Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Er ráðuneytið hæft til endurskoðunnar á eigin klúðri?

Mál þetta sem um ræðir, varð til vegna ónógrar vinnu Félagsmálaráðuneytis vegna þess frumvarps sem ráðuneytið ætlar núna sjálft að endurskoða.  Furmvarpið er svo í röð ótal handahófs og fálmkenndra viðbragða stjórnvalda, til að taka á þeim vanda sem að hér ríkir.  Fumið og fátið við flestar þessar lagasetningar er hvílíkt, að þinginu gefst vart tími til að fjalla um þau mál sem frá ríkisstjórninni koma, heldur eru þessi mál keyrð í gegn af offorsi, með von um að fyrir allan vafa hafi verið girt.  Án þess þó að kanna það á einn eða annan hátt.

Fjármálastofnanir hafa eflaust séð þessa glufu, eða öllu heldur þá alvarlegu handvömm sem á þessum lögum er.  Þeim er í sjálfu sér slétt sama, þó þau felli niður skuldir skuldara, sem hafa ábyrgðarmenn á sínum lánum, því veðin á bak við ábyrgðinar bæti þeim hugsanlegt tap.

Athyglisverðust eru þó kannski orð ráðherrans, að ef lögin verði gerð afturvirk, þá verði að greiða bætur fyrir þann veðrétt sem tapast.  Kemur ráðherranum ekki til hugar að greiða þeim bætur, sem ábyrgðust öll þessi lán, á allt öðrum forsendum sem nú eru ekki.  Forsendur sem að voru, við lántöku, engan vegin fyrirséðar?    Er það kannski ekki stíll stjórnvalda, að heiðarlegu fólki sé bættur skaðinn af klúðurslegum vinnubrögðum stjórnvalda?   

Ef að einhver á að endurskoða þessi lög, þá er það hæpið að það sé gert í því ráðuneyti, er handvömmina á, og í raun af  sömu starfsmönum og hana hönnuðu.


mbl.is Ráðherra endurskoðar lög um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklegast fellur Alþingi á prófinu, en þá á eigin bragði.

Kærusinnum er tíðrætt um þungar skyldur og hugrekki þingheims, sem til þurfi að ákæra fyrrverandi ráðherra og stefna þeim fyrir landsdóm.  Enginn kærusinna, svo vitað sé, hefur þó sinnt þeirri skyldu sinni eða sýnt af sér það hugrekki í umræðum um málið, að ræða þá gagnrýni málefnalega, sem komið hefur á málatilbúnað meirihluta Atlanefndar.  Svör kærusinna við slíku, hafa einkennst af upphrópunum um heiður þingsins, vantraust á Atlanefnd og fleira í þeim dúr.

Málatilbúnaður meirihluta Atlanefndar, er bara reistur á það veikum grunni, að hæpið verður fyrir þingheim að taka ákvörðun á þann hátt annan, en pólitískan.  Strax og skýrsla nefndarinnar kom út, komu athugasemdir þingmanna, vegna þess að stór hluti þeirra gagna sem að meirihluti nefndarinnar, byggði niðurstöðu sína á, átti að vera þingheimi hulinn.  Svona nánast eins og óséði Icesavesamingurinn sem að þingið átti að samþykkja hratt og vel.  Umræðan um leyndina, sem að varð í þinginu á föstudagsmorguninn, sem leiddi svo til þess að umræðum var frestað fram yfir síðustu helgi, var bara toppurinn af ísjakanum.  Orð margra kærusinna í þeirri umræðu, bentu klárlega til þess, að þeim varðaði ekkert um það, þó þeir hefðu ekki kynnt sér málið til fulls.  Þeir vildu bara kæra, punktur. Enda voru ummæli margra kærusinna, á þann veg, að þeir voru búnir að gera upp hug sinn, áður en eiginlegar umræður hófust í þinginu.  Það hefði því nánast verið hægt að kjósa um málið, án umræðu í þinginu, slíkur er ákæruþorsti þingmanna, að þá varðar ekkert um, önnur sjónarmið, eins og traustvekjandi málsmeð, traustvekjandi málatilbúnað og fleiri atriði sem að þarf til þess að dómsmál, skili niðurstöðu fyrir dómi, annarri en frávísun eða sýknu. 

Eins virðist sá snillingur eða snillingar, sem að fundu það út að kjósa ætti um hvern ráðherra fyrir sig, ekki fattað, að verði byrjað að kjósa um Geir og Samfylkingin styðji þá tillögu, þá gæti allt eins farið svo að þingmenn Sjálfstæðisflokks, búi svo um hnútana að Ingibjörg verði líka ákærð.  Sami háttur verði hafður á verði samþykkt að ákæra Árna. Þá muni þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, sjá til þess að Björgvin verði einnig ákærður.

Svo þegar umræðan hófst í þinginu af einhverju viti, þá kom í ljós, að álit meirihluta nefndarinnar, var byggt upp á minnisblöðum sérfræðinga, sem vildu ekki láta nafn sins getið og höfðu að sögn Atla, nefndarformanns, í rauninni ekki viljað það í fyrstu að minnisblöð sín, væru þingheimi til sýnis, ekki einu sinni í svokallaðri "Leyndarmálamöppu". Í umræðunni kom svo í ljós að flestir ef ekki allir þeir sérfræðinga, sem höfðu hugrekki til þess að koma fyrir nefndina, þing og þjóð, án nafnleyndar, hafa flestir ef ekki allir gefið það út, að málatilbúnaður Atlanefndar, sé á það veikum grunni reistur, að annað hvort verði málum allra vísað frá landsdómi á fyrstu dögum hans, eða þá að menn hljóti sýknu eftir allt að tveggja ára réttarhöld.   

Ákæruefnin er svo flest á þann hátt, að þau í rauninni snúast ekki um það sem að stjórnvöld, hefðu í rauninni getað gert, síðustu mánuðina fyrir hrun.  Stjórnvöld gátu ekki gert betur en að benda, bönkunum á að minnka sig, stjórnvöld gátu ekki minnkað bankana.  Bankarnir höfðu auk þess minnstan áhuga á slíku, hvað þá að flytja, enda var samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, höfuðstöðvar bankana hér á landi notaðar, til þess að dreifa þeim fjármunum sem eigendur bankanna, hirtu úr erlendum útibúum og hylja slóð þeirra fjármuna, með millilendingu í Luxemburg og fleiri stöðum á leið peningana til Tortola, eða þess háttar staða.   Úttekt á stöðu Ríkissjóðs, ef til bankahruns kæmi á hugsanlegu tjóni Ríkissjóðs, hefði af þeim sökum, einnig vart orðið marktæk, þar sem að staða bankanna, var loftbólukennd, nánast fram að hruni, bæði vegna meintrar þátttöku endurskoðenda bankanna við fölsun árshlutauppgjöra, álita matsfyrirtækja og fleiri aðila.  Það hefur t.d. enginn getað upplýst þing eða þjóð um það, hver staða Ríkissjóðs hefði verið, ef að eigendur og stjórnendur bankanna, hefðu ekki tæmt þá sjálfir í aðdraganda hrunsins. 

 Það verður bara því miður að segja, að kærusinnar á þingi, óttast meira dóm götunnar, en sína eigin samvisku. Ótti þeirra kemur í veg fyrir það, að hægt verði að taka ákvörðun um annað, en að hlýða kalli þjóðarinnar um landsdóm.   

 Eins og málatilbúnaðurinn hefur verið hingað til, eru allt eins líkur á því að málum ráðherrana verði vísað frá, eða þeir sýknaðir.  Hvað segir dómstóll götunnar þá?  Mun sá dómstóll gagnrýna kærusinna fyrir óvandaðan málatilbúnaði, eða beina gagnrýni sinni að dómurum sem taka ákvörðun og dæma samkvæmt lögum? Munu kærusinnar íhuga stöðu sína sem þingmenn og ráðherrar, verði málinu vísað frá vegna handvammar Alþingis,  eða vegna sýknu á þeim rökum að Alþingi mistókst að búa málinu það sterkan grunn, að landsdómi sé það mögulegt að dæma nokkurn þessara ráðherra til sektar?


mbl.is Kosið um hvern og einn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Atlanefndin heilög og yfir alla gagnrýni hafin?

Sú gagnrýni sem að kemur fram á Atlanefndina, á alveg fyllilega rétt á sér.  Niðurstaða nefndarinnar eða meirihluta hennar byggir að mestu á að meirihlutinn var meira sammála sumum sérfræðingum en öðrum.  Nöfn þessara sérfræðinga eru í flestum tilfellum trúnaðarmál, þannig að ekki að hægt að skera úr um hæfni þeirra til þess að fella dóm, eða mæla með einhverju, þar sem hagsmunir þessara nafnlausu sérfræðinga, er ekki hafin yfir allan vafa.

 Það er held ég óumdeilt að Atlanefndin, fékk eitt það mesta traust og ábyrgð í hendurnar, sem að nokkurri þingnefnd, hefur hlotnast, fyrr eða síðar.  Nefndin fékk auk þess nokkuð frjálsar hendur um það hvernig hún myndi nálgast sínar niðurstöður.  Traustið sem að nefndin fékk, var ekki eingöngu frá þinginu, heldur einnig þjóðinni.  Einnig urðu þeir ráðherrar, sem um ræðir að geta treyst því að þeir séu að fá rétta og sanngjarna málsmeðferð.Traustið sem að nefndin fékk, var það mikið að niðurstaðan varð að vera óumdeild í það minnsta hafa meirihluta þingsins. Niðurstaða og málatilbúnaður hennar, varð einnig að standa á þeim grunni, að starfshættir hennar væru yfir alla gagrýni hafnir.

Svo er talað um að þingið hefði samþykkt þessa málsferð.  Það er að hluta til rangt.  Þingið samþykkt jú að nefndin reyndi að komast að því, hvort að um einhver brot væri að ræða, eða ekki.  En þingið hafði kannski minnst um aðferðafræðina að ráða. Afhverju voru t.d. ráðherranir fyrrverandi kallaðir fyrir nefndina og þeir spurðir út í atburðarásina, lið fyrir lið, sem að kærurnar  byggja á?  Var það óþarfi, af því einhverjir sérfræðingar töldu ráðherrana seka?  Var því alveg nóg að senda ráðherrunum bréf og biðja þá um að skýra sitt mál, út frá örfáum spurningum?  Þorði Atlanefndin ekki að hitta þessa ráðherra, augliti til auglits?  Ennþá hefur enginn getað svarað þessum spurningum, án þess að væna þann sem spyr um persónuleg og pólitísk tengsl við einhvern þeirra ákærðu. 

 Það væri í rauninni ábyrgðarhluti af þingmanni, hvar sem hann er í flokki að gagnrýna ekki málsmeðferðina, finnist honum eitthvað þar á skorta.  Það getur enginn þingmaður tekið ákvörðun vegna ósættis og hungurs í uppgjör á þeirri pólitísku stefnu, sem að var hér í gangi, árin fyrir hrun.   Þingmenn eins og hreyfingarþrennan, Ögmundur og Lilja Mós, eru bara ekki í nægilegu tilfinningalegu jafnvægi til þess að geta rætt málin með öllum þeim sjónarmiðum og röksemdum sem eru í boði, því að þau hafa fyrir lifandis löngu kveðið upp sinn dóm, ásamt pottaglömrurum búsáhaldabyltingarinnar.  Fólk sem lýsir því yfir áður en að umræðan hefst í þinginu, að þau hafi tekið ákvörðun, sem ekki verður haggað, er bara ekki hæft til þáttöku í umræðunni og því síður að ýta á atkvæðahnapp, þegar málið fer að lokum til atkvæðagreiðslu.

 Ég endurtek enn og aftur orð mín um algert dómgreindarleysi, Atla Gíslasonar nefndarformanns, að hleypa þessu máli út úr nefndinni í ágreiningi og með ótal vafaatriðum í eftirdragi.  Atli hefur starfað sem hæstaréttarlögmaður um árabil og virðist alveg hafa gleymt því sem hann hefur lært í námi og starfi.  

 Það sem er í raun að gera þinginu nánast ómögulegt að afgreiða málið, er frágangur Atlanefndarinnar á málinu.  Frágangur sem svo sannarlega býður upp á ósætti í þinginu og í rauninni gerir ekkert annað en að auka á kaosið þar innandyra.  Almenningur stendur svo þar fyrir utan sótsvartur af reiði og hefur fyrir lifandis löngu fellt sinn dóm í bræði yfir því hvernig fór haustið 2008.


mbl.is Trúverðugleiki Alþingis í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga af varaborgarfulltrúa, sem ætlaði að vera aðal.

Fyrir daga Besta flokksins sl. vetur í aðdraganda kosningana, leit út samkvæmt skoðanakönnum að svokallaðir vinstri flokkar, Samfylking og Vinstri grænir myndu jafnvel ná meirihluta í Borgarstjórn.  Sýndu skoðanakannanir að Samfylking fengi minnsta kosti 5 fulltrúa í Borgarstjórn. Kosningarnar fóru svo eins og þær fóru og Samfylkingin fékk bara þrjá fulltrúa.

 Maður er nefndur Hjálmar Sveinsson, dagskrárgerðarmaður og áhugamaður um borgarskipulag.  Hjálmar þessi tók þátt í prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík og endaði þar í fjórða sæti.   Miðað við flestar kannanir þá hefði Hjálmar semsagt flogið inn í Borgarstjórn, hefði Besti flokkurinn ekki birst. 

Niðurstaðan varð hins vegar sú að Hjálmar komst ekki að í Borgarstjórn og endaði sem fyrsti varamaður Samfylkingarinnar.

 Á kosninganótt nærri því undir morgun, hafði fréttamaður RÚV, elt Hjálmar þennan heim til sín og tók við hann viðtal, fyrir utan við heimili hans.  Þar tjáði Hjálmar fréttamanni það, að hann væri í vafa hvort að hann ætti nokkuð að láta sig hafa sig út í það að vera varaborgarfulltrúi.  Bar hann því við, að hann væri ekki upplýstur um kaup og kjör varaborgarfulltrúa, hann hefði jú fyrir fjölskyldu að sjá.   Kvaðst Hjálmar ætla að sofa á þessu öllu saman og tala svo við sitt fólk.

Svo fór eins og talað var um, Hjálmar talaði við sitt fólk og ákvað í framhaldi að því, þiggja sæti varaborgarfulltrúa.  

 Svo má spyrja að því hvort það sé tilviljun eða heppni þá fékk Hjálmar einhverja kjarabót með þessari ákvörðun forsætisnefndar borgarstjórnar.  Áhyggjum hans af framfærslu sinni og sinna hlýtur að hafa verið að mestu eytt, þó svo að áhyggjur þeirra sem standa í röðinni við Fjölskylduhjálpina aukast með viku hverri........................................


mbl.is Laun varaborgarfulltrúa hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf Hæstiréttur að ráða miðil, til að tengja á milli anda laganna og texta lagannna?

Þessi lög sem Hæstiréttur hefur dæmt þarna eftir, eru bara enn eitt dæmið um þau slælegu vinnubrögð Alþingis sem að skýrsla RNA og reyndar fleiri benda á.  Framkvæmdavaldið, í þessu tilfelli fyrrv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason, bæglast inní þingið með enn eitt málið sem að afgreiða þarf með hraði.  Málið fer í gegnum fyrstu umræðu, oftar enn ekki þá er fyrsta umræða bara ræða framsögumanns og svo er málinu vísað til nefndar. 

Nefndinni er svo ætlað að kalla til sín þá sérfræðinga er þurfa þykir, til þess að fá sem flesta vinkla á málið.  Oftar en ekki er framkvæmdavaldið, ásamt Forsætisnefnd þingsins, er nýtur sama þingmeirihluta og framkvæmdavaldið svo komið á hurðahún nefndarherbergisins löngu áður en málið getur talist afgreitt úr nefnd, því samkvæmt dagskrá þingsins á þá á tiltekið mál að vera á dagskrá á tilteknum tíma, sama hvað raular og tautar.

 Önnur umræða byrjar svo á því að lesin eru upp tvö til þrjú álit nefndarinnar, meirihlutaálit sem oftast nær er nánast samhljóða vilja framkvæmdavaldsins, og svo eitt til tvö nefndarálit stjórnarandstöðuþingmanna í nefndinni.   Oft er þess einnig getið í álitum stjórnarandstöðu þingmanna, að málið sé aftur komið og ófullburða í þingið, því meirihlutinn (framkvæmdavaldið), reif það nánast órætt úr nefndinni.  Að því loknu fer málið í nefndina aftur á milli annarar og þriðju umræðu.

 Þar er uppi sama tímapressan og áður, sem að Forsætisnefnd þingsins setur þinginu að áeggjan framkvæmdavaldsins. Málið rifið úr nefndinni, oftar en ekki með þeim orðum að ekkert nýtt hafi komið fram.  Í ljósi sögunnar og er þá ekki farið lengra aftur í hana en í Icesave, til þess að þau orð veki upp grun um vanreifað mál.  

 Málið fer svo til þriðju umræðu, með nánast sama handriti og í annarri umræðu, nema hvað í lok þriðju umræðu eru greidd atkvæði um frumvarpið og breytingartillögur og málið afgreitt sem lög frá Alþingi, oftar en ekki óverulegum breytingum frá upprunalegum texta.  

 Menn krossa svo fingur og vona að nýja frumvarpið haldi.  Annars hafa menn jú þann frasa í handraðanum að "andi lagana" hafi jú verið annar en lagatextinn, fari málið illa fyrir dómstólum.  Í fljótu bragði er aðeins hægt að benda á tvennt sem gæti komið í veg, slíkan "misskilning", sem stöðugt virðist vera á milli texta lagana og svo anda lagana.  Það er að vanda vinnuna í þinginu betur og ekki hleypa neinu í gegn, nema hverjum steini hafi verið velt og skoðað undir hann, eða þá að ráða Þórhall miðil í Hæstarétt, til ráðgjafar við réttinn, svo dómarar réttarins eigi betur með að skilja hvað Löggjafinn meinti með þeim lagatexta er dæma skal eftir.


mbl.is Ekki í anda laganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Báðar tillögur um landsdóm verða felldar.

Tillaga meirihluta Atlanefndar mun líklega ekki fá fleiri atkvæði en þingmannafjöldi þeirra flokka er að baki hennar standa, eða 27 og því munu þá 36 vera á móti verði allir þingmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á móti tillögunni.

 Þegar tillaga Samfylkingar verður svo borin upp, þá geta varla þingmenn þeirra flokka er greiddu atkvæði með hinni tillögunni, greitt henni atkvæði, því þá væru þeir að falla frá fyrri ákvörðun sinni um að ákværa Björgvin G. , bara til þess að fá einhvern fyrir landsdóm.  Væri slíkt vart marktækt, hjá þeim þingmönnum og þeir alveg örugglega þá ekki að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni.

 Eina von þeirra þingmanna um landsdóm væri þá sú að fleiri en 16 þingmenn Samfylkingar kjósi með því að Geir, Árni og Ingibjörg verði ákærð.  Greiði fleiri en 16 þingmenn Samfylkingar með þeirri tillögu, þá nægir  hjáseta þingmanna Vg. Framsóknar og Hreyfingar til að fá þá tillögu samþykkta.

 Svo er það auðvitað spurningin hvort Samfylkingin, eða fulltrúar hennar í Atlanefnd flytji tillögu sína óbreytta í þinginu, því verði nafn Ingibjargar á þeirri tillögu, þá klífur það flokkinn.


mbl.is Ingibjörg: „Betra að veifa röngu tré en öngu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostlegt gáleysi og næstum því stórkostlegt gáleysi.

Ætla má að þeir ráðherrar, sem einnig komu til álita, að vera með þeim fjórmenningum á ákæruskjali, meirihluta Atlanefndar sitji enn í ríkisstjórn.   

Líklegast þar engan sérfræðing eða snilling, til þess að finna út að, sé Atli að segja satt að fleiri hafi komið til álita, þá eru 99,9% líkur á því, að þar eigi hann við núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í stjórn Geirs Haarde og sat í fjármálahópi ríkisstjórnarinnar  og Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkisráðherra, sem var iðnaðarráðherra í stjórn Geirs og staðgengill Ingibjargar Sólrúnar í veikindum hennar.

 Í orðum Atla fellst þá að það sé í lagi að ráðherrar brjóti af sér í starfi sé sú refsing vegna brotsins væg og brotið ekki stórvægilegt. 

 Nú er það þannig að brjóti opinber starfsmaður af sér í starfi, en brotið réttlæti ekki brottvísun eða málsókn, þá er starfsmaðurinn áminntur.  Þorði Atlanefndin ekki að geta þess í skýrslu sinni að fleiri ráðherrar hefðu verið á grensunni með að fá ákærur?  

 Ætli núverandi embætti þessara ráðherra hafi forðað þeim frá ákæru eða áminningu?  

 


mbl.is Fleiri kærur komu til álita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atli Gíslason hefur misst öll tök á störfum eigin nefndar og hótar stjórnarslitum.

Atli Gíslason lauk máli sínu með því að vara þingmenn Samfylkingarinnar að taka málið út úr þingmannanefndinni og flytja það yfir í Allsherjarnefnd þingsins.  Slíkt liti hann á sem vantraust á sitt starf og meirihluta þingmannanefndarinnar og slíkt yrði ekki liðið.   Er Atli að hóta stjórnarslitum?

  Fari málið fyrir Allsherjarnefnd, þá myndar væntanlega Samfylkingin meirihluta í nefndinni með Sjálfstæðisflokki og gæti lagt fram tillögu um að vísa frá tillögum um Landsdóm. 

Atli er enn og aftur að opinbera vanhæfi sitt með dómgreindarleysi sínu.  Fyrsta opinberun dómgreindarleysis hans var að hleypa málinu úr þingmannanefndinni í ósátt og vissu um að hvorug tillagan um Landsdóm hefði þingmeirihluta og því myndi þurfa pólitísk hrossakaup eða eitthvað þaðan af verra til að fá aðra hvora tillöguna samþykkta.  Síðan leggur hann fram tillögu þess hóps er hann tilheyrir í nefndinni, án þess að leggja fram öll gögn að baki þeirri tillögu og ber við trúnaði. Trúnaði byggðum á einhverjum verklagsreglum sem í raun giltu bara á meðan nefndin, var að komast að niðurstöðu með þessar tillögur sínar.  Svo að lokum hótar hann stjórnarslitum, verði mál sem hann ræður ekki við tekið úr hans höndum.   

 Að baki Atla standa þingflokkar Vinstri grænna, Framsóknar og Hreyfingar, með blóðbragð í munni og einbeittan vilja til þess að hefja pólitísk réttarhöld, til uppgjörs við markaðshyggjuna og kalla það réttlæti. 

 Í alvöru talað, þá er vart tilefni til annars en að rjúfa þing og efna til kosninga að nýju.  Alþingi er gersamlega óstarfhæft á meðan þetta mál vofir yfir því.


mbl.is Umræðu frestað til mánudags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn, þjóðin og stjórnvöld.

Fyrri í vikunni sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands,  í viðtali við Bloomberg fréttastofuna, að Íslendingar hugsuðu nú hverslag klúbbur, þetta ESB væri nú og tengdi hann það við Icesavedeiluna og  aðstoð ESB við Breta og Hollendinga, við að halda þeirra ólögvörðu kröfum til streitu.

 Ólafur sagði reyndar rétt áður en hann lét þessi ummæli falla, að Íslendingar hefðu þó fyrir ekki svo löngu verið jákvæðari gagnvart ESB, meðal annars vegna gjaldmiðilsmála.

Urðu þessi ummæli Ólafs til þess að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fleiri aðildarsinnar risu upp á afturlappirnar og kölluðu ummæli Ólafs óviðeigan, pólitísk afskipti hans af utanríkismálapólitík stjórnvalda.  

Ólafur svaraði því hins vegar til í hádegisfréttum útvarps, að ummæli sín hafi, fráleitt verið óviðeigandi, enda bæri honum sem forseta landsins að tala fyrir hagsmunum þeirrar þjóðar er í landinu býr. 

 Má jafnvel leggja út frá orðum Ólafs að hann treysti vart stjórnvöldum til þess að gæta hagsmuna þjóðarinar, eins og reyndar meirihluti þjóðarinnar gerir, samkvæmt nýlegri skoðannakönnun.  Hvort að það færi þær skyldur á herðar forsetans að rjúfa þing og boða til kosninga, veit ég ekki og ætla því ekki að tjá mig um það frekar að sinni.

 Þegar forsetinn beitti sinni stjórnarskrárbundu skyldu sinni að vísa þeim lögum til þjóðarinar, er hann telji vafa á að séu  í þágu þjóðarhags, með því að synja Icesavelögunum staðfestingar, varð hann fyrir árásum, frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og þingmönnum stjórnarflokkana.  Sömu aðilum og hrósuðu þessum sama forseta fyrir að synja Fjölmiðlalögunum staðfestingar á sínum tíma. Þá þótti forsetinn af þessum sömu aðilum vera að rækja lýðræðislegar og stjórnarskrárbundnar skyldur sínar.

Við útkomu skýrslu RNA jukust svo þessar gagnrýnisraddir stjórnvalda og stuðningsmanna þeirra, þar sem að skýrsluhöfundum, þótti forsetinn hafa farið fullgeyst í stuðningi sínum við útrásina.  Voru þær ásakanir á forsetan líkastar því að hann einn af þjóðinni allri hefði mátt vita, hvers konar loftbólubull útrásin hafi verið  og því hafði hann ekki átt að leggja hönd á plóginn, líkt og nánast öll þjóðin gerði á sínum tíma.  Verða slíkir sleggjudómar að teljast ómaklegir og í raun skammarlegir þeim er þessum sleggjudómum halda á lofti.  Dómar þessi allir kveðnir upp vegna atburða sem að vart er hægt að segja að forsetinn, eða aðrir hefðu getað séð fyrir.  

 Andstæðingar forsetans fara svo út í staðhæfingar um að Vigdís Finnbogadóttir fyrrv. forseti, hefði aldrei lagt útrásinni lið á þann hátt sem Ólafur gerði. Hljóma fullyrðingar þessara aðila líkt og þeir hafi endurskrifað söguna á þann hátt að Vigdís hafi á sextán ára ferli sínum sem forseti, setið á Bessastöðum og bróderað milli þess sem að hún skaust hingað þangað um landið til að planta niður trjám og hefði engin afskipti haft af einu eða neinu.

 Vera má að sú staðreynd að nú eru fjórtán ár síðan Vigdís hætti sem forseti, hafi aukið á þokukenndar minningar um hennar forsetaferil, ekki ætla ég að dæma um það.  

 Vigdís ferðaðist vítt og breytt um heiminn líkt og Ólafur gerir nú og talar um land og þjóð og það sem efst er á baugi hjá þjóðinni.  Vigdís bara slapp við að tala fallega, eða fjálglega um íslensku útrásarvíkingana, þar þeir voru ekki fram komnir er hún var forseti.

 Fram hefur komið að Vigdís hugleiddi ítarlega, hvort að hún ætti að synja lögum um EES-samninginn staðfestingar, vegna þrýstings sem hún fann frá hluta þjóðarinnar, vegna þess samnings.  Hún ákvað hins vegar að synja þeim lögum ekki staðfestingar.  Ólafur gerði nánast það sama varðandi Icesave 1 og Icesave 2.  Ólafur staðfesti Icesave 1 eftir góða um hugsun, en setti fram fyrirvara í anda þeirra fyrirvara, er Alþingi sjálft hafði samþykkt á þann samning.   Það þurfti því ekkert að koma á óvart að forsetinn synjaði Icesave 2, jafnvel þó að ekki hefði verið öll þessi andstaða meðal þjóðarinnar og var um samninginn. Erfitt hefði verið forsetann að samþykkja seinni lögin, eftir þá fyrirvara, er hann setti við þau fyrri.

 Vigdís mun einnig hafa dregið það að undirrita lög á verkfall flugfreyja, vegna þess að undirskriftin, átti að fara fram á degi sem þykir merkilegur í sögu réttindabaráttu kvenna, því hafi henni þótt það óviðeigandi að svína þannig á kvennréttindabaráttunni að undirrita þau lög á þeim degi.  Hins vegar má af þessu draga þá ályktun að Vigdísi hafi, þótt það viðeigandi að svína á kvennréttindabaráttunni, aðra daga, en merkisdaga í sögu þeirrar baráttu. 

 Af öllu þessu ofansögðu mætti því frekar spyrja sig að því, hvort það eina sem kalla má óviðeigandi við störf forseta vors, sé ekki bara það, að hann rjúfi ekki þing og boði til kosninga, því það þing sem nú situr og það framkvæmdavald er það kýs sér, er gersamlega vanhæft til þess að vinna hagsmunum þjóðarinnar gagn.


Ætlar Alþingi að breyta Landsdómi í pólitískt sláturhús?

Þingflokkur Samfylkingarinnar er þarna að gera sig vanhæfan til þess að geta tekið afstöðu í málinu. Þingflokkur Samfylkingarinnar er þarna sökum innbyrðisklofnings að gera einum hugsanlegum sakborningi, fyrir Landsdóm, hærra undir höfði en öðrum.  Þingflokkurinn bauð að vísu Björgvini G. Sigurðssiyni til fundar, en hann átti ekki heimangengt.  Þingflokkur Samfylkingarinnar sem er við það að taka þátt í  stærstu ákvörðun sem að Alþingi hefur tekið. Samt hirðir þingflokkurinn ekki hið minnsta um að ræða við aðra, mögulega sakborninga.  Líklegast er það vegna þess að það er ekki hagstætt flokknum pólitískt að leyfa mönnum að bera hönd fyrir höfuð sér, séu þeir úr öðrum stjórnmálfaflokkum.  Málsmeðferð Samfylkingarinnar er til skammar þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga.

Alþingi er að sigla inn í sína mestu niðurlægingu frá stofnun þess árið 930.  Lögjafarvaldið er á góðri leið með það að gera hluta Dómsvaldsins að pólitísku sláturhúsi. 

Dómsmála og mannréttindaráðherra, Ögmundur Jónasson, lýsir því yfir í útvarpsviðtali í morgun að röksemdir Atla Gíslasonar formanns þingmannanefndarinnar, hafi nægt honum til þess að taka ákvörðun um að kæra nokkra einstaklinga, engan þeirra í sínum flokki, og kalla þá fyrir Landsdóm.  Hvurslag vinnubrögð eru þetta hjá yfirmanni mannréttindamála á Islandi?  Hann hefur tekið ákvörðun um ákærur, án þess að kynna sér hvað mögulegir sakborningar hafa sér til málsbóta? Er pólitíska heiftin slík að mannréttindum verði að ýta til hliðar til þess að svala henni?  Eru fleiri þingmenn Vinstri grænna, sömu skoðunnar og Ögmundur?  Eða þingmenn Framsóknar og Hreyfingarinnar?  Er fólki slétt sama um mannréttindi í sínu pólitíska plotti og bakstungum?

Krókódílatár Steingríms J. og fleiri þingmanna yfir því að verða samkvæmt stjórnarskrá, líklega að ákveða það að kæra þessa fyrrum starfsfélaga sína, vekja óhug hjá undirrituðum og bera vott um óheiðarleik, fals og grimmd viðkomandi, sem að nú skal sefa með pólitískum hrossakaupum, mannfórnum og bakstungum.

 Það er eins gott að þetta lið hafi hugleitt hvernig það ætlar að halda úti Hæstarétti, þegar holskefla mála frá Sérstökum saksóknara skellur á réttinum.  Bróðurpartur Hæstaréttardómara, verður bundinn í Landsdómi, á meðan sá dómur starfar.

Réttarhöldin fyrir Landsdómi geta tekið marga mánuði og jafnvel getur sá tími skipt árum, vegna þess hve margir verða hugsanlega fyrir dómnum, auk þess sem afstaða eða dómur dómsins verður matskenndur og ekki dæmt á solid sönnunnargögnum sem liggja fyrir.  Fyrst og fremst verður dæmt eftir framburði sakborninga, þeim trúverðugleika sem dómurinn hefur á framburðinum og orðum annarra, jafnvel pólitískum andstæðingum þeirra, er fyrir dómnum verða. Málarekstur verður t.d. ekki jafn einfaldur og í svokölluðu Tamílamáli.  

Verður uppgjörið þá komið eitthvað betur á veg?  Hæstiréttur lamaður mánuðum saman og hinir raunverulegu glæpamenn útrásarinnar ganga enn lausir og halda áfram að hylja slóð sína?

Sú ákvörðun sem alþingismanna bíður er fyrst og fremst sú, að taka ákvörðun um hvort að það sé virðingu Alþings sæmandi að gera Landsdóm að pólitisku sláturhúsi, til þess að sefa reiði almennings í pólitísku uppgjöri við markaðshyggjuna öðrum til viðvörunnar.   Verði þessi tillaga afgreidd neðan úr pólitískum skotgröfum, þá verður skömm og niðurlæging Alþingis og þeirra sem ýta á "já hnappinn" algjör.  Vei þeim hræsnurum og pólitísku loddurum er slíkt munu gera.

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún ræðir stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband