Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Aðild eða stjórnarslit.

Þegar umsókn að ESB var til umræðu í þinginu sumarið 2009, þá voru frasar eins og "kanna hvað er í pakkanum",  "kíkja í pakkann" og "ath hvað væri í boði", allsráðandi.  Það má alveg færa fyrir því rök að innihald pakkans sé ljóst.  Greinargerð framkvæmdastjórnar ESB, nánast upplýsti það, sem og yfirlýsingar framkvæmdastjórnarinar, eða fulltrúa hennar þess efnis að varanlegar undaþágur, vegna sjávarútvegs og landbúnaðar væru ekki boði, eingöngu tímabundnar aðlaðanir að kerfi ESB.

Það er líka alveg ljóst að umsóknarferlið/aðildar og aðlögunnarferlið er í gangi, vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa gefið þau skilaboð til Brussel, að það sé einlægur vilji þeirra að ganga í ESB. 

Skiptir þá engu hvað grasrót Vg. og einstaka þingmenn þess flokks segja.  Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ganga í ESB, það er alveg óumdeild.  Þessari meintu "könnunnarferð" til Brussel er löngu lokið.

Það er því alveg ljóst að stjórnvöld ætla í ESB.  Þessi fyrirvari um viðunnandi samning er í raun marklaus, því varla er við því að búast að samningaviðræðum ljúki með samningi, nema báðir aðilar séu sáttir við samninginn.

Eins er frasinn "ÞJóðin mun svo að lokum taka ákvörðun um inngöngu" marklaus.  Að undirritun samnings lokinni, verður þjóðin spurð í "ráðgefandi" þjóðaratkvæði, hvort hún vilji ganga í ESB. 

Í undanfara kosningana má fastlega búast við því að stjórnvöld tali fyrir samningnum og í rauninni berjist fyrir því að já-in verði fleiri en nei-in.    Hvernig sem að þjóðaratkvæðið fer, mun svo utanríkisráðherra í umboði ríkisstjórnarinnar, leggja fram stjórnarfrumvarp, þess efnis að Ísland gangi í ESB. (Eða trúir því einhver að verði nei-in fleiri, þá verði lagt fram frumvarp um að hætta við allt saman?)

 Það er ófrávíkjanleg hefð og regla að stjórnarfrumvörp eru ekki lögð fram, nema með samþykki stjórnarflokkana beggja og þar sem meirihlutastjórn er við völd, þá er að sjálfsögðu gengið út frá því að meirihluti sé fyrir málinu í þinginu.  Það er nánast ómögulegt að forðast stjórnarslit, verði stjórnarfrumvarp um jafn veigamikið mál í stefnu stjórnarinar fellt í þinginu.

Ráðgefandi þjóðaratkvæði, er því rauninni ekkert annað en "marklaus skrípaleikur", með ígildi skoðanakönnunnar.


mbl.is Krafa um víðtæka aðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Politískur skotgrafarhernaður og bræðravíg innan stjórnarliðsins?

Í flestum þeim málum er snúa að fólkinu í landinu beint, er ekki hægt að segja að sé óeðlilega mikill áherslumunur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.  Flest mál er varða skuldir heimila og fyrirtækja hafa verið unnin í sátt og samvinnu milli stjórnar og stjórnarandstæðinga, þó svo að stjórnarandstæðingar hafi eflaust í einhverjum tilfellum ganga lengra en gengið er hverju sinni.

  Hins vegar, í það minnsta nýverið, hefur borið á því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali í sitthvora áttina, varðandi úrræði til handa skuldsettum heimilum í landinu, slá í og úr vonum landsmanna um lausn mála.  Slíkt ástand skapar auðvitað óreiðu og reiði hjá almenningi og verður jafnvel til þess að þingið allt fær á sig skammir, vegna innanbúðar "slagsmála" í stjórnarráðinu.

Á Alþingi er helst að sjá að kastist í kekki með stjórn og stjórnarandstöðu, þegar dagskrárliðirnir, störf þingsins og óundirbúnar fyrirspurnir eru.  Auk þess hafa jú menn einstaka sinnum tekist á undir liðnum fundarstjórn forseta, en þá hafa stjórnarandstöðuþingmenn t.d. látið í ljós óánægju sína með það, að annað hvort séu að ósekju rædd þar mál, sem litlu skipta við endurreisn landsins, eða þá að stjórnarandstöðuþingmenn gera athugasemdir, við rýr og oft ómálefnaleg svör ráðherra við fyrirspurnum sínum. 

Töluvert ber þó á því þegar störf þingsins eru á dagskrá og einhver tekur upp þar á dagskrá atvinnumál, að þá myndast samstaða meðal þingmanna, þvert á alla flokka nema annan stjórnarflokkinn.

Þegar atvinnumál á Suðurnesjum, sem að hafa hvað verið í umræðunni bera á góma, þá virðist vera rúmur meirihluti fyrir aðgerðum í þinginu.  Að þeim meirihluta standa stjórnarþingmenn allir hins vegar ekki að, heldur eru það nær undantekningalaust þingmenn Samfylkingarinnar og flestir þingmenn stjórnarandstöðunnar.  Vinstri grænir, bæði þingmenn og ráðherrar standa hins vegar fast á bremsunni og í rauninni hindra það að ríkisstjórnin geti lagt fram mál sem koma atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum af stað. 

Þau fáu mál sem að Samfylkingarráðherrum hefur tekist að þoka örlítið áfram, lenda svo í gíslingu inní ráðuneytum Vinstri grænna, þar sem teygt er úr hófi fram á öllum umsagnarferlum og jafnvel farið með einstök mál alla leið í dómsali, megi það verða til þess að tefja málið.

Eftir framlangingu fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar, komst vinna þingsins við fjárlögin í uppnám, þar sem það virtist eins og að stjórum hluta stjórnarþingmanna og jafnvel ráðherrum hafi ekki verið kunnugt um efni þess og þegar þetta er skrifað, þá er alls ekki víst að það sé meirihluti í þinginu fyrir nýjum fjárlögum, nema að fjárlagafrumvarpið, breytist í það veigamiklum atriðum, að það verður nánast um nýtt frumvarp að ræða.

Það er því nokkuð ljóst að meinta vargöld á þingi má fyrst og fremst rekja til samstöðu og stefnuleysi stjórnarflokkana í veigamilkum málum.  Er engu líkara að ríkisstjórnin þrífist öðru fremur á völdunum, einum sér, heldur en á því að einhver ákveðin stefna sé uppi.  Heldur er böðlast áfram í stjórnlausu basli um málefni, sem eru að nafninu til frá stjórninni komin, þó svo að mestu deilurnar um þau mál, séu alla jafna innan stjórnarflokkana en ekki á milli stjórn og stjórnarandstöðu.

Það þarf því ekkert að rífast neitt um það að þetta ástand, hefur fyrst og fremst skapast vegna  óeiningar stjórnarflokkana í millum og skorts á forystu í ríkisstjórn.  Stjórnarandstaðan verður seint sökuð um annað en að gera þó það, sem þeir geta til þess að til þess að auðvelda góðum málum framgöngu í þinginu.


mbl.is Pólitískur skotgrafarhernaður á kostnað heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuleysi og skuldavandi.

Þetta  atvinnuleysi 6,4% er  mælt á tímabilinu frá 1. júlí til 30. september.  Hætt er við því að lækkunina megi þá af einhverjum hluta rekja til þess að fyrirtæki hafi ráðið til sín fólk í afleysingar, vegna sumarleyfa. Samt voru 800 fleiri án atvinnu, þessa mánuði, en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að einhverjar hundruðir, eða þúsundir hafi flutt af landi brott í atvinnuleit.

Í september var t.d. 7,1% atvinnuleysi, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.  Í dag þiggja 13250 manns atvinnuleysisbætur.  Af þeim fjölda eru 2600 ca. sem eru í hlutastarfi og þiggja bara hluta bótana.  En það breytir því ekki að það eru 13250 sem vantar fulla atvinnu hér landi, fyrir utan þá sem dottið hafa út af bótum, vegna langvarandi atvinnuleysis.

 Mestur tími og orka stjórnvalda hefur farið í það að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu og helst að gera fyrirtækjum það erfitt að halda uppi eðlilegri starfsemi, að þau þurfi frekar að segja upp fólki, en að ráða nýtt.

Á meðan ráðherrar annars stjórnarflokksins, virðast vera að reyna að koma hér einhverju í gang, þá draga ráðherrar hins stjórnarflokksins lappirnar og þvælast fyrir með því að halda í ráðuneytum sínum, ýmsum málum sem þau hafa til umsagnar, lengur en góðu hófi gegnir.

Það virðist hins vegar gersamlega fara framhjá stjórnvöldum, að það skiptir engu máli hvað reiknimeistarar þeirra reikna í sambandi við skuldavanda heimilana, ef að ekki er næg atvinna í landinu. 

Hvort sem að fólk á vandræðum með sínar skuldir eða ekki, þá er það að hafa vinnu og mannsæmandi tekjur, lykilforsenda þess að geta borgað af sínum lánum. Það er í sjálfu sér afskaplega lítill munur á því að geta alls ekki borgað sínar skuldir og geta hér um bil borgað sínar skuldir. 

Án verulegrar breytingar til batnaðar í atvinnumálum á næstu mánuðum, þá verður öll reikningsvinna reikningsmeistara ríkisstjórnarinnar, nánast ónýt, enda eins og áður sagði hér að ofan, þá er næg atvinna lykilforsenda þess að fólk geti staðið í skilum.


mbl.is 6,4% atvinnuleysi í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi dragi verklausa ríkisstjórn að landi.

Eins og fram hefur komið í fréttum, þá ætlar Menntamálanefnd Alþingis að funda með framkvæmdastjóra LÍN, vegna máls einstæðrar móður, sem að segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við sjóðinn. 

Hvað sem nefndin getur gert fyrir konuna, veit ég ekki.  Líklega lítið meira en að hvetja framkvæmdastjóra LÍN, til þess að breyta starfsháttum sjóðsins, eða þá leggja fram frumvarp á Alþingi um breytta starfshætti sjóðsins. 

Réttast væri þó að nefndin kallaði menntamálaráðherra einnig á fundinn og krefðist skýringa þaðan. Það er jú, í orði það minnsta, stefna þeirrar ríkisstjórnar sem ráðherrann tilheyrir að aðstoða heimilin í landinu, með svokallaðri "skjaldborg um heimilin".  Reyndar væri það eðlilegasti hlutur í heimi að ráðherrann mætti með framkvæmdastjóranum á fundinn, enda er ráðherrann æðsti yfirmaður framkvæmdastjórans. 

Ætti nefndin að gera ráðherranum það ljóst, að gripi hann ekki til viðeigandi ráðstafa, vegna málsins og eflaust fleiri mála er lúta að LÍN, þá sæi Menntamálanefnd sig tilneydda til þess að leggja fyrir þingið, frumvarp er tryggði fólki í svipaðri stöðu og þessi kona er í, réttláta og mannúðlega meðferð við lausn á skuldavanda sínum.

Reyndar er þetta ekki eina tilfellið þar sem innheimtuaðgerðir Rikissjóðs bitna á lántakendum og gerir þeim nær ómögulegt að ganga endanlega frá sínum málum við bankann sinn.  Í kjölfar ásakana forsætisráðherra um það að bankarnir drægju lappirnar í lausn á skuldavanda heimilana, kom fram að bankarnir, hefðu getað verið búnir að hjálpa mun fleiri, en þeim rúmlega hundrað, sem að þá hafði verið hjálpað, ef að ekki hefði verið fyrir innheimtugrimmd innheimtumanna Ríkissjóðs.

Það er því einboðið að Efnahags og skattanefnd, Félags og tryggingamálanefnd, Viðskiptanefnd og allar þær nefndir þingsins, er vinna að lausn skuldavanda heimilana, kalli á sinn fund yfirmenn þeirra stofnana er hvað harðast ganga fram í innheimtuaðgerðum sínum, ásamt fjármálaráðherra og krefjist skýringa. 

Í framhaldinu af því verði þeir aðilar beðnir um að koma með tillögur til úrbóta og framlagningu frumvarps í þinginu, er kveða á um þær úrbætur.  Að öðrum kosti skulu nefndirnar taka af ráðherra ómakið og semja sjálfar þau frumvörp er þurfa þyki til lausnar vandans.  Ráðherrann starfar jú í umboði þingsins og það er eitt af höfuðverkefnum þingsins að veita honum aðhald.

Fari svo að þeir ráðherrar er málið varða, sjái ekki ástæðu til þess að bregðast við núverandi aðstæðum, þá skulu þeir sjá sóma sinn í því að þakka Alþingi af auðmýkt fyrir aðkomu sína og áhuga á  málefnum skuldsettra heimila í landinu og segja af sér í kjölfarið, enda þeir þá ekki starfi sínu vaxnir geti þeir ekki sjálfir unnið þessum málum framgöngu.


Á meðan bankarnir semja, rukkar ríkið af hörku.

Þeir sem hlustuðu á stefnuræðu forsætisráðherra þann 4. október síðastliðinn, muna eflaust eftir því að hafa heyrt í gegnum nið tunnusláttarins fyrir utan Alþingishúsið, skammir forsætisráðherra bönkunum til handa. Forsætisráðherra skammaði bankana fyrir það að draga lappirnar við lausn á skuldavanda heimilana og sagði þá fyrst og fremst standa í vegi fyrir því, að hin fjölmörgu úrræði ríkisstjórnarinnar til lausnar skuldavanda heimilana hefðu ekki virkað sem skildi.

Bankarnir svöruðu forsætisráðherra fullum hálsi, strax daginn eftir og sögðust hafa getað hjálpað mun fleiri fjölskyldum og einstaklingum í skuldavanda, ef í vegi stæðu ekki hið opinbera og stofnanir þess, eins og Skatturinn LÍN og Íbúðalánasjóður.  

Segja má að frétt sú er blogg þetta hangir við, staðfesti orð bankana og bendi á enn eitt bullið og rangfærslunar er koma úr munni, Hinnar Norrænu Velferðarstjórnar, sem að í þessu máli sem og öðrum hefur stöðugt bent á aðra og afsakað aðgerðaleysi sitt, með því allir aðrir en þau sjálf standi í vegi góðra mála.

Þetta mál sem og önnur mál skuldsettra heimila, sem liggja hjá ríkinu og stofnunum þess,  gæti ríkisstjórnin leyst á innan við viku, sé til þess nokkur vilji. Það eru jú ráðherrar í öðru ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur, er hafa forræði yfir þeim ríkistofnunum sem í vegi standa. Ekki bankarnir og því síður stjórnarandstaðan.  Boltinn er hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og hvergi annars staðar.


mbl.is Gat ekki samið við LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun ráðgefandi þjóðaratkvæði leiða til brota á drengskaparheitum þingmanna?

"Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi neinar reglur frá kjósendum sínum."  Svona hljóðar 48. grein Stjornarskrárnar.  Á undan þessari grein er svo eðli máls samkvæmt sú 47. Og er hún svohljóðandi: "Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni, þegar kosning hans hefur verið tekin gild."  Þetta drengskaparheit hafa allir þeir sem núna sitja á þingi undirritað og nýir þingmenn framtíðarinnar, munu eflaust gera það sama, enda líklegast að þessar tvær greinar, eða í það minnsta inntak þeirra breytist lítið sem ekkert, þrátt fyrir stjórnlagaþing. Auk þess sem að líkur benda til þess, að nái núverandi ríkisstjórn að hanga á völdunum út þetta kjörtímabil, þá eru rúmlega þrjú ár í að þær breytingar á stjórnarskrá, er kunna að verða gerðar í kjölfar stjórnlagaþings öðlist gildi.

Líklegt má telja að stjórnvöld reyni allt sem þau geta, til þess að samningum um inngöngu í ESB verði lokið fyrir lok þessa kjörtímabils, eða í síðasta lagi að kosið verði í "ráðgefandi" kosningu um samninginn, meðfram Alþingiskosningum vorið 2013.  

Hvað sem að þeim hugleiðingum mínum líður, hvenær kosið yrði um væntanlegan aðildarsamning, þá hlýtur það að liggja í augum uppi, eðli máls samkvæmt, að stjórnvöld þess tíma er samningaviðræðum lýkur, varla undirrita samning, nema þau væru þeim samningi fylgjandi og hefði sannfæringu fyrir því að samningurinn væri af hinu góða.  Það er því nokkuð ljóst að stjórnvöld þess tíma, munu tala fyrir samþykkt þjóðarinnar á samningnum, þó svo að hún verði reyndar aðeins "ráðgefandi". 

Að lokinni "ráðgefandi" þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn, hver sem úrslitin verða, mun svo að öllum líkindum, utanríkisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar, leggja fram stjórnarfrumvarp, sem að efnislega mun fjalla um það að Alþingi, samþykki eða synji þeim aðildarsamningi, er þá liggur fyrir, alveg óháð úrslitum þjóðaratkvæðisins.

Verði nei-atkvæði þjóðarinnar fleiri en já-atkvæðin, þá fyrst æsast leikar.  Burtséð frá "meintri" andstöðu sumra þingmanna Vg. þá mun ríkisstjórnin, sem heild væntanlega, tala fyrir samningunum í undanfara þjóðaratkvæðis, enda er ríkisstjórnin að leggja samninginn fyrir þjóðina, ekki einhver þingmaður eða ráðherra.  Annars væru ráðherrar ríkisstjórnarinnar og einstaka þingmenn stjórnarflokkana að vinna gegn stefnu ríkisstjórnarinnar, sem að varla fer að leggja samning fyrir þjóðina, nema hún hafi sannfæringu fyrir honum. 

 Það væri því fráleitt að þegar stjórnarfrumvarpið um inngöngu í ESB verður lagt fyrir þingið, nái málið svo langt, að það falli í atkvæðagreiðslu í þinginu, vegna þess að þingmenn stjórnarflokkana eða ráðherrar ríkisstjórnarinnar greiða gegn honum atkvæði.  Slík úrslit hlytu að leiða til stjórnarslita.

Það er því til lengri tíma litið, heillavænlegast fyrir stjórnvöld, að annað hvort leggja það fyrir þingið, að þjóðaratkvæðið um samninginn, er hann verður gerður, verði bindandi, ekki ráðgefandi.  Eða þá að stjórnvöld, styðji þingsályktun þess efnis að þjóðin ákveði í þjóðaratkvæði hvort hún vilji fara með stjórnvöldum í það óumflyjanlega aðlögunnarferli að ESB, sem að raunverulega fellst í aðildarumsókn að ESB. Tillöguna skal þá bera fram með þeim tímamörkum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem núgildandi lög, kveða á um, þó svo að það sé dýrara en að kjósa um það meðfram einhverju öðru. 


Álfheiður út á túni, sem fyrr.

Í viðtali við fréttamann RÚV í hádegisfréttatíma útvarps, sakaði Álfheiður Ingadóttir þá félaga Styrmi Gunnarsson og Björn Bjarnason, um að afvegaleiða hinn almenna flokksmann Vg. með baráttu sinni gegn aðildar og aðlögunnarferlinu að ESB.  Ennfremur sagði Álfheiður að tilgangur þeirra Styrmis og Björns með þessu brölti sínu, væri að koma höggi á forystu Vinstri grænna.  Ég held að það þurfi nú engan "óháðan" álitsgjafa ofan úr Háskóla, til þess að átta sig á því að forysta Vg., hefur grafið grafið sér sína gröf, alveg ein og óstudd og hefur ekki þurft neina hjálp við það.

Hins vegar hljóta þeir Styrmir og Björn að vera uppi með sér, eftir þessi úmmæli Álfheiðar, þar sem í þeim fellst hrós um röggsaman og rökrænan málflutning. Eitthvað sem að Skjaldborgarslektið, státar ekki af nema þá í mjög smáum og ógreinanlegum skömmtum.

Annars eru ummæli Álfheiðar gersamlega á pari við aðra aðildarsinna.  Enda aðildarsinnum það tamt að dæma menn úr leik, hvað umræðu um Evrópumál, fyrir þá einu sök að vera  andvígir aðild að ESB, auk þess sem flestir þeirra eru einnig andvígir aðlögunnarferli því að ESB, sem að nú er komið  í gang.

Ummæli þessi eru einnig af sama kaliberi og ummæli rökþrota stjórnarsinna, er þeir halda því fram að stjórnarandstaðan á þingi, hindri framgang "góðra" mála á Alþingi.  Við getum til gamans ímyndað okkur það, hvaða mál væru nú komin í gegnum þingið og eflaust í framkvæmd, ef að stjórnarandstaðan væri ekki statt og stöðugt að "þvælast" fyrir "góðum" málum í þinginu.   Sjálfsagt, væru þau "góðu" mál ekki mikið fleiri heldur en að þjóðin væri núna þegar þetta er skrifað búin að greiða rúmlega 70 milljarða í vexti, af Icesave-klafa þeim er Félagi Svavar bar okkur á borð í sumarbyrjun 2009.   Úrræðaleysi stjórnvalda gagnvart öðrum málum eins og lausn skuldavanda fyrirtækja og heimila í landinu væri það sama, sem og viðspyrna þeirra gegn atvinnuuppbyggingu í landinu.


Forseti ASÍ með óráði.................

...... eða hefst núna massívur stuðningur hans við Setuverkfallsstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þetta er í það minnsta einhver furðulegasta fullyrðing, sem að frá Gylfa hefur komið lengi og eru slíkar fullyrðingar ófáar. Eiginlega svo margar að varla entist mér dagurinn til að rifja þær upp.

Ef að eitthvað er, þá hefur stjórnarandstaðan verið boðin og búin að aðstoða ríkisstjórnina til góðra verka og oftar en ekki lagt við nótt sem nýtan dag í nefndarvinnu í þingnefndum, við útfærslur á vanbúnum frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Eina merkjanlega andstaða stjórnarandstöðunnar, ef að einhver er, gæti hugsanlega verið sú að stjórnarandstaðan hefur bent á aðrar leiðir en stjórnvöld hafa viljað fara.  Gylfi hefur kannski gleymt því að ríkisstjórnin, hefur fengið að "leysa" skuldavanda heimila og fyrirtækja fjórum sinnum, en án merkjanlegs árangurs.  Gylfi telur það kannski koma í veg fyrir góð verk að benda á aðrar leiðir, en farnar hafa verið í þessum fjórum misheppnuðu björgunnarleiðangrum?  

Það er í rauninni nær sannleikanum, að stjórnarandstaðan hafi reynt að styrkja ríkisstjórnina, til "góðra" verka, vegna veikleika hennar.  Veikleika hennar sem lýsir sér í heimilserjum á stjórnarheimilinu.  

Svo er kannski spurning hvort að Gylfi telji hluta þingflokks Vg. til stjórnarandstöðunnar, því að það er einmitt sá hluti þingmanna sem að í raun hafa staðið í vegi fyrir öflugri atvinnuuppbygginu í landinu.  Burt séð frá öllum misgóðum eða misgóðum skuldaúrræðum sem í boði eru, þá er trygg atvinna fyrir alla hin eina sanna kjarabó.  Trygg atvinna fyrir alla er sá mótor sem knýr efnahagslífið áfram á þann hátt að líkur á virkni skuldaúrræða stóraukast. 

Frost í atvinnuuppbyggingu, stuðlar hinsvegar að endalausri leit að skuldaúrræðum, fyrir fólkið í landinu, því án atvinnu og mannsæmandi tekna, eykst skuldavandinn, því langvarandi atvinnuleysi og lágar tekjur, búa til nýja forsendubresti slag í slag.

 


mbl.is Framsóknarmenn mótmæla orðum Gylfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli í réttu póstnúmeri, en ekki við rétt hús.

Hvað sem segja má um gjörðir Landsbankans fyrir og eftir hrun og þá sérstaklega eftir hrun, þá eru flestar ef ekki allar gjörðir hans innan þeirrar löggjafar sem að honum er sett.  Það má svo hins vegar alveg deila um, hvort geðþótti stjórnenda bankans, hafi teygt þau lög lengra í þági einstaka viðskiptavina.

Sé það svo að bankinn taki umdeildar ákvarðanir, sem að þó rúmist innan verklagsreglna bankans, sem að settar hljóta að vera af eiganda bankans, ríkinu í gegnum Bankasýslu ríkisins og þeirra úrræða sem að bankanum ber að fara eftir, samkvæmt þónokkrum úrræðapökkum stjórnvalda, misgagnlegum réyndar, þá hlýtur ábyrgðin fyrst og fremst að liggja hjá þeim sem eiga bankann og setja honum þessi lög og þessar reglur, Alþingi.

 Það mál sem að hefur eflaust ekki latt mótmælendur til mætingar við Landsbankann í gær, afskriftir Nóns, hefur hins vegar verið útskýrt með vísan í verklagsreglur bankans, samþykktar af Bankasýslu ríkisins, í umboði stjórnvalda.  Það er svo allt annað mál hvort, sá gjörningur sé sanngjarn eða ekki.

Það er líka morgunljóst að hafi bankinn farið að lögum og sínum verklagsreglum varðandi þessar afskriftir, þá verða þær ekki aftur teknar, enda undirritað samkomulag milli hlutaðeigandi að afgreiða málið á þennan hátt.  Það er því í rauninni fáranlegt, að fara fram á slíkt, alveg óháð því hversu há upphæðin var sem slík og hverjir áttu þar hlut að máli. Efist fólk hins vegar um lögmæti þessara gjörða, þá er sjálfsagt að krefjast rannsóknar á þeim, en varla vill fólk að bankinn sjálfur annist þá rannsókn.

 Þegar kemur að skuldavanda heimilana, þá kom fram í svörum bankana við orðum forsætisráðherra í stefnuræðu sinni, um að bankarnir drægju lappirnar í viðleitni sinni við að aðstoða heimilin, að hið opinbera setti þeim oftar en ekki stólinn fyrir dyrnar vegna vangoldinna opberra skulda lántakenda þeirra lántakenda er til bankans leita. Með öðrum orðum, þá hindra meldingar innheimtumanna hins opinbera bankana í sinni viðleitni að semja við lántakendur, vegna vangoldinna gjalda þeirra við hið opinbera.  Krafan ætti því að vera á stjórnvöld að þau byggju svo um hnútana að kröfur innheimtumanna hins opinbera, vikju á þann hátt að bönkunum væri það mögulegt að láta úrræði sín lántökum til handa ganga í gegn. 

Hvort sem að kröfur hins opinbera væru hægt að innheimta, síðar eða ekki.  Kröfur hins opinbera, fengjust hins vegar ekki greiddar, færu eignir þessara lántakenda á uppboð, enda eru þær með lítinn sem enginn veðrétt á við bankann.  Hvort að boðuð Gjaldþrotalög stjórnvalda, komi í veg fyrir að hægt sé að elta menn endalaust vegna skattskulda veit ég ekki, enda ekki séð frumvarpið.

 Nú er það svo að stærstur hluti húsnæðislána er hjá Íbúðalánasjóði, sem að heyrir beint undir stjórnvöld.  Langstærstur hluti þeirra uppboða sem fram fara þessa dagana og vikurnar, eru að beiðni Íbúðalánasjóðs og þó svo að þær íbúðir séu dregnar frá, sem að verktakar hafa ekki náð að selja fyrir hrun og komist í þrot þess vegna, séu dregnar frá, þá er enginn aðillli með fleiri uppboðsbeiðnir á hendur einstaklingum og fjölskyldum í landinu, en Íbúðalánasjóður.  Að baki svipuðum fjölda stendur svo hið opinbera, sem að fær í rauninni ekkert upp í kröfur sínar gegnum uppboðið, enda flestir aðrir kröfuhafar framar í röðinni, eins og bankar og Íbúðalánasjóður.

Í þessari viku eru 54 uppboð áætluð að kröfu Íbúðalánasjóðs, reyndar 44 af þeim vegna verktaka sem ekki náði að selja, en hin tíu þá á eignum sem í dag eru heimili fjölskyldna. Í þessari viku, eru hins vegar "bara" 3 uppboð áætluð að kröfu viðskiptabankana þriggja, semsagt eitt á banka að meðaltali. Með öðrum orðum, þá eru boðnar 10 eignir ofan af fjölskyldum í landinu á vegum Íbúðalánasjóðs, á móti einni eign á vegum hvers viðskiptabanka fyrir sig. 

 Ég veit ekki með þig, lesandi góður, ef að þú ert enn að lesa, en ætli fólk að knýja fram breytingar á því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu, þá er vissulega rétt póstnúmer til að mótmæla í 101.  Hins vegar eru Lækjargata (Stjórnarráðið) og Austurvöllur (Alþingi, löggjafinn) vænlegri staðir til árangurs, nema auðvitað að fólki finnist að þeir sem þar vinna, séu að vinna þjóðinni og heimilunum það gagn sem af þeim er vænst.


mbl.is „Þreytt á þessari leiksýningu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikritið: Ráðþrota í leit að sátt.

Í þetta skiptið, það fimmta eru stjórnvöld að reyna að leysa skuldavanda heimilana.  Meginstef þessarar fimmtu tilraunar er, víðtæk sátt.  Ekki það að mér þætti það best að sem víðtækust sátt væri um aðgerðir, þá er sáttin sem slík fráleitt það mikilvægasta. Mikilvægast hlytur að leysa vandann, en ekki hvort að einhver sé sáttur eða ósáttur við lausn hans.  Sáttin hlýtur þó að nást á endanum, þegar vandinn leysist. 

Fyrir flest þau heimili sem að eiga í skuldavanda, er þetta barátta upp á líf og dauða.  Eins er þetta að öllum líkindum síðasta tækifæri stjórnvalda, til þess að leysa skuldavandann og því einnig barátta fyrir þau upp á líf og dauða.

Ég ætla ekki að leggja mat á niðurfelllingarleiðina sem slíka, en verð samt að segja, að ég hef ekki heyrt neinn tala um það, hversu mörg heimili sem ekki hafa greiðslugetu í dag, öðlist hana.  Það hlýtur að vega mest í lausn skuldavanda fólks að koma málum svo fyrir að fólk geti borgað af sínum skuldum og þó afborganir lána lækki eitthvað við lækkun á höfuðstól, þá er ekki þar með sagt að þær lækki nóg, svo greiðslugeta verði til.  

 Skuldavandinn varð til vegna forsendubrests, það er af flestum talið óumdeilanlegt.  Forsendubrests sem að varð, vegna efnahagshruns, það er líka óumdeilanlegt.  Efnahagshruns og kreppu sem að þjóðin er í rauninni berjast við að svamla uppúr.  Það hlýtur þá draga úr líkum þess að skuldavandinn leysist sem slíkur, á meðan hér varir kreppuástand.   Það hlýtur því að vera forgangsmál að komast útúr þessari kreppu, til þess að vandinn leysist. 

En fyrst af öllu þarf að fara fram mat á því hvað heimilin í landinu eru í rauninni, aflögufær um að borga af sínum lánum, á meðan kreppan varir.  Skynsamlegast væri því að lækka afborganir lána, niður þann level sem heimilin ráða við tímabundið og færa það sem á vantar aftur fyrir lánið.  Þeir sem enn geta borgað af sínum lánum yrði að sjálfsögðu frjálst að halda því áfram á þeim forsendum sem þeir gera nú. 

Þeim sem ekki hefðu burði til að nýta sér úrræðið, yrði hjálpað með sértækum aðgerðum, sem hæfðu hverjum og einum. 

Líklegast væri þá að sá hópur, sem gæti nýtt sér þetta úrræði, án frekari aðstoðar, þyrfti ekki frekari hjálp og væri ásamt þeim sem ekki þurfa að nýta sér úrræðið á grænni grein að loknum, þeim tíma sem afborganirnar væru lægri, ef farið væri svo jafnhliða í þá vinnu að rétta hér þjóðfélagið við eftir efnahagshrunið.

Að öðru leyti færi orka og tími stjórnvalda og þeirra sem vinna að lausn vandans í það að skapa hér þær aðstæður í þjóðfélaginu að kreppuástandið heyri fortíðinni til. Komi hér af stað öflugu atvinnulífi á ný með aukna verðmætasköpun að leiðarljósi.  Það væri í raun stærsta kjarabótin fyrir heimilin í landinu að tekjur þeirra jukust, þannig að greiðslugetan verði næg til þess að geta staðið í skilum.

 Ég er ekki að segja að allir yrðu sáttir með þessi úrræði, hið snarasta og þau kæmu fram, en ef að þau leystu skuldavanda þjóðarinnar, þá hljóta allir að verða sáttir að lokum.  Í það minnsta þeir sem vinna að heillindum að lausn skuldavandans.


mbl.is „Leikritinu er lokið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband