Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

En að endurskoða úrræði og aðgerðir stjórnvalda?

Það er án efa alveg rétt, að endurskoða megi starf umboðsmanns skuldara.  En þess ber þó að gæta að starfsumhverfi hans og starfsheimildir eru bundnar þeim lagaheimildum, er úrræði stjórnvalda til handa skuldugum heimilum, skaffa honum.

Þau úrræði hafa flest ef ekki öll þótt flókin og þung í vöfum.  Auk þess sem oftar en ekki að réttur skuldara vigtar lítt á móti rétti þess sem lánar.  Það er kannski í sjálfu sér ekki skrýtið, þegar til þess er litið, að ríkið á með beinum eða óbeinum hætti ca. 3/4 allra húsnæðisskulda.

Stjórnvöld hafa svo, til þess að brúa kostnað sinn við þessi úrræði, hækkað skatta og þá oftar en ekki á vörur og þjónustu, sem hækka svo verðlag og höfuðstól lánanna.  Enda er það svo, að staða margra er farið hefur 110% leiðina, er annað hvort sú sama og hún var, áður en þessi leið var farin, eða þá sínu verri.

Skattahækkanir þessar ásamt fleiri aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda, þrengt svo að atvinnulífinu, að hér hefur lengi verið viðvarandi atvinnuleysi, sem að telst mikið á íslenskan mælikvarða.  Það dregur svo úr möguleikum þeirra sem að skulda, til þess að afla tekna, svo auðveldara væri að standa í skilum.

Fíflagangur stjórnvalda vegna gengistryggra lána er svo enn ein harmsagan, sem væri án efa efni í annað blog, sem kannski verður skrifað síðar.

En því má þó halda til haga, að hefðu stjórnvöld eða ríkisstjornarmeirihlutinn sem fer með dagskrárvald á Alþingi, fallist á það að hleypa frumvarpi sem tryggir fólki með gengistryggð lán flýtimeðferð fyrir dómstólum, þá væri búið að eyða óvissu þeirra sem að þau lán hafa.  

Það er því alveg spurning hvort að rót vandans liggi ekki frekar í  aðgerðum  eða aðgerðaleysi stjórnvalda, varðandi málaflokkinn, fremur en í brotalöm í starfi umboðsmanns skuldara. 


mbl.is Vill endurskoða starf umboðsmanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáranleg spurning Helgu Arnardóttur.

Ég held að  Helga Arnardóttir ætti að fá sér einhverja aðra vinnu. Í  það minnsta að íhuga slíkt. Líklegast er þó, ef að Stöð 2 er alvöru fjölmiðill,að þá verði það hennar veruleiki á morgun.


Hæstvirtur forsætisráðherra hefur oftar en einu sinni á þessu kjörtímabili, sagt sem svo, að verði ,,sægreifarnir" með eitthvað múður, þá láti hún bara þjóðina kjósa, um framtíðarskipan fiskveiða.

Auk þess hafa af og til undanfarin misseri, heyrst raddir úr öðrum áttum, þess efnis að þjóðin ætti að fá að kjósa um framtíðarskipan fiskveiða hér við land.  Engin þessara radda hefur þó komið úr ranni útgerðarmanna.

Líklegast er að LÍÚ kæri sig lítt um þjóðaratkvæði um kvótafrumvörp Steingríms, nema nokkuð ljóst sé að meirihluti þjóðarinnar sé þeim andvígur. 


Fari svo að bæði þingið og svo þjóðin í þjóðaratkvæði samþykki frumvörp Steingríms, þá verður það snúnara fyrir næstu ríkisstjórn að vinda ofan af þeim.

Verði frumvörpin hins vegar að lögum án aðkomu þjóðarinnar í þjóðaratkvæði, þá er það alveg einboðið að næsta ríkisstjórn einhendir sér í það að bjarga því sem bjargað verður. 

Það er því nokkuð ljóst að það vakti varla fyrir Helgu að stuðla að upplýstri umræðu í þessu tilviki, frekar en á öðrum stöðum í kappræðum þessum.  Í besta falli er hægt að segja stelpuna ekki hafa lesið heima.


mbl.is Er ekki að kaupa atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sjó væri stjórnarmeirihlutinn genginn út plankann.

Það er auðvitað hárrétt hjá Birni Val, að verklaga áhafnarinnar á Skjaldborginni RE 999, gengi hvergi upp á venjulegum togara.  En hann hlýtur þá, þar sem hann er hluti skipstjórnarinnar, dagskrárstjónar Alþingis, að brýna sína menn til góðra verka, svo ljúka megi þessari lánlausu veiðiferð Skjaldborgarinnar. 

Segja má að Skjaldborgin hafi kastað trollinu þrisvar og tekið það jafn oft inn aftur.  Fyrst þegar sáttanefndin svokallaða var sett saman.  Eftir að hafa þvælst með trollið í hafinu í heilt ár og deilt um stefnu skipsins, lengst af þeim tíma, var ákveðið að draga trollið inn svo gera mætti að aflanum og koma honum í verð.

Hæstráðendum á Skjaldborginni, leist þó ekki betur en svo á aflann, þrátt fyrir að hafa fagnað honum þegar hann helltist ofan í móttökuna, að þeir skipuðu áhöfninni allri upp á dekk, að bæta trollið, á meðan aflinn lá í móttökunni og úldnaði. Í stað þess að hefja aðgerð á aflanum og koma honum í verð. Enda þótti hráefnið sérlega hentugt til útflutnings og vonir manna um gott verð, risu í hæstu hæðir.

Þegar loks átti að gera að aflanum og koma honum ofan í lest og sigla með hann til hafnar, svo hægt væri að fá sem best verð fyrir hann kom í ljós, að aflinn hafði úldnað og var ekki hæfur til manneldis.  Reyndu margir þó í skipstjorninni að telja áhöfninni trú um, að aflinn væri jafn ferskur og hann var níu mánuðum áður, þegar skipunin um trollbætinguna var gefin.

Fljótlega varð það þó svo, að skipstjórnin féllst á það sem hluti áhafnarinnar hafði haldið fram.  Alfinn var ónýtur og honum yrði að henda hið snarasta og kasta trollinu aftur, ætti eitthvað að aflast í þessari veiðiferð.   Var trollinu því kastað aftur og það látið þvælast í hafinu, sumarlangt á meðan væntanlegir kaupendur aflans, skiluðu áhöfninni umsögnum um það, hvernig best væri af verka aflann, svo sem mest verð fengist fyrir hann.

Að hausti var svo trollið dregið inn að nýju og spriklandi fiskurinn fyllti móttöku Skjaldborgarinnar á ný.   Aftur þótti skipstjórninni lítið til aflans koma og kenndi trollinu aftur um.  Voru þá allir kallaðir á dekk aftur til þess að bæta trollið.

Að nokkrum mánuðum liðnum, urðu svo mannaskipti í skipstjórninni, þegar nýr ráðherra tók við stjórn sjávarútvegsmála, um síðustu áramót.  Var þá aflanum fleygt enn á ný og tollinu kastað í hafið aftur.

Að nokkrum mánuðum var svo trollið dregið inn að nýju.  En þá bar svo við, að í trollið kom sá afli sem áður hafði verið hent í hafið, úldnari sem aldrei fyrr.  

Var þá áhöfninni á Skjaldborginni skipað niður í móttöku með nefklemmur, að gera að aflanum. Enda ýldulyktin mannskemmandi.  

Unnið er að því núna að hrúga kasúldnum aflanum niður í lestar Skjaldborgarinnar, svo sigla megi með aflann í land.  Hins vegar reikna menn með því, að aflaverðmætið, verði í sögulegu lágmarki og stjórnenda Skjaldborgarinnar, verði minnst næstu áratugina, með ýldubragð í munni og mun minningin um ýldufnyk afla Skjaldborgarinnar, seint líða mönnum úr minni.

Hætt er við því, að eftir tæpt  ár eða skemur, þegar ný áhöfn verður kosinn  á Skjaldborgina, að menn verði að hafa hröð handtök.  Smúla dekk, móttöku og lest og halda til veiða á ný.  

Í þeirri veiðiferð mun áhöfnin á Velsældinni, fiska á þeim miðum sem ýldufiskurinn heldur sig fjarri. Hröð munu handtökin í móttökunni verða og aflanum komið fyrir í lestinni á þann hátt, að aflamerðmæti túrsins, mun bæta að  fyrir nærri fjögurra ára ýldutúra áhafnarinnar á Skjaldborginni. 


mbl.is Vinnulag sem ekki væri tekið gilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á skjaldborgin arðinn?

Til þess að bankar og önnur fyrirtæki geti greitt eigendum sínum arð, þurfa fyrirtækin að vera rekin með hagnaði.  Það er óumdeilanlegt að bankarnir hafa frá endurreisn þeirra, skilaðað miklum hagnaði, í það minnsta bókfærðum.

Vissulega ber, alla jafna, að fagna því þegar fyrirtæki eru rekin með hagnaði og geti greitt út arð.

En kannski er hagnaður bankanna, ekki eins mikið fagnaðarefni og ætla mætti, þegar vel er að gáð.  Í öllum ársreikningum bankanna frá endurreisn þeirra, hefur það komið skýrt fram, að stærstur hluti hagnaðar þeirra er tilkominn vegna þess að nýendurreistu bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna með góðum afslætti.   Bankarnir hafa síðan bókfært virði lánasafnana á fullu verði, nær undantekningalaust og rukkað inn lánin samkvæmt því.  

Það er því mismunurinn á því verði sem nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á og á bókfærðu virði þeirra, á fullu verði, sem skapar að stærstum hluta þennan hagnað.

Það dylst því engum sem það vill sjá, að stór hluti hagnaðar bankanna, liggur í stökkbreyttum lánum, heimila og fyrirtækja í landinu, sem að mörg hver eiga nú í miklum vandræðum við að standa í skilum.  Auk þess sem að margir hafa einfaldlega gefist upp á því að standa í skilum.

Það eru því að stórum hluta þeir aðilar sem slá átti skjaldborg um, samkvæmt kosningaloforðum forsætisráðherra, vorið 2009 sem skapa þennan bókfærða hagnað bankanna. 

Það væri því að mörgu leyti skynsamara að arðgreiðslur til ríkissjóðs, færi fremur í að bæta stöðu þeirra sem standa enn, þrátt fyrir fjölmörg loforð stjórnvalda, í eilífri baráttu við stökkbreytt lán.

 Fjárfestingar væri svo hægt að endurvekja með því, að láta af því skattabrjálæði sem dunið hefur á fólki og fyrirtækjum, síðan hin norræna velferðarstjórn, settist að völdum.  


mbl.is Raunhæft að ríkið greiði sér brátt arð úr bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að brjóta sín eigin lög.

Ein af þeim fjöðrum sem Jóhanna og stuðningsmenn hennar hafa skreytt hana með, er barátta fyrir jafnrétti kynjana.  

Hefur lofgjörðin meira að segja, komist í þær hæstu hæðir, að Jóhanna Sigurðardóttir, hefur verið kölluð Móðir jafnréttismála.

Nafnbótina þótti Jóhanna ekki síst eiga skylda, fyrir að fá samþykkta nýja jafnréttislöggjöf, er hún félagsmálaráðherra í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árin 2007-2009.

Þegar Jóhanna varð svo, í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar, forsætisráðherra, taldi hún jafnréttismálunum hvergi betur borgið, en í sínu ráðuneyti, Forsætisráðuneytinu.  

Sú varð nú samt raunin, að ráðuneyti Móður jafnréttismála, nýtti nánast fyrsta tækifærið sem gafst til þess að brjóta áðurnefnd jafnréttislög, þegar ráðinn var nýr skrifstofustjóri í Forsætisráðuneytið.

Forsætisráðherra, alias Móðir jafnréttismála, hefur hins vegar neitað sök í sífellu og talað um ,,faglega" ráðningu, þar sem meira að segja mannauðsfræðingur, hafi aðstoðað við ráðninguna. (Lögbrotið)

 Það hlýtur að teljast til tíðinda í hinum vestræna heimi, ef ráðherra jafnréttismála, í einhverju þeirra vestrðnu ríkja, brýtur eigin jafnréttislög.  Jafnvel þó mannauðsfræðingur hafi ,,aðstoðað" við brotið.

Það er því alveg ljóst að kyndilberi hefur jafnréttismála, hefur týnt kyndlinum sínum. 


mbl.is Brotið gegn lögum án afleiðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af meintum þjófnaði tækifæris.

Nú hrópa aðildarsinnar hástöfum, að verði breytingartillaga Vigdísar samþykkt í þinginu, þá RÆNI þingið þjóðina því tækifæri að fá að segja sína skoðun á mögulegum aðildarsamningi við ESB.

Það gleymist reyndar að þjóðin var ekki spurð, hvort hún vildi þetta ,,tækifæri". 

Einnig er hlaupið yfir það ,,smáatriði" að það er ekki verið að ræna þjóðina einu eða neinu. 

Þjóðin fær hins vegar að svara, þó seint sé, hvort hana langi eitthvað í þetta ,,tækifæri", sem hugsanlega verði í boði, á miðju næsta kjörtímabili, eða síðar.

Það er ca. fjórum árum seinna en ,,tækifærið" átti að birtast þjóðinni, eftir því sem aðildarsinnar héldu fram í upphafi þessa kjörtímabils.


mbl.is Atkvæðagreiðslan öllum í hag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfugmælastjórnin gerir allt á hvolfi....

 

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Eftirlits og stjórnskipunarnefnd Alþingis hafi fengið til liðs við sig nokkra lögfræðinga til þess að fara yfir tillögur stjórnlagráðs.

 Er þeim ætlað meðal annars að sníða ef þá annmarka, sem í tillögunum kann að felast, vegna skuldbindinga ríkisins, hérlendis og erlendis.

Er hópnum ætlað að skila af sér, um það leiti sem Alþingi fær tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar. 

Ekki er gert ráð fyrir því, að hópurinn upplýsi um annmarka, sem kunna að liggja fyrir, er þjóðin fær að greiða atkvæði um tillögunar. 

Hvaða bull er þetta??? Átti ekki að fara í þessa vinnu, strax í haust þegar stjórnlagaráðið skilaði af sér svo hægt væri að bera tillögurnar ,,lagfærðar" undir þjóðina? Er hægt að greiða atkvæði, með eða á móti einhverju sem að kann svo að taka efnislegum breytingum? 

Er þetta svokallað ,,nýlýðræði" Jóhönnustjórnarinnar og annarra viðhengja?

 Eðlilegustu vinnubrögðin hefðu verið að ráða þetta fólk strax í haust og láta það þá fara yfir tillögurnar og útbúa þær, með lagfæringum, undir þetta þjóðaratkvæði í samvinnu við Eftirlits og stjórnsýlsunefnd. 

En það er svosem eðlilegt að öfugmælastjórnin geri allt sem hún gerir, á hvolfi...

 


mbl.is Enn rætt um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthundrað ár að tryggja einn banka- 300 ára óútfyllt ríkisábyrgð

Ef að Alþingi tekur upp nýja innistæðutryggingatilskipun ESB, sem hækkar tryggingarupphæðina úr 22000 evrum í 100.000 evrur, án einhverra undanþága þá tæki það íslenska tryggingarsjóðin u.þ.b. eitthundrað ár að tryggja aðeins einn af stóru bönkunum þremur.  Eitthundrað ár!!!

Það ætti þá að taka tvöhundruð ár, eða meira  til viðbótar að tryggja hina bankana tvo.   

Það þýddi þá væntanlega að Alþingi samþykkti þá í rauninni óútfyllta ríkisábyrgð til 300 ára.  Þokkalegt fyrir komandi kynslóðir að hafa slíkt yfir sér og eflaust ekki sú arfleið sem flestir kysu  að bjóða afkomendum sínum uppá, næstu aldirnar.  

ESB-aðild breytti litlu hvað þetta varðar.  Ef svo færi að bankarnir færu yfir og við í ESB, þá væri okkur gert að þiggja þau lán sem ESB og AGS, byði okkur fyrir þeirri upphæð, sem upp á vantaði í tryggingarsjóðinn.    Síðan tæki við íslenska útgáfan af ,,gríska harmleiknum" sem yrði mun svæsnari en sú gríska.

Stjarnfræðilegar skattahækkanir, sem gerðu skattahækkanabrjálæði nú verandi stjórnvalda, að barnaleik, við hliðina á þessum stjarnfræðilegu hækkunum.   Tugþúsundum hjá hinu opinbera og í einkageiranum sagt upp, velferðarkerfið myndi heyra sögunni til, lífeyrir fólks og sparifé verða að engu................. 

Utan ESB ættum við þó þann kost, að taka annan snúníng á neyðarlögin.  Sá kostur yrði þó sínu þyngri en síðustu neyðarlög, þrátt fyrir Icesave, jöklabréf og fleiri fylgifiska.  

Íslenska ríkið yrði að geta sýnt fram á það, með óyggjandi hætti, að það gæti tryggt það fjármagn sem upp á vantaði í tryggingarsjóðinn, við fall bankana.  Af öðrum kosti færi þá traust á íslenskum bönkum, mun lengra niður fyrir frostmark en það fór, í bankahruninu 2008. 


mbl.is „Getum við ekki unnið saman?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigði með störf þingsins.

Þegar að forseta Alþingis, voru afhentar tillögur stjórnlagaráðs í lok ágústs sl. í Iðnó að mig minnir, átti ég nú frekar von á því, að þá hæfist efnisleg meðferð þingsins á þessum tillögum stjórnlagaráðs.

Vinna sem fæli það í sér, að Eftirlits og stjórnskipunarnefnd Alþingis, kallaði til sín fremstu fagmenn þjóðarinnar í stjórnlagamálum, sem færu yfir það með nefndinni, hvað af þessum tillögum þyrfti að vera í nýrri stjórnarskrá og hvað ekki.  Hvað stæði gegn skuldbindingum ríkisins, bæði alþjóðlegum og innlendum og hvað ekki.

Nei það var nú öðru nær.  Í stað þess að hefja vinnu við það að gera tillögurnar stjórnarskrártækar, þá var farið í þá vegferð, sem stóð í nærri hálft ár, að uppdikta nokkrar spurningar, sem hægt yrði að spyrja þjóðina í áðurlofuðu þjóðaratkvæði.  Í þjóðaratkvæði um ófullburða tillögur, sem enginn í rauninni veit, hvernig líta muni út, loks er Alþingi lýkur efnislegri meðferð sinni á þeim.  Ef sá dagur rennur nokkurn tímann upp.

Nú kann einhver að spyrja, afhverju ég vilji ekki að þjóðin tjái sig um tillögur stjórnlagaráðs, með því að greiða um þær atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu?

 Það er mér í rauninni að meinalausu að þjóðin geri það.  En afhverju þarf hún endilega að gera það, á meðan tillögur þær sem kjósa á um, eru ennþá á vinnslustigi?

  Afhverju fær þjóðin ekki að kjósa um fullmótaðar tillögur þingsins að stjórnarskrá?  Óttast meirihlutinn höfnun þjóðarinnar á verki sínu?  Eða þorir meirihlutinn ekki að standa undir stjórnarskrárbundinni skyldu sinni og klára málið, áður en um það er greitt atkvæði?

Ég verð því að öllu ofansögðu að lýsa yfir vonbrigðum með störf þingsins og vonbrigðum yfir getu eða hugleysi meirihlutans að annað hvort þora ekki eða geta ekki unnið málið, með þeim sóma sem íslenska þjóðin á skilið.

Mega þeir þingmenn sem ekki standa undir slíku, fá sér einhverja aðra vinnu, mér að meinalausu. 


mbl.is Talað í rúmar 35 klukkustundir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttin sem brann á sundurlyndisbáli stjórnarflokkanna.

Líklegast var stofnun svokallaðrar ,,sáttanefndar" haustið 2009, ein af fáum eða sú eina aðgerð stjórnvalda, í viðleitni sinni til að skapa sátt um sjávarútveginn, sem hefði getað skilað tilætluðum árangri. 

 Það virtist líka vera svo, er sáttanefndin skilaði af sér haustið 2010.  Enda höfðu fulltrúar allra flokka á Alþingi, utan Hreyfingarinnar ef ég man rétt og allra hagsmunasamtaka er sæti áttu nefndinni, utan einna ef ég man rétt, skrifað upp á niðurstöðu nefndarinnar.

Hins vegar varð raunin sú, að fulltrúar stjórnarflokkanna, virtust ekki hafa haft umboð til þess að skrifa upp á þá niðurstöðu sem nefndin skilaði af sér.  Í það minnsta ekki umboð þeirra þingmanna stjórnarflokkanna, sem rekið hafa lýðskrumsvæddan og allt að því hatursfullan áróður gegn sjávarútveginum.

 Enda tók það stjórnarflokkanna heila níu mánuði að klambra saman þeim frumvörpum er Jón Bjarnason lagði fram á þingi sl. vor.  Reyndar höfðu hrossakaup og baktjaldamakk stjórnarflokkanna tekið það langan tíma, að frumvörpin voru lögð fram, með afbrigðum, einum og hálfum mánuði eftir að síðasti skiladagur þingmála leið.

Frumvörp Jóns sem reyndar voru samkvæmt greinargerð með þeim, unnin á faglegan og málefnalegan hátt af stjórnarflokkunum, fengu svo síðar þann dóm frá utanríkisráðherra, að hann líkti þeim við bílslys.  Auk þess sem fleiri stjórnarliðar, sem unnu að gerð frumvarpana , eða samþykktu framlagningu þeirra, fundu þeim  allt til foráttu.  

Með öðrum orðum, þá er engu líkara, en að fólkið sem ætlaði að skapa sátt um sjávarútveginn, hafi ekki einu sinni getað náð þeirri sátt innbyrðis sín á milli.

Frumvörp Steingríms um stjórn fiskveiða og veiðigjald, virðast enn sem komið er, njóta fylgis innan stjórnarflokkanna, hvað sem síðar verður.   Hins vegar er engu líkara en að frumvörpin, séu í mun meiri ósætti við þjóðina, en frumvörp Jóns voru á sínum tíma.

Niðurstaðan hlýtur því að verða sú, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi ekki bara mistekist hrapalega að ná breiðri sátt meðal þjóðarinnar um sjávarútveginn.  Heldur hafi pólitískar væringar og hrossakaup innan stjórnarflokkanna, alið af sér málamiðlanir sem beinlínis gætu stefnt sjávarútveginum, eins af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, í voða. Eins og lesa má úr ca 70 umsögnum ýmissa aðila tengum og ótengdum sjávarútvegi, um frumvörp Steingríms. 


mbl.is LÍÚ segist vilja samvinnu um lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband