Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Þarf ekki frekar úttekt á ráðningarferlum hins opinbera?

Það þarf kannski að benda Stefáni og öðrum varðsveinum og meyjum Jóhönnu á, að þegar umsóknarfresti lauk, þá voru fimm valdir samkvæmt lögformlegu verklagi, við ráðningar forstöðumanna hjá hinu opinbera.

 

 Í  því vali voru Anna og sá sem stöðuna fékk, nánast jöfn í fyrsta og öðru sæti og hefði því átt að bjóða Önnu stöðuna, samkvæmt því lögformlega mati og jafnréttislöggjöfinni. Þar sem það hallaði á konur í fjölda forstöðumanna hjá ríkinu.

 

Hæfnisnefndin ákvað hins vegar að taka málið lengra og setti þau fimm sem eftir stóðu, í huglægt hæfnismat, sem ekkert lögformlegt gildi hafði. 

 

Í því huglæga mati, féll Anna niður um þrjú sæti.

Kærunefndin gat hins vegar ekki tekið afstöðu til hins huglæga mats, þar sem það hefur ekkert lögformlegt gildi, auk þess sem að niðurstöður þess, hljóta alltaf að vera mismunandi, eftir því hver framkvæmir það, ólíkt hinu lögformlega mati. 

 

Vegna jafnréttislöggjafarinnar, er ekki hægt að framkvæma þetta huglæga mat, hjá hinu opinbera, standi valið á milli einstaklinga af sitthvoru kyninu. Þó vissulega væri hægt að kalla það ,,faglegt" og allt það. Það þarf bara að vera fyrir lagaheimild til þess, sem ekki var fyrir hendi í þessu tilfelli.

 

Hvernig hefði Forsætisráðuneytið, með sérstakan sérfræðing í jafnréttismálaum átt að svara gagnrýni, hefði Anna verið ráðin?
Nú það hefðu verið hæg heimatökin að vitna í jafnréttislögin.

 

 Það væri því nær, að gerð yrði úttekt á ráðningarferlum hins opinbera, úr því að ekki er hægt að ráða í störf, með faglegum hætti, standi valið á milli einstaklinga, af sitthvoru kyninu.  Í stað þess að snúa öllu á hvolf og skammast í fólki sem vinnur sína vinnu, samkvæmt landslögum.

 

 Ef að lögin henta ekki eða eru ekki nógu góð, þá á að breyta þeim. Ekki brjóta þau.


mbl.is Vill úttekt á kærunefnd jafnréttismála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NATO ræðst ekki á Sýrland, nema með samþykki íslensku þjóðarinnar.

Allt frá því að Íraksstríðið hófst, hafa sprottið upp umræður í vandlætingartóni, vegna þess að þeir Halldór og Davíð, lýstu í nafni þjóðarinnar, stuðningi við það stríð með því að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða.  Án þess að tala við kóng eða prest, þ.e. að hafa ekki haft samráð við þing eða Utanríkísnefnd þingsins.  

Það má svosem alveg gagnrýna þá ákvörðun Halldórs og Davíðs.  En hafa ber þó í huga að á þeim tíma var starfhæfur öruggur stjórnarmeirihluti í landinu, annað en nú er og því nokkuð ljóst að þingið hefði gefið grænt ljós á þessa ákvörðun.  Auk þess sem að stuðningur þessi, hafði ekkert að gera með það, hvort stríðið yrði háð eða ekki.

Það mun hins vegar, án efa, koma til tals á neyðarfundi NATO á þriðjudaginn, að ráðist skuli á Sýrland, vegna þess að Sýrlendingar skutu niður tyrkneska orustuþotu á dögunum.  Enda segir svo í sáttmála NATO, að árás á eitt aðildarríki NATO jafngidli árás á þau öll.

Stuðningur íslenskra stjórnvalda, við þá tillögu mun hins vegar ráða baggamuninn, hvort NATO ráðist á Sýrland eður ei.  Enda hafa Íslendingar líkt og aðrar aðildarþjóðir NATO, neitunnarvald innan samtakana.  Semsagt ef íslenski fulltrúinn segir nei við tillögunni, þá mun NATO EKKI ráðast á Sýrland.    Sama staða var uppi er NATO réðst á Líbýju.  Íslensk stjórnvöld höfðu það í rauninni í hendi  sér, hvort NATO réðist á Líbýju eða ekki.

Sú ákvörðun var hins vegar tekin án alls samráðs.  Meira að segja samstarfsflokkur utanríkisráðherra, Vg. vissi ekki af ákvörðun fastafulltrúans, þó vissulega væri hún afdrifaríkari, en stuðningurinn við Íraksstríðið á sínum tíma.   Enda stuðningurinn við Íraksstríðið, miklu fremur ,,móralskur", heldur en hluti af einhverju ákvarðanaferli varðandi það stríð.

Það hlýtur því að vera borðleggjandi, að í ljósi gagnrýni stjórnarflokkanna á ákvörðun fyrri stjórnvalda vegna Íraksstríðsins, að Utanríkismálanefnd þingsins eða jafnvel þingið sjálft verði kallaða saman, til þess að ræða, hvaða ákvörðun skuli taka.

Eða er það bara eðlilegt að Össur taki einn ákvörðun um stuðning við árás á Sýrland, í nafni íslensku þjóðarinnar? 


mbl.is Tyrkland leitar til NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemdir um skort á athugasemdum .

Við blogg mitt hér neðar á síðunni  "Faglegt dómgreindarleysi", birtist skondin athugasemd. Þar kýs fyrrum Fésbókarvinur minn, hinn síkáti Grindjáni, Björn Birgisson, að gera athugasemd við skort á athugasemdum, við bloggskrif mín.  

Lýsir hann jafnvel áhyggjum sínum yfir því, að vegna skorts á athugasemdum við bloggskrif mín, þá hljóti Moggabloggið að vera í andaslitrunum.  

Nú er það svo, að yðar einlægur hefur stundum látið það vera að skrifa blogg, svo dögum eða vikum skiptir.  Samt sem áður, þá hefur gamla góða Moggabloggið verið til staðar, er ég sný aftur í bloggheima.  Það er því varla hægt að mæla lífslíkur Moggabloggsins á því, hvort að einhver sjái sig knúinn til þess að gera athugasemdir við bloggskrif mín.

Fyrir mér, þá eru bloggskrif mín, til þess eins að koma frá mér skoðunum mínum og hugsunum, um hin ýmsu málefni.  Ekki til þess að hrúga að mér stórri ,,já-hjörð" eða einhverju þess háttar.  

Ég hef enga þörf fyrir það, að um mig safnist einhver ,,já-hjörð", sem hneigi sig og bukti við skrif mín. Veit ég þó af þó nokkrum sem lesa skrif mín reglulega og líkar þau vel, þó svo þess sé ekki getið í athugasemdakerfi bloggsins.

Eins og áður sagði, þá eru þessi bloggskrif mín, fyrst og fremst ætluð til þess, að koma frá mér því sem er að hugsa hverju sinni og skoðunum mínum á mönnum og málefnum.   Auðvitað gæti hrúgað að mér athugasemdum, með því að skrifa texta, fullan af rangfærslum, uppnefningum og fleiru sem vakið gæti hörð viðbrögð annarra.  En ég hef bara ekkert við slíka athygli að gera og veit í rauninni ekki hvernig slík athygli ætti að vera mér og Moggablogginu til framdráttar.

En eins og komið hefur fram, þá erum við Björn Birgisson, fyrrum Fésbókarvinir.  Hann sjálfur bað um vináttu mína, sem að ég samþykkti með glöðu geði.  Enda margt skemmtilegt sem Björn skrifar, þó svo að í fæstum tilfella sé ég sammála honum.  Reyndar tel ég okkur ekki vera nálægt hvor öðrum hvað skoðanir varðar, nema þá í málefnum sjávarútvegsins.

Það var jú einmitt ástæða þess, að yðar einlægur lenti undir fallexi Grindjánans á Facebook, að ekki gat hann gengið nógu fallega í takt við Grindjánann og var jafnan, með röngu, kallaður hægri öfgamaður og fleira sem að svokallaðir jafnaðarmenn, líta á sem dauðasök.

Engu að síður, ber ég virðingu fyrir Birni sem persónu og hans skoðunum, þó mikið greini þar á milli.  En varla er sú virðing gagnkvæm, úr því að vera mín á Fésbókarsíðu kappans, varð honum ofviða.  Mér getur þó, engu að síður, ekki verið meira sama.  Enda vil ég ekki að minn kæri Björn finni fyrir einhverjum ónotum, við það eitt að bera fyrir mér lágmarks virðingu og skoðunum mínum. 

Lifið heil. 


Faglegt dómgreindarleysi.

Það má vel vera að skipun hæfnisnefndarinnar og mannauðsfræðingsins hafi verið í góðri trú og verið ætlað til þess að stuðla að fagmennsku við ráðninguna í starfið.

Hins vegar er það svo að samkvæmt lögum og verkvenjum við ráðningar á forstöðumönnum hjá ríkinu, er ekki að finna nokkuð um að meta skuli hæfni umsækjenda, út frá öðrum þáttum, en menntun og starfsreynslu.  Auk þess sem taka skuli tillit til kynjahlutfalls í þeirri stétt sem auglýst er eftir starfi í.

Að loknu hinu lögformlega mati, þá voru Anna og sá sem starfið var boðið, metin nánast jafnhæf til þess að gegn starfinu.  Sökum þess að það hallar á konur í fjölda forstöðumanna hjá ríkinu, þá bar Forsætisráðuneytinu að bjóða Önnu starfið.  Um það fjallaði úrskurður Úrskurðarnefndar jafnréttismála og er sá úrskurður bindandi.

Úrskurðarnefndin gerði hins vegar rétt með því, að taka ekkert tillit, til hins huglæga mats á umsækjendum.  Enda hafði slíkt mat ekkert lögformlegt gildi og gat því aldrei orðið nein vigt í úrskurði nefndarinnar.

Svokallað ,,huglægt mat" getur engu að síður, verið ágætis verkfæri þegar ráðið er í störf. Hvort sem það sé hjá hinu opinbera eða í einkageiranum.  Hjá hinu opinbera þarf hins vegar að ganga úr skugga um, að slíku mati sé ekki beitt, þegar meta á hæfni tveggja einstaklinga af sitthvoru kyninu.

Það hlýtur því að teljast algjört algjört dómgreindarleysi, í besta falli andvaraleysi, að Forsætisráðuneytið, með sérfræðing í jafnréttismálum, innan sinna vébanda hafi brotið jafnréttislöggjöfina með þessum hætti.  

Stjórnvöld á hverjum tíma, eiga auðvitað að leita allra leiða, til þess að láta fagmennsku ráða för í aðgerðum sínum og athöfnum.  Svokölluð ,,fagmennska" má þó aldrei vera á þann hátt, að hún brjóti lög.

 Og því síður eiga stjórnvöld að skýla sér á bakvið huglægt mat, verktaka utan úr bæ.  Hversu faglegt sem slíkt mat kann að vera.  Stjórnvöld bera alltaf ábyrgðina  og axla hana af sjálfsögðu, sé um heiðarleg og ábyrg stjórnvöld sem sakvæm eru sjálfum sér að ræða. 

,,Verktakinn" hefur eingöngu tillögurétt, en ekki ákvörðunarrétt og er því ábyrgðarlaus með öllu hvað ákvarðanatöku varðar.  Enda hann ekki ráðinn til ákvarðanatöku, heldur eingöngu til þess að gefa ráðgefandi álit.


mbl.is Áfellisdómur yfir ráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óforskammaður og hortugur forsætisráðherra.

„Forsætisráðuneytið vekur athygli á því að í dóminum er hvorki lagt sjálfstætt né efnislegt mat á það hvort jafnréttislög hafi verið brotin við skipun í embættið. Niðurstaðan byggir alfarið á því að úrskurður kærunefndar jafnréttismála sé bindandi um þann þátt málsins, þar sem forsætisráðuneytið lét ekki á það reyna í sérstöku ógildingarmáli, þar sem áhersla var lögð á að ná sáttum í málinu,“ segir í yfirlýsingunni.

Auðvitað lagði dómurinn ekki til efnislegt eða sjálfstætt mat á því, hvort að jafnréttislöggjöfin hafi verið brotin.  Enda var um bindandi úrskurð stjórnvalds að ræða og því óþarft með öllu að dómurinn tjái sig um slíkt.  Svokallaður sáttavilji ráðuneytisins, ákvarðaðist fyrst og fremst af því, að yfirgnæfandi líkur voru á því að ógildingunni yrði hafnað af dómnum. 

„Þá sé það jafnframt niðurstaða héraðsdóms að ekki verði fullyrt að Anna hefði átt að fá embættið auk þess sem skaðabótakröfu hennar hafi verið hafnað. Vitnað er til niðurstöðunnar að ekki verði fullyrt að Önnu hafi borið að fá starfið umfram þrjá aðra umsækjendur sem raðað hafi verið framar henni í hæfnismatinu og því hafi íslenska ríkið verið sýknað af skaðabótakröfu.“

Ef að úrskurðað hefur verið að jafnréttislög voru brotin, vegna þess að Önnu var ekki boðin staðan, þá hlýtur það að liggja í augum uppi, að sjálfsögðu hefði átt að ráða Önnu í starfið.   Hæfnismatið sem vitnað er til, kemur þessu ekkert við.  Hæfnismatið fór ekki fram á grundvelli þeirra laga, sem fara skal eftir þegar hið opinbera ræður fólk í vinnu.  Enda úrskurðaði  Úrskurðarnefnd jafnréttismála  á þann hátt.  Skiptir í því engu máli, hversu faglegt það kann að hafa verið.  Enda var það ekki samkvæmt lögum um ráðningar, eins og þá sem málið snerist um.

„Í samræmi við fyrri yfirlýsingar mínar og sáttavilja í þessu máli ítreka ég þá von, að með þessari niðurstöðu megi ljúka málinu, með sama hætti og ég lagði sjálf til þegar í upphafi,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í yfirlýsingunni í tilefni niðurstöðu héraðsdóms.“

Það sem að Jóhanna lagði til í upphafi var nú enginn sáttatónn, heldur þvertók hún fyrir að hafa brotið nokkur lög.  Jafnvel þó að hún sjálf hafi unnið að gerð þeirra. Reyndar er það svo með hæstvirtan forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur að hún djöflast áfram með óbilgirni og hortugheitum, uns öll sund eru henni lokuð og þvertekur fyrir öll sáttaboð, svo lengi sem hún hefur hina minnstu von að ná sínu fram.

 Það var ekki fyrr en útlit var fyrir að málið væri tapað, að greina mátti einhvern sáttatón frá forsætisráðherra. 

Það er ekki ofsögum sagt að forsætisráðherra líti illa út í þessu máli.  Eina sem hefði getað látið ráðherrann líta verr út, væri það að dómur héraðsdóms hefði komið degi fyrr þ.e. á baráttudegi kvenna.


mbl.is Fagnar niðurstöðu héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirgefur Stefán Pálsson þeim Jóhönnu og Steingrími fyrir Líbýjustríðið?

Hinn vinstri græni formaður Samtaka hernaðarandstæðinga (áður herstöðvarandstæðinga), Stefán Pálsson fer mikinn á Smugunni.  Hann reynir ekki bara að gera þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ábyrga fyrir Íraksstríðinu, vegna stuðnings þeirra við þær aðgerðir.  Heldur notar hann einnig ummæli forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, til þess að gera hann einnig ábyrgan fyrir sama stríði.

http://blogg.smugan.is/stefan/2012/06/16/forsetinn-og-stridid/?fb_comment_id=fbc_10151842557585722_33764756_10151843320665722#f974849c8 

Það vita það allir sem það vilja vita og líklegast Stefán líka, að Íraksstríðið hefði verið háð, hvort sem Davíð og Halldór hefðu lýst stuðningi við þær aðgerðir eða ekki.   Enda komu íslensk stjórnvöld ekki að ákvarðanatökum  um það stríð.

Hins vegar vita það allir sem það vilja vita og líklegast Stefán líka, að núverandi stjórnvöld sem Stefán styður sjálfur, veitti NATO heimild til þess að hefja loftárásir á Líbyu, með því að beita ekki neitunarvaldi sínu innan NATO.

Jafn greindur maður og Stefán Pálsson er, hlýtur að sjá muninn á þessum tveimur ákvörðunum íslenskra stjórnvalda og alþjóðlegu vægi þeirra.  Sú fyrri breytti litlu í heildarmyndinni, en sú síðari var ein af forsendum þess að hægt var að hefja loftárásir á Líbýu.  

Eins hlýtur jafn greindur maður og Stefán Pálsson, að sjá hversu lágt hann leggst í því að koma höggi á núverandi og líklegast verðandi forseta, með þessari smugugrein sinni.  

En hvort að hann fyrirgefi sjálfum sér lágkúruna sem þessi smugugrein opinberar, Davíð og Halldóri fyrir Íraksstríðið eða þá Jóhönnu og Steingrími fyrir Líbýustríðið, verður hann að eiga við sjálfan sig.  


Verður tímabundin fjarvera makrílsins notuð til að réttlæta eftirgjöf í samningum um hann?

Líklegast  mun þegar og ef að samið verði um makrílinn, þeim rökum beitt að hann sé farinn annað.  Makríllinn er hins vegar flökkustofn sem gæti birtst hér aftur, áður en að blekið á samningunum þornar.

Ef að makríllinn er ,,farinn" héðan, líklegast tímabundið, þá er það það vitlausasta í stöðunni að semja um hann.

 Kröfur ESB og Noregs eru  bara brotabrot af því sem við veiddum hér við land, þegar allt var hér vaðandi í makríl. Miðað við samningatækni núverandi stjórnvalda, er líklegra en ekki að niðurstaðan verði nær kröfum ESB og Noregs.


Við munum því þá standa uppi varnarlaus gegn makrílnum, þegar honum þóknast að kíkja hér aftur við og ryksuga upp alla fæðu hér frá staðbundnum tegundum.

 
Hér hefur ekki og verður ekki stunduð ofveiði á makríl. Hins vegar má alveg segja sem svo, að makríllinn stundi ofveiði þegar hann birtist hér.


Djúpsjávarútgerðir frá ESBlöndum og Noregi bregðast auðvitað ókvæða við, þegar nýr aðili kemur á markað, og og brenglar þeirra ,,ráðandi" hlut á markaði.


Íslenski stjórnvöld hafa hins vegar, hingað til hið minnsta, brugðist við aukinni ásókn flökkustofns í íslenskt lífríki, með því að veiða úr þessum flökkustofni. Veiðarnar hafa þó ekki gengið það hart að stofninum að hann sé í einhvers konar útrýmingarhættu.


Andstaða ESB og Noregs við makrílveiðar Íslendinga, hefur því ekkert með líffræðileg gildi að gera, einungis viðskiptaleg.


mbl.is Vilja lenda makríldeilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skortur á flugfreyjum í Noregi?

Þvergirðingsháttur og átakafíkn forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur hefur löngum verið þeim kunn, sem með henni hafa starfað undanfarna áratugi.  Í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar er hún sat í Viðeyjarstjórninni, þá fór hún verkfall, þ.e. neitaði að mæta á ríkisstjórnarfundi, nema hún fengi aukið fjármagn í sinn málaflokk.  Milli þess sem að hurðarskellir, frekju og fýluköst einkenndu setu hennar meira og minna í þeirri ríkisstjórn.  

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir samningaumleitanir um þinglok þetta vorið, sem að reyndar er orðið að sumri. En það er önnur saga.  Lengst af hefur verið stál í stál í þeim umleitunum.  Svokallað samráð sem hæstvirtur forsætisráðherra, þreytist seint að tala um, gengur út á það að tillögur forsætisráðherra og meðhlaupara, séu samþykktar nær óbreyttar.

Fyrir nokkrum dögum kom þó skriður á viðræðurnar. Enda forsætisráðherra á norrænum ráðherrafundi í Norður Noregi.  Samkomulag virtist vera í höfn.  En svo kom forsætisráðherra heim og allt sunkaði ofan í hjólför átaka sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur spólað í vel á fjórða áratug.

Í ljósi þess að margir Íslendingar hafa tekið þann kostinn að flytja til Noregs og starfa þar, enda mikil eftirspurn eftir fólki í hin ýmsu störf þar, er kannski ekki úr vegi að athuga hvort ekki vanti flugfreyjur í Noregi. 


mbl.is Engin ákvörðun um þinghlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ,,rétt" að fara á svig við lög?

,,Fjármálaráðherra hefur í dag sett á stofn tvö fjármálafyrirtæki sem taka við rekstri Sparisjóðsins í Keflavík, annars vegar, og Byrs sparisjóðs, hins vegar. Er það gert eftir að stjórnir þessara sparisjóða óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir starfsemi sparisjóðanna, í kjölfar þess að samningaviðræður sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði leiddu ekki til niðurstöðu."

Þessi texti, hér að ofan, er úr fréttatilkynningu sem birt var á vef Fjármálaráðuneytisins, þegar Steingrímur ákvað að taka þessa sparisjóði yfir.
Stjórnir sjóðanna gerðu í rauninni það sama og stjórnir bankanna þriggja er féllu í okt 2008 gerðu. Enda bankarnir í raun gjaldþrota, líkt og flest bendir til að sparisjóðirnir hafi í raun verið.

Það er því nokkuð borðleggjandi að setja hefði þessa sparisjóði í slitameðferð. En ekki að hætta skattfé landsmanna í björgunaraðgerðir, sem að mönnum má hafa verið ljóst, að væru vonlitlar.

Til þess að bíta höfuðið af skömminni, ákvað Steingrímur J. Sigfússon hins vegar sjálfur að reka þessa sparisjóði, úr skúffu í Fjármálaráðuneytinu. En ekki fara að lögum um Bankasýslu ríkisins, sem kveða á um að Bankasýsla ríkisins, skuli fara með hluti ríkisins í fjármálastofnunum. Hvort sem það stór eða lítill hlutur.

Þáttur FME þ.e. að hafa í það minnsta í tvígang leyft þessum fyrirtækjum að starfa, þó eiginfjármagn þeirra væri undir lögbundnum mökrum, hlýtur einnig að teljast afar ámælisverður. Enda miðast undanþágur FME, við það að um lífvænleg fyrirtæki sé að ræða. 

Það stendur því upp á þáverandi fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon og FME, að gera grein fyrr þessum gjörðum sínum, á skýran og hispurslausan hátt og draga ekkert undan.


mbl.is Rétt ákvörðun hjá Steingrími
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur í ruglinu.

Það er greinilegt að innanríkisráðherra þjóðarinnar þekkir ekki stjórnskipan landsins.  Í það minnsta er ekki annað að sjá en að ráðherrann sé gersamlega í myrkrinu, er hann ritar þann pistil, sem hlekkurinn hér að neðan vísar í.

http://www.ruv.is/frett/ogmundur-liu-beitir-hotunum

,,Ögmundur segir einnig að ef stjórnarandstaðan á Alþingi ætli með málþófi að koma í veg fyrir veiðigjald og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu muni málið enda frammi fyrir þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og það þyrfti ekki að vera slæmur kostur, að mati Ögmundar, en þá dygði ekki að setja fram útvatnaðar tillögur sniðnar á málamiðlun á Alþingi heldur ganga lengra í átt að þjóðarviljanum sem vill, að sögn Ögmundar, uppskurð á kvótakerfinu.“

Ögmundur ætti að vita betur, þó ekki væri nema vegna þess, að ráðuneyti hans ber ábyrgð á framkvæmd allra kosninga í landinu.  Hann ætti því að vita, að þjóðin sem slík getur ekki sett ný lög, með því að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fari svo að stjórnarflokkarnir komi ekki kvótafrumvörpunum í gegn á þessu þingi, þá er ekkert annað í stöðunni en að frumvörpin aftur fram á næsta þingi.  Ætli menn sér að gera þessi frumvörp að lögum.

Jafnvel þó að stjórnarflokkarnir ákveddu að taka frumvörpin úr þinginu og láta þjóðina kjósa um þau, eins og þau líta nú út, þá yrðu þau ekki að lögum við það eitt að þjóðin segði já við þeim.

 Enda væri þjóðaratkvæði um mál sem löggjafinn hefur ekki leitt til lykta, ekkert annað en skoðanakönnun.  Skoðanakönnum sem að þingmönnum bæri samkvæmt stjórnarskrá að láta sem vind um eyru þjóta.  Ef sannfæring þeirra segir annað en úrslit þjóðaratkvæðisins.

Ögmundur á að vita það, að hótun hans eða loforð um þjóðaratkvæði, með þessum hætti um kvótamálin, er hrein markleysa og honum sem þingmanni og ráðherra engan vegin sæmandi.

Treysti stjórnarflokkarnir sér ekki til þess að koma kvótafrumvörpunum, eins og þau nú líta út  í gegnum þingið, þá eiga þau engra annarra kosta völ en breyta frumvörpunum á þann hátt, sem sátt ríkir um í þinginu eða einfaldlega draga þau til baka.

Allt tal um að þjóðin, sem slík, fái að stunda einhverja lagasetningu með þátttöku í þjóðaratkvæði, er ekki bara óraunhæft, heldur gersamlega óábyrgt og í raun ekkert annað en dæmi um algjört rökþrot og uppgjöf stjórnvalda í málinu.

Stjórnvöld hvorki mega né eiga að kasta fram svona bulli, til þess eins að brengla umræðuna og jafnvel vekja falsvonir í brjóstum hluta þjóðarinnar.   Þeim er ævarandi skömm af slíku háttalagi. 


Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband