Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Faglegar ráðningar hins opinbera á ,,gráu svæði"?

Á Rúv.is er frétt http://ruv.is/frett/radningin-ologleg sem lætur lítið yfir sér.  Þessi frétt gæti þó markað ákveðin tímamót í mannaráðningum hins opinbera.

Í fréttinni segir meðal annars:

,,Megin athugasemd ráðuneytisins er sú að bæjarfélögin hafi í raun framselt ráðninguna og allt mat á umsækjendum til ráðningarþjónustu, sem fengin var til að meta hæfi umsækjenda.  Síðan hafi ráðningarþjónustan lagt til hver skyldi ráðinn. Sú tillaga hafi verið samþykkt í bæjarstjórn og bæjarráði.  Með þessu hafi bæjarstjórn afsalað sér þeirri ábyrgð sem á hana er lögð samkvæmt stjórnsýslulögum; að afla sér fullnægjandi gagna, áður en ráðið var í starfið. Ráðningin var því úrskurðuð ólögmæt."

Nú er það svo að ráðningarferli hjá hinu opinbera, sem nú til dags eru kölluð ,,fagleg" er flest ef ekki öll með þessum hætti, sé auglýst í þá stöðu sem losnar, eða stofnuð er hjá hinu opinbera.

 Ég man í svipinn eftir þremur ráðningum hins opinbera, sem voru með áþekkum hætti og urðu allar umdeildar.  Þar á ég við ráðningu skrifstofustjóra í Forsætisráðuneyti, umboðsmanns skuldara og forstjóra Bankasýslu ríkisins.  

Tvær síðast töldu ráðningarnar, gengu hins vegar til baka.  Ráðninging umboðsmanns skuldara var dregin til baka, þar sem sá ráðherra er bar á henni ábyrgð, treysti sér ekki til þess að verja hana ,,pólitískt".  Ráðning forstjóra bankasýslunar gekk svo til baka, eftir að stjórn bankasýslunnar sagði af sér og sá sem ráðinn var, afþakkaði stöðuna.

Ráðning skrifstofustjórans var hins vegar úrskurðuð sem brot á jafnréttislöggjöfinni, af Úrskurðunarnefnd jafnréttislaga, sem sett var á laggirnar við gildistöku svo til nýlegrar jafnréttislöggjafar.

Allir þeir sem ábyrgð báru á ofantöldum ráðningum, töldu sig ekkert rangt hafa gert, enda ráðningarnar allar ,,faglegar" og mat það sem lá að baki ráðningu, unnið af ráðningarþjónustu út í bæ.  

Úrskurður Innanríkisráðuneytisins segir hins vegar, að þeir aðilar sem standa að ráðningum hjá hinu opinbera, megi ekki varpa ábyrgð þeirri sem fylgir því að meta hæfni fólks til starfa hjá hinu opinbera, á einhverjar ráðningarþjónustur út í bæ.  Heldur eigi sú vinna að fara fram hjá þeirri stofnun er í stöðuna ræður. Enda ber sú stofnun ábyrgð á ráðningunni.  En ekki einhver ráðningarþjónusta út i bæ.

Þessi úrskurður hlýtur að verða til þess, að þessi svokölluðu ,,faglegu" ráðningarferli hins opinbera, verði tekin til alvarlegrar endurskoðunnar.  Jafnvel þó svo að þau hafi þótt það ,,fagleg" að brjóta mætti jafnréttislöggjöfina, vegna þeirrar ,,fagmennsku" sem þar bjó að baki. 


Aukinn kostnaður, engar/litlar tekjur á móti.

Það er í rauninni sammerkt þessum framboðum tveimur, Samstöðu og Breiðfylkingu, að þeirra aðal stefnumál, heimta annað hvort nærri óraunhæfa samninga við hlutaðeigandi, eða griðarkostnað fyrir Ríkissjóð (skattgreiðendur).

 Bæði framboðin skortir raunverulega sýn á það, hvernig auka eigi tekjur Ríkissjóðs á móti þeim kostnaði. Enda tala bæði framboðin gegn því sem raunverulega breikkar skattstofna og eykur hér hagsæld.

Hvort sem að svo ólíklega vilji til að samningar náist við kröfuhafa, án kostnaðar fyrir Ríkissjóð eða ekki, þá leysir það eitt sér ekki vandann, sem uppi er hér á landi. Vanda sem að kalla má þverþjóðfélagslega skuldsetningu.  Skuldsetningu ríkis, einstaklinga/heimila og fyrirtækja.

Samhliða lausn á vandanum, þarf ekki bara að efla atvinnulífið á þann hátt, að fleiri störf verði til, heldur þarf þessum nýju störfum að fylgja aukin arðsemi sem skilar sér í þykkari launaumslögum og breiðari skattstofnum.

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar, að bæði þessi framboð, nánast ala á hatri við gróða einkaaðila af fyrirtækjarekstri og viðskiptum.  Gróða sem er þó einn af hornsteinum breiðra og sterkra skattstofna, sem auka tekjur Ríkissjóðs, án skattahækkanna eða nýrra skattaálaga.

 Auk þess sem aukinn gróði fyrirtækja leiðir af sér bolmagn hjá þeim til þess að greiða hærri laun, sem svo skilar sér í breiðari tekjuskattsstofni, ásamt því sem að neysluskattsstofnar munu breikka í kjölfar aukinnar neyslu.

Leggi þessi framboð tvö ekki fram, samhliða tillögum sínum um skuldavanda heimila, tillögur um raunverulega uppbyggingu atvinnulífs og hagsældar, er vart hægt að líta öðruvísi á tillögur þessara framboða, en sem óraunhæfar og illframkvæmarlegar.

Tillögur sem líklegri eru til vinsælda en raunverulegs árangurs í baráttu  við viðfangsefni þau sem við blasa, eru í rauninni ekkert annað en lýðskrum og dæmast  á þann hátt, þegar stóra samhengi hlutana er skoðað. 

Tillögur sem ekki bara auka á vandann, heldur einnig koma fleirum í vanda, en eru nú þegar í vanda.

 


mbl.is Vilja efla siðferði í stjórnmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetaembættið, breytingar í þátíð, nútíð og framtíð.

Það er mál fræðimanna, álitsgjafa og sumra stjórnmálamanna að núverandi forseti hafi breytt forsetaembættinu varanlega.  Gert það pólitískt og þar fram eftir götunum.

 Það væri í rauninni óðs manns æði að hafna þeirri fullyrðingu.  Samt sem áður er það svo að þessari fullyrðingu fylgir sjaldnast, einhver skýring önnur á þessum breytingum, en að breytingarnar megi fyrst og fremst rekja til karektereinkenna forsetans. 

 Einnig er samanburður við fyrri forseta ofarlega á baugi í umræðunum um breytingar á embætti forseta Íslands.  Fyrri forsetum hefði ekki dottið, þetta eða eitthvað annað í hug.  Enda voru þetta öðruvísi forsetar, en sá sem nú situr. Auðvitað voru fyrri forsetar öðruvísi en sá sem nú situr, enda þeir flestir með annan bakgrunn en sá sem nú situr.

Engum ofantaldra virðist hafa tekist að koma auga á það, að þann tíma sem Ólafur Ragnar hefur verið forseti, hafa orðið gríðarlegar breytingar, hvort sem litið sé til þjóðfélagsgerðar, viðskiptalífs og alþjóðasamskipta.

Stærsti faktorinn í öllum þessum þjóðfélagslegu breytingum, EES- samningurinn var undirritaður og samþykktur  á Alþingi, áður en að núverandi forseti tók við embætti.   Reyndar hefur forveri Ólafs í embætti, Vigdís Finnbogadóttir sagt, að sér hafi borist í hendur sú krafa að synja þeim samningi staðfestingar og senda hann í þjóðaratkvæði.  Hún hafi hins vegar ákveðið að gera það ekki, því hún hafi ekki viljað valda óróa í þjóðfélaginu með því að synja samningnum staðfestingar. 

Það er alveg hægt að halda því fram, að EES- samninginn hefði átt að setja í þjóðaratkvæði.  Sér í lagi, hafandi atburðarásina frá undirritun hans til dagsins í dag fyrir framan sig.   Slíkt væri þó varla neitt annað en eftiráspeki, sem að mörgum fulltrúum hópana þriggja er ég nefni, er þó afar tamt að stunda, máli sínu til stuðnings.

Fyrir tíma útrásarinnar, sem varð jú m.a. til vegna EES-samningsins, þá var forsetanum helst það legið á hálsi að gagnrýna vegakerfið á Vestfjörðum eða eitthvað þess háttar,sem kannski spilaði ekki stóra rullu í heildarsamhenginu.

Í öllum látunum sem urðu vegna Fjölmiðlafrumvarpsins árið 2004, má segja að forsetaembættinu hafi verið att út í það, að verða ,,pólitískt“, meðal annars af þeim aðilum, er áttu stóran þátt í því, að koma Ólafi í embætti forseta Íslands.   Auk þess sem einn stjórnarandstöðuflokkur á þeim tíma, Samfylkingin betti sér á bakvið tjöldin, leynt og ljóst.

 Þáverandi formaður Samfylkingarinnar lýsti síðar afstöðu flokksins í málinu,með þeim hætti, að flokkurinn hafi ákveðið að veita einni viðskiptablokk (Baugi) pólitískan stuðning sinn, til mótvægis við stuðning annarra flokka við aðrar viðskiptablokkir.

Í útrásinni var svo hin íslenska viðskiptasnilld rómuð fjölmiðlum, sem voru í eigu þeirra er léku stórt hlutverk í þeim ,,svikavef“ sem í ljós hefur komið, að þessi svokallaða viðskiptasnilld var í raun og veru.   Fjölmiðlalögunum var m.a.  ætlað að koma í veg fyrir, að auðmenn/útrásarvíkingar gætu notað fjölmiðla, í krafti eignarhalds síns á þeim, til þess að ,,stjórna“ nánast þjóðarsálinni með umfjöllun sinni.   Sem að þeir gerðu svo sannarlega fyrir hrun og hafa einnig gert það eftir hrun.

Það að hafa viljað hjálpa til við útflutning hinnar íslensku viðskiptasnilldar á þeim tímapunkti, við þær aðstæður er uppi voru og áður en ,,svikin“ urðu ljós, getur vart talist ámælisvert. Eins og flestir fulltrúar þeirra þriggja hópa, er ég nefni í upphafi pistilsins halda statt og stöðugt fram.  Í það minnsta hefði varla þótt það forseta vorum sæmandi að sitja með hendur í skauti á Bessastöðum, skjótast einstaka sinnum eitthvað út í náttúruna til þess að planta trjám, ásamt því að tjá sig nær engöngu um liðinn og fornan tíma í menningarsögu okkar og sérstöðu tungumáls okkar.  Þá er hætt við að heyrst hefði hljóð úr horni, svo mikð er víst.

Fram að hruni var Ólafur Ragnar því vel liðinn á meðal vinstri flokkanna, í það minnsta Samfylkingarinnar, enda var synjun hans á Fjölmiðlalögunum, stórsigur þess flokks í þeirri orustu sem flokkurinn háði fyrir pólitískan skjólstæðing sinn úr viðskiptalífinu, Baug og allt sem því fyrirtæki fylgdi.

Núverandi stjórnarflokkum, var því varla nokkuð í nöp við forsetann, þó svo að Vinstri grænum hafi eflaust mislíkað, svokallað ,,auðmannadekur“ forsetans á útrásarárunum.   Þær breytingar sem urðu á embættinu, fram að hruni, hafa því ekki verið þessum flokkum svo mjög á móti skapi.

Á því varð þó veruleg breyting, þegar forsetinn synjaði lögum núverandi stjórnarflokka vegna Icesave staðfestingar.  Ákvörðun sem átti sér í rauninni fordæmi, frá dögum fjölmiðlafrumvarpsins, sem forsetinn synjaði staðfestingar á grundvelli undirskriftasöfnunar, líkt og raunin var með Icesave.

Höfðu menn þá reyndar uppi stór orð, við synjunina.  Að valið stæði á milli ríkisstjórnarinnar eða forsetans.  Reyndar reyndust þau orð marklaus, enda situr ríkisstjórnin enn, þrátt fyrir að hafa tapað tveimur þjóðaratkvæðum, vegna Icesave.

Það er að mínu mati fjarstæða að halda því fram, að forsetaembættið, sem og önnur embætti eigi ekki að taka neinum breytingum, þrátt fyrir breyttan tíðaranda. Heldur eigi það að vera niðurnjörvað í helsi einhverra gamalla hefða.  Þjóðkjörinn forseti, hlytur og á að beita sér fyrir því sem hann telur þjóð sinni fyrir bestu hverju sinni.

 Hvort að þær breytingar sem að gera á á embættinu samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs, séu til batnaðar eða ekki skal ósagt látið.  Eitt er hins vegar á tæru hvað mig varðar.  Þar sem ekki mun nást að samþykkja nýja stjórnarskrá, þar sem slíkar breytingar kæmu fram, fyrir forsetakosningar í sumar,  þá eigi að bæta því við tillögurnar að þær taki ekki gildi, fyrr en árið 2016, þegar þar næsta kjörtímabil forseta Íslands hefst.

   Enda varla boðlegt að breyta eðli embættisins á miðju kjörtímabili, sem að raunin yrði, verði tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrá samþykkt.


Verðtrygginguna burt!! - En hvernig?

Ekki það að ég sé einhver aðdáandi verðtryggingarinnar. En mig langar samt að velta því upp hvernig fólk vill losna við hana og setja þá leið í samhengi við annað mál, sem tengist því óbeint.


Flestir sem ég hef talað við og vilja verðtrygginguna burt, tala um ný lög sem banna verðtryggingu. Gott og vel.
En lög sem banna verðtryggingu og ná til þeirra lána, sem folk er nú að brasa við að borga af yrðu afturvirk lög. Líkt og lögin hans Árna Páls um endurútreikninga á gengistryggðum lánum.


Nú hafa einhver samtök lánþega, man ekki í svipin hver, kært þau lög eða tilkynnt þau til ESA, á þeim forsendum að ekki sé hægt að breyta skilmálum neytendalána afturvirkt. Fallist ESA á þau rök og lögum Árna Páls verði breytt samkvæmt niðurskurði ESA, hvort sem það verði eftir úrskurð dómstóla eða stjórnvöld fallist á úrskurð ESA, þá hlýtur draumurinn um áðurnefnda lagasetningu vegna verðtryggingarinnar að vera brostinn. 


Enda hlýtur það að vera svo, að séu ein lög um afturvirkni lánasamninga úrskurðuð ólögmæt, af til þess bærum aðila, þá hljóta öll önnur lög sem kveða á um það sama, að vera það einnig.

Svo getum við gefið okkur það, að ESA úrskurði lánastofnunum/stjórvöldum í hag.  Það er að afturvirku lögin hans Árna Páls standi.  

 Þá liggur nánast beint við að sett yrðu samskonar lög um þau lán sem verðtryggingin var numin af með lögum.  Afturvirk lög sem kveða á um að þessi lán skuli breytast í óverðtryggð lán með þeim vöxtum sem á slíkum lánum hefur verið á lánstíma hvers láns fyrir sig.  Semsagt endurútreikningar á lánunum.  Hvort það fyrirkomulagkæmi sér betur fyrir lántakendur, skal ósagt látið.  Enda fer það sjálfsagt eftir því hvernær lánin voru tekin.  Einhverjir kynnu að koma betur út, en aðrir ekki. 


Áhugaleysi eða vantraust?

 

Stjórnarskrárbreytingar og breytingar og fiskveiðistjórnunarkerfisins, eru þau mál sem hin norræna  velferðarstjórn, segist eiga eftir að ráðast í, áður en þorandi er að boða til kosninga.  Allt annað sé í rauninni búið.  Skjaldborginn fullreist og kreppan ástand gærdagsins.

Niðurstaða þessarar könnunnar sýnir þó að kjósendum finnst það ekki jafn mikilvægt og stjórnarflokkunum. 

 En kannski er réttast að draga þá ályktun að  kjósendur treysti ekki ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að leiða þessi mál til lykta svo vel sé.  Því eflaust vill meirihluti kjósenda einhverjar breytingar í þessum tveimur málaflokkum.

Auk þess sem kjósendum þyki eflaust bygging skjaldborgar Jóhönnu hin mesta hrákasmíð, sem hvorki heldur vatni nér vindum. 


mbl.is Meirihluti vill kosningar í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Heppileg" tímasetning.

Það er nánast hægt að slá því föstu, að tímasetning þessarar skoðannakönnunnar er Samstöðu Lilju Mós mjög í hag.

Ég held að Samstaða Lilju Mós græði fyrst og fremst á því að vera nýjasta stjórnmálaaflið sem kynnt var til sögunnar. BF hefði t.d. tekið eitthvað fylgi frá Samstöðu, ef að flokkarnir hefðu verið kynntir sömu vikuna.


Svo held ég nú að þegar s
kattheimtuást Lilju verður lýðnum  ljós, en Steingrímru J. er varla hálfdrættingur á við hana hvað skattheimtuþráhyggju varðar, þá fari nú að renna á menn, fleiri en tvær eða þrjár grímur.

Einnig eru allt eins líkur á því, að upp komist um ,,dulargervið". Það er að Samstaða sé kynnt sem hvorki hægri, vinstri né miðjuafl, heldur bara eitthvað af öllu með einhverjum frá öllum stefnum heimsins.

Þessi flokkur ber líklegast hugmyndafræði formannsins vitni. Hugmyndafræði formannsins er langt til vinstri og því varla hægt að búast við öðru, en ,,vinstri-boðskap".  Þó svokölluð stefna flokksins verði látin heita eitthvað annað.

Reyndar er það svo, sé tekið tillit til þess hversu víða fólk kemur að hvað stefnur varðar, að nafn þessa flokks, verði áður en langt um líður rangnefni. 


mbl.is Samstaða með 21% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanþroskað stjórnarsamstarf??

 Á fundi í Eyjum í kvöld sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, að eftir allan þennan tíma (3 ár), þá væri frumvarpið um stjón fiskveiða (kvótafrumvarpið) ,,vanþroska". 

Líklegast hefur Steingrímur þarna, líkt og honum er sjaldnast sjálfrátt með, ætlað að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra eða í þessu tilfelli á kostnað  annars manns, Jóns Bjarnasonar fyrrverandi sjávaútvegsráðherra.   

 Kynni menn sér sögu þessa málaflokks hjá hinni tæru vinstristjórn, þá sjá menn að meint þrumuskot Steingríms á félaga sinn í þingflokki Vinstri grænna, misheppnast þó svo herfilega, að hægt er að tala um sjálfsmark.

 Þegar ,,Stóra kvótafrumvarpið" var lagt fram síðasta vor, þá stóð í greinargerð með frumvarpinu, að frumvarpið væri afrakstur mikillar vinnu stjórnarflokkanna við málaflokkinn.  Vinnu sem vart ætti sér hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu. 

 Menn vita nú hvaða dóm ,,Stóra kvótafrumvarpið" hefur fengið frá mörgum þeirra er unnu að gerð þess.

 Það er því vart hægt að túlka orð Steingríms á annan hátt, en að hann telji stjórnarflokkana, vart hafa burði til eða þroska, til þess að ljúka vinnu við þennan málaflokk, svo vel sé. 


Röng nálgun við lausn á skuldavanda heimilana.

Það er í rauninni ekki svo erfitt að færa rök fyrir þeirri fullyrðingu sem í fyrirsögninni er.  Í umræðum um skuldir heimilana, er fókusinn nær alltaf á því, hvað bankar og aðrar lánastofnanir, geti afskrifað af lánum heimilana.

 Nær aldrei er spurt að því, hvað heimilin sjálf geti staðið undir.  Hver greiðslugeta þeirra í rauninni sé, miðað við það að fólk sjái einhvern tilgang í því að greiða niður stökkbreyttar skuldir sínar. 

Ef að sú tala sem lánastofnanir geta fært lánin niður í er hærri en greiðslugeta heimilana, þá er það ljóst að raunverulegar afskriftir lánanna, verða meiri þegar uppi verður staðið.  Þar sem lánastofnanirnar munu aldrei geta fengið það verð fyrir þær eignir sem eru veð fyrir lánunum.

 Eflaust gætu þó lánastofnanirnar, með bókhaldsbrellum, látið líta svo út að þær eignir sem leysa til sín, myndi sterkt eignasafn, þó svo að raunverulegt virði þeirra yrði langt undir bókhaldslegu virði þeirra. 

 Með öðrum orðum, þá eru lánasöfn banka og annarra lánastofnana, í raun metin langt umfram raunverulegt virði þeirra, þar sem öruggt er að þau muni aldrei innheimtast að fullu. 

Gott dæmi um ranga nálgun við lausn á skuldavanda heimilana er svokölluð 110% leið.  Hún var fyrst og fremst fundin út, út frá hagsmunum lánastofnana og hafði í rauninni ekkert með greiðslugetu heimilana að gera.  Auk þess sem að efnahags og skattastefna stjórnvalda,hefur þau áhrif á vísitölur lánanna, að þau hækka óðfluga upp í þá upphæð sem þau voru í.

 Einnig má örugglega segja, að skort hafi samræmdar reglur um mat á virði fasteinga sem sett voru að veði þeim lánum, sem um er rætt.  Því hærra mat á fasteign, hvort um raunverulegt virði sé að ræða eða ekki, þýðir þá lægri afskrifaupphæð á láninu. 

 Réttari nálgun sem líklegri væri til að stíga stórt skref til lausnar á skuldavanda heimilana, væri sú að horfa til greiðslugetu þeirra, fremur en hagsmuna lánastofnana.  Reyndar eru raunverulegir hagsmunir lánastofnana þeir, að lántakendur geti staðið í skilum.

Fyrsta skrefið í þeirri nálgun, væri að setja samræmdar reglur eða lög um verðmat á þeim eignum sem eru að veði vegna lánanna.  Lög eða reglur sem girtu fyrir það, að eignir væru metnar yfir raunvrið til þess, komast hjá nauðsynlegum niðurfærslum.

 Síðan yrðu öll húsnæðislán, færð niður í upphaflegt lánshlutfall.  Níutíu prósent lán yrðu færð niður í það hlutfall, samkvæmt nýju samræmdu mati á virði eignar, sem og 80 % 100% eða hvað sem upphaflegt lánshlutfall upphaflega var.

Til þess að koma í veg fyrir að röng efnahags og skattastefna stjórnvalda, skemmi ekki ávinninginn af þessari leið, þá myndu þeir lántakendur, eingöngu borga niður höfuðstól lánsins ásamt vöxtum í einhvern tiltekinn tíma, t.d. 3-5 ár.  Sá tími yrði svo notaður til endurskoðunnar á húsnæðislánakerfinu í heild sinni og endurbætur á því, bæta þarf.  

 Að loknum þeim tíma, færu svo lánin inn í það umhverfi sem endurskoðuð og ný húsnæðislánastefna skilar.

Þessi leið þýðir vissulega að um verður að ræða töluverða flutninga á fjármagni, að mestu leyti bókhaldslega, úr lánasöfnum lánastofnana til lántakenda.

 Á móti kemur að raunverulegt tap lánastofnana verður ljóst og auðveldar það viðbrögð gagnvart þeirri stöðu.  Auk þess sem að lokaútborgun flestra þeirra lána sem umræðir, eru nokkra áratugi í burtu og því nægur viðbragðstími til stefnu. 


Lífeyrissjóðirnir, eign fólksins í landinu eða braskvélar óábyrgra stjórnarmanna þeirra?.

Viðbrögð þeirra sem voru í forsvari fyrir lífeyrissjóðina árin fyrir hrun og eru reyndar margir enn á sama stað, eru með ólíkindum.  Menn tala um að læra af, að þeir hafi sett sér siðareglur og kannski mætti endurskoða stjórnarkjör sjóðanna, svo eitthvað sé nefnt.  Eflaust allt saman góð og falleg markmið, en engin viðbrögð lúta þó að því, að einhverjum þeirra finnist það koma til greina að axla ábyrgð.

Hvað stjórnarkjörið varðar, þá er það í rauninni glórulaust að atvinnurekendur séu í stjórnum eftirlaunasjóða starfsmanna sinna, þrátt fyrir sitt framlag í þá.  Það framlag er hluti af kjörum starfsmanna og eiga að mynda að stórum hluta eftirlaunasjóð þeirra, en ekki spilapeningar sem þeir, atvinnurekendur, geta leikið sér með í braski. 

Lærdóminn mættu svo þessir menn nýta, einhversstaðar annars staðar en stjórnum lífeyrissjóðanna. 

Það fegrar svo engan vegin stöðuna, að stór hluti endurreisnar atvinnulífsins, er í höndum þessarra manna í gegnum Framtakssjóð Íslands.

Eins má leiða að því líkum að skuldavandi heimilana væri auðveldari viðureignar, væri staða lífeyrissjóðanna, önnur og betri.

Lífeyrissjóðirnir koma beint og óbeint að ca. 80% allra húsnæðislána á Íslandi.  Í gegnum húsnæðislán til sjóðsfélaga sinna og svo í gegnum það, að fjármagna Íbúðalánasjóð að stórum hluta.

Ætla má, ef rekstur lífeyrissjóðanna hefði verið með eðlilegum hætti árin fyrir hrun, að þá væri svigrúm til almennra eða sértækra niðurfærslna á íbúðalánum lífeyrissjóðanna.  Einnig ættu þá lífeyrissjóðirnir borð fyrir Báru, til þess að færa niður lán sín til Íbúðalánasjóðs, sem sjóðurinn gæti svo nýtt til þess að færa niður lán þeirra, sem þar tóku lán.

Ofan á þetta allt gætu svo lífeyrissjóðirnir haft svigrúm,til þess að frysta verðtrygginguna, í það minnsta, svona rétt á meðan heimilin í landinu, ná aftur vopnum sínum.  Það er jú þannig að það fólk sem á í vanda með húsnæðislánin sín, eru einmitt félagar í einhverjum þessara lífeyrissjóða 


mbl.is „Skýrslan kemur ekki á óvart“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtikvöld Ung vinstri grænna.!!!

Ég get varla annað en ímyndað mér það, að fundir hjá Ung-Vg. geti verið annað en skemmtilegir og fyndnir, eða jafnvel hlægilegir.  Alla vega má vel draga þá ályktun, endi allir fundir með ályktun, sem er á pari við nýjustu ályktun þessa ágæta fólks.  En þar segir meðal annars:

 

,,Hreyfingin telur það fagnaðarefni að fulltrúar flokksins í bæjarstjórn fórni ekki gildum sínum til þess eins að mynda meirihluta. "

Annað hvort er þetta ágæta fólk búið að gleyma svokölluðum ,,gildum" Vinstri grænna, er flokkurinn kynnti fyrir síðustu kosningar, eða þetta ágæta fólk hafi í rauninni ekki vitað hver gildi flokksins voru fyrir kosningar.  Enda fuku þessi ,,fyrir kosningargildi" Vinstri grænna, líkt og dögg fyrir sólu, þegar sæti í meirihluta við stjórn landsmálanna var í boði.

Enn fremur segir í ályktuninni:

„Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu telja að stefna hreyfingarinnar og trúverðugleiki séu alltaf dýrmætari en seta í meirihluta,“ segir í ályktuninni.

Það hlýtur að liggja morgunljóst fyrir að næsta ályktun Ung vg. á höfuðborgarsvæðinu, verður eitthvað á þá leið, að félagið harmi svik flokksforystunnar við eigin gildi og kjósendur sína, með því að ganga á bak þeirra loforða um gildin sín, er viðhöfð voru í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Nema auðvitað að eini tilgangur Ung vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu sé að skemmta sér og öðrum með fyndum og absúrd ályktunum, um þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. 


mbl.is Gleðjast yfir viðræðuslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 1615

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband