Leita í fréttum mbl.is

Sovétættað auðlindarákvæði stjórnlagaráðs.

Það er alveg hægt að fallast á það, að auðlindir, aðrar en þær sem eru einkaeign skuli vera þjóðareign.  Enda er slíkt fyrirkomulag í rauninni í gangi nú þegar.  Hins vegar er texti tengur auðlindaákvæðinu í tillögum stjórnlagaþings um þjóðareign á auðlindum með öllu ósættanlegur: ,,..að enginn megi nýta auðlind í þjóðareign, nema  gegn fullu gjaldi..“ . Samkvæmt skýringum tveggja stjórnlagaráðsfulltrúa, Gisla Tryggvasonar og Þorvaldar Gylfasonar á þeim hluta ákvæðisins, sé átt við að í ,,hinu fulla gjaldi“ felist það, að ríkið geri upp allan hagnað og arð af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Fáist það ákvæði samþykkt og verði sett í stjórnarskrá.

Það hlýtur hver og einn sem það vill sjá, sjá það að það að svipta atvinnuveg, sem er hvort sem fólki líkar það betur eða verr, einn af  undirstöðuatvinnuvegum  þjóðarinnar, öllum möguleikum og hvata til aukinna fjárfestinga í greininni sem og að leita leiða til þess auka hagkvæmni greinarinnar enn frekar.  Með slíku fyrirkomulagi væri í raun  verið að ríkisvæða  og þjóðnýta auðlindanýtingu þjóðarinnar, svona líkt og gert var í Sovét á tímum kommúnistastjórnarinnar þar.

Þó svo að ekki sé nú sérstakt auðlindaákvæði í núgildandi stjórnarskrá, þá er farið með sjávarauðlindina, líkt og slíkt ákvæði væri fyrir hendi.  Ákvæði um þjóðareign myndi engu breyta um það, að það væri löggjafinn hverju sinni, sem ákveddi á hvaða hátt sú auðlind yrði nýtt.

Af þeim sökum væri það alveg sjálfsagt að bæta auðlindarákvæðinu í stjórnarskrá lýðveldisins, ef Sovétættaðum hluta þess yrði sleppt.

Ríkið/þjóðin á að sjálfsögðu að njóta þess, ef að nýting auðlinda í þjóðareign gengur vel og slíkt skili arði.  En þá atvinnugrein á að skattleggja, líkt og allar aðrar atvinnugreinar, á sanngjarnan og hófsaman hátt.  Þannig að möguleiki og hvati til fjárfestinga og hagræðingar, sem auka arðsemi greinarinnar verði fyrir hendi.   Auk þess sem að fjármunir ávaxtast mun betur í hagkerfinu, en í ríkissjóði.  Enda mun ríkissjóður, njóta góðs af þeim ávexti, þegar fjármunirnir hafa unnið sitt verk í hagkerfinu.

Það er með lífsins ólíkindum, að Íslandi árið 2012, skuli nokkrum manni, hvað þá hópi 25 einstaklinga hafi dottið það í hug að lauma slíku Sovétættuðu ákvæði inn í tillögur að nýjum stjórnskipunnarlögum.    Ákvæði sem í rauninni þjóðnýtir einn helsta undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og drepur alla möguleika hans til vaxtar og aukinnar arðsemi, sem skilar sér að lokum í þjóðarbúið.

Öllum tilraunum til þess að endurtaka þá skelfilegu tilraun í stjórnarskrá Íslands,sem stofnun og tilvist Sovétríkjana var á síðustu öld, ætti hver hugsandi ættjarðarelskandi Íslendingur að hafna með öllu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt þessari skýringu var það Sovéthugsun sem kom hugtakinu þjóðareign inn í fiskvieiðistjórnarlögin á tímum Davíðs Oddssonar.

Að ekki sé nú talað um Sovéthugsunina 1928 þegar Þingvellir voru lýstir þjóðareign.

Alrangt er að leiga á nýtingarrétti þurfi að leiða til þess að ríkið hirði allan arð af auðlindinni heldur er "fullt gjald" miðað við það sem á venjulegum leigumarkaði er talið að fást myndi á útboði á leiguréttindunum.

Þegar leiguhúsnæði er leigt út til atvinnustarfsemi jafngildir það ekki því að leigusalinn hirði allan arðinn af leigutakanum, heldur einingis það að leigan sé í samræmi við markaðsverð á leigu slíks húsnæðis.

Ómar Ragnarsson, 23.9.2012 kl. 19:49

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með Ómari hér.  Þið eruð á villigötum með Sjávarútvegsmálin Sjálfstæðismenn.  Þjóðin á auðlindina og þó einhverjum hafi verð færð þessi eign á silfurfati fyrir margt löngu þá hefur það alltaf verið viðurkennt að þjóðin eigi hana.  Það er því bara þannig að menn geri sér grein fyrir því að sægreifar EIGA EKKI TILKALL TIL FISKSINS Í SJÓNUM, heldur er það þjóðin í heild, hitt er svo annað mál að það má leigja þessa auðlind út til manna til að veiða, en það á að taka fyrir allt framsal og menn eiga ekki að hafa kvóta umfram veiðigetu. 

Því fyrr sem þið gerið ykkur grein fyrir þessu Sjálfstæðismenn því betra fyrir ykkur.  Því þetta er jafnréttismál sem þarf að leiðrétta en því miður meðan L.Í.Ú borgar vel í kosningasjóði Sjálfstæðisflokksins þá verður það alltaf þannig að þeir þ.e. XD njóta ekki trausts hins almenna borgara, og það mun verða hnykkt á því núna í kosningabaráttunni sem aldrei fyrr.  Það get ég lofað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.9.2012 kl. 20:55

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Eins og ,,fulla verðið" var túlkað af þeim Þorvaldi og Gísla, þá var átt við að allur hagnaður og arður yrði gerður upptækur, af nýtingu sjávarauðlindarinnar. Það er við það sem ég vísa til Sovétríkjana sálugu. Ekki að auðlindin sem slík sé í þjóðareign. Enda er ég ekki mótfallinn því t.d. að fiskveiðiauðlindin sé í þjóðareign. Slíkt gildir í rauninni um auðlindir sem finnast á yfirráðasvæði þjóðarinnar, að undanskyldum auðlindum á landareignum í einkaeign. Án þess að ákvæði um slíkt sé í núverandi stjórnarskrá.

Mér sýnist nú LÍÚ eða félagar í LÍÚ borga í fleiri kosningasjóði, en hjá Sjálfstæðisflokknum. En það er efni í aðra umræðu.

Það má líka alveg nefna það, að nær allar umsagnir um frumvörp núverandi ríkisstjornar um stjórn fiskveiða og veiðigjaldið, hafa fengið vægast samt slæma dóma, hjá umsagnaraðilum. Og gildir þar í mestu einu, hvort þeir umsagnaraðilar séu á vegum stjórnvalda eða annarra. Einu "umsagnaraðilarnir", sem mælt hafa frumvörpum þessum bót, eru eftir þvi sem ég man, títtnefndur Þorvaldur Gylfason og Þórólfur Matthíasson.

Afnám framsals, er að mínu mati engin lausn. Enda hefur hagræðing í greininni og verðmætasköpun stóraukist frá því það var sett á. En vissulega eru þónokkrir agnúar á því, sem ætti að vera hægt að laga, án þess að kollvarpa og gera heiðarlega tilraun til slátrunar á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Líkt og nær allir umsagnaraðilarnir er ég get um hér að ofan telja sjávarútvegsfrumvörp stjórnarflokkanna gera.

Kristinn Karl Brynjarsson, 23.9.2012 kl. 21:25

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Seg þú mér í alvöru Kristinn heldur þú virkilega að með því að innkalla kvótann, hætti útvegsfyrirtæki að veiða fisk? Auðvitað þarf að koma einhverjar bætur fyrir sannanlega keyptan kvóta og afskriftir skulda, en menn munu halda áfram að veiða fisk, og þau fyrirtæki sem þegar eru í útgerð munu halda sínu að mestu, nema að sá aukakvóti sem útgerðirnar hafa og deila og drottna yfir til annara er bara ekki ásættanleg.  Einmitt þetta hefur rústað landsbyggðinni síðastliðinn 20 ár.  Þetta sést afar vel núna þegar útgerð var seld út frá Vestmannaeyjum.  Þar situr fólk eftir með sárt ennið og veit að það er algjörlega í höndum einhvers aðila annarsstaðar hvort þeir yfirleitt hafa vinnu eða ekki. Þetta er bara svívirðing við alla heiðarlega viðskiptahætti.

Og því fyrr sem þetta er leiðrétt því betra.  Það á enginn að geta svipt sveitarfélag atvinnu sinni, fólkinu þar sem hefur haft sitt lifibrauð á sjávarútvegi.  Geðþóttaákvarðanir sægreifa eiga engann rétt á sér, segi og skrifa.  Þannig er það bara.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.9.2012 kl. 22:31

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég hef aldrei haldið né sagt að útgerð leggðist af við innköllun kvótans. En ég hygg að þetta sem þú kallar "einhverjar bætur" yrði töluvert hærri upphæð, en ég og þú getum ímyndað okkur. Svo ekki er víst að slíkt þjónaði endilega þjóðarhagsmunum, heilt á litið, ef að út í það yrði farið. Enda hafa ca. 90% aflaheimilda skipt um hendur, síðan framsalinu var komið á með lögum nr. 38/1990.

"Byggðaslátrun" er einhver svartasta mynd framsalsins og hafa einhverjar leiðir verið reyndar til þess að stemma stigu við slíku, eins og t.d. línuíviljun og ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélags á þeim kvóta er til stendur að selja í burtu. En betur má ef duga skal. Ég held að allir séu sammála um það.

Án þess þó að ég ætli að fullyrða neitt um það, þá kæmi það mér ekki á óvart að fleiri viðskipti með aflaheimildir, hafi á endanum verið frekar til góðs, en hitt. Það sé hins vegar mun meira áberandi og átakanlegri afleiðing slíkra viðskipta, þegar þau koma illa niður á þeim byggðalögum sem þær voru seldar frá og það kannski geri slík viðskipti meira áberandi og frekar en umtalsefni en hitt.

Í farvatninu er stofnun hagsmunasamtaka sveitarfélaga er stundaðar eru fiskveiðar frá. Ef rétt er á málum haldið, þá gætu þau samtök aðstoðað við að sníða af þann annmarka framsalsins er lítur að byggðaröskunum í kjölfar viðskipta með aflaheimildir.

Hvort að hægt sé að tala um geðþóttaákvarðanir þeirra útgerðarmanna er selja frá sér kvóta, skal ósagt látið. Enda þekki ég engan þeirra og get því ekki gefið mér forsendur hvað það varðar. En eflaust í einhverjum tilfellum hefur það nú verið svo, að ekki hafi verið grundvöllur fyrir frekari útgerð hjá viðkomandi.

Ég er að mörgu leyti fylgjandi strandveiðum, þó ég sé ekki fylgjandi framkvæmd þeirra, þ.e. þessum ólympísku veiðum. Þar sem hver og einn þarf að hamast sem hann mest má, til þess að fá sem mest áður en heildarkvótinn er uppurinn. Betra væri að einhver stjórnun væri við framkvæmd þeirra veiða. Þannig að á sumum svæðum veiddist ekki allt upp á skömmum tíma. Heldur ætti að stuðla að verklagi sem dreifir veiðunum betur yfir það tímabil sem þær eru leyfðar. Þannig myndu til dæmis sveiflur á fiskmörkuðum vera minni, en oft er framboðið það mikið á fyrstu dögum hvers tímabils að það hefur slæm áhrif á fiskverðið, sem hefur svo neikvæð áhrif á afkomu þeirra er veiðarnar stunda.

En eins og öllum ætti að vera ljóst, þá eru ótal gallar á kvótakerfinu og því sem því fylgir. En kannski er nú samt stærsti galli þess sá, að því fer fjarri að markmiðum þess um auknar veiðar hefur náðst.

Kannski hefði t.d. framsalið aldrei komið til, ef ekki hefði orðið þessi mikli samdráttur í veiðum og að of margir voru um of fáa fiska.

Kristinn Karl Brynjarsson, 23.9.2012 kl. 23:35

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Framsalið Kristinn var vegna þess að bankakerfið vildi fá eitthvað fyrir sinn snúð. Þeir voru búnir að lána útgerðum og vildu tryggingar.  Þess vegna varð þetta framsal, sem aldrei skyldi verið hafa.  Það er vitað mál að firðir og flóar eru fullir af fiski og hafa verið nú um nokkurt skeið, en það má ekki veiða vegna þess að sægreifar telja sig eiga kvótann og þannig er það að fiskimenn út um landið verða versgú að vera heima og skúra gólfin því þeir mega ekki fara út og veiða fiskinn.  Sægreifarnir hafa svo stjórnað verðinu eftir sínu höfði, og ákveðið verðið.

Það er nefnilega svo að hér á Vestfjörðum þar sem ég þekki til, þá fara fullir flutningabílar með fisk héðan, meðan aðrir flutningabílar aka svo fiski aftur hingað.  Þetta er svo mikið rugl að það hálfa væri nóg. Bara núna í vor þá fengum við hér til dæmis ekki kítu og lifur vegna þess að meðan hrognin voru í fiskinum var hann fluttur suður óslægður til að Reykvíkingar gæti keypt sér hrogn og lifur í matinn.  Að öllu jöfnu er fiskurinn fluttur suður slægður en ekki á þessu tímabili.  Og núna megum við þakka fyrir að fá yfirleitt fisk í soðið.

Nei ef ég mætti ráða þá Myndi hvert sveitafélag fyrir sig hafa sinn kvóta, rétt eins og var með rækjuna í den.  Að kvótinn væri bundinn við heimabyggð.  Þannig að enhverjir dúddar gætu ekki bara selt atvinnuna burt frá sveitarfélögum rétt si sona og fólk misst atvinnuna, húsin gerð verðlaus og allt annað færi með þá er ég að tala um allar hliðargreinar eins og viðhaldsfyrirtæki sem hafa unnið við útgerðirnar.

Ef þið sjálfstæðismenn ætlið að halda ykkur við tryggð við L.Í.Ú.  mun ég allavega beita mér fyrir því að upplýsa 101 Reykjavík sem heldur að fiskurinn verði til í fiskibúðinni um sannleikann og fá vonandi til þess fólk mér til aðstoðar sem þekkir betur til hvað þetta er óréttlátt.  Og HANA NÚ!Það ætti að byrja á því að leggja niður Hafrannsóknarstofun, því að mínu mati þjónar hún eingöngu Sægreifum þessa lands, en ekki því sem er þjóðhagslega hagkvæmt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.9.2012 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1607

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband