Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Áður og núna........

Í lok árs 2007 völdu álitsgjafar Fréttablaðsins og Markaðarins, Icesavereikninga þá er einkabankinn Landsbankinn stofnaði á Englandi, sem viðskipti ársins 2007.
 Í lok árs 2010 völdu svo álitsgjafar þessara sömu Baugsmiðla, Icesavesamninga Lee Buccheits, þar sem íslenskir skattgreiðendur þurfa ekki að borga nema 50 milljarða vegna harkalegrar brotlendingar, viðskiptasnilldar ársins 2007.

 Í bankahruninu haustið 2008, sagði maður nokkur að, hefðum við bara verið í ESB og með evru þá hefði ekki orðið neitt bankahrun hér.  Þessi ágæti maður meinti reyndar það að, þegar að bankarnir hérna féllu líkt og aðrir bankar vítt og breitt um Evrópu og USA, þá hefði vera okkar í ESB (ef við hefðum verið þar) og evra, sniðið okkur stakkinn á þann hátt að við hefðum þurft að fara ,,írsku leiðina".  Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í það, að annars skelfileg fjárlög okkar fyrir árið 2011, hefðu orðið margfalt verri en þau þó urðu.  Nægir þar að nefna írsku fjárlögin fyrir árið 2011.

 Vitringurinn úr bankahruninu árið 2008, heitir Össur Skarphéðinsson. Já einmitt þessi sami og er æðsti strumpur í því að koma okkur í ESB og upptöku á evru...


Ekkert ólíklegra en margt annað.

Það er nú í sjálfu sér ekki skrítið að Samfó horfi til Guðmundar  Steingríms. Guðmundur  var þingmaður Samfó í Kraganum frá 2007 til 2009. Í prófkjöri fyrir þingkosningarnar 2009, var hins vegar meiri eftirspurn í Kraganum, eftir öðrum í Kraganum, en eftir Guðmundi,  enda tapaði hann þar fyrir mannvitsbrekkum eins og Árna Páli, Kötu Júl og Þórunni Sveinbjarnar.


Guðmundur ákvað hins vegar að reyna þá fyrir sér í Norðvestur kjördæmi í prófkjöri Framsóknar. Segir sagan, að í kringum það prófkjör, hafi ungir samfóistar í kjördæminu skráð sig í Framsók í löngum bunum, til þess eins að kjósa Guðmund og sagt sig úr flokknum að nýju, að loknu prófkjöri.

Síðan er það vissulega spurning, hverja Samfylkingin nær að draga til sín úr Framsókn auk Guðmundar. Augljósustu kostirnir eru líklegast, Siv Friðleifs og Birkir Jón Jónsson, en líklegast nást ekki fleiri yfir að öllu óbreyttu. Hinir sex sem eftir yrðu þá í þingflokki Framsóknar, eru nær örugglega ekki fáanlegir í lífgunartilraunir á núverandi ríkisstjórn.  Fátt mælir þó á móti því að þingflokkur Framsóknar kæmi að því sem ein heild, að mynda nýja ríkisstjórn.  

Síðan er það spurningin, hversu vel það fari í þingflokk Vg. og grasrót að Jóni Bjarna verði sparkað úr Landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytinu, þegar nýtt Atvinnuvegaráðuneyti verður til, með vorinu og Guðmundi Steingríms plantað þar inn.  Að vísu gæti losnað embætti menntamálaráðherra fyrir Jón, þegar Katrín Jakobsdóttir fer í barneingarleyfi. 

En þó ber að huga að því, að verði þetta að veruleiku með Atvinnuvegaráðuneytið, þá verður Katrín Júlíusdóttir, núverandi Iðnaðarráðherra, án ráðherraembættis auk þess sem að Vg. hefðu þá fleiri ráðherra en Samfylking í ríkisstjórn.  Eins er allt eins líklegt að nota verði embætti menntamálaráðherra undir Siv eða Birki Jón, til þess að tryggja stuðning þeirra við stjónina. 

 


mbl.is „Missa sig í spunanum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningur án sannfæringar, sameiginlegur óvinur ,,límið".

„Okkar hjáseta snérist ekki um vantraust á ríkisstjórnina heldur það, að við höfum ekki sannfæringu fyrir þeirri efnahagsstefnu, sem birtist í fjárlagafrumvarpinu."

Svo mælti Lilja Mósesdóttir á Bylgjunni í morgun.  Í þessum orðum fellst sú fáranlega staðreynd, að þó svo að hún og fleiri ólátabelgir í þingliði Vinstri grænna, styðji ekki ríkisstjórnina í þeim málum sem helst skipta máli og marka stefnu ríkisstjórnarinnar, þá styðja þau ríkisstjórnina sem slíka.  

Í fleiri málum, eins og t.d. í Icesave, hafa ólátabelgirnir sent frá sér svipaðar yfirlýsingar.  Verið á öndverðu meiði við ríkisstjórnina, en samt stutt hana. Þrátt fyrir andstöðu sína við Icesave, þá greiddu þó ólátabelgirnir atkvæði á þann hátt, bæði í atkvæðagreiðslunni um samninginn og um tillöguna að bera samninginn undir þjóðina, að ríkisstjórnin héldi meirihluta sínum í báðum málum.  Tveir atkvæði með samningi, með vísan í tillöguna um þjóðaratkvæðið, sem borin var upp eftir atkvæðagreiðsluna um samninginn. 

Hinir tveir sem voru í ólátaliðinu, þetta sinnið, greiddu hins vegar atkvæði gegn samningi og þjóðaratkvæði.  Lögðust þeir þingmenn er greiddu atkvæði gegn samningi og þjóðaratkvæði, svo lágt að þeir ætluðust í raun til þess, að forsetinn tæki af þeim þann kaleik að vísa málinu til þjóðarinnar.

Atkvæði þeirra tveggja með þjóðaratkvæðinu, hefði sent málið til þjóðarinnar, án synjunar forsetans.  Hlýtur það að heyra til tíðinda í sögu lýðveldisins, að þingmenn, ætlist til þess að forseti lýðveldisins taki, af þeim þann kaleik, að taka ákvarðanir í stórum málum.

Hvað sem líður svo öllum þessum tillögum sem Lilja segist hafa lagt fram,  ,,samherjum" sínum til lítillar gleði, þá er það í raun barnaskapur að halda því fram að tillögunum hafi ekki verið tekið fagnandi, bara af því að hún lagði þær fram. 

Flestar tillögur Lilju varðandi skuldavanda heimilana, voru þess eðlis að auðvelt var fyrir lýðinn að flykkjast um þær.  Tillögunar voru hins vegar flestar þess eðlis að vera almennar aðgerðir, sem í sjálfu sér leystu vanda fárra, sem í voru og eru í raunverulegum vanda, en firrtu ýmsa þeirri ábyrgð sem þeir höfðu gengist undir, á kostnað þeirra, sem eru í raunverulegum vanda og svo einnig þeirra, er hafa sín mál á hreinu.

Hvað skattlagningu séreignarsparnaðar, var tillagan mjög góð, þar til í ljós kom að þær tekjur sem í Ríkissjóð kæmu við þá breytingu, yrðu ekki notaðar til þess að létta skattaklyfjar einstaklinga og fyrirtækja, heldur til þess að fresta niðurskurði í ríkisbákninu um eitt til tvö ár. 

Þó svo að vissulega hefði mátt skera niður á annan hátt, en gert var, þá var niðurskurður engu að síður nauðsynlegur og í raun má segja að hann hafi skollið grimmar á landsmenn, þar sem stórum hluta hans var frestað árið 2009. Það er nefnilega svo, að niðurskurðaraðgerðir sem farið er í, eftir að þeim er frestað um einhvern tíma, verða nær undantekningalaust grimmari, en annars hefði verið, hefði bara verið farið í þær strax í stað frestunar.

Uppúr stendur þó að stuðningur ólátabelgjana við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, án nokkurrar sannfæringar fyrir þeim stefnumálum, er stjórnin vinnur eftir, hlýtur í besta falli að teljast kjánalegur.

En líklegast heldur þó saman allri kattarhjörðinni, heimilis, hefðar og villköttum, er mynda það gallerý er kallast stjórnarmeirihluti, að kattartegundirnar eiga allar sameinginlegan óvin.  Óvin sem ætlað er að jafna um í pólitísku uppgjöri um pólitíska stefnu óvinarins, fyrir dómstólum.


mbl.is Skiptir mál hver lagði tillögurnar fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft hefur verið sagt..................

að margur vildi Lilju kveðið hafa. Sumir vilja reyndar meina, nú um stundir, að margur stjórnarliðinn vildi hafa  Lilju kvatt.

En þora þó varla að kveðja hana. Óvíst hverja þeir þyrftu að kveðja einnig við sama tækifæri.
Telji Lilja það betra að berjast fyrir sínum málum utan Vg., þá verður það líklega ekki, nema hún fái einhvern eða einhverja ólátabelgi með sér úr Vg. Hún fengi litlu áorkað, breytti hún Hreyfingartríóinu í kvartet.  Líklegast þyrfti hún að breyta því tríói í sextett, eða þá stofna nýjan þriggja manna, eða stærri þingflokk, ólátabelgjana úr Vg. 
 
Kjósi Lilja hins vegar að yfirgefa Vg. án þess að taka einhverja með sér, þá munu áhrif hennar sem þingmanns stórminnka, nema auðvitað að þeir ólátabelgir sem enn verða eftir í Vg. fylgi henni frekar að málum, en forystu flokksins.
 
Í það minnsta getur andrúmsloftið í þingflokki Vinstri grænna, varla verið annað en ,,súrt", enda ekki á hverju ári, sem 40% af þingflokki stjórnarflokks, hittist á fundum, til þess að ræða hjásetu, við afgreiðslu fjárlagafrumvarps þeirrar ríkisstjórnar, sem flokkurinn er jú hluti af, auk þess þegar formaður flokksins, er hvorki meira né minna, en fjármálaráðherra og af þeim sökum fyrsti flutningsmaður fjárlagafrumvarpsins.


mbl.is Lilja lögð í pólitískt einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn koma hreint fram, t.d. með því að.......

... að greiða atkvæði í samræmi við það sem þeir segja í þingsal, í fjölmiðlum, þingflokksfundum  eða þá á nefndarfundum.

 Ásmundur Einar Daðason og hin tvö í andófsliði Vg. höfðu öll talað gegn fjárlagafrumvarpinu og því þurfti hjáseta þeirra við afgreiðslu frumvarpsins ekki að koma á óvart. Hvað Lilju Mós varðar, þá sat hún hjá í atkvæðagreiðslunni, við aðra umræðu fjárlagafrumvarpsins. Þar gaf hún upp sínar ástæður fyrir hjásetu sinni og sagðist ekki geta stutt frumvarpið, nema ákveðnir hlutir væru lagaðir.  Ljóst má vera að ekki voru þeir hlutir lagaðir, sem Lilja setti sem skilyrð fyrir stuðningi sínum.  Einnig má það vera nokkuð ljóst að Atli Gíslason, hefur án efa talað fyrir annars konar fjárlagafrumvarpi, en því sem hann sat hjá við afgreiðslu á.

Ásmundur Einar, talaði gegn fjárlagafrumvarpinu, frá framlagningu þess og talaði fyrir breytingum, sem ekki voru samþykktar.  Afstaða Ásmundar, gegn frumvarpinu, var því skýr allan tímann. 

Afstaða Ásmundar var meira að segja svo skýr, að ekki þótti þorandi að hann sæti þann fund í Fjárlaganefnd, er afgreiddi fjárlagafrumvarpið, til þriðju umræðu. Vera Ásmundar á fundinu hefði þýtt að ekki hefði verið meirihluti í nefndinni fyrir því að senda frumvarpið til þriðju umræðu, í þeirri mynd sem það var sent.  Í stað Ásmundar, var hinn Steingrímsholli Snati, Árni Þór Sigurðsson sendur á fundinn, svo stjórnarflokkarnir, hefðu nægan meirihluta í Fjárlaganefnd, til þess að afgreiða frumvarpið til þriðju umræðu.  

 Hafi hjáseta þeirra þriggja, komið á óvart, þá eru hinir ca. 30 stjórnarþingmenn heyrnarlausir, eða þá bara að þeir hafi ekki trúað því, að þremenningarnir ætluðu að greiða atkvæði, samkvæmt samvisku sinni, líkt og stjórnarskráin skikkar alþingismenn til að gera. 


mbl.is Hissa á ummælunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villikettir, heimiliskettir og sameiginlegur óvinur þeirra.

Ólíklegt verður að teljast að ólátabelgirinir í þingflokki Vg. felli stjórnina með atkvæðum sínum, í það minnsta viljandi. Heimiliskettir og villikettir í Vg. eiga sameiginlegan óvin. Hatur þeirra á þeim óvini, forðar ólátabelgjunum frá því að haga atkvæðum sínum á þann hátt að ríkisstjórnin lendi í minnihluta. Atkvæðahönnun ólátabelgjana í Icesaveatkvæðagreiðslunni, 30 des. í fyrra, er gott dæmi um slíka hönnun.

Ögmundur hefur lýst því yfir, að þrátt fyrir andstöðu við samninginn, hafi ekki verið hægt að greiða atkvæði á þann hátt, að ríkisstjórnin yrði undir. Með öðrum orðum, þá gátu ekki allir þingmenn Vg. er voru samningnum andvígir, greitt atkvæði gegn samningnum, því þá hefði stjórnin fallið.

Í Icesaveatkvæðinu, greiddu Ásmundur og Guðfríður Lilja atkvæði með samningnum, þrátt fyrir andstöðu sína við samninginn,  af því þau töldu að málið ætti að fara til þjóðarinnar og greiddu því atkvæði með tillögu um þjóðaratkvæði, sem borin var upp í kjölfarið á atkvæðagreiðslunni um Icesave. Var ,,lýðræðisástarfrasinn", sem þingmenn Vg. nota gjarnan, til þess að réttlæta fylgni sína við ESB-umsókn andstætt stefnu flokksins, notaður í tilfelli Ásmundar og Guðfríðar Lilju.
 
Ögmundur og Lilja Mós, greiddu hins vegar atkvæði, gegn samningnum og þjóðaratkvæðinu. Ögmundur skoraði hins vegar á forsetann, að taka þá ákvörðun sem hann og Lilja lögðu ekki í að taka, með því að vísa málinu til þjóðarinnar.   Það hlýtur að teljast til tíðinda í sögu lýðveldisins, að þingmenn, hvetji forseta þess til þess að taka ákvörðun, sem þeir sjálfir hafa hvorki kjark né þor, til að taka.
 
Hefði ,,óvinaforsendan" ekki verið fyrir hendi og/eða líkur á falli ríkisstjórnar hefði samningurinn verið felldur í þinginu, þá hefðu eingöngu 31 sagt já, en 32 nei í atkvæðagreiðslunni um samninginn.
Atkvæðatölur við þjóðaratkvæðinu hefðu þá verið, 32 já gegn 31 nei.
Hins vegar náði vilji ríkisstjórnarinnar fram að ganga í báðum atkvæðagreiðslum, 33-30, ríkisstjórn í vil.

Lin dekk og flókin staða.

Samkvæmt frétt á pressan.is , þá voru þeir Róbert Marshall, Samfylkingu og Árni Þór Sigurðsson Vinstri grænum í viðtali í Íslandi í dag, á Stöð 2 í kvöld.  Þar bar auðvitað á góma ,,hjáseta" þremmingana í Vg. við afgreiðslu fjárlaga.

 Róbert komst svo að orði, að það væri frekar línt í einu af dekkjum ríkisstjórnarinnar, auk þess sem að varla væri hægt að líta lengur á þau þrjú sem hluta stjórnarliðsins á þingi.   Árni Þór sagði hins vegar að staðan væri flókin.

 Vitað var um leið er fjárlögin voru lögð fram, að ekki væri það sjálfgefið, að þau hefðu þingmeirihluta.  Reyndar var það vitað meðal þeirra er unnu að fjárlögunum, að nær ógerlegt yrði við óbreytta ráðherraskipan að koma þeim í gegum þingið.  Líklegast var eina vonin sú, að fækka um einn í órólegu deild Vinstri grænna, með því að kippa Ögmundi aftur að ríkisstjórnarborðinu, á kostnað Álfheiðar Ingadóttur. 

Reyndar var það nú sú skýring sem Álfheiður gaf fyrir því að hún hefði þurft að víkja fyrir Ögmundi sú, að koma hefði Ögmundi aftur að ríkisstjórnarborðinu, til þess að væntanleg fjárlög yrðu samþykkt í þinginu. 

 Þó svo að hjáseta þeirra þriggja, veiki vissulega liðsheild stjórnarliðsins, þá er þó enn naumur stjórnarmeirihluti í þinginu og lítil sem engin hætta á því, að þremenningarnir geri eitthvað sem fellt geti stjórnina, í það minnsta ekki viljandi.  Enda benda yfirlýsingar þeirra þriggja til þess, að þau muni verja ríkisstjórnina vantrausti, hvað sem á dynji. Það er því líklegra en ekki að einhverjir smáskjálftar eigi sér stað á stjórnarheimilinu, á komandi vikum fremur en stjórnarsamstarfið sem slíkt, verði í einhverri stórhættu.  

 Þessi flókna staða sem Árni Þór segist sjá í kortunum, hlýtur að vera sú staða sem þremenningarnir eru búnir að koma sér sjálfum í, þ.e. að réttlæta fyrir baklandi sínu, þingi og þjóð, stuðning sinn við ríkisstjórn, en  treysta sér þó ekki til að styðja það grundvallarplagg í stefnu stjórnarinnar, sem fjárlögin eru. 

 Eins gæti þessi flókna staða sem Árni sér í kortunum, stafað af því að kannski er hann farinn að rýna fram í tímann, til þeirrar stundar, er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, einn ólátabelgurinn úr þingliði Vinstri grænna, kemur úr fæðingarorlofi.  Hann hlýtur að velta því fyrir sér, hvort Guðfríður, fylgi Ögmundi að málum, eins og hún hefur gert í flestu, hingað til og hætti í andófsliði ólátabelgjana eða ekki.   

Einnig gæti Árni verið að líta til þess, að seint í vetur eða næsta vor, mun Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, hverfa úr ríkisstjórn og fara í barneignarleyfi. 

Þá gæti sú staða komið upp, að þurft gæti að bjóða einhverjum þremenningana embætti Katrínar, til þess að fækka enn í uppreisnarliðinu, eða þá koma Jóni Bjarnasyni þar fyrir, fari svo að áform Samfylkingar um eitt atvinnuvegaráðuneyti, til þess að flýta aðlögunnarferlinu að ESB- aðild, verði að veruleika.  Enda myndi það að gera Jón Bjarnason aftur að óbreyttum þingmanni, þýða það, ólátabelgjum í þingliði Vg. myndi bara fjölga. 

 Hvað sem hverju líður og hverjar hrókeringar verða, að hvort að hrókeringar verði í gangi eður ei, þá mun þó líklegast stjórnin slefa áfram næstu misserin, þó svo það kosti eflaust aukasnúning í spunadeildum stjórnarflokkana og meiri annir hinna svokölluðu ,,óháðu faglegu" álitsgjafa neðan úr Háskóla, við að gefa ,,óháð og fagleg" álit um stöðu mála, lífslíkur ríkisstjórnar og fleira í þeim dúr.

 


Pólitískt ,,boomerang" Jóhönnu.

Þegar saga Jóhönnu Sigurðardóttur sem ráðherra í gegnum tíðina er skoðuð, þá er alveg óhætt að telja Jóhönnu með pólitískum villiköttum fortíðarinnar, sem að smala þurfti reglulega til fylgis við stefnu þeirrar ríkisstjórnar er hún sat í hverju sinni. 

Í Viðeyjarstjórninni, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks árin  1991-1995, sem Jóhanna sat í fram á mitt ár 1994, heyrði það að sögn Jóns Baldvins þáverandi formanns Alþýðuflokksins, til haustverkana að kalla Jóhönnu til fylgis við fjárlagafrumvarpið.

,,Það heyrði til haustverkanna að sitja yfir Jóhönnu og fá hana til að vera með. Það var ekki hægt, hún var ekki til viðtals. Jóhanna var þá í því hlutverki sem Lilja Mósesdóttir er í núna og neitaði að taka þátt í niðurskurði á sínum málaflokki." Sagði Jón Baldvin í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

 ,,Villikattareðlið" hafði síður en svo elst af Jóhönnu er hún settist að nýju í stól félagsmálaráðherra árið 2007 í Þingvallastjórn, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. 

Hófust þá aftur hurðaskellir, frekju og fýluköst á ríkisstjórnarfundum í gamla fangelsinu við Lækjartorg, þegar málefni hennar málaflokks voru rædd og oft fór það nú svo, að látið var undan frekjunni í Jóhönnu og framlög til hennar málaflokks voru hækkuð eitthvað.  Enda var eða virtist á þeim ,,borð fyrir báru" til þess að auka útgjöld ríkissjóðs. 

 Toppinn á,,villikattarferli" Jóhönnu í Þingvallastjórninni, má þó án efa telja þegar hún þremur mánuðum fyrir hrun, afnam eða stórlækkaði stimpilgjöld Íbúðalánasjóðs og rýmkaði mjög svo útlánareglur sjóðsins á þann hátt, að síðustu þrjá mánuðina fyrir hrun voru lán Íbúðalánasjóðs alls ca. 2800 í stað aðeins um 1600 síðustu þrjá mánuði þar á undan.

Þetta ákvað Jóhanna, þrátt fyrir að hafa setið í svokölluðum ríkisfjármálahópi, sem skömmu áður hafði gert samkomulag um aðgerðir við seðlabanka hinna Norðurlandanna, þar sem Íbúðalánasjóði, var meðal annars gert að draga verulega úr lánveitingum.  Jóhanna sat auðvitað þann fund er samkomulag þetta var gert, þannig að vissulega var hún alveg með stöðuna á hreinu, eða í það minnsta hefði mátt vera það.  Hins vegar hvarf Jóhanna af fundi, áður en til undirritunnar samkomulagsins kom og fól Ingibjörgu Sólrúnu það að skrifa undir í umboði sínu.

Líklegt er að margir þeir sem nú standa í basli með sín Íbúðalanasjóðslán, geti þakkað Jóhönnu pent fyrir það að fá að vera í þeirri stöðu.

 ,,Villikattareðlið" setti Jóhönnu á þann stall, að hún var sögð heiðarlegasti pólitíkus landsins og var jafnvel kölluð Heilög Jóhanna. Skilaði nafnbótin Jóhönnu á þann stall, að eftir stjórnarslitin í janúar 2009, varð hún forsætisráðherraefni Samfylkingar, þar sem þáverandi formaður flokksins Ingibjörg Sólrún, var á útleið vegna veikinda.  Jóhanna varð svo nokkrum vikum síðar formaður Samfylkingarinnar.

Goðsögnin um heiðar og heilagleik Jóhönnu varð svo til þess, að í kosningabaráttunni veturinn 2009, nægði Samfylkingunni, nánast að keyra eingöngu á meintum forystu og leiðtogahæfileikum Jóhönnu, þó svo að ESB-umsóknin hafi einnig verið áberandi í kosningaáróðri flokksins.

 Eftir kosningar og myndun fyrstu hreinu vinstri stjórnar lýðveldisins, kom hins vegar í ljós að þó svo að gamlir villikettir gerist hefðarkettir, þá er líklegast til ofmælst, að þeir hafi þroska eða aðra burði, er þurfa til þess að leiða ríkisstjórn.  Í það minnsta virðast þeir kettir líkt og allir aðrir er kasta boomerangi, fá það beint í andlitið aftur, standi þeir ekki klárir á að grípa það er kemur til baka.


Gegnsæisdrottninginn orðin að öfugmæladrottningu.

Á þeim tíma sem Jóhanna Sigurðardóttir var stjórnarandstöðuþingmaður, frá kosningum 1995 og þangað til að hún varð félagsmálaráðherra í Þingvallastjórninni, voru fáir ef ekki enginn þingmaður, jafn ötulir og hún við flutning á frumvörpum og þingsályktunnartillögum, er tryggja áttu gegsæi í stjórnsýslu. Árlega þessi tólf ár hennar í stjórnarandstöðu, komu frá henni mál á þingið, er tryggja áttu opna og gegnsæja stjórnsýslu.

Eftir að hun varð svo félagsmálaráðherra í Viðeyjarstjórninni vorið 2007, hurfu hins vegar þessi mál Jóhönnu af dagskrá þingsins.

Loksins svo þegar margir töldu að nærri sextán ára spá Jóhönnu, um að hennar tími kæmi, hefði ræst og henni falið að mynda ríkisstjórn, þá voru stóru orðin ekki spöruð, öðru nær. 

Ríkisstjórnin ætlaði ekki bara að slá skjaldborg um heimilin í landinu, heldur áttu allar athafnir stjórnvalda að vera gegnsæjar og allt að vera upp á borðum.  Auk þess hafa ,,gegnsæis og allt uppi á borðum" frösum, óspart verið tranað fram í tyllidagaræðum forsætisráðherra. 

 Hins vegar ber svo við, í tíð þessarar gegnsæju ríkisstjórnar, hafa svör ráðherra við skriflegum fyrirspurnum, dregist fram úr hófi, slag í slag og heyrir það til undantekninga, ef ráðherra svarar skriflegri fyrirspurn innan tímamarka, eða í námunda við tímamörk.

 Í þessu máli sem fréttin, er hengd er við þetta blogg tekur til,er engin undantekning á því hversu seint og illa svör úr ráðuneytum berast og heldur engin undantekning, að loksins þegar svarið berst, þá er það alls ekki fullnægjandi. 

Einnig hefur það verið svo að þegar upp koma upplýsingar um mál sem óþægileg reynast stjórnvöldum, þá hefur forsætisráðherra verið staðinn að því slag í slag að þræta fyrir þau mál, eins og ótýndur sprúttsali.  Nægir þar að nefna launamál seðlabankastjóra. 

 Í ljósi þess að eftir nærri tveggja ára setu Jóhönnu í stól forsætisráðherra, bólar lítið sem ekkert að svokallaðri skjaldborg og allar yfirlýsingar um opna og gegnsæja stjórnsýslu, hafa í raun aukið á allt pukur og leynd Jóhönnustjórnarinnar,  er alveg óhætt að krýna Jóhönnu sem öfugmæladrottningu og festa nafnbótina ,,öfugmælastjórnin" við ríkisstjórnina, fremur en að klæmast á heitinu ,,norræna velferðarstjórnin" mikið lengur.


mbl.is Sakar forsætisráðherra um að leyna upplýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklegast eru fréttir af væntanlegu andláti Jóhönnustjórnar ýktar.

Þrátt fyrir aðventuuppreísn þremmingana í Vg., þá eru í rauninni, litlar líkur á því að stjórnin falli. Þremenningarnir munu eftir sem áður verja ríkisstjórnina vantrausti.  Reyndar er það svo að enn yrðu eftir 32 þingmenn af 63, þó svo að þremenningarnir greiddu atkvæði með vantrausti á stjórnina.

Í veigamiklum málum sem að hin svokallaða órólega deild Vinstri grænna er á móti stefnu stjórnvalda, hefur aldrei farið svo að órólega deildin, sé fullmönnuð á þingi þegar atkvæði eru greidd um málin.  Þegar atkvæði voru greidd um Icesave fyrir tæpu ári, var t.d. Atli Gíslason í einu af sínum tiltektarleyfum frá þingstörfum.  Auk þess hafa hinir órólegu, gætt þess að mótatkvæði úr þeirra röðum við þau mál stjórnarinnar er þau ,,segjast" vera á móti, séu ekki það mörg að málin falli í atkvæðagreiðslu í þinginu. 

Til dæmis í Icesaveatkvæðagreiðslunni fyrir ári, náðu þau órólegu að smeygja sér undan því að fella Icesavesamninginn, með því að tvö þeirra greiddu atkvæði með samningum, með þeim orðum að þau myndu greiða atkvæði með tillögu um þjóðaratkvæði, er borin var upp í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um Icesave.  Hinir tveir þeirra fjögurra órólegu, greiddu hins vegar atkvæði gegn samningnum og gegn tillögunni um þjóðaratkvæði.

Reyndar hvatti Ögmundur, sem þá var í ,,nei-liðinu" forsetann til þess að vísa málinu til þjóðarinnar.  Hlýtur það að vera einsdæmi í þingsögunni, að þingmaður ,,biðji" forsetann að taka ákvörðun í máli, sem sjálfur á að taka ákvörðun á og hefði alveg sjálfur getað komið kring, hefði hinn meðlimur ,,nei-liðsins" ekki greitt atkvæði gegn þjóðaratkvæðinu líkt og Ögmundur gerði einnig. 

Slíkt hefði hins vegar getað fellt stjórnina og því það ekki í boði, að þau öll fjögur greiddu atkvæði á sama hátt, nema þá með samningum og gegn þjóðaratkvæði.  Þá hefði hins vegar grasrót Vg.  ekki fengið sinn reglulega ,,andófsleikþátt".

 Það er því alveg ljóst að þetta svokallaða andóf þeirra órólegu í Vg. mun líklegast ekki breyta miklu þannig séð.  Eina breytingin sem kann að verða, gæti þó verið að hinir svokölluðu álitsgjafar, gætu haft örlítið meira að gera við að ,,spá í spilin".

Hins vegar mun það engu skipta, hvernig kapallinn verður lagður. Reglum kapalsins verður bara breytt, eða þá svindlað í honum til þess eins að lengja líf óhæfrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.


mbl.is Ríkisstjórnin veik en ekki í lífshættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband