Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Fráleit frávísun.

Allt frá því að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar, um afturköllun ákæru á hendur Geirs Haarde, fyrir landsdómi kom fram, hafa stjórnarflokkarnir og Hreyfingin, reynt hvað af tekur að forða því að Alþingi komist að efnislegri niðurstöðu í málinu.

Fyrst var því haldið fram að tillaga Bjarna væri ekki þingtæk. Síðan kom fram álit þess efnis að hún væri þingtæk.

Var þá forseti Alþingis beittur þrýstingi um að taka málið af dagskrá.  Ella gæti hlotist af embættismissir. Forseti Alþingis gerði hins vegar það sem bar að gera við þessar aðstæður og tók málið á dagskrá. Enda hafði verið samið um slíkt, þegar samið var um þinglok fyrir jólafrí þingsins.

Málið komst á dagskrá var þá lögð fram frávísunartillaga af Magnúsi Orra Schram, svo málið færi ekki fyrir stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þingsins. Var sú tillaga felld með 29 -31. 

Meginrök framangreinds hamagangs, voru þau að málið kæmi í raun þinginu ekkert við, enda væri það afskipti að dómskerfinu og í raun atlaga að því. Saksóknari Alþingis og margir lögfróðir menn sögðu hins vegar, að svo sannarlega kæmi Alþingi málið við. Enda væri það ákæruvaldið í málinu og þar með talið málsaðili.

 Að öllu ofansögðu, er í raun varla annað að merkja, en að frávísunartillaga meirihluta stjórnskipunar og eftirlitsnefndar þingsins, opinberi ótta stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar við efnislega meðferð málsins og afstöðu þingsins til afturköllunnar ákærunnar.

Ekkert hefur komið fram sem ýtir undir líkur á því að þessi frávísunnartillaga hljóti önnur og betri örlög en sú fyrri.  Enda fyrir löngu búið að hrekja öll rök fyrir frávísun.  Það er því varla líklegt að einhverjri þeirra er greiddu atkvæði gegn fyrri frávísuninni greiði atkvæði með þeirri seinni.  Reyndar frekar líkur á því, m.a. vegna álits saksóknara Alþingis, að fleiri þingmenn greiði atkvæði gegn seinni frávísunartillögunni, en það gerðu við þá fyrri.

Að leggja fram frávísunartillögu á mál, vegna ótta við að efnisleg niðurstaða fari á annan veg en meirihluta huggnast, er í rauninni ekkert annað en druslu og gunguháttur og ekki sæmandi nokkrum þingmanni að standa að slíkri tillögu.

Eiginlega er skömm þeirra þingmanna er að slíkri tillögu standa slík, að vandséð er hvaða erindi þessir einstaklingar hafa á Alþingi. 


mbl.is Tillögunni verði vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Skortur" á fagmennsku fræðimanna af pólitískum toga?

Jafnvel þótt vinstri eða hægri menn fari í háskóla og fái eitthvert fræðingsheitið fyrir aftan nafnið sitt, þá verða þeir samt sem áður hægri eða vinstri menn.  Fræði þeirra manna verða því miður, of oft lituð þeirri pólitísku sýn sem þessir fræðimenn hafa.

 Vönduð vinnubrögð og hlutlaus, þar sem allar aðstæður eru settar inn í ,,jöfnuna" eru því sjaldast fyrir hendi.  Sama má reyndar segja um alla þá, sem tranað er eða trana sér fram í fjölmiðlum sem ,,hlutlausir" álitsgjafar.  

Hlutleysi þeirra nær ekki út fyrir þau mörk sem pólitísk sannfæring þeirra leyfir.

Svona til gaman og upprifjunar, þá ætla ég að birta hér að neðan, fyrsta pistil ársins, sem ritaði eftir að hafa heyrt Ólaf Ragnar lýsa því yfir að hann hyggðist hætta sem forseti í sumar.   Pistillinn fjallar í raun um það ,,fúsk" sem Ólafur bendir á að sé viðvarandi í svokallaðri fræðimennsku hér á landi.

En hér kemur pistillinn:

 Fyrir utan svokallað útrásardekur forsetans, er honum það helst legið á hálsi að hafa breytt embætti forseta Íslands, úr því að vera svokallað sameingingartákn þjóðarinnar, í eitthvað pólitískt embætti, sem reki eftir vindum þjóðmála hverju sinni.

 Það er nú samt athyglisvert, að hvað báða þessa hluti varðar, þá voru nú þónokkrir þeirra er skammað hafa forsetann hvað mest, í liði þeirra er stóðu að baki fyrstu alvarlegu áskoruninni á forsetann að gera embættið pólitískt.  Þegar sett var í gang undirskriftasöfnun, þegar forsetinn var hvattur til þess að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar.

Einn þeirra er mjög hafði sig frammi í þeirri undirskriftasöfnun, með sendingu hvatningartölvupósts um allar koppagrundir, er nú þingmaður Samfylkingarinnar, sem einnig beitti sér grímulaust við söfnun undirskrifta.   En þegar undirskriftasöfnunin var í gangi þá var sá hinn sami fréttamaður og síðar fréttastjóri, á fjölmiðli eins þeirra er kallaðir voru og eru reyndar enn kallaðir útrásarvíkingar. 

Fjölmiðli sem að líkt og aðrir fjölmiðlar, fjölluðu á frekar jákvæðan hátt um svokallað útrásardekur forsetans.  Enda var fosetinn að ,,liðka" um fyrir íslenskt viðskiptalíf, sem reyndar því miður stóð ekki traustari fótum, en  í ljós kom í október 2008. 

Án efa hefði áðurnefndur þingmaðuur, þáverandi fréttamaður á miðli útrásarvíkings, flutt harðorðar fréttir um sinnuleysi forsetans, gagnvart íslenski viðskiptasnilldinni, hefði forsetinn látið það vera að mæta í hin ýmsu boð útrásarvíkinga og að bjóða þeim til Bessastaða. 

Það er auðvelt en um leið þó lítilmannlegt að setjast í dómarasæti, með þeim hætti sem þingmenn og stuðningsmenn stjórnarflokkanna, hafa gert er þeir leggja dóm sinn á verk Ólafs Ragnars, með afleiðingar hrunsins beint fyrir framan sig.  Hruns sem varla er hægt að ætlast til þess að forseti Íslands, hefði átt að  sjá fyrir.  

 Þá væri jú alveg hægt að líta enn aftar í sögunna og skammast í fyrri forseta, fyrir að hafa ekki synjað EES-samningnum staðfestingar og sent hann í þjóðaratkvæði.  Eða þá þeim lögum er heimiluðu kvótaframsal, sem vinstristjórn Framsóknar, Alþyðubandalags og Alþýðuflokks, kom í gegnum þingið árið 1990.  

 


mbl.is Forsetinn: Fræðimenn vandi sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bítur sök sekan?

Eins við var að búast, þá eru viðbrögð vinstri manna, við þessari frétt nær öll á einn veg.  ,,Helvítis íhaldið er að láta Geir Jón skrifa þessa skýrslu." Enda er Geir Jón í framboði til annars varaformanns í Sjálfstæðisflokknum.

 Engin viðbrögð þess efnis að þeir sem við sögu komu í skýrslunni, ættu bara að fagna því.  Enda gætu þau þá hreinsað mannorð sitt af þeim sökum sem fram gætu komið í skýrslunni.

Reyndar var það svo, að í Búsáhaldabyltingunni sjálfri og fljótlega eftir að hún var yfirstaðin, voru uppi raddir um að tilteknir þingmenn hefðu haft áhrif á mótmælendur. Sagt þeim til með textaskilaboðum og fleiri leiðum.

 Segir sagan að til hafi sést til Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna við þá iðju. Hún hafi verið spurð, hvort hún gerði sér grein fyrir því, hvað gæti gerst ef að fólk, hundruðum eða þúsundum saman ryddist inn í þinghúsið.   Henni hafi ekki fundist það neitt ,,stórmál" enda ekkert nema ,,dauðir hlutir" í þessu þinghúsi.   

Ég minnist þess að Gunnar Bragi Sveinsson, ef ég man rétt, hafi lagt fram þingsályktun þess efnis að þetta mál sem Geir Jón talar um yrði rannsakað. Þá titruðu þau Álfheiður, Björn Valur og fleiri vinstri menn  af bræði og sögðu tillöguna byggða á, uppspuna og lygum.  Tillagan væri auk þess tilræði við æru þeirra þingmanna, sem að til rannsóknar gætu orðið.

Þess má geta að þetta sama fólk öfundar Geir H. Haarde fyrir að vera fyrir landsdómi og geta þannig hreinsað mannorð sitt. Skrítin í því ljósi viðbrögð þeirra við tillögu Gunnars Braga, enda stóðu þeim sömu forréttindi til boða. Reyndar af því gefnu að sakir þeirra sem til rannsóknar  eru, yrðu engar. 

 


mbl.is Höfðu áhrif á mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborgin sem varð að dómstólaleið lánþega..................

 "Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lokið aðgerðum í þágu skuldugra heimila munu 200.000 milljónir króna hafa verið afskrifaðar. Þetta kemur fram í bæklingnum Aðgerðir og árangur ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 2009-2011." 

Ætli Vinstri grænir  trúi þessu bulli sjálfir? Af þessum 200 milljörðum verða að minnsta kosti 75% eða 150 milljarðar tilkomnir vegna gengislánadóma Hæstaréttar. 

Þegar stjórnvöld unnu að stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, þegar bankarnir voru afhentir vogunarsjóðum og öðrum hrægömmum og veiðileyfi gefið á skuldsettan almenning, lá fyrir á borðum stjórnvalda lögfræðiálit um ólögmæti gengislána. 

Ummæli Árna Páls Árnasonar fyrrv. efnahags og viðskiptaráðherra í Kastljósþætti, þess efnis að lög 151/2010, hafi verið sett til þess að forða ríkinu frá bótakröfum kröfuhafa, vegna gengistryggra lána, geta í rauninni ekki bent til annars en að gengistryggðu lánin hafi verið færð á milli bankanna, eins og um fullkomnlega lögleg lán væri að ræða. Fólk gæti bara farið með sín mál fyrir dómstóla, teldi það á sér brotið.

 Gengislánin fóru svo fyrir héraðsdóm og Hæstarétt og voru dæmd ólögmæt.

 
Viðbrögð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við gengislánadómnum, voru hins vegar að lágmarka ,,tjón" bankanna á kostnað lántaka. Lántakendur gætu svo bara farið í mál við bankanna, væru þeir ekki sáttir.

Það er því varla hægt að segja annað en að helstu aðgerðir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, til lausnar skuldavanda heimilana, hafi verið að hrekja fólk út í þá raun að berjast við lánastofnanir fyrir dómstólum.


mbl.is 200 milljarðar afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Poppúlismi og drengskaparheit.

47. gr. Sérhver nýr þingmaður skal vinna ... 1) drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar er kosning hans hefur verið tekin gild. 1)L. 56/1991, 16. gr. 48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. ... 1) 1)L. 56/1991, 17. gr.

 Það hlýtur að vera eðlileg krafa að fram fari umræða um tilgang hins ráðgefandi þjóðaratkvæðis um frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga við umræður og afgreiðslu Alþingis við frumvarpið.

Ætla þingmenn almennt að láta sem að þeir hafi ekki undirritað drengskaparheit að núgildandi stjórnarskrá?

Er það svo að á Alþingi Íslendinga sitji fólk sem skammist sín fyrir eigin sannfæringu og þori ekki að upplýsa þjóðina um hana? Fólk sem er tilbúið að setja sannfæringu sína og drengskaparheit í klæði  poppúlisma og brjóta þar með núgildandi stjórnarskrá?

Getur verið að sá þingmaður sem metur drengskaparheit sitt að stjórnarskránni ofar húrrahrópum lýðsins, verði úthrópaður sem andlýðræðislegur hagsmunagæslumaður annarlegra hagsmuma?

Getur verið að endurkoma stjórnlagaþings til starfa og hið ráðgefandi þjóðaratkvæði, sé einungis enn eitt leikritið sem ríkisstjórnarflokkarnir setja upp.  Leikrit sem ætlað er að fela getuleysi leiðtoga stjórnarflokkanna til þess að leiða vinnu við stjórnarskrárbreytingar í sátt við alla þingflokka?

Hvenær telur fólk að þingmenn eigi að láta eigin sannfæringu víkja fyrir úrslitum ráðgefandi þjóðaratkvæðis?  Við ákveðið mikla kjörsókn? Eða við afgerandi samþykkt eða synjun á frumvarpi stjórnlagaráðs í hinu ráðgefandi þjóðaratkvæði?  Verður 51-49 nóg eða þarf það að vera 75-25, meira eða eitthvað þar á milli nóg til þess að lögbundin sannfæring þingmanna víki.

Hvers virði er ný stjórnarskrá, ef drengskap þeirra sem hana samþykkja á Alþingi er fórnað á altari poppúlisma?   Hvers virði verða þá drengskaparheit þingmanna að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands?


mbl.is „Þetta eru forkastanleg vinnubrögð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsmet í valkvæðri heimsku.

Það er heimsmet í valkvæðri heimsku að halda, þó ákveðinn dómur varði bara mál einna hjóna vegna eins lánssamnings, þá sé ekki hægt að líta á þann dóm sem fordæmisgefandi. 

Séu  endurútreikningar gengistryggðra lána,  á þann veg sem dæmdur var ólögmætur í máli hjónanna, er varla ástæða til annars en að ganga út frá því að í öðrum lánasamningum, endurútreiknuðum á sama hátt, sé sama lögbrot fyrir hendi.

Það er ekki boðlegt að stjórnarmeirihlutinn, loki augunum fyrir þeirri staðreynd og ætlist til þess að skuldpíndar fjölskyldur og einstaklingar fari í mál við fjármálastofnanir til þess að fá réttlæti og leiðréttingu á sínum málum, vegna svotil nýtilkominna laga.

Löggjafinn á bera ábyrgð á handvömm sinni, við lagasetningu og  á að tryggja þjóðinni, fólkinu sem land þetta byggir, réttlát lög og forða því eftir megni að þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Fyrsta mál Alþingis á morgun ætti að vera framlagning og flýtimeðferð með afbrigðum , frumvarps til laga, er veitir öllum þeim sem eru með gengistryggð lán skjól gegn aðförum og vörslusviptingu, á meðan lögfróðir menn (aðrir en þeir sem komu að gerð laga 151/2010) vinna að breytingum á ákvæðinu um endurútreikning gengistryggðra lána, í það horf að það sé samkvæmt stjórnarskrá og tryggi öllum lántakendum gengistryggðra lána jafnan rétt. 

Að leita aðstoðar fjármálafyrirtækja við túlkun dóms gegn þeim sjálfum, er eins og ef að dæmdur sakamaður væri spurður, hvað hann teldi hæfilega refsingu við glæp sínum.


mbl.is Leiðbeinandi tilmæli skortir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn frá hinu gagnlitla 110% úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.

Reglur um mat fasteinga verði samrýmdar á þann hátt, að ekki geti munað milljónum á mati tveggja eða fleiri aðila á sömu eigninni. Umboðsmanni skuldara verði falið að annast matið á eignunum, þ.e. ráða þann mannskap sem það gerir. Fjármálastofnunum verður ekki kunnugt hver metur eignina, fyrr en slíkt mat hefur farið fram. 

Að því loknu er höfuðstóll þess láns sem hvílir á eigninni fært niður í það hlutfall af metnu verði eignarinnar, sem það var í upphafi.

Næstu þrjú til fimm ár eftir það, verða afborganir lánsins í ásættanlegu hlutfalli við tekjur þess sem af láninu borgar. Ákveðinn hluti afborgunar skal fara í að borga niður höfuðstól lánsins, en það sem eftir stendur, færi í vexti.
Að þessum þremur til fimm árum liðnum, væri fólki gefinn kostur á því, að skuldbreyta lánum sínum í óverðtryggð lán, eða hafa lánin áfram verðtryggð. Verði slík lán þá enn í boði hér á landi.

Það er nokkuð ljóst að fjármálastofnanir fá ekki meira fyrir lánasöfn sín, en lánþeginn getur borgað. 
Það er því betra, fyrr en síðar, að gera sér grein fyrir raunverulegu verðmæti lánasafnanna, svo hægt verði mæta þeim afföllum sem síðar kunna að verða, með góðum fyrirvara.


Afhverju þurfa sveitarfélögin að leppa Nubo? Afhverju leigir Nubo ekki bara beint af eigendum Grímsstaða?

Sá sem þetta ritar er langt því frá á móti erlendum fjárfestingum. Honum finnst það hins vegar lykilatriði að ekki sé farið á svig við lög og blekkingar stundaðar með kennitöluflakki.

 Innanríkisráðherra synjaði Huang Nubo um leyfi til þess að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, á þeim forsendum að hann hefði ekki ,,rétta" kennitölu til þess að stunda slík viðskipti hér á landi.

 Tillaga sú sem nú er rædd af sveitarfélögum þarna nyðra og fulltrúum Nubos, þess efnis að Nubo láni sveitarfélögunum fyrir kaupverðinu, gegn því að hann fái að leigja landið og sveitarfélögin borgi lánið niður með tekjum af leigunni, er í rauninni ekkert annað en grímulaus leppun og kennitöluflakk.

 Auk þess hlýtur að sá grunur að læðast að sæmilega skynsömu fólki, að eitthvað meira hljóti að liggja að baki, en bara hrein og klár viðskipti.  

Séu áform Nubos engin önnur en að reka ferðaþjónustu þarna á Grímsstöðum, þá væri jú nærri lagi fréttir bærust af viðræðum hans við eigendur Grímsstaða um leigu á jörðinni.  Enda hlýtur sú leiga sem Nubo er tilbúinn að borga, að vera svívirðilega há, úr því að leigutekjurnar sem féllu í skaut sveitarfélaganna keyptu þau Grímsstaði, ættu að duga fyrir afborgunum af láni fyrir kaupverðinu.


mbl.is Ræða kaup á Grímsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Massívt klúður á vakt og á ábyrgð hinnar norrænu velferðarstjórnar!!!!

Þegar samningar stjórnvalda við kröfuhafa bankana stóðu sem hæst, voru uppi raddir í þjóðfélaginu þess efnis að gengistryggðu lánin væru ólögmæt.  Voru þær jafnvel það háværar, að fram kom tillaga um að gengislánasöfnin yrðu ekki færð yfir í nýju bankana, á meðan sú réttaróvissa stæði yfir hið minnsta.  

Síðar kom í ljós, að á sama tíma hafi legið í Seðlabankanum og í Efnahags og viðskiptaráðuneytinu  lögfræðiálit þess efnis að gengistryggðu lánin væru ólögmæt.

 Það breytti því hins  vegar ekki að gengistryggðulánin voru færð yfir í nýju bankana, líkt og um lögleg lán væri að ræða.  Telja verður nokkið líklegt, að kröfuhafarnir, eða öllu heldur fulltrúar þeirra, hafi haft uppi efasemdinr um lögmæti gengistryggra lána.  

Það er því ekki óvarlegt að áætla, að um einhverja baksamninga stjórnvalda við kröfuhafa bankana hafi verið að ræða, vegna gengistryggðu lánanna.  Enda var það svo, að eftir að dómur féll um lögmæti þeirra, þá var alltaf talað um, hvað sú staða, gæti kostað Ríkissjóð, færi allt á versta veg.   Slík umræða hefði nær örugglega ekki komið upp, ef um enga baksamninga væri að ræða.

Strax og Héraðsdómur Reykjavíkur hvað upp dóm, um ólögmæti gengislána, hófu Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands að vinna svokölluð tilmæli til fjármálafyrirtækja, um endurútreikninga gengistryggra lána.   Fengu fjármálafyrirtækin þessi tilmæli í hendur, tveimur vikum, áður en Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóm um ólögmæti lánanna.  Var sú skýring á útgáfu tilmælanna, áður en hæstaréttardómur féll, að það væri eingöngu gert til þess að auðvelda fjármálafyrirtækjum hálfsárs uppgjör sín.

Endurútreikningur sá sem lög 151/2010 um endurútreikning gengistryggra lána, byggðist á þessum tilmælum. 

 Þrátt fyrir síendurteknar ábendingar um að sú aðferð sem beitt er endurútreikninga á gengistryggðum lánum stæðist ekki stjórnarskrá, var haldið áfram með einbeittum ásetningu og lög 151/2010 keyrð í gengum þingið, síðasta starfsdag þingsins 2010.

Þar sem að þrátt fyrir nýsett lög, þá jókst lagaóvissan frekar en hitt, þá flutti Sigurður Kári kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins frumvarp þess efnis, að mál þessu tengdu fengju flýtimeðferð fyrir dómstólum og þeim lántakendum sem málið varðaði væri skapað skapað skjól gagnvart vörslusviptingu, á meðan lagaóvinnunni væri eitt.  Stjórnarmeirihlutinn, sá hins vegar til þess að frumvarpið kæmist ekki til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu  í þinginu.

 Það skiptir því engu máli hvað spunameistarar stjórnarflokkanna segja.  Þetta mál og allar þær hörmungar því tengdu, eins og uppboð á heimilum fólks, á meðan réttaróvissunni var eytt, eru alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.  Það  á bara að segja það hreint út. Öll undanbrögð eins og að kenna Alþingi í heild sinn þessi ólög Árna Páls, eru hrein og klár ósvífni, í besta falli aumasta  yfirklór í íslenskri stjórnmálasögu. 


mbl.is Lánin bera neikvæða raunvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skrítið þó sumir missi sig.

„Það er augljóst mál að nefndin hefur ekki lögsögu eða vald til að segja okkur fyrir verkum.“ Það er reyndar alveg satt hjá Steingrími.............

 En hann veit hins vegar að fari íslensk stjórnvöld ekki að ,,ráðleggingum" nefndarinnar, þá klárast viðræðuferli að aðlöðun að ESB aldrei............

Ein af þeim ráðleggingum var að stjórnarflokkarnir, samræmdu stefnu sína gagnvart ESB. Sigmundi Davíð varð það á að spyrja Steingrím að því, hvort stjórnarflokkarnir hyggðust fara að því ráði?

 Ekki furða að Steingrímur hafi misst sig, líkt og hann á til er hann lendir í blindgötu. Enda ákveðið já eða nei , satt eða ósatt, til þess fallið að styggja annað hvort grasrótina í Vg. eða þá ,,systurflokkinn" Samfylkingu.


mbl.is Nefndin hefur ekki lögsögu hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband