Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Auðvitað skal skapa ágreining um rammaáætlun.

Efasemdir stjórnarliða um að rammáætlun njóti meirihluta, benda eindregið til þess að fallið hafi verið frá upphaglegum tilgangi með rammaáætlunina og hún gerð að pólitískum óskalista stjórnarflokkanna.

Upphaflegi tilgangurinn var tvíþættur. Að  faglega skipaður hópur, ynni að áætluninni til þess að það fengist faglegt og óháð mat, á virkjunar og verndunarkostum framtíðarinnar. Og að um áætlunina myndi ríkja þverpólitísk sátt. Enda var pólitísk sátt um skipun faghópsins.

Venju samkvæmt ákveða stjórnarflokkarnir að sniðganga allt það sem faglegt geti kallast. Til þess eins að þjóna pólitískum rétttrúnaði sínum. Og að sjálfsögðu er einnig, samkvæmt venju, allt gert til þess að skapa sem mestan ágreining um áætlunina.


mbl.is „Varla samþykkt samhljóða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að krefjast annars er kosið var kosið um.

Hún er með ólíkindum sú krafa að Alþingi eigi að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs, óbreyttar utan hugsanlegra orðalags breytinga.  En engar efnislegar breytingar megi þó gera.  Slík krafa er sett fram, með þeim orðum að Alþingi verði að virða niðurstöður þjóðaratkvæðisins á laugardaginn. 

Ég fæ nú ekki betur séð og heyrt en að Alþingi muni virða niðurstöður þjóðaratkvæðisins.  Enda munu tillögur stjórnlagaráðs verða lagðar fram sem nýtt frumvarp að stjórnarskrá.  Þar sem meirihluti kjósenda sagði já við fyrstu spurningu.  Auk þess er alveg öruggt að sett verða inn ákvæði um þau atriði sem spurt var um í spurningum tvö til sex.

En krafan um óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs, eiga engan vegin rétt á sér. Jafnvel þó vitnað sé í kosningaúrslitin.  Spurning eitt hljóðaði svona:

Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
 
Í spurningum tvö til sex er svo spurt hvort fólk, vilji auðlindir í þjóðareign, þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá, að Alþingi megi setja lög um persónukjör, jöfnun atkvæða og hvort fólk vilji beint lýðræði.

Þrátt fyrir að meirihluti kjósenda hafi goldið öllum þessum spurningum jáyrði sitt, þá er ekki með neinu móti séð, að krafan um óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs í stjórnarskrá eigi sér einhverja stoð.  Hvorki út frá orðalagi spurninga eða fyrirvarans sem settur var neðst á kjörseðilinn, sem ég vona að allir hafi lesið og skilið. Áður en greidd voru atkvæði.  En þar stendur orðrétt:

"Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarð er lagt fram á Alþingi.  Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa þing og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu.   Stjórnlagaráð hefur skilað  Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð lýst hefur verið."

 Hafi fólk lesið eitthvað annað útúr spurningunum en að Alþingi ætti að taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar og afgreiða þær á þann hátt, sem því þykir sómi af.  Þá tel ég eitthvað hafi vantað upp á lesskilning hjá fólki.  Hvort sem að sú vöntun hafi verið valkvæð eða ekki.

 Það er því algör óþarfi hjá stjórn Stjórnarskrárfélagsins að senda frá sér ályktun þar sem stendur að stjornin„ harmi að kjörnir fulltrúar á Alþingi skuli sýna kjósendum þá vanvirðingu að kasta rýrð á þjóðaratkvæðagreiðsluna og gera lítið úr niðurstöðunni og vilja kjósenda eins og hann liggur fyrir.  Slíkt athæfi er andlýðræðislegt og ætti ekki að eiga sér stað í heilbrigðu lýðræðisríki,“

Kjörnir fulltrúar á Alþingi ætla einmitt að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunar og taka tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar.  Ætti því frekar að ríkja gleði fremur en harmur í stjórn Stjórnarskrárfélagsins.

Um annað var ekki kosið en að tillögur stjórnlagaráðs, yrðu teknar til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu á Alþingi, eins og þingsköp kveða á um.   Einu skilyrðin sem kjósendur setja þeirri vinnu er að ákvæði um þau atriði sem kosið var um í spurningum tvö til sex, verði þar innanborðs.  Þau atkvæði þurfa þó ekki að vera samhljóða  ákvæðum um sömu atriði í tillögum stjórnlagaráðs. 

 

 


mbl.is Alþingi virði niðurstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem heima sátu eru líka þjóðin.

Í ljósi þess hvers eðlis kosningar á laugardaginn voru, þ.e. að verið var í rauninni að kjósa um mál sem enn er í vinnslu, en ekki um endanlegar lyktir þess, þá verði að túlka úrslit þeirra á annan hátt, en hefði annars  verið gert, væri um endanlega afgreiðslu máls að ræða. 

Að mati undirritaðs væri heillavænlegast að túlka úrslitin þannig að Alþingi hafi fengið heimild frá þjóðinni, að vinna þessi drög áfram og gera þær breytingar á þeim sátt næst um.  Bæði hvað varðar breytingar á orðalagi eða efnislegar breytingar.  Hvort sem að slíkar breytingartillögur komi frá þingmönnum sjálfum eða eru byggðar á vel rökstuddum umsögnum, sem nær öruggt er að berist stjórnsýslu og eftirlitsnefnd þingsins.

Meiri líkur eru á því að vegsemd þingsins aukist verði það verklag notað sem lýst er hér að ofan.  Misjöfn viðhorf og skoðanir verði kölluð þeim nöfnum, en ekki viðhafðar upphrópanir um flokkadrætti, klæki eða hagsmunagæslu. Heldur verði í sátt reýnt að móta og afgreiða stjórnarskrá, í sátt, sem tekur tillit sem flestra skoðana og viðhorfa þeirra er á þingi sitja.  Skoðanir og viðhorf manna eiga ekki endilega og þurfa ekki endilega að breytast  þó svo úrslit þjóðaratkvæðis séu á einhvern veg eða annan. 

 Þegar uppi verður staðið í vor, mun þjóðin miklu fremur horfa til þess, í hversu mikilli sátt, án óþarfa upphlaupa og upphrópanna þingið vann úr þessum tillögum stjórnlagaráðs.  En að hún horfi á þær breytingar sem kunna að verða á tillögum stjórnlagaráðs í  meðförum þingsins.

Stjórnarskrá samþykkt í skugga illdeilna og með ltilum mun í þinginu, mun eingöngu auka enn frekar á deilurnar í þjóðfélaginu og gera þjóðina enn sundurleitari en nú er. Hafa verður í huga að þeir sem sögðu nei á laugardaginn eða sátu heima, eru líka þjóðin.


mbl.is Flokkadrættir og klækir víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oftúlkuð eða misskilin kosningaúrslit?

Sé það vilji þingsins að stjórnarskráin verði unnin í þokkalegri sátt í þinginu og við þjóðina, þarf fólk að leggja sig í líma við að hvorki oftúlka né misskilja úrslit kosninganna sem fram fóru um tillögur stjornlagaráðs.

Bæði Þorvaldur Gylfason og Jóhanna Sigurðardóttir hafa talað um, að í ljósi úrslitana í kosningum helgarinnar, sé lítið sem ekkert svigrúm til breytinga á tillögum stjórnlagaráðs. Þorvaldur gengur jafnvel svo langt að banna allar breytingar.  Nema þær séu vegna  „tæknilegra  galla“ á tillögunum.

Ætla mætti að þau tvö, Þorvaldur og Jóhanna  ásamt fleirum eflaust, hafi ekki lesið eða skilið spurningu  eitt.  Og jafnvel ekki hinar spurningarnar heldur.

Afgerandi niðurstaða og góð kjörsókn að mati þeirra sem hentar að halda slíku fram, breytir engu um það, að hellings svigrúm er til breytinga á tillögum stjórnlagaráðs.  Rúmt svigrúmfellst í spurningu eitt.

En spurningin var svohljóðandi:  „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Þarna  var ekki spurt hvort þessar tillögur ættu að verða að nýrri stjórnarskrá.  Heldur hvort leggja ætti þessar tillögur fram sem frumvarp  að nýrri stjórnarskrá.  Það er svo Alþingis að vinna úr þeim tillögum, það sem sannfæring þeirra er þar sitja, býður þeim að gera.  Enda ber Alþingi fyrst og síðast ábyrgð á þeim lögum sem það setur.  Eða í það minnsta á það að gera það.

Það er líka nánast ómögulegt í ljósi þess að margir stuðningsmenn þessarra tillagna, fyrrverandi stjórnlagaráðsfulltrúar og fleiri, hvöttu fólk til þess að segja já, þó það væri ekki fylgjandi nema broti af þessum tillögum,  ef það bara vildi breytingar, að fólk hafi endilega merkt við já því það vildi tillögurnar óbreyttar sem nýja  stjórnarskrá.  Heldur má alveg með góðu móti að þó þetta fólk vilji breytingar þá þurfi þær ekki endilega að vera texti stjórnlagaráðs, nánast óbreyttur. 

Spurningar tvö til sex eru að mörgu leyti skarpari og skýrari, en segja þó ekkert um það að endanleg niðurstaða eigi að vera samhljóða tillögum tillögum stjórnlagaráðs.  Heldur hvort að sem spurt er um eigi að vera í nýrri stjórnarskrá.  Reyndar í stjórnarskrá sem byggð er á tillögum stjórnlagaráðs.  En ekki í stjórnarskrá sem inniheldur tillögur stjórnlagaráðs óbreyttar.

Væri  það svo að það væri niðurnjörvað og óbreytilegt með öllu sem spurt er að í spurningum 2-6, þá hefði spurning 2 hljómað svona: "Viltu að náttúruauðlindaákvæðið í tillögum stjórnlagráðs verði í nýrri stjórnarskrá?“  Alþingi ber því í rauninni engin skylda önnur, leggi þetta þjóðaratkvæði skyldur á það, að tryggja það að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir það að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign, verði í þjóðareigu.   Ólíkt því sem haldið hefur verið fram, þá er ekki ágreiningur um að auðlindaákvæði sé sett í stjórnarskrá. Hins vegar eru menn ekki sammála um orðalag.

Þjóðkirkjuákvæðið má í rauninni  vera hvernig sem er.

Varðandi persónukjörið er bara spurt hvort LEYFA megi persónukjör. Ekki hvort að í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um persónukjör.  Hins vegar má næsta þing eða eitthvað næstu þinga, setja lög um persónukjör í kosningum.

Þar sem ekki er þess getið að tillögur stjórnlagaráðs um jafnt vægi  atkvæða eigi að vera í nýrri stjórnarskrá, þá er aðferðin við að koma því á, nokkuð frjáls.  Niðurstaðan þarf hins vegar á endanum að tryggja jafnt vægi atkvæða.

Sama er í rauninni hægt að segja um beina lýðræðið einnig.  Alþingi þarf ekki að orða það ákvæði á sama hátt og tillögur stjórnlagaráðs og það ræður í rauninni hversu hátt hlutfall það vill að geti krafist þjóðaratkvæðis um tiltekin mál, sem afgreidd hafa verið sem lög frá Alþingi.

Að öllu þessu sögðu, má sjá að svigrúm Alþingis til breytinga á tillögum stjórnlagaráðs er þó nokkurt. Enda hlýtur það að vera lokatakmarkið að ný stjórnarskrá verði samþykkt í sem víðtækastri sátt. Bæði í þinginu og meðal þjóðarinnar.  Nei-in og þeir sem heima sátu eru líka þjóðin.


Mannréttindi eru réttindi allra manna, en ekki bara þeirra er lýðnum líkar.

„Undir slíku á ég erfitt með að sitja en mikilvægara er þó að hafið sé yfir allan vafa að íslenskt réttarfar og meðferð ákæruvalds í máli sem þessu standist þær kröfur sem gerðar eru til mannréttinda og réttlátrar málsmeðferðar í Mannréttindasáttmálanum.“

Einhverjum kann að þykja lítið til þessarar ákæru Geirs koma og telja jafnvel að sökum stöðu sinnar hafi hann átt skilið þá meðferð sem hann hlaut.

Þeir hinir sömu kunna jafnvel að segja að Geir hafi verið heppinn að vera sýknaður af öllum ákæruliðum eða þeim vísað frá dómi, að undanskyldum einum ákærulið.  Hann eigi því ekkert að vera að velta þessu frekar upp.

Sjaldnast er það nú svo að heppni skilji á milli sekt og sýknu í dómsmáli.  Heldur er dæmt samkvæmt lögum út frá þeim gögnum sem fyrir dómnum liggja.

Geir hefur alveg sama rétt og hver annar til þess ákæra til þess bærs aðila, telji hann á sér brotið.  Það verður svo dómstólsins að ákveða hvort hann taki málið fyrir og dæmi í því eða ekki.

Er einhvers að óttast hafi rétt verið staðið að málsmeðferðinni samkvæmt Mannréttindasáttmálanum?  Eða er samviska manna ekki hreinni en svo að þeir óttist dóm?

Mannréttindi eru eins og nafnið gefur til kynna, réttindi allra manna.  Ekki bara réttindi tiltekinna handvaldra hópa eða einstaklinga, eftir því hvernig vindurinn blæs.  Að halda öðru fram er í rauninni ekkert nema hræsni, í besta falli, sem ekkert á skylt við mannréttindi.


mbl.is Geir kærir til Mannréttindadómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt eins skýrt og af er látið?

Það má segja að úrslitin kosninganna í gær séu skýr, þ.e. tveir þriðju sem þátt tóku vilja að tillögur stjornlagaráðs verði að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem lagt verði fram á Alþingi. Eða að breytingarferli, í einhverri mynd, á stjórnarskránni haldi áfram. 

Afgerandi eru úrslitin með auðlindir í þjóðareign. Þjóðkirkjuákvæði verður áfram í stjórnarskrá samkvæmt þessum úrslitum. Persónukjör leyft í meira mæli, þ.e. opnaður möguleiki á auknu persónukjöri en því ekki komið á.  Jöfnun atkvæðisréttar nær örugglega samþykkt á landsvísu, þó að í tveimur landsbyggðarkjördæmum sé töluverð andstaða við slíkt.  Nær öruggt er einnig að beint lýðræði verði í þessum  tillögum sem Alþingi fær til umfjöllunar, sem nýtt frumvarp að stjórnarskrá.

Kjörsóknin hefði þó mátt vera mun meiri, til þess að gera umboðið skýrara og sterkara.  Rök eins og þeir sem sátu heima, leyfðu þeim sem kusu að ráða fyrir sig og að kjörsókn hafi verið með svipuðu móti og þjóðaratkvæðum í löndunum í kringum okkur, duga kannski í bili. Hið minnsta.  

Atkvæði þeirra sem heima sátu, verða virk þegar kosið verður til Alþingis í vor. Í það minnsta flest þeirra.  Enginn getur með vissu sagt, hvað olli heimsetu þessa fólks í kosningunum í gær.  Hvort að því fólki sé einfaldlega „bara sama“ eða hafi skýra afstöðu til málsins.  En  hafi af einhverjum ástæðum eins og t.d. þeirri að um ráðgefandi kosningu var að ræða og að forsætisráðherra hafi lofað breytingum á stjórnarskrá hvernig sem kosningarnar færu, ákveðið að sitja heima.

Þegar gengið verður til þingkosninga í vor, mun væntanlega heimasetufólkið bætast í hóp kjósenda. Þó ekki verði beinlínis kosið um úrvinnslu þingsins á tillögum stjórnlagaráðs, nema kosið verði sérstaklega um hana, þá mun sú vinna eflaust vera undir. Líkt og öll hin stóru málin.

Enginn veit hvaða einkunn lögfræðihópurinn sem Stjórnlaga og eftirlitsnefnd þingsins skipaði til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs gefur þeim.  Hvort hópurinn telji einhver ákvæði ekki standast, einhverjum þeirra sé  ofaukið o.s.f.v..  Eins er það óljóst hvort eða hvaða breytingum tillögurnar taka í meðförum þingsins.

Í ljósi þess að tillagan um jöfnun atkvæðisréttar var felld í tveimur kjördæmum,  má alveg leiða að því líkum, að þingmenn þaðan verði hikandi við samþykkt hennar eða hreinlega bara berjist gegn henni. Enda gæti áframhaldandi þingseta þeirra staðið og fallið með því hvernig þeir tækla þá tillögu.

Nokkuð víðtæk sátt er um í þinginu að einhvers konar auðlindaákvæði verði í stjórnarskrá.  Enda eru þau úrslit mest afgerandi  í kosningunum.Hins vegar er eflaust himinn og haf meðal þingmanna um orðalag slíks ákvæðis. 

Að öllum líkindum verður ákvæði um þjóðkirkju sett í nýja stjórnarskrá, þó eflaust verði deildar meiningar um slíkt ákvæði í þinginu.

Persónukjörið mun væntanlega ná í gegn.  En eins og það ákvæði hljómar, þá er það í rauninni verkefni næstu þinga að koma því á. Sé til þess vilji á þeim þingum.  Það er því ekki hægt að segja að persónukjör hafi beinlínis verið tryggt.

Beina lýðræðið nær nokkuð örugglega í gegn þó allt eins megi búast við því að þröskuldurinn verði eitthvað hærri en  10% sem talað hefur verið um.

Afdirf annarra tillagna, en þeirra sem ekki var beinlínis kosið um, eru hins vegar óljós ennþá.  Enda hafa afar fáir þingmenn gefið upp afstöðu sína til þeirra. 

Ég gæti svosem alveg ímyndað mér að innan allra flokka á þingi sé vilji til þess að ráðherrar séu ekki samtímis þingmenn einnig. Þó eflaust sé slíkt ekki samróma álit í öllum flokkum. Svo eitthvað sé nefnt.

Það er því kannski ekki beinlínis hægt að tala um sigur eða tap einhverra í þessum kosningum í gær.  Enda allteins hægt að áætla að stór hluti já-anna í þeim hafi fremur lýst vilja fólks til breytinga á stjórnarskrá, fremur en beinlínis hafi það verið að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs sem slíkar. Er þá kannski nær að líta til svara við spurningum 2-6, ætli fólk að tala um skýra efnislega niðurstöðu úr þessum kosningum. 

Hlutdeild manna í sigrinum er því kannski víðtækari en af er látið.  Enda flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, hvort sem eiga fulltrúa á þingi eða ekki, talað fyrir breytingum  á stjórnarskrá. Eins og t.d. auðlindaákvæði.  Þó vissulega séu þær breytingar mismiklar eftir flokkum.

Hinn eiginlegi sigurvegari verður að lokum þjóðin. En til þess að svo verði, verður ekki bara að ríkja víðtækari sátt um stjórnarskrárbreytingar en nú er. Heldur þarf stjórnarskráin  einnig í fyllingu tímans að standa tímans tönnn og gagnast þjóðinni á þann hátt sem stjórnarskrám er ætlað.


mbl.is „Er afskaplega stolt af þjóðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldaður "sannleikur" rithöfundar.

Hallgrímur Helgason rithöfundur fer mikinn í bloggi sínu á dv.is.  Það eru svosem engin tíðindi að Hallgrímur fari mikinn. Enda gerir hann það í flestu sem hann tekur sér fyrir hendur.  Nema kannski þegar hann leitar sannleikans.  Blogg Hallgríms má sjá hér, fyrir þá sem nenna að lesa það:

http://www.dv.is/blogg/hallgrimur-helgason/2012/10/19/hverjir-eru-skrillinn/?fb_comment_id=fbc_217359051727507_774265_217361908393

Yðar einlægur ætlar hins vegar bara að gera hluta þessa blogs Hallgríms að umtalsefni.

"Sjálfstæðisflokkurinn er og verður helsta ógn íslensks samfélags. Með honum frýs allt fast. Án hans er allt hægt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun tekið við gamla neikvæðnikeflinu, sem VG geymdi forðum. Sjálfstæðisflokkurinn í dag er eins og VG var: Á móti öllu. Hann er á móti nýrri stjórnarskrá, á móti samningaviðræðum við Evrópusambandið, á móti endurskoðun kvótakerfisins, á móti þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá, á móti nýjum lausnum í gjaldeyrismálum … you name it."

Það segir sig auðvitað sjálft að Hallgrímur er rithöfundur. Enda þessi orð hans ekki raunveruleg lýsing á stöðu mála. Heldur hugarburður hans og fleiri vinstri manna, sem nálgast sannleikann sjaldnast nema til hálfs, hið mesta.

Sjálfstæðisflokkurinn eða flokksmenn margir eru á móti drögum stjórnlagaráðs í heild sinni, þó þeir telji margt í þeim jákvætt. Þar á bæ er vilji til breytinga á stjórnarskrá. Sjálfstæðisflokkurinn vildi fara í vinnu við stjórnarskrána fyrr á þessu kjörtímabili og byggja þá vinnu á gögnum frá þjóðfundinum, stjórnlaganefnd og fleiri aðilum. Því var hins vegar hafnað af stjórnarmeirihlutanum og meðhlaupurum hans.

 Formaður flokksins hefur hins vegar sagt að flokkurinn sé ekki bundinn niðurstöðu stjórnlagaráðs.  Enda þarf ekki annað en að lesa núgildandi stjórnarskrá, til þess að sjá að enginn þingmaður getur ekki  lýst sig ,,bundinn“  niðurstöðum  stjórnlagaráðs, með eða án þjóðaratkvæðis um þær, án þess að brjóta 48. grein hennar  og rjúfa þannig drengskaparheit sitt við stjórnarskrána.

Sökum þess að pólitískt bakland ESBumsóknar er í mýflugumynd, vill Sjálfstæðisflokkurinn að aðildarviðræðum sé hætt. Í gang fari vinna þar sem það er metið útfrá lögum og reglugerðum ESB, hvað í stærstum dráttum fellst í því að vera aðildarþjóð að ESB. Að þeirri vinnu lokinni yrði niðurstaðan lögð fyrir þjóðina og hún fengi að kjósa um hvort taka ætti að nýju upp viðræður við ESB.

Hvað kvótakerfið varðar, þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki andvígur breytingum á því. Heldur þeim breytingum sem núverandi ríkisstjórn vill gera á því.  Sjálfstæðisflokkurinn er líka vel til umræðu um hækkun á veiðigjaldinu.  En er andvígur þeirri hækkun er stjórnarflokkarnir leggja til.

Það er ekki hægt að halda því fram að einhver sé á móti þjóðaratkvæði um nýja stjórnarskrá, þar sem ný stjórnarskrá liggur ekki fyrir. Það er hverjum manni ljóst að það er hvorki hægt að vera með eða móti einhverju sem ekki er til.  Kosningarnar á morgun snúast ekki um nýja stjórnarskrá.  Heldur er þjóðin spurð álits á tillögum að nýrri stjórnarskrá.  Hins vegar liggur ekki fyrir hvort efnislegri niðurstöðu kosninganna verði fylgt eða ekki.

Hvað gjaldmiðilsmálin og lausnir varðar, þá er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur þeirri einu lausn sem stjórnarflokkarnir og meðhlauparar þeirra bjóða upp á, upptöku evru. Enda felur slík lausn í sér aðild að ESB. En flokkurinn telur, eins og reyndar allir aðrir flokkar nema Samfylkingin, hag Íslendinga betur borgið utan ESB.

 

Ef að maður nýtir sér það rými sem "you name it" gefur, er Sjálfstæðisflokkurinn einnig á móti skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem er murka lífið úr fyrirtækjunum og fólkinu í landinu, markvissri baráttu stjórnarflokkanna gegn verðmæta og atvinnusköpun, pólitískum hrossakaupum stjórnarflokkanna um faglega unna rammaáætlun, ásamt mörgu fleiru.... 


Er skilyrðið um að "standa í skilum" mannréttindabrot?

„Ég tel að þessi dómur staðfesti að ef staðið er í skilum með svokallað ólögmætt gengistryggt lán og greitt hafi verið af því þá dragast allar greiðslur inn á höfuðstól frá stöðu lánsins áður en það er vaxtareiknað,“ segir Skarphéðinn Pétursson lögmaður Borgarbyggðar í málinu.

Það liggur fyrir að margir þeirra sem eru með ólögmæt gengistryggð lán, hafa ekki getað staðið í skilum. Enda ruku þau lán, upp úr öllu valdi þegar gengishrun krónunnar varð.  Það sem olli hækkuninni  var ólögmætt ákvæði lánasamningsins, gengistryggingin.

Auk þess sem afturvirkt vaxtaákvæði laga 151/2010, sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmætt, hefur einnig haft íþyngjandi áhrif á flesta ef ekki alla lánþega gegnistryggðra lána.

Skilningur lögmannsins, hér að ofan, er sá að lánþegi þurfi að hafa staðið í skilum til þess að eiga rétt á því að fá rétt sinn bættan.  Þeir sem ekki gátu staðið undir ólögmætu vaxtaokri og ólögmætri gengistryggingu, eiga hins vegar engan rétt.

Það hlýtur þvi að vekja upp þá spurningu hvort ekki sé verið að brjóta á mannréttindum þeirra er ekki stóðu undir ólögmætum kröfum fjármálafyrirtækja. Með því að skilyrða  réttarbætur lánþega við það að hafa getað staðið undir lögbrotinu? 

 


mbl.is Milljarðar í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkvæður misskilningur um lýðræði.

Það má alveg hafa af því gaman, í hófi, að fylgjast með því hvernig stuðningsmenn stjórnlagaráðstillagnanna keppast við líkt og enginn sé morgundagurinn við það að misskilja orð formanns Sjálfstæðisflokksins, um ólýðræðislegar kosningar á laugardaginn kemur.

 Enginn þeirra talar þó um kosningarnar sem slíkar, að einhverju marki.  Heldur er klifað á því, hvað tillögurnar séu verk margra einstaklinga.  Það hafi verið haldinn 950 manna þjóðfundur  og svo þjóðin "kosið" sér stjórnlagaþing, sem varð eftir ógildingu Hæstaréttar á kosningunum að stjórnlagaráði, eftir að Alþingi skipaði þá er "náðu" kjöri í ógildu kosningunum í ráðið. 

Flestum, ef ekki öllum þessum snillingum yfirsést það þó, á kjörseðlinum mun vera fyrirvari sem gerir kosningar þessar ólýðræðislegar.   En í fyrirvaranum stendur:

Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.“

Við þetta má svo bæta, að frumvarpið gæti jafnvel einnig tekið breytingum, áður en það er verður lagt fyrir þingið.  Fari svo að lögfræðiteymir sem  Stjórnsýslu og eftirlitsnefnd Alþingis skipaði, telur á því einhverja meinbugi, hvað varðar alþjóðlegar og innlendar skuldbindingar eða innbyrðis mótsagnir í frumvarpinu.

Það er því alveg morgunljóst, að þau skilyrði sem þarf til  þess að hægt sé að kalla kosningarnar lýðræðislegar, eru ekki fyrir hendi.   Enda er þess getið í fyrirvara á kjörseðli að endanlegar lyktir þess máls, sem kosið er um,  geti orðið aðrar en  „lýðurinn“ kýs að þær verði.   Lýðræðislegar kosningar ganga einmitt út á það að úrslit þeirra séu endanlegar lyktir þess máls sem kosið er um.  


Sjaldan eiga slæmur málstaður og sannleikurinn samleið.

Sjaldan fellur Álfheiði Ingadóttur satt orð úr munni....
Í tíufréttum sjónvarps sagði hún fullum fetum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað fyrr en nú ræða efnislega tillögur stjórnlagaráðs. 

Nær allan síðasta vetur, var það krafa þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar að efnisleg umræða færi um tillögurnar. Bæði í þinginu sjálfu og í Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þingsins. 

Öllum beiðnum um slíkt var hafnað. Utan þess sem að almennar umræður voru um tillögurnar. Þær umræður fóru hins vegar það snemma fram eftir að tillögum stjórnlagaráðs var skilað þinginu, að varla má ætla að þingmenn hafi náð að kynna sér tillögurnar að því marki, að sú umræða hafi getað talist efnisleg.


Álfheiður hefur hins vegar verið í hópi þeirra þingmanna, sem hrópað hafa:"Málþóf-málþóf!!", í þinginu ef einhver þingmaður þingmaður Sjálfstæðisflokksins , hefur dirfst til þess að beina orðum sínum efnislega að tillögum stjórnlagaráðs, í ræðustól Alþingis.


Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 1809

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband