Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Kannski rétt að hlusta og bregðast við núna???

Það er athyglisvert að sjá viðbrögð sumra aðildarsinna við fréttum sem þessari.  Viðbrögðin fela það oftar en ekki í sér, að þessar aðvaranir og spár, séu í rauninni fátt annað en fagnaðarlæti þeirra sem vilja evrusamstarfið feigt.

Það er einnig athyglisvert að setja viðbrögðin í samhengi við umræðuna hér frá ca. 2006 og fram að hruni.  Þá voru allir þeir sem höfðu í orðaforða sínum orð eins og ,,bankahrun", stimplaðir fjandsamlegir og öfundsjúkir út í  ,,íslenska undrið".  Einnig veitti þá sumum ekki af endurmenntun.

En hvernig skildi það nú vera í þetta sinn?  Ætli ESB þurfi endurmenntun eða þá þessir illa innrættu blaðamenn sem flytja  þessar fréttir, eða þá sérfræðingar þeir sem vitnað er í fréttunum? 

Er kannski ekki bara kominn tími á það að við förum að nýta okkur reynsluna til lærdóms og hlusta á aðvaranir annarra?  Þó þær aðvaranir kynnu að setja pólitíska hagsmuni einhverra í uppnám.


mbl.is ,,Það brakar og brestur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eiga (mega) fjárfesta hér á landi?

Þó svo að fjárfestingar í ferðaþjónustu séu eflaust jafn nauðsynlegar flestar aðrar, vegna þess að nauðsynlegt er að hafa sem fjölbreyttast atvinnulíf.  Auk þess sem að slík fjárfesting gefur af sér ný störf. Svokölluð ,,umhverfisvæn kvennastörf" eins einum þingmanni Samfó varð að orði. Þá er staðan sú að mörg íslensk ferðaþjónustufyrirtæki, eiga í erfiðleikum með að manna öll störf, sökum bágra kjara er þau bjóða upp á. 

 Varla er við því að búast, að ferðaþjónustufyrirtæki á vegum Nubo eða annarra fjárfesta, bjóði önnur og miklu betri kjör, en nú eru í boði í þessari grein.

 Langir vinnudagar geta jú híft heildarlaunin eitthvað upp.   En varla er það eftirsótt hlutskipti að vinna 16 til 18 klukkutíma á dag, á sumarleyfistíma flestra annarra landsmanna.


Fjárfesting í iðnaði eða einhvers konar framleiðslu, kallar oftar en ekki á nýja eða bætta tæknikunnáttu, þeirra sem við slíkt starfa. Hvort sem það sé við greinina sjálfa eða afleidd störf.


Eftirspurn eftir nýrri /bættri tæknikunnáttu kallar á eftirspurn eftir viðeigandi námi og eykur þá um leið almenna tæknikunnáttu þjóðarinnar.  Kunnáttu sem einnig má nýta annars staðar en hér á landi.

Einnig er líklegt að aukin tækniþekking og aukin eftirspurn eftir námi í tæknigreinum,  auki  nýsköpun hér á landi.  Nýsköpun sem gæfi af sér fleiri ný störf, ekki endilega tengd þeirri grein sem upphaflega var fjárfest í og kom ,,snjóboltanum „ af stað.

Stjórnvöld á hverum tíma, eiga því nær undantekningalaust, að sýna öllum þeim sem hafa ,,raunhæfar“ fjárfestingarhugmyndir, þá sjálfsögðu kurteisi, að ræða við þá alla á jafnréttisgrundvelli.  Án þess að hygla einum umfram annan.

Nú kann einhver að benda á það, að stór hluti hagnaðar stóriðjunar hér á landi, sé fluttur út til eigenda stóriðjufyrirtækjana, sem leiði það af sér að íslenskt efnahagslíf, fái ekki að njóta gróðans.

  Íslenskt efnahagslíf og líf þeirra er landið byggja, nýtur  jú gróðans á þann hátt, að við starfssemi þessarra fyrirtækja verða til störf, sem að öðrum kosti væru unninn í öðrum löndum.  Störf sem gefa af sér tekjur í þjóðarbúið, skatta af tekjum og virðisauka af neyslu.

Heldur fólk kannski að Nubo eða einhver annar erlendur fjárfestir, sem fjárfesta myndi hér í ferðaþjónustu, muni gera eitthvað annað við hagnað sinn af starfssemi hér á landi, en að flytja hann úr landi?

 


mbl.is Vill enn fjárfesta á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töluglöggir vinstrimenn með sumt á hreinu, annað ekki.

Margur vinstrimaðurinn sem kann að reikna, segir sem svo. Úr því að eingöngu ca. 44% þeirra er þátt tóku í umtalaðri skoðunnarkönnum gáfu upp afstöðu sína, þá geti fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki verið meira en 22 %. Enda eru 50% af 44 ekki nema  22.

Enginn þessara töluglöggu einstaklinga, minnist á það að fylgi Samfylkingar og Framsóknar er þá ekki meira en  7,5% hjá hvorum flokki, 5,7  % hjá Vinstri grænum og einungis 1,3% hjá Hreyfingunni.
Enda hlýtur sama reikningsformúlan að gilda, við mælingu á fylgi þeirra flokka , líkt og gildir við fylgismælingu á Sjálfsstæðisflokknum.

mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir ,,veiku" verða veikari.....

Nýjasta samkomulag ESB-ríkja um aðgerðir til lausnar á efnahagsvanda evruríkja og annarra ríkja ESB, ber að sama brunni og flestir fyrri samningar þessarra ríkja um sama mál.  Það er að lífskjör þeirra sem búa í þeim hluta ESB, sem telst veikari efnahagslega, munu nær örugglega skerðast meira en þeirra er búa í ,,sterkari" hlutanum.

 Líklegast munu samræmdar reglur um  fjárlagagerð evruríkja og annarra ríkja í ESB viðhalda eða jafnvel auka á þann mun á lífsgæðum, sem er á milli ,,sterku" ESB-ríkjana og þeirra sem veikari eru. Lögbundið lágmark á halla fjárlaga þessara ríkja, mun fyrst og fremst bitna á þeim sem standa hvað verst í dag og þeim ríkjum sem hvað minnstu möguleika hafa á aukinni verðmætasköpun, sem breikkað gæti skattstofna þessara ríkja.

 Í öllum þessum ríkum, sterkum sem veikum, mun á næstu áratugum verða aukin þörf á útgjöldum til velferðarmála, sökum þess að meðalaldur þegna þessarra þjóða fer stöðugt hækkandi og fjöldi  þeirra sem verða á opinberu framfæri mun snaraukast á kostnað þeirra sem vinna þurfa fyrir þessari útgjaldaaukningu.

Til þess að mæta þessari þróun án verulegs niðurskurðar til velferðarmála, þurfa þessar þjóðir, sem og flestar aðrar að sækja sér auknar tekjur á móti auknum kostnaði.  

 


mbl.is Öll ESB-ríki nema Bretar sammála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alræði eða samræmd verkaskipting, við stjórn efnahagsmála?

„Það var eitt af því sem fór úrskeiðis, að dreifa efnahagsmálum á þrjú ráðuneyti. Forsætisráðuneytisins sem fór með Seðlabankann, viðskiptaráðuneyti með sína hluti og síðan fjármálaráðuneyti með sumt. Hvernig sem þessu verður fundinn staður innan stjórnarráðsins til frambúðar þá á yfirstjórn efnahagsmála að vera samræmd á einum stað. Svo mikið vil ég segja,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Að mínu mati, er það nú ekki rétt hjá Steingrími, að það að dreifa efnahagsmálum á þrjú ráðuneyti hafi verið eitt af því sem fór úrskeiðis.   

Það er öllu nær, að ekki hafi verið hugað að nægu samráði þessara ráðneyta, fremur en að of mörg ráðuneyti hafi verið að vasast í efnahagsmálunum.

Væri það ekki öllu heldur, hætt við því að eitthvað færi úrskeiðis, færi svo að efnahagsmálin öll yrðu sett undir einn ráðherra, fjármálaráðherra.  Alveg óháð því, hver situr í því embætti núna?

Væri það til góðs, að sá ráðherra, sem færi með eignarhlut ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, bæri pólitíska ábyrgð á því lagaumhverfi sem bankarnir starfa eftir? 

Væri það til góðs, að sá ráðherra sem færi með eignarhlut ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, bæri pólitíska ábyrgð á því lagaumhverfi sem Seðlabanki Íslands starfar eftir?

Væri það til góðs, að sá ráðherra er færi með eignarhluti íslenska ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, væri æðsti yfirmaður samkeppnismála, líkt og efnahags og viðskiptaráðherra er í dag?

Væri það til góðs, að sá ráðherra er færi með eignarhluti íslenska ríkisins í íslenskum bönkum, þar af meirihluta í einum þeirra, bæri pólitíska ábyrgð á FME og því lagaumhverfi sem sú stofnun starfar eftir? 


mbl.is Yfirstjórn efnahagsmála á einum stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannfórnir á taflborði þrætustjórnmála fortíðarinnar.

Hvað sem segja má um ráðherraferil Árna Páls Árnasonar, efnahags og viðskiptaráðherra. Þá hefur sá ferill ekkert með það að gera að honum verið líklega fórnað í þrátefli stjórnarflokkanna, við að vinna sundurlyndri stefnu sinni nægt fylgi meðal stjórnarmeirihlutans.

Ástæðan birtist í Silfri Egils, hér rétt áðan. Þar talaði Árni Páll á málefnalegan hátt og í lausnum um þrætumál stjórnmálanna í dag.

Slíkt hefur leiðtogum stjórnarflokkanna, ekki tekist að temja sér, þrátt fyrir að hvor um sig eigi þeir ca. 30 ára feril að baki á Alþingi.

Þann tíma sem þau Jóhanna og Steingrímur, sem formenn stjórnarflokkanna, hafa leitt hina norrænu velferðarstjórn, hefur öll gagnrýni og  öll rök, hvort sem þau séu málefnaleg eða ekki, gegn stefnu stjórnvalda, verið afgreidd á þann hátt, að um sé að ræða svartsýni eða óeðlilega hagsmunagæslu einhverra hópa.  Aldrei hafa þau á þessum tíma, getað rætt málin, á málefnalegan hátt.

 Heldur hefur umræðutækni þeirra byggst fyrst og fremst, á innistæðulausum frösum, persónulegum árásum á deilendur sína og upphrópunum sem flestar ef ekki allar eru eingöngu til heimabrúks, innan raða fylgismanna þeirra.

Einni spurningu er þó ósvarað.  Sú spurning er: ,,Hagsmuni hverra eru þau Jóhanna Sigðurardóttir og Steingrímur J. Sigfússon að verja og berjast  fyrir?   Eitt er víst að þeir hagsmunir eru ekki hagsmunir þeirrar þjóðar, sem þetta land byggir.


mbl.is Veit ekki hvort hann heldur stólnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagsvinna í Iðnaðarráðuneyti og á Fjárfestingarstofu?? (Sama hvaðan gott kemur)

Föstudagskvöldið 2. desember var í fréttum Stöðvar 2 sýnt viðtal við Huang Nubo, þar sem hann segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld.  Í viðtalinu sagði hann m.a. :

„Í fyrsta lagi þarf ég að njóta sanngirni. Þegar hafa verið veittar margar undanþágur til handa útlendingum en þegar ég, kínverskur einstaklingur, bið um slíkt er ekkert við mig talað, bara einföld neitun. Þetta er ekki réttlátt, ég bið einungis um sanngjarna meðferð. Auk þess ef upp hefðu komið einhverjar spurningar í málsmeðferðinni hefði verið hægt að leita til mín og ræða við mig. T. d.: Þarftu svona mikið land?, gætirðu hugsað þér að fjárfesta annarstaðar? eða værirðu til í að leigja landið sem þú þarft? Um öll þessi mál hefði verið hægt að ræða við mig. En ekki svona snubbótt að segja skyndilega að ég megi ekki koma. Þess utan var þessi ákvörðun tilkynnt opinberlega áður en mér var tilkynnt um þetta. Svona vinnubrögð get ég ekki skilið og sætti mig illa við."

Sólarhring síðar, eða svo, birtist svo frétt í kvöld fréttum RÚV, sem blogg þetta vísar í.  Þar er viðtal við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.  Þar sagði hún m.a.:

,,Iðnaðarráðuneytið vill leiðbeina honum í gegnum íslenskt lagaumhverfi en haft hefur verið samband við hann í gegnum fjárfestingarstofu. „Það sem framundan er er að við munum ræða saman á næstunni um það með hvaða hætti hann getur komið hingað til lands með fjárfestingar í ferðaþjónustu“ .sagði Katrín í viðtalinu.

Reyndar er það svo, að fordæmi er fyrir slíkum leiðbeiningum í Iðnaðarráðuneytinu. Vorið 2009 þegar Magma var að undirbúa kaup sín á HS - Orku, þá voru fundir með fulltrúum fyrirtækisins í ráðuneytinu, þar sem aðkoma Magma í gengum sænska skúffu var rædd.  Reyndar kom fram hjá fulltrúa Magma að í upphafi hafi planið verið, að stofna íslenskt félag um fjárfestinguna.  Magma hafi hins vegar verið ráðlagt frá því, af starfsmönnum ráðuneytisins.  Furðulegt hlýtur að teljast, að ráðuneytið hafi veitt Magmamönnum slíka ráðgjöf, nema eitthvað annað hafi hangið á spýtunni, eins og t.d. aflandskrónur er fjármögnuðu fjárfestingu Magma að hluta til.  Slík fjármögnun hefði ekki verið í boði fyrir íslenskt félag, án lagabreytinga eða undanþágu, með tilheyrandi fyrirhöfn og þrasi.

Varla hefur jafnmetnaðarfull fréttastofa og fréttastofa Stöðvar 2 verið að birta ,,gamalt" viðtal við Nubo á föstudagskvöldið.  Og varla hefði Nubo verið daglega í viðtölum við hina og þessa miðla, þar sem hann fordæmir vinnubrögð íslenskra stjórnvalda,  þessa viku sem liðin er frá synjun Ögmunds varðandi landakaupin, hafi þá þegar verið búið að hafa samband við hann eða fulltrúa hans hér á landi í gegnum fjárfestinarstofu.

Samfylkingin leiðist það seint, að skreyta sig með fjöðrum réttlætis og jafnræðis til handa kúguðum þjóðum, líkt og stuðningur við sjálfstæði Palestínu, ber vitni um, sem og fordæming utanríkisráðherra og annarra á meðferð Ísraela á palestínsku þjóðinni. 

Það vita það allir sem það vilja vita, að kínverskur ríkisborgari, gæti aldrei hafa náð að byggja upp veldi á við það sem Nubo hefur byggt upp, án vitundar og samþykkis kínverskra stjórnvalda og í samvinnu við þau.

Í útvarpsfréttum á RÚV í liðinni viku, var lesin frétt um Dalai Lama og ákvörðun hans um afsala sér veraldlegum gæðum og eða skyldum.  Þar var einnig sagt frá áætlunum kínverskra stjórnvalda í Tíbet. Dalai Lama er eins og allir ættu að vita, útlægur leiðtogi Tíbeta.

Í útvarpsfréttinni var sagt frá að þau áform fælust  í stórtækri námuvinnslu á flestu því sem menn sækja úr slíkri vinnslu. Auk þess voru háleit markmið um kínverska ferðaþjónustu á tíbetsku landi, í þágu Kínverja, en ekki þeirrar þjóðar er byggir landið.  Á meðal fjárfesta í öllu þessu, er Huang Nubo.

Nú er það svo að, þó að ekki sé sjálfstæðisbarátta Tíbeta, daglega í fréttum. Þá stendur hún engu að síður yfir líkt og sjálfstæðisbarátta Palestínumanna og síst fá Tíbetar skárri meðferð frá kínverskum stjórnvöldum, en Palestínumenn frá þeim ísraelsku. 

Það hljóta því að vakna spurningar, sé stóra samhengið skoðað, án tillits til allra áhrifa sem fjárfestingar Nubo gætu haft hér.  Eru kínversk stjórnvöld og Nubo eitthvað hótinu skárri en þau ísraelsku?  Væri ísraelskur fjárfestir, sem fjárfest hefur í nýbyggingum Gyðinga á palestínsku landi, sami auðfúsu gesturinn í íslenskt athafnalíf?  Eða er bara, samkvæmt venju hjá Samfylkingunni,  alveg sama hvaðan ,,gott" kemur?

 


mbl.is Stjórnvöld í viðræðum við Nubo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíska ábyrgðin hjá forsætisráðherra.

Það breytir í rauninni litlu, þó Gylfi sem valinn var í embætti efnahags og viðskiptaráðherra á ,,faglegum" forsendum, hafi ákveðið hækkunina, en ekki Árni Páll sem síðar varð viðskiptaráðherra á ,,pólitískum" forsendum.

Gylfi hlýtur að hafa verið að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar, en ekki sinnar eigin.  Hann ber því ekki ,,pólitíska" ábyrgð á ákvörðuninni, enda var hann ekki ráðherra á ,,pólitískum forsendum. Ábyrgðin hlýtur því að hvíla á herðum forsætisráðherra, sem á að heita leiðtogi og verkstjóri stjórnarinar.

Árni Páll hefði hins vegar borið ,,pólitíska" ábyrgð, hefði hann tekið þessa ákvörðun. Enda varð hann síðar ráðherra á ,,pólitískum forsendum, ekki faglegum. Reyndar má alveg halda því fram, að Árni Páll beri pólitíska ábyrgð á því, að þessi glórulausa ákvörðun, hafi ekki verið dregin til baka.  Enda virðist ákvörðunin ekki vera í anda pólitískrar stefnumótunnar Hinnar ,,tæru" vinstristjórnar.

Það verður samt að teljast nær óhugsandi, að stefnumarkandi ákvörðun sem þessi, hafi ekki verið rædd í ríkisstjórn, áður en hún var tekin.  Ákvörðunin var því nær örugglega tekin með vilja og vitund ríkisstjórnarinnar allrar og á ábyrgð hennar, þó meginábyrgðin hvíli á forsætisráðherra.


mbl.is Gylfi hækkaði launin en ekki Árni Páll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef menn spyrja ekki sjálfir, fá menn ekki svör.

 Í fréttum útvarps nú í vikunni var frétt um Tíbet og áform kínverskra stjórnvalda, varðandi það land. Þau áform felast í stórtækri námuvinnslu á flestu því sem menn sækja úr slíkri vinnslu. Auk þess voru háleit markmið um kínverska ferðaþjónustu á tíbetsku landi, í þágu Kínverja, en ekki þeirrar þjóðar er byggir landið.  Á meðal fjárfesta í öllu þessu, er Huang Nubo.  Varla þykir það fallegt, að á sama tíma sem Ísland lýsir yfir stuðningi við sjálfstæði Palestínu, þá séu íslensk stjórnvöld að ,,mylja" undir kínverskan fjárfesti, sem tekur þátt í því, að svipta aðra þjóð er lengi hefur staðið í sjálfstæðisbaráttu, gæðum lands síns.

„Í fyrsta lagi þarf ég að njóta sanngirni. Þegar hafa verið veittar margar undanþágur til handa útlendingum en þegar ég, kínverskur einstaklingur, bið um slíkt er ekkert við mig talað, bara einföld neitun. Þetta er ekki réttlátt, ég bið einungis um sanngjarna meðferð. Auk þess ef upp hefðu komið einhverjar spurningar í málsmeðferðinni hefði verið hægt að leita til mín og ræða við mig. T. d.: Þarftu svona mikið land?, gætirðu hugsað þér að fjárfesta annarstaðar? eða værirðu til í að leigja landið sem þú þarft? Um öll þessi mál hefði verið hægt að ræða við mig. En ekki svona snubbótt að segja skyndilega að ég megi ekki koma. Þess utan var þessi ákvörðun tilkynnt opinberlega áður en mér var tilkynnt um þetta. Svona vinnubrögð get ég ekki skilið og sætti mig illa við."

Í fyrsta lagi, er það svo, að ég best veit. Að í þeim tifellum sem undanþágur hafa verið veittar til landakaupa, þá sé litið til þeirra reglna, sem eru um landakaup útlendinga í heimalandi þess er sækir um eða þá hvort að um gagnkvæma samninga, um landakaup sé að ræða milli Íslands og lands umsækjenda. Enginn er samningurinn um þetta efni milli Íslands og Kína. Hvað lög í Kína um landakaup útlendinga varðar, skilst mér að lögin séu eitthvað á þann veg, að útlendingar megi kaupa, en kínverska ríkið taki til sín landið og þjóðnýti eftir 70 ár.

Nokkrum vikum eftir að umsóknin barst innanríkisráðherra, þá sendi ráðuneytið til baka fyrirspurn um verkefnið, til Nubo eða fulltrúa hans.  Þannig að ekki er það alveg rétt að hann hafi ekkert verið spurður á meðan málsmeðferð stóð yfir.

 Hvað spurningar um stærð lands og hvort leiga kæmi til greina, eru í rauninni spurningar sem Nubo hefði sjálfur átt að spyrja.  Menn geta ekki vænst svara við spurningum, sem þeir ekki spyrja.


mbl.is Gagnrýnir vinnubrögð stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband