjar lögum nr.1/2010 staðfestirngar (lögin um Icesavesamninginn).  Forsætis og fjármálaráðherra, halda blaðamannafund sem fulltrúar heimspressunnar sækja og lýsa í raun yfir alherjar „heimsendi" fyrir Ísland og Íslendinga, hafni þjóðin Icesavesamningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Nokkrum dögum síðan, kemur þing saman, eingöngu til þess að afgreiða ný lög, er varða þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Fljótlega hefjast einnig viðræður stjórnar og stjórnarandstöðu, um ný samningsmarkmið og viðræður við Breta og Hollendinga, með það fyrir augum að ná samningum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem halda átti og haldin var 6. mars 2010.  Aðkoma stjórnarandstöðunar, var skilyrði sem Bretar og Hollendingar, settu fyrir frekari viðræðum um samninginn, enda ríkisstjórninni mistekist í tvígang á rúmlega hálfu að leiða málið til lykta.

Febrúar 2010.  Ný samninganefnd með þátttöku fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu, er sett fyrir samningsmarkmið og heldur til Lundúna, til viðræðna við viðsemjendur okkar.  Fljótlega verður hins vegar ljóst, að viðsemjendur okkar, hafna alfarið tillögum okkar að lausn deilunnar og leggja fram það sem kallað var „betra tilboð". Þetta svokallaða „betra tilboð", var í rauninni, samningurinn, sem forsetinn hafði synjað, með þeim smávægilegu breytingum að vextir voru lægri og einhver vaxtalaus ár voru í boði. Annað í gamla samningnum stóð, eins og viðurkennd af stjórnvöldum, að ábyrgðin væri öll Íslendinga á því, hvernig fór fyrir Icesavereikningunum.  Varð þetta „betra tilboð" til þess að forsætis og fjármálaráðherra, vildu víkja frá samningsmarkmiðum Íslendinga. Gengu þessir tveir ráðherrar, sem þó höfðu árum saman lýst sig „lýðræðiselskandi" og stæka fylgismenn þjóðaratkvæðslna, svo langt að lýsa því yfir að þjóðaratkvæðagreiðslan væri „marklaus skrípaleikur", enda lægi „betra tilboð" á borðinu. Hvorugt þeirra var þó tilbúið til þess að beita sér fyrir því, að eina löglega leiðin til þess að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, yrði farin, þ.e. að leggja það fyrir Alþingi að lög nr.1/2010 yrðu felld úr gildi. Þess í stað var settur í gang „spuni" sem átti að leiða til þess að sem fæstir tækju þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, enda var hún að þeirra mati „marklaus skrípaleikur". 

 Mars 2010. Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram.  Rúmlega helmingur atkvæðisbærra manna taka þátt, þrátt fyrir fortölur forsætis og fjármálaráðherra og nokkurra stjórnarþingmanna.  Séu atkvæði þeirra, sem tóku afstöðu, með og á móti samningnum talin, þá voru 98,2% andvíg samningnum, en eingöngu 1,8% fylgjandi. En sé fjöldi þeirra sem andvígir voru, borinn saman við fjölda atkvæðabærra manna, þá var þrátt fyrir lélega kjörsókn meirihluti kosningabærra manna, andvígur samningnum. Það gerðist, þrátt fyrir að ráðherranir, nokkrir stjórnarþingmenn, ásamt fylgismönnum stjórnarflokkanna úr stétt háskólamanna og blaðamanna, hafi nær án áfláts, birt hverja „heimsendaspánna" á fætur annari, ásamt spádómum um stjórnarslit.  Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra flytur fræga „kattasmölunnarræðu" sína á flokksráðsfundi Samfylkingar og skaut þar föstum skotum á samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn, eins og frægt er orðið.

Apríl 2010. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kemur út. Það væri reyndar efni í mörg blogg eða í það minnsta annað blogg að ræða viðbrögð vegna hennar og ætla ég því að sleppa því að mestu.  Ég get samt ekki stilt mig um að geta þess, að í ljósi þess, að á Alþingi var að fara í hönd umræða um frumvarp forsætisráðherra um stjórnlagaþing, að forsætisráðherra, lét hafa það eftir sér; að stjórnlagaþingið þyrfti að taka til endurskoðunnar 26. grein stjórnarnarskrárnar, sem kveður á um rétt forsetans, til þess að synja lögum staðfestinar og vísa þeim til þjóðarinnar. Vildi forsætisráðherra, að stjórnlagaþingið, sem átti og á að vera storfnun, eða stjórnvald óháð Alþingi og framkvæmdavaldinu, endurskoðaði ákvæðið með það fyrir augum að nema það úr gildi í nýrri stjórnarskrá.  Svo mikil er lýðræðisást forsætisráðherra orðin, eftir ár í embætti forsætisráðherra.

Maí 2010. Sérlög iðnaðarráðherra vegna gagnavers í Reykjanesbæ samþykkt frá Alþingi við lítinn fögnuð þingmanna Vg. Ýmis stór mál keyrð í gegnum þingið með „afbrigðum", mismikið rædd og ígrunduð og stefnt að þinglokum um miðjan júní.  Einnig hefst Magma-málið, „Taka tvö", þar sem greint er frá samningum GGE og Magma Energy Sweden um kaup Magma á hlut GGE í HS-Orku.

 Júni 2010. Dómur Hæstaréttar fellur í Gengislánamálinu, lántakandi í vil. Gengistrygging, dæmd ólögmæt, en lánasamningarnir að öðru leyti taldir standa. Viðbrögð stjórnvalda voru þau að þau ætluðu að afhafast ekkert.  Þrýstingur frá fjármálafyrirtækjum, ásamt „spuna" um einhverja „ óvissu" vegna dómsins, leiddi hins vegar til fjölda funda með fulltrúum fjármálafyrirtækjana.  Afrakstur þeirra funda varð svo ljós, er tilmæli FME og SÍ voru kunngjörð.  Á aukastarfsdegi þingsins, viku eftir dóm Hæstaréttar, stóð reyndar Alþingi til boða að taka til afgreiðslu frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um flýtimeðferð Hæstaréttar og hópmálsóknir, sem hægt hefði verið að afgreiða frá Alþingi samdægurs.  Leiðtogar stjórnarflokkanna, stóðu hins vegar í vegi fyrir því, þó svo að ætla megi að samþykkt frumvvarpsins og störf Hæstaréttar í framhaldinu, hefðu eytt, meintri „óvissu" vegna dóms Hæstaréttar.
 Þingmenn úr öllum flokkum, nema Samfylkingu, standa að og leggja fram þingsályktunnartillögu þess efnis að umsókn um ESB-aðild verði dregin til baka.
17. júní á þjóðhátíðardegi Íslendinga, samþykkir Framkvæmdastjórn ESB aðildarumsókn Íslands, við lítinn fögnuð Íslendinga, utan Samfylkigarfólks og einstaka manna og kvenna úr öðrum flokkum.

Júlí 2010. Nefnd um erlenda fjárfestingu klofnar í afstöðu sinnar til sölu GGE á hlut sínum í HS-Orku til Magma og eru fulltrúar stjórnarflokkanna í sitthvorri fylkingunni. Hefjast þá væringar og ásakanir ráðherra á milli, sem engan endi sér á.  Nýjasta af því máli að frétta er að helmingur ráðherra ríkisstjórnarinnar, hefur myndað hóp sem ætlað er að leita sátta í málinu innan ríkisstjórnarinnar.

 Þó þessi upptalning, teljist löng, þá er hún engan vegin „tæmandi", enda mörgum málum sleppt sem valdið hafa „skjálfta" á stjórnarheimilinu. Nægir þar að nefna, að fjölmörg frumvörp stjórnarþingmanna, eins og Lilju Mósesdóttur, um skuldaleiðréttingu heimilana, hafa ekki hlotið náð ríkisstjórnarinnar, til þess að þau fái efnislega meðferð og afgreiðslu sem lög frá Alþingi.  Margar misheppnaðar tilraunir félagsmálaráðherra að semja við fjármálafyrirtækin, vegna gengislána. Misheppnaðar tilraunir ríkisstjórnarinnar, til þess að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja. Ráðherrafrumvarp forsætisráðherra, sem gerir ráð fyrir fækkun ráðuneyta. Andstaða og „fyrirþvælingur" þingmanna og ráðherra Vg, við erlendum fjárfestingum til atvinnuuppbyggingar. Andstaða þingmanna Vg, við meint „útrásardekur" Samfylkingarinnar. Mismunandi áherslur í ríkisfjármálum ............... svo lengi mætti telja................

 Er þá nokkuð furða, þó eitthvað hrikti í stoðum „Hinnar norrænu velferðarstjórnar".


Gengislánahnúturinn

Í frétt á Eyjunni í dag, segir Þór Saari hagfræðingur og þingmaður Hreyfingarinnar, að ríkistjórnin, verði að höggva á þann hnút sem gengislánin eru komin í, með lagasetningu. Segir Þór ennfremur að fjármálafyrirtækin, flest hver, gætu tæpast staðið undir því, ef að samningsvextir yrðu látnir gilda.

 Hnútinn er varla að finna í dómi Hæstaréttar.  Dómur Hæstaréttar dæmdi lánin sem slík lögleg, en kvað upp þann úrskurð að gengistrygging höfuðstóls þeirra væri ólögmæt.  Hæstiréttur tók ekki afstöðu til samningsvaxtana, því að Hæstiréttur taldi þá standast lög.   Þessir svokölluðu "samningsvextir", eru þeir vextir sem reiknaðir eru af höfuðstól lánsins, hverju sinni, eða við hverja afborgun af láninu.

 Það er líka alveg ljóst, að þessi gengislán, hefðu aldrei staðið til boða, nema fjármálafyrirtækin væru örugg um hagnað vegna þeirra, þ.e. að krónan myndi veikjast.  Ekkert fjármálafyrirtæki er rekið með það að takmarki að tapa á lánastarfssemi sinni.  Reyndar eru uppi ásakanir þess efnis, að fjármálafyrirtækin hafi mörg hver, tekið stöðu gegn krónunni, til þess að "græða" meira á gengislánunum.

Fjármálafyrirtækin fóru líka út í þessa lánastarfssemi, þrátt fyrir efasemdir, framkvæmdastjóra eigin samtaka, um lögmæti þeirra.  Ekki er til þess vitað, að þessi sami framkvæmdastjóri, hafi síðan varað fyrirtækin, við því að "hugsanlega" væru fyrirtækin að brjóta lög með því að veita þessi lán.

 Þessi svokallaði "hnútur" sem gengislánin eru sögð vera í, hefur að öllum líkindum, verið hnýttur þegar lánasöfn "föllnu" bankanna, voru færð yfir í þau nýju.

  Meðan vinnan við að færa lánasöfnin yfir með samningum við kröfuhafa föllnu bankanna stóð yfir, voru uppi háværar raddir um ólögmæti gengislánanna. Auk þeirra efasemda, voru uppi áform um að dómstólar yrðu látnir skera úr um lögmæti þeirra. 

Allt þetta hlýtur að hafa borist til eyrna kröfuhafanna og verið tekið upp á fundum með stjórnvöldum, þegar vinnan við færslu lánasafnanna stóð yfir.  

 Sé allt ofangreint tekið til skoðunnar, með hliðsjón af yfirlýsingum fjármálaráðherra, um að einkavæðing bankanna, hafi kostað Ríkissjóð, heilum 250 milljörðum, minna en áætlað var í fyrstu og þeir 250 milljarðar "mátaðir" við þá 300 milljarða, sem sagt er að sé sá kostnaður sem falli á Ríkissjóð, má"nánast" ganga frá því sem vísu, að stjórnvöld hafi ábyrgst "lögmæti" gengislánanna og heitið því að skaðinn yrði bættur, ef að gengislánin, færu þann veg sem Hæstiréttur dæmdi. Auk þess benda hótanir kröfuhafa um skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu, verði dómur Hæstaréttar látinn standa, til þess að einhver "loforð" stjórnvalda um bættan skaða kröfuhafa, eða að stjórnvöld hafi sannfært kröfuhafana um, að "lögmæti" gengislánanna yrði tryggt.  

 Árangurslausar samningaviðræður stjórnvalda, við fjármálafyrirtækin, vegna gengislánanna, benda einnig til þess, að fjármálafyrirtækjunum, hafi ekki þótt ástæða til samninga, þar sem ríkið (íslenskir skattgreiðendur) yrðu látnir bera skaðann, yrði gengistryggingin dæmd ólögmæt.

 Ef að hoggið yrði á "hnútinn" með lagasetningu, væri í rauninni verið að "krafsa yfir" klúður stjórnvalda við einkavæðingu bankanna, í stað þess að taka á því klúðri, t.d. með rannsókn á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru við færslu lánasafnanna, yfir í "nýju bankana". Þar fengjust eflaust svör við því, hví þessi einkavæðing bankanna, varð svo miklu "ódýrari" en áætlað var í upphafi?  Svör við því, hvort að upphafleg áætlun, hafi gert ráð fyrir ólögmæti gengislánanna, ef að svo hafi verið, þá svara leitað, afhverju hafi verið frá því fallið? 

 


"Magma-málið" í stærra samhengi.

Í fréttinni sem tengist þessum pistli, talar Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, um að rannsaka þurfi aðdragandann að sölunni á HS Orku til Magma. Rannsaka eigi lögmæti sölunnar og hvort að "skúffan" í Svíþjóð, sé bara til "málamynda" eða ekki.  Flestir sem eitthvað hafa fylgst með þessu máli, vita auðvitað, að "skúffan" í Svíþjóð, var bara sett upp til "málamynda".  Flest bendir einnig til þess að sá gjörningur, hafi verið löglegur, þó til "málamynda" sé, enda "skúffan" í Svíþjóð, löglega stofnað fyrirtæki þar í landi, þó svo það búi "bara" í skúffu.

Árni segir ennfremur, frá þeim orðrómi, að öðrum fyrirtækjum, sem að "sannarlega" starfi á evrópska efnahagssvæðinu, hafi verið "stuggað frá" í söluferlinu og bendi það til þess að salan hafi verið ákveðin löngu áður en "skúffan" í Svíþjóð var sett upp.

Þessi orð Árna, hljóta að benda til þess að Árna og félögum í VG, hefði ekki þótt það "mjög óæskilegt", hefði "rótgróið" evrópskt fyrirtæki, eignast HS Orku.  Það hlýtur að skoðast sem hrikalegt ósamræmi, við stefnu Vinstri grænna í auðlindamálum.  Vinstri grænir vilja að auðlindir Íslendinga þ.m.t. orkuauðlindirnar eigi að vera í eigu og umsjón íslensku þjóðarinnar.  En Árni og VG telja að nýtingarréttur í svo langan tíma, sem Magma hefur hér á landi jafngilda framsali á orkuauðlindinni.

Árni sagði í viðtali við fréttamann RúV í vor, að síðasta haust hafi þingflokkur VG, falið formanni flokksins Steingrími J. Sigfússyni, það verkefni að hlutast til um það, í kjölfar sölu OR á hlut sínum í HS Orku til Magma, að sett yrðu bráðabrigðalög á frekari umsvif Magma á Íslandi, eða lögum um erlenda fjárfestingu breytt á þann hátt að, áform Magma um að eignast HS Orku alla, yrðu ekki að veruleika. Sagði Árni að örlög þeirrar málaleitanar Steingríms í ríkisstjórninni, hafi verið ráðin, þegar Samfylkingin, neitaði að verða við beiðni Steingríms.

 Spyrja má, hvað hafi valdið andstöðu Samfylkingarinnar, við setningu bráðabrigðalaga, eða lagabreytinga?  Svarið hlýtur að liggja nokkuð ljóst fyrir.  Hvor leiðin sem farin hefði verið, hefði kallað á undanþágu frá EES-samningnum.  Slík undanþágubeiðni, hefði sjálfsagt ekki verið í "takt" við ESB-vegferð Samfylkingarinnar, sem studd er af Vinstri grænum. Má þá í því sambandi, spyrja hversu hart Steingrímur, gekk á eftir málinu í ríkisstjórn? Enda hefði það eflaust ýtt undir stjórnarslit, hefði verið við ESB-áformum "stuggað".

 Að lokum má svo "velta" því upp, verði skipuð rannsóknarnefnd, líkt og Rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins.  Komist nefndin t.d. að þeirri niðurstöðu, að rangt hafi verið staðið að málum, varðandi "söluferlið".  Hver verður þá ábyrgð ráðherra í ríkisstjórninni?  Verður sá ráðherra, sem að á að fara með málaflokkinn, látinn sæta ábyrgð?  Eða verður það ráðherra þess ráðuneytis, sem sagt er að hafi aðstoðað Magma í söluferlinu? 

 Eins og flestir vita, þá er þetta mál á forræði Efnahags og viðskiptaráðherra.  Flestir vita einnig, eins og fram hefur komið í fréttum, að fulltrúar Magma leituðu á náðir Iðnaðarráðuneytis, eftir leiðbeiningum, hvernig hægt væri að "leyfa" kanadísku fyrirtæki að kaupa hlut í HS Orku.

 Flestir muna eflaust, að í "skýrslunni", í þeim kafla er lítur að vanrækslu ráðherra, þá er Björgvini G. Sigurðssyni, gefið að sök að hafa sýnt vanrækslu í starfi efnahags og viðskiptaráðherra, þó svo að klárlega komi fram, að aðrir ráðherrar í "hrunstjórninni", samráðherrar og samflokksmenn, þau Ingibjörg Sólrún og Össur Skarphéðinsson, hafi kerfisbundið, haldið leyndum fyrir honum upplýsingum um stöðu mála.  Flest bendir til í "Magma-málinu" að Iðnaðarráðuneytið, hafi haldið því leyndu fyrir Efnahags og viðskiptaráðuneytinu, hver áform Magma væru, þangað til að kom að þætti viðskiptaráðuneytis við úrskurð og ákvörðunartöku í málinu.

 Þegar Magma leitaði á náðir Iðnaðarráðuneytis, þá var Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.  Því má spyrja: "Sleppur Össur "tæknilega" undan ábyrgð í málinu, þar sem að hann hlutaðist til um mál sem að er ekki á hans forræði?


mbl.is Rannsaka þarf aðdragandann að sölu HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magma-málið, druslur og gungur.

Í Fréttablaðinu í dag, lætur Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra hafa eftir sér eftirfarandi:

"Ég tel að það orki mjög tvímælis að fjárfesting í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð sé í samræmi við lög," segir Steingrímur. "Ég er þeirrar skoðunar að þetta standist ekki anda laganna og er þá frekar sammála minnihluta nefndarinnar. En svona er staðan. Meirihluti nefndarinnar tók þessa afstöðu og við sitjum uppi með það í bili."

 Það kemur svosem ekkert nýtt fram í þessum orðum Steingríms.  Samt er athyglisvert að velta fyrir sér síðustu setningunni í þessari "tilvitnun".  Þar talar Steingrímur eins og að afstaða nefndarinnar sé "heilög".  Hver sem afstaða nefndarinnar kann að hafa verið, þá er það ekki nefndarinnar, að ákveða, hvort samningurinn verði látinn standa eða ekki.  Samkvæmt lögum er það Efnahags og viðskiptaráðherra, sem tekur þá ákvörðun, að lokinni efnislegri meðferð nefndarinnar, á þeim málum sem fyrir hana koma.  Það stendur hvergi í lögum, að ráðherra beri að fara að tillögu nefndarinnar, eingöngu að ráðherra hafi afstöðu nefndarinnar til hliðsjónar, við ákvörðunnartöku.  Samkvæmt því, þá gæti ráðherra, afturkallað gjörninginn, hafi hann eða þeir lögfræðingar sem hann leitar til efasemdir um lögmæti hans.  

 Reyndar má spyrja að því hvort að nefndinni, sé nokkuð ætlað annað en að taka þá ákvörðun, sem stjórnvöldum "þóknast" hverju sinni.  Fram hefur komið í fréttum, að þrátt fyrir að nefndinni sé ætlað að taka "sjálfstæða" ákvörðun um þau mál sem fyrir hana koma, þá var nefndinni í raun "úthlutað" lögfræðingum, sem Efnahags og viðskiptaráðuneytið "mældi" með.  

Á sama hátt gæti ráðherra, ef afstaða nefndarinnar, hefði verið á hinn veginn, þ.e. að kaup Magma á HS-Orku, væru gjörningur, sem ekki stæðist lög, samt sem áður ákveðið að láta samninginn standa.  Enda er það ráðherrann sem að fer með valdið en ekki nefndin, nefndin er bara ráðgefandi í málinu, án ákvörðunnarvalds.  

 Steingrímur heldur svo áfram:

"Það leikur enginn vafi á því að lög eiga eftir að taka breytingum á þessu sviði á næstu misserum," segir hann. "Það þarf að þrengja lagarammann til muna varðandi ráðstöfun auðlinda, hámarkstíma samninga tengda þeim og skorður á eignarhaldinu."

 Þessi orð Steingríms missa algjörlega marks, sé til þess litið að fyrir tæpu ári, var þessum sama Steingrími, falið af þingflokki sínum, að hlutast til um í ríkisstjórn um að, farið yrði í þessar lagabreytingar þá, sem hann talar um í "tilvitnuninni", hér að ofan.   Segja má að þessi orð Steingríms hafi verið nokkrum "misserum" of seint á ferðinni og það tímabil, sem hann kallar "næstu misseri" liðið.  

 Það má því alveg með sanni segja að "hin fleygu orð" Steingríms: "Drusla og gunga", hafi hlotið endurnýjun lífdaga, auk þess sem að á þessi orð hefur lagst "boomerangeffektinn" og þau hafi því hitt Steingrím beint í andlitið.

 

 


Ríkisstjórnin og erlendar fjárfestingar.

Á meðan fréttir af Magma-málinu og viðbrögðum stjórnvalda við dómi Hæstaréttar, vegna gengistryggðu lánanna, tröllriðu meira og minna allri umræðu hér á landi, birtist í einhverjum miðlanna, frétt, sem var ekki síður athyglisverð.

 Frétt þessi var um það, að starfsfólk Iðnaðarráðuneytis, þyrfti stöðugt að vera að benda "hugsanlegum framtíðarfjárfestum" hér á landi, á það að þó að í gildi væru tvenns konar lög í gildi um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga, þá stæðu allir jafnt að vígi, hvað það mál varðar. 

Hver skildu svo þessi "tvenns konar" lög vera?   Á síðustu dögum Alþingis fyrir sumarfrí, voru samþykkt lög frá Alþingi um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga.  Þau lög höfðu hins vegar óeðlilega langan meðgöngutíma í "kerfinu", meðal annars vegna þess að stjórnarflokkarnir, geta ekki komið sér saman um eiginlega stefnu í þessu máli.   Lá af þeim sökum, frumvarp Iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga, vikum eða mánuðum saman, niðrí Fjármálaráðuneyti, á meðan "unnið" var að "tæknilegri" útfærslu skattamála, vegna frumvarpsins. 

 Á sama tíma og Fjármálaráðuneytið lá yfir þessari "tæknilegu útfærslu" á skattamálunum, varð hins vegar vart óþólinmæði hjá hinum stjórnarflokknum, vegna gagnaversins í Reykjanesbæ.  Til þess að svala þeirri óþolinmæði, fór í gang vinna við smíði "sérlaga" vegna gagnaversins.  Voru þau lög byggð á þeim lögum sem sátu föst í Fjármálaráðuneytinu.  "Sérlög" þessi, voru svo samþykkt í þinginu, einhverjum vikum á undan "almennu" lögunum. 

  Nú kann einhver að spyrja, afhverju var þá þörfin fyrir þessi "sérlög", fyrst þau almennu, lágu í rauninni fyrir, en voru "fryst" í Fjármálaráðuneytinu?   Svarið kann að vera það að, að þessu gagnaveri standa Björgólfur Thor og viðskiptafélagi hans til nokkra ára, Vilhjálmur Þorsteinsson. 

Björgólf, þarf sjálfsagt ekki að kynna fyrir lesendum, þessarar greinar, en hver skildi þessi Vilhjálmur vera?  Vilhjálmur Þorsteinsson, er varaþingmaður Samfylkingarinnar í RVK og formaður stýrihóps iðnaðarráðherra um orkunýtingu.  Iðnaðarráðherra, sem og þingmenn Samfylkingar, sóru hins vegar af sér allar ásakanir um það, að aðkoma Vilhjálms að verkefninu, hefði eitthvað með það að gera, að tíma Alþingis, væri varið í efnislega umræðu og samþykkt laga, sem væru samhljóða öðrum lögum, sem sett hefðu verið af samstarfsflokknum í "frost". 

Gekk það meira að segja svo langt, að ef einhver benti á þessi tengsl Samfylkingarinnar, við aðstandendur gagnaversins, að sá hinn sami var sakaður um óvægna árás á mannorð og æru Samfylkingarinnar, hversu milkils virði sem að þessi gildi  eru nú Samfylkingunni, en það er önnur saga.

 Staðan er hins vegar sú í dag, að þegar erlendir fjárfestar, með aðstoð íslenskra fulltrúa sinna, glugga í það lagaumhverfi, sem snýr að erlendum fjárfesingum og ívilnunum vegna þeirra, að þeir hnjóta um þessi tvenn lög, þ.e. sérstök lög, vegna gagnavers og svo almenn lög vegna allra annarra fjárfesta. 

Það er því eðlilegt að menn spyrji sig og jafnvel veigri sér við því að ráðast hér fjárfestingar, þegar í ljós kemur að tvenns konar lög séu hér í gildi, um sama mál, eftir því hver eigi hlut að máli, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um að allir eigi að sitja við sama borð.

 Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi kom svo fram, að annað fjárfestingarverkefni, væri komið í "frost" í Fjármálaráðuneytinu.  Verkefni það snýr að áformum um rekstur á herþotuleigu á Keflavíkurflugvelli, sem fyrirtæki frá Hollandi hefur haft í undirbúningi, hér á landi í einhver misseri.  Málið er enn eitt málið sem steytir á skeri í samstarfi stjórnarflokkana.  Samfylkingin styður málið, en Vinstri Grænir eru því andvígir.  Líklegt verður þó að telja að málið hafi þingmeirihluta, þó svo meirihluti, verði skipaður án þátttöku þingmanna VG. 

 Það er engan vegin ásættanlegt, ef að hér eigi fara í hönd, einhver uppbygging eftir hrunið, að stefna stjórnvalda í þessum málum, sé eingöngu í orði, en ekki á borði.  Allar hindranir og frystingar, á þeim málum sem nú þegar, eru komin í einhvern farveg, fælir aðra fjárfesta frá. 

Trúverðugleikafátækt stjórnvalda og íslenska ríkisins í málinu, er því algjör nú um stundir og lítil von um að eitthvað rofi til, fyrr en þeir aðilar sem þessum málum stýra, fari að ganga í takt, þjóðinni til framdráttar, en ekki í taktleysi innbyrðisátaka stjórnarflokka á milli. 

Að öðrum kosti þarf þetta fólk að standa upp úr stólum sínum og hleypa öðrum að, sem treysta sér til þess að byggja hér upp blómstrandi atvinnulíf, af fullum heilindum, þjóðinni til heilla.


Á hvaða grunni stendur "stöðugleikinn", sem ógnað er?

Þessi spurning, í fyrirsögninni, hlýtur að vera "lykillinn" í öllu þessu ferli. 

Grundvöllurinn að þeim stöðugleika, sem sagt er að dómur Hæstaréttar ógni, liggur fyrst og fremst í þeim samningum, sem gerðir voru við kröfuhafa "gömlu bankanna", þegar lánasöfn "gömlu bankanna", voru færð yfir í "nýju bankana.  Spurningar sem standa  þá uppúr eru:

 Voru þau lánasöfn sem innihéldu myntkörfulán, færð yfir í "nýju bankana", sem "örugg og lögleg" lán?  Var kröfuhöfum beinlínis "lofað", því að myntkörfulánin, stæðust lög, eða yrðu látin standast lög? Voru uppi einhver "loforð" stjórnvalda, um að íslenska ríkið, myndi ábyrgjast allt það tjón, sem gæti orðið ef myntkörfulánin, yrðu dæmd ólögleg í Hæstarétti?

 Síðla vetrar eða vor 2009, þá voru "klárlega" uppi vísbendingar um ólögmæti þessara lána og að það yrði látið reyna á lögmæti þeirra fyrir dómstólum.  Einnig voru uppi efasemdir í Efnahags og viðskiptaráðuneyti um lögmæti lánanna, allar götur frá því að lögin, sem dómur Hæstaréttar byggir á. Áform kröfuhafa, um skaðabótamál, gegn íslenska ríkinu (skattgreiðendum), vegna dóms Hæstaréttar, benda til þess, að líklega sé hægt að svara öllum spurningunum, hér að ofan, "játandi".

 Í hádegisfréttum í dag, var rætt við Gylfa Magnússon, Efnahags og viðskiptaráðherra, um efni þessarar fréttar, sem "bloggið" vísar í.   Þar reyndi Gylfi á "penan" hátt, að gera lítið úr orðum Pauls Rawkins og sagði útlitið ekki alveg eins dökkt og kom fram í máli Pauls.   

 Gylfi "klikkti" svo út með því að segja, að reyndar væri enn uppi óvissa, varðandi ýmis önnur lán, sem Hæstiréttur, ætti eftir að taka afstöðu til og ef að Hæstiréttur, tæki sómasamlega afstöðu til þeirra lána, þá væri útlitið alls ekki jafn dökkt og Paul Rawkins, vill meina að það verði.

 Reyndar er ég á því, að þarna hafi sá fréttamaður, sem ræddi við Gylfa, klikkað illilega og ekki staðið undir þeim kröfum, sem til hans eru gerðar.  Afhverju var Gylfi ekki spurður, hvað fælist í "sómasamlegri niðurstöðu Hæstaréttar?  

 Það er hægt að "nota" flest þau lýsingarorð í bókinni, um niðurstöður Hæstaréttar, en niðurstöður Hæstaréttar, eru eða eiga, fyrst og fremst að vera löglegar og byggðar á þeim lögum sem í gildi eru hverju sinni.  

 Það eru því ekki dómar Hæstaréttar sem rústa einhverjum stöðuleika, heldur gjörðir þeirra, sem byggðu upp þennan stöðugleika, sem væntanlega stenst ekki þau lög sem dómar Hæstaréttar byggja á.

Stöðugleiki, byggður á lögleysu og ranglæti, hlýtur því alltaf að hrynja, þegar réttlætið sigrar.


mbl.is Dómar Hæstaréttar ógna stöðugleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvitað, eða ómeðvitað andvaraleysi stjórnvalda?

Löglegt, eða ekki?  Þegar allt kemur til alls, þá mun sú spurning ekki ofarlega á "spurningarlistanum", þegar litið verður til baka eftir nokkur ár og málið skoðað. Enda er alveg hægt með"klækjum" að úrskurða og meta "gjörninginn" löglegan. Hvort sem að þeir "klækir" séu lagalegir eða pólitískir.

 Meiri líkur eru á því að fólk spyrji frekar: "Afhverju var lagaumhverfið þannig, að hægt var að eiga þessi viðskipti?" Og svo í kjölfarið verður spurt: "Afhverju var lögunum þá ekki breytt?"

 Að slepptu REI-ævintýrinu, þá má segja að þessi "törn" varðandi Magma og HS-Orku, hafi hafist þegar OR seldi Magma, hlut sinn í HS-Orku.  Þá hafði Samkeppnisstofnun, bannað OR að eiga hlut sinn í HS-Orku og skikkað fyrirtækið til að selja hann, innan ákveðins tíma. Sá tími var löngu liðinn, þegar Or seldi, ef ég man rétt, þó svo að Steingrímur J. hafi viljað lengri frest, svo að hann sem fjármálaráðherra, gæti skrapað saman nokkrum krónum í tómum Ríkissjóði, til þess að geta gengið inn í samning OR og Magma vegna HS-Orku.

 Þegar sala OR á hlut sínum í HS-Orku var um garð gengin, þá var haldinn fundur í þingflokki Vinstri grænna.  Þingmenn  og ráðherrar VG, höfðu lýst sig andvíga sölu OR á hlut sínum í HS- Orku.  Var það niðurstaða fundarins, að Steingrími J. Sigfússyni, var falið það verkefni, að hlutast til um það að "málið" yrði tekið upp í ríkisstjórn, með það fyrir augum, að setja "bráðbrigðalög á söluna, eða þá breyta lögum um erlenda fjárfestingu þannig, að frekari kaup Magma á HS-Orku gætu ekki átt sér stað.

 Þá koma enn aðrar "lykilspurningar".  Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður VG, hefur lýst því yfir í viðtali við fréttamann RÚV að, þrátt fyrir þrysting VG í ríkisstjórn, þá hafi það ekki verið vilji Samfykingarráðherra í stjórninni að setja bráðabrigðalög á "gjörninginn". Þá er það frá með bráðabrigðalögin.  En samt er ekki hægt að segja að "málið" hafi þar með átt að vera úr sögunni.

 Þá koma næstu spurningar:  Var þá rætt um endurskoðun laga um erlenda fjárfestingu, með það fyrir augum að stöðva frekari uppkaup Magma á HS-Orku?  Var efnisleg umræða um málið?  Hver var niðurstaðan?  Var ákveðið að endurskoða lögin ekki? Ef já; hverjir greiddu þeirri afgreiðslu atkvæði? Voru ráðherrar Samfylkingar andvígir endurskoðun laganna, allir eða hlut þeirra og þá hverjir?

 Einnig hefur komið fram að endurskoðun laga um erlendar fjárfestingar, hafi verið komin á góðan rekspöl, er bankahrunið dundi yfir okkur. Það er alveg hægt að skilja að starfsmenn ráðuneytisins hafi við hrunið haft öðrum hnöppum að hneppa en að endurskoða lögin, er hrunið dundi yfir. En kveikti þetta Magma-mál allt ekki á neinum viðvörunarbjöllum í ráðuneytinu, með það að þörf væri á að halda endurskoðuninni áfram?   

 Fulltrúar Magma fá upplýsingar um lögin í Iðnaðarráðuneytinu, þó svo að þessi lög falli undir Viðskiptaráðherra.  Var starfsmönnum Iðnaðarráðuneytisins og þar með ráðherra, kunnugt um þá endurskoðun laga um erlenda fjárfestingu, sem byrjað hafi verið á í Viðskiptaráðuneytinu?  Var ekki eina eðlilega og ábyrga meðferð málsins í Iðnaðarráðuneytinu að vísa Magma á það ráðuneyti sem að hafði með málið að gera í stað, þess að ganga inn á verksvið viðskiptaráðuneytis?  Hafi Iðnaðarráðuneytinu verið kunnugt um þá endurskoðun sem byrjuð var í Viðskiptaráðuneytinu, voru það þá ekki óafsakanlega röng vinnubrögð, hjá Iðnaðarráðuneytinu, að halda áfram með málið? Átti Viðskiptaráðuneytið ekki að fá málið, til umfjöllunnar strax? Viðskiptaráðuneytið, hefði þá ef einhver vilji fyrir því, "hraðað" enduskoðun laganna.

 En þetta eru spurningar, sem líklega fást engin svör við, nema að undangenginni stjórnsýslurannsókn.  Samt er ljóst þegar sagan frá síðasta hausti til dagsins í dag, er skoðuð, að meginástæða þess að uppkaup Magma á HS- Orku, hafa gengið í gegn, er andvaraleysi stjórnvalda, meðvitað, eða ómeðvitað.  

 

 

 


mbl.is Undrast ummæli Ögmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áðurflutt leikrit, komið á ný á "fjalir" Skjaldborgarinnar.

Það hefur verið "rauður þráður" í sögu þessarar ríkisstjórnar, "Hinnar norrænu velferðar", að þegar fyrir dyrum standa óvinsælar aðgerðir hennar, eins og skattahækkanir og niðurskurður, birta nógu "svartar" spár eða áætlanir, um það hversu mikið þurfi að hækka skatta eða skera niður.

 Svo þegar loks kemur að ákvörðunnartöku, þá hafa skattar nær undantekningalaust, hækkað "minna" en "svörtustu" spár og áætlanir gerðu ráð fyrir.  Eins hefur niðurskurður oftast nær orðið minni, en upphaflega stóð til.

 Þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, eru svo loks kynntar almúganum, þá birtist Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, og tilkynnir "lýðnum" það, með "montblik" í augum, að þó svo landsmenn þurfi að taka á sig, enn og aftur ágjöf, þá megi það þakka "styrkri" efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar, að ágjöfin varð ekki meiri.

 Lýðnum er svo  "ætlað" að taka andköf af hrifningu og fyllast þakklæti yfir "snilld" Skjaldborgarparsins, sem leitt hefur þjóðina til enn einnar "farsællar lausnar" á þeim mikla vanda sem annars hefði blasað við, ef þjóðin nyti ekki þessar "takmarkalausu" snilldar þeirra "skötuhjúa" við stýri Þjóðarskútunnar.

Tjaldið fellur.


mbl.is Útilokar ekki skattahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningar, sem enginn spyr, þó svörin við þeim vanti.

Þrátt fyrir mikla umræðu um málefni Magma undanfarið, þá hefur engum fréttamanni dottið í hug að spyrja:  

  "Fyrst málið er ekki á forræði Iðnaðarraðuneytis, afhverju voru þá haldnir fundir þar og lög um erlenda fjárfestingu rædd þar?  Afhverju var fulltrúum Magma ekki vísað á Efnahags og viðskiptaráðuneytið, það ráðuneyti sem að málið heyrir undir?"

 Svo má spyrja í framhaldinu:  "Hafði Iðnaðarráðuneytið, samráð við það ráðuneyti, sem málið heyrir undir, áður en umræður í Iðnaðarráðuneytinu hófust um lög erlenda fjárfestingu?"

 Nú er það haft eftir Margréti Tryggvadóttur, þingmanni Hreyfingarinnar að aðili innan Efnahags og viðskiptaráðuneytisins, hafi tjáð henni að endurskoðun á lögum um erlenda fjárfestingu, hafi verið komin langt á veg, fyrir hrun.  Þá má spyrja:

 "Voru uppi einhverjar vísbendingar, þegar ákveðið var að endurskoða lögin, um það að eitthvað líkt "Magma-ævintýrinu", væri í uppsiglingu?"  Hvers vegna var þráðurinn ekki tekinn upp í endurskoðuninni, þegar að vera mátti ljóst, að Magma hyggðist fara þessa "krókaleið" að uppkaupum á HS-Orku? Þótti Iðnaðarráðuneytinu kannski enga ástæðu vera til þess að upplýsa Efnahags og viðskiptaráðherra, um þessa fundi með fulltrúum Magma, þó svo að ráðuneytið, væri í raun að "þjónusta" Magma-menn í málaflokki, sem heyrir undir Efnahags og viðskiptaráðherra?

 Nú hefur andstaða Vinstri grænna á þessum viðskiptum Magma hér á landi verið ljós.  Einnig hefur komið fram í fréttum að þingflokkur Vinstri grænna, hafi falið formanni flokksins, að taka málið upp í ríkisstjórn og beita sér fyrir því að lögum yrði breytt, þannig að þessi "smuga" sem Magma smeigði sér í gegnum yrði lokað.   Í ljósi þess, þá mætti spyrja að lokum:

 Var málið tekið upp í ríkisstjórn? Ef svarið er "já", hvað var ákveðið að gera, eða gera ekki? Hver voru svör Efnahags og viðskiptaráðherra, við þeirri áleitan Steingríms J. um að lögum um erlenda fjárfestingu yrði breytt? Fékk málið efnislega meðferð í ríkisstjórn og var andstað við þessar lagabreytingar? Ef uppi var andstaða, frá hverjum var hún? 


mbl.is Ekki boðlegir stjórnsýsluhættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 2020

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband