Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Ráðherrakapall endar í öndunnarvél.

Það er alveg ljóst, að innan beggja stjórnarflokkanna, er bullandi ágreiningur um þær breytingar á ríkisstjórn sem kynntar voru í gær.  Sex þingmenn, þrír úr hvorum flokki, greiddu ekki atkvæði með þessum breytingum.   Það getur varla talist traustvekjandi, í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn hangir á einu atkvæði, einhvers þeirra sexmenninga, eða þá einhvers annars í stjórnarflokkunum.

Til þess að ráðherrakapallinn gangi upp, þá þarf Alþingi nú á komandi vorþingi, að samþykkja stofnun nýs ráðuneytis, Atvinnuvegaráðuneyti.

 Þá mun væntanlega koma í ljós, hvort þessir sex stjórnarþingmenn  er ekki styðja breytingarnar  á stjórninni, styðji þær í raun og veru.  Eða hvort hjáseta þeirra og mótatkvæði, hafi eingöngu verið ætluð til heimabrúks.

Eins kæmi það sterklega til greina, að stjórnarandstaðan komi sér saman um að flytja vantrauststillögu á ríkisstjórnina.  Slíkt væri í rauninni stór greiði við kjósendur í landinu, hvort sem stjórnin lifi slíka vantrauststillögu af eða ekki.  Kjósendum yrði í versta falli ljóst, hvaða þingmenn, vilji axla með ríkisstjórninni ábyrgð á helstefnu hennar og hverjir ekki.

Einnig er ekki hægt að sjá annað, lifi ríkisstjórnin veturinn af, að í það minnsta ein ef ekki tvær breytingar verði gerðar á ríkisstjórninni á þessu tæplega eina og hálfu ári sem eftir er af kjörtímabilinu. 

Það er nokkuð ljóst að fari svo að aukalandsfundur verði haldinn í Samfylkingunni í vor, að þá veri kosin ný forysta flokksins.  Telja má nokkuð ljóst að engin  þeirra er nú gegni embætti ráðherra, taki við formennsku í flokknum.    Líklegt verður að telja, að Árni Páll hafi með því að hafa  í rauninni ,,bjargað“ flokknum og stjórninni frá háðung á flokkstjórnarfundinum í gærkvöldi, tekið forystu í komandi formannsslag, hafi hann á annað borð áhuga á því að starfa áfram í pólitík.

Árni Páll, eða sá/sú sem verður nýr formaður Samfylkingarinnar, getur varla hugsað sér það, að ganga til kosninga vorið 2013 með óhæfan og vita gagnslausan forsætisráðherra í eftirdragi.  Nýr formaður hlýtur því að þýða nýr forsætisráðherra.

Fari hins vegar svo að engar breytingar verði á ríkisstjórninni í kjölfar aukalandsfundarins, þá hljóta þær að verða, þegar Katrín Júlíusdóttir kemur úr fæðingarorlofi sínu í ágúst.  Enda varla við því að búast að hæstvirtur ráðherra jafnréttismála, svíki það loforð sitt, er hún gefur óléttri konu.

Varla verður þá ráðherrum fjölgað aftur til þess efna ,,loforðið“.  Varla verður skipt um fjármálaráðherra ,,korteri“ fyrir framlagningu fjárlagafrumvarps.  Ekki er eins að sjá, að eitthvað verði hróflað við embættum utanríkis og velferðaráðherra, þannig að þá er stóll Jóhönnu einn eftir.   Í það minnsta hvað varðar ráðuneyti Samfylkingarmegin.   

Við ofantalið bætist svo það við að endurskoðun kvótamála, er enn í algjöru uppnámi innan stjórnarflokkanna, ásamt fleiri málum, eins og stjórnarskrármálinu.

Það eru því engar ýkjur að halda því fram, að lagning ráðherrakapalsins, hafi hlotið frekar snautlegan endi í öndunnarvél.


mbl.is Ríkisstjórnin og forystan nær fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður handhafi meirihlutaeignar í banka æðsti yfirmaður FME?

 ,,Samkvæmt frétt vefritsins Smugunnar er talið líklegt að þessar breytingar felist í því að þeir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, yfirgefi ríkisstjórnina og aðrir komi ekki í þeirra stað."

 Gangi frétt Smugunnar eftir þá mun líklegast verða til nýtt Atvinnuvegaráðuneyti, sem Katrín Júlíusdóttir mun verða yfir, í það minnsta fram að fæðingarorlofi.  Ekki ólíklegt að Kristján Möller fengi að leysa Katrínu af á meðan hún verður í fæðingarorlofi.  

Ætli það fari svo ekki svo, að Steingrímur taki yfir verkefni Efnahags og viðskiptaráðuneytis, eins og hann bauðst til um daginn og taldi meira að segja nauðsynlegt að svo yrði.

Þá skapast sú staða að sá ráðherra sem ber ábyrgð  á meirihluta ríkisins í Landsbankanum verði einnig æðsti yfirmaður FME og beri pólitíska ábyrgð á stofnuninni.

 

 


mbl.is Steingrímur vill ekki tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annáll 2011, annar hluti. - Smíði kvótafrumvarps.

Nær allt vorþingið 2011, beið þingheimur og þjóðin eftir nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða.  Enda hafði svokölluð sáttanefnd, er skipuð var til þess að leggja drög að slíku frumvarpi, skilað af sér, nærri samhljóða áliti, í september 2010, að loknu eins árs starfi.

Að sögn þeirra er ríkisstjórnina leiða, skyldi nú ekki vera kastað til höndunum við smíði nýs frumvarps um stjórn fiskveiða. 

Var í kjölfarið stofnaður starfshópur fjögurra ráðherra og átta stjórnarþingmanna.   Segja má að þessi tólf manna hópur hafi lokað að sér og ekki talað við kóng né prest á meðan vinnan við gerð frumvarpsins stóð yfir.  Leitaði hópurinn ekki einu umsagna á meðal hagsmunaaðila, eins og oft er gert,  við gerð frumvarpa.

Tveimur frumvörpum um stjórn fiskveiða,  var svo kastað inn í þingið, örfáum dögum fyrir áætluð lok vorþingsins.  ,,Litla kvótafrumvarpinu“ sem ætlað var að vera nokkurs konar biðleikur, þangað til að ,,stóra kvótafrumvarpið“ tæki gildi.

Upphófst þá málþóf mikið í þinginu og óvíst var um þinglok, sökum þess.  Náðist þó á endanum að semja um afgreiðslu á litla frumvarpinu, en senda stóra frumvarpið aftur til sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar, er leita skyldi umsagna um málið.

Reikna verður með því að stjórnarliðar þakki stjórnarandstöðunni, fyrir það málþóf er hún stóð fyrir, vegna kvótafrumvarpana, því varla er hægt að álykta sem svo að stjórnarflokkarnir yrðu ánægðir með það að hafa þvingað með látum ónýtu frumvarpi í gegnum þingið.

 Enda hefur hver stjórnarliðinn á fætur öðrum, afneitað stóra frumvarpinu og látið sem að það sé eingöngu verk sjávarútvegsráðherra.  Gekk utanríkisráðherra meira að segja svo langt að líkja frumvarpinu við bílslys.

Eftir  vetrarlöng hrossakaup og toganir á milli stjórnarflokkanna um málið, sem var að lokum lagt fram sem stjórnarfrumvarp.  Frumvarp verður ekki stjórnarfrumvarp, nema það sé rætt og samþykkt í ríkisstjórn og stjórnarflokkum. 

Utanríkisráðherra og reyndar fleiri stjórnarliðar, hljóta því að vera að lýsa ástandinu þannig, að stórslysahætta sé af stjórnarsamstarfinu.

,,Stóra kvótafrumvarpið“ fór svo í umsagnarferli í sumar.  Það er ekki ofsögum sagt, að ekki hafi frumvarpið fengið jákvæðar umsagnir umsagnaraðila.  Enda voru þær nær allar á þann veg, að um ónýtt frumvarp væri að ræða.

Fékk sjávarútvegsráðherra þessar umsagnir í hendur í haustbyrjun og setti ráðherrann í framhaldi af því starfshóp, til þess að vinna úr þeim umsögnum, breyta frumvarpinu eða skrifa nýtt.

Eflaust af fenginu reynslu, var ráðherrann ekkert að flagga þeirri vinnu ofmikið, fyrir öðrum í stjórnarsamstarfinu. Minnugur þess hvernig síðasti vetur nýttist til frumvarpssmíða.

Sjávarútvegsráðherra kynnti þó í ríkisstjórn vinnuplagg um málið sem starfshópurinn hafði unnið, með starfsfólki ráðuneytisins og birti síðan plaggið á heimasíðu ráðuneytisins, við lítinn fögnuð samstarfsflokksins í ríkisstjórn.

 Enda hefur Samfylkingin, nánast frá fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar, viljað losna við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn, vegna andstöðu hans í ESB-málinu.

Var málið, aftur tekið af ráðherra og skipaður starfshópur ráðherra um málið og eflaust fá valdir stjórnarþingmenn að leggja eitthvað til málanna, likt og síðasta vetur, með þekktum árangri.

Þannig stendur málið í dag og eins og með nær öll önnur mál, sem á borð ríkisstjórnarinnar lenda, þá er frétta að vænta af því á ,,næstu dögum“ , ,,næstu vikum“,  ,,eftir helgi“ o.s.f.v.

Það eru engar ýkjur að halda því fram, að þetta mál sé stjórnarflokkunum ofvaxið, líkt og nær öll önnur mál.  Slík er sundrungin innan og á milli stjórnarflokkanna og hver höndin upp á móti annarri, svo vægt sé til orða tekið.

Það er í það minnsta varla hægt að álykta sem svo að ríkisstjórnin sé með málið ,,undir control“, eins og sagt er, miðað við forsögu þess. 


Annáll 2011. - Fyrsti hluti.

Seint í janúar 2011, ógilti Hæstiréttur kosningu til stjórnlagaþings.  Lögspekingar líkt og Róbert Spanó sögðu niðurstöðu réttarins vel rökstudda.  Sama gilti þó ekki um velflesta er barist höfðu fyrir stjórnlagaþinginu. 

  segja að velflestir þeirra, hafi látið gremjuna verða skynseminni og rökhyggjunni yfirsterkari og leitað sökudólga fyrir ógildingunni á meðal útvegsmanna og andskotans íhaldsins.

 Töldu velflestir þeirra er gramdist niðurstaða Hæstaréttar, að andskotans íhaldið og útgerðarmenn hefðu haft óeðlileg áhrif á Hæstarétt, án þess þó að geta bent á eitthvað því til staðfestingar.

  Þess ber þó að geta, að allir þeir er málið varðaði, vissu með nokkurra vikna fyrirvara, hvaða dómarar myndu taka afstöðu til þeirra ákæra er réttinum bárust vegna kosninga til stjórnlagaþings.  Þessir sömu höfðu því nokkurra vikna frest til þess að gera athugasemdir um hæfi þeirra dómara er úrskurðuðu í málinu.  Það gerði hins vegar enginn, fyrr en rétturinn hafði úrskurðað á annan hátt, en þeir sem höfðu hvað hæst um vanhæfi réttarins, höfðu óskað sér.

Það var svo samþykkt, með naumum meirihluta, eftir mikið japl, fum og fát, að hunsa niðurstöðu Hæstaréttar á þann hátt, að stjórnlagaþingið skyldi haldið, hvað sem niðurstöðu Hæstaréttar liði. Var breytt um nafn á fyrirbærinu og það kallað stjórnlagaráð og þeim boðin seta í ráðinu er kosningu höfðu hlotið í ógildum kosningum.

Með þessari ráðstöfun Alþingis má segja að Alþingi hafi ráðið tuttugu og fimm verktaka, til þess að sinna þeirri vinnu sem Alþingi ber jú samkvæmt núgildandi stjórnarskrá að vinna. 

Eins og allir vita, sem eitthvað hafa kynnt sér stjórnarskrána, þá er það löggjafans (Alþingis) að setja þjóðinni nýja stjórnarskra, en ekki einhverra annarra einstaklinga, hvort sem þeir séu kosnir af þjóðinni eða ráðnir til verksins af Alþingi sjálfu.

Þjóðin kaus í rauninni fólkið sem breyta átti stjórnarskránni í alþingiskosningum þann 25. apríl 2009, en ekki í stjórnlagaráðskosningum þann 27. nóvember 2010.

Stjórnlagaráðið skilaði svo síðastliðið sumar, forseta Alþingis, afrakstri vinnu sinnar, frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, með ósk um að þjóðin fengi að kjósa um efni þess.

Hvaða afstöðu sem þjóðin kann að taka til frumvarps stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá í ,,ráðgefandi þjóðaratkvæði“ , þá skiptir sú afstaða í rauninni engu, við hliðina á vilja þeirra sextíu og þriggja þingmanna er sitja munu á Alþingi Íslendinga, þegar og ef að frumvarpið, verður tekið þar til efnislegrar meðferðar. Líkt og lög gera jú ráð fyrir.

Þar ber þeim er á þingi sitja, að láta niðurstöðu ,,ráðgefandi þjóðaratkvæðis“ um frumvarpið, sem vind um eyru þjóta, sé sannfæring þeirra önnur en þjóðarinnar fyrir efni frumvarpsins.  Það yrðu engin svik við einn eða neinn, að greiða atkvæði gegn frumvarpinu, þó þjóðin greiddi atkvæði með því, sé sannfæring þingheims önnur . 

Enda undirrita allir er á Alþingi setjast drengskaparheit að stjórnarskránni.  Í þeirri stjórnarskrá stendur meðal annars að þingmenn séu eingöngu bundnir sannfæringu sinni, en ekki boðum kjósenda sinna. (48. Gr.)


Ráðherrar í málþófi.

 Þekkt er málþóf stjórnarandstæðinga á Alþingi, þegar að umdeild mál eru til umræðu.  Er málþófinu beitt til þess, að hindra eða tefja afgreiðslu mála sem umdeild eru.  Oftast fer þó svo á endanum, að meirihlutinn fær sínu fram og málin eru afgreidd í þinginu.
Hins vegar voru þau nýmæli, tekin upp af ráðherrum hinnar norrænu velferðarstjórnar, að einstaka ráðherrar eða ráðuneyti haldi uppi ,,málþófi“ til þess eins að berjast gegn ákvörðunum meirihluta lýðræðiskjörins Alþingis.

,,Hún (Guðfríður Lilja) segist hafa fengið þær skýringar frá forsætisnefnd að beðið væri eftir niðurstöðu um málið frá fjármálaráðuneytinu sem sé furðulegt í ljósi þess að það hafi verið Alþingi sem sett hafi fyrirvara við það og viljað fá fram svör við ákveðnum spurningum. "

Hvað hefur Fjármálaráðuneytið með þá ósk Alþingis að Vaðlaheiðargöngin fari í óháð arðsemismat hjá Hagfræðistofnun að gera? Fjármálaráðuneytið starfar skv. vilja þingsins, eða á að gera það, en ekki öfugt.

Fjármálaráðuneytið eða önnur ráðuneyti hafa  því ekkert með það að gera, að hægja á þeim málum sem nefndir þingsins hafa til umræðu og afgreiðslu.

Líklegast er það nú samt svo, að þetta ,,málþóf“ fjármálaráðherra, sem ber jú ábyrgð á Fjármálaráðuneytinu, sé afsprengi þeirrar ákvörðunarfælni sem háð hefur stjórnarmeirihlutann frá upphafi.

Ákvarðanafælni þessi hefur einnig sett mörg mál er varða atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í gíslingu einstaka ráðherra, þrátt fyrir að ætla megi að meirihluti Alþingismanna, sé fylgjandi því málefni sem haldið er í gíslingu.

Í stað þess að hleypa málum í lýðræðislegt ferli og leyfa til þess bærum aðila, Alþingi að fjalla um málið og fá í það niðurstöðu, láta stjórnarflokkarnir, hinn stjórnarflokkinn ,,kúga“ sig til þess að ,,samþykkja“ gíslingu máls, af ótta við endalok ríkisstjórnarsamstarfs og stjórnmálaferil margra þeirra er á þingi sitja fyrir annan hvorn stjórnarflokkinn.


mbl.is Málið fast í forsætisnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarf stjórnarflokkanna ávísun á stórslys?

Össur veit það ósköp vel, að hann getur ekki talað um  Stóra kvótafrumvarpið, líkt og einhver kjáni út í bæ, hafi lagt það fram.  Frumvarpið kom inn í þingið sem stjórnarfrumvarp.  Frumvarp verður ekki að stjórnarfrumvarpi, nema sátt um það ríki í ríkisstjórn og innan stjórnarflokkanna.  Eða alla vega er það, það verklag sem ætlast er til að sé fylgt.

Það er líka ekki eins og að frumvarp þetta hafi, bara sisona allt í einu, fallið af himnum ofan.  Sjálfsagt er leitun að öðru frumvarpi, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, sem önnur eins vinna hefur farið í, innan ríkisstjórnar og stjórnarflokka.

Eftir að sáttanefndin lauk störfum haustið 2010, unnu stjórnarflokkarnir heila átta mánuði við samningu á frumvarpinu.  Í það minnsta fjórir ráðherrar og fjórir þingmenn úr hvorum stjórnarflokkanna, komu beint að gerð þess, með mismiklum hætti þó.

Það er því öllu nær að kalla samstarf stjórnarflokkanna ,,bílslys" eða þá ,,hópslys".

 


mbl.is Kvótafrumvarpið eins og bílslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt ef satt reynist!!

Heyrst hefur að Jóhannesi Karli Sveinssyni lögmanni verði falið að halda upp vörnum fyrir Íslendinga hjá EFTA-dómstólnum.
Ef að satt reynist, þá er þetta klúður á pari við ,,afleik aldarinnar", Svavarssamninginn.

Ef að satt reynist, þá er það ljóst, að ríkisstjórnin sé staðráðin í að tapa málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Stærsta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar síðan í Þorskastríðinu á síðustu öld.

Jóhannes átti sæti í síðustu Icesave-samninganefndinni sem skilaði síðasta samningi sem felldur var í þjóðaratkvæði.

Áður en að þjóðaratkvæðisins kom, barðist Jóhannes ötullega fyrir samþykkt samningsins, bæði í fjölmiðlum og á fjölmörgum fundum sem haldnir voru vegna samningsins.

Það væri öruggara til árangurs, sigurs í málinu, að senda kókkassa til þess að halda uppi vörnum fyrir Ísland í málinu, en Jóhannes Karl Sveinsson.

Fari svo að Jóhannes Karl verði ráðinn til að halda uppi vörnum, þá mun útskýring á hugtakinu ,,einbeittur brotavilji“ vera einfaldari, en nokkru sinni fyrr.  Nægja mun að benda á þessa ,,ráðningu“ til útskýringar á hugtakinu.


mbl.is Birta stefnu gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nálgun Lilju og félaga kolröng frá upphafi.

 

Hún (Lilja) telur jafnframt að þjóðin og þingið þurfi að fá tíma til að kynna sér landsdómsmálið.


  Lilja sagði áður en umræðan um landsdómsákærur hófst, að þetta yrðu pólitísk réttarhöld og uppgjör við markaðshyggjuna. Líkt og það væri eðlilegasti hlutur í heimi að nýta dómstóla á þennan hátt.

Reyndar mátti  greina það á yfirlýsingum flestra þáverandi félaga Lilju í þingflokki Vg. að nálgun Lilju væri alveg á pari við það sem tíðkaðist þá í þingflokknum.

Það var reyndar svo, samkvæmt orðum Ögmunds og annarra þingmanna Vg., að orð Atla Gíslasonar á þingflokksfundi, hefðu sannfært þingflokkinn um að ákæra þá fjóra fyrrv. ráðherra, er tillaga Atlanefdarinnar kvað á um. 

Enda þyrfti þetta uppgjör við markaðshyggjuna, að fara fram og pólitísk réttarhöld, væru ekkert verri aðferð en nokkur önnur, til þess að knýja fram slíka niðurstöðu.

Það er því alveg ljóst að nálgun Lilju og þáverandi félaga í Vg. í landsdómsmálinu var kolröng frá upphafi. Enda þekkjast pólitísk réttarhöld ekki í þeim hluta heimsins, sem kenndur er við frelsi og réttlæti, sem að við Íslendingar teljum okkur vera hluti að.



mbl.is Lilja: Röng nálgun í máli Geirs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Fráleit" greining Birgittu.

„Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru að leggja málið fram, ef til vill með stuðningi sitthvors þingmannsins úr stjórnarflokkunum, eða þar um bil. Það er hins vegar fráleitt að það sé meirihluti fyrir þessu á þingi.“  Segir Birgitta Jónsdóttir.


Þetta er eiginlega kostuleg greining hjá Birgittu. Eðli máls samkvæmt, hljóta allir þeir er greiddu atkvæði gegn málsókn, að greiða atkvæði með því að ákæran verði dregin til baka. Þá eru strax komin 30 atkvæði. Gæti reyndar verið spurning hvað Lúðvík Geirsson, sem tók sæti á þingi er Þórunn Sveinbjarnar fór í siðfræðina gerir.  En það lækkar samt töluna ekki meira en niður í 29.

Þannig að í rauninni, þurfa bara tveir til þrír þeirra er sögðu já við ákæru, að kjósa með því að ákæran verði dregin til baka, auk þeirra 29 til 30 sem nær örugglega munu gera það.

Standi þingflokkur Framsóknar heill á bak við þessa ályktun, þá bætast við þrjú atkvæð, ef ég man rétt. Svo er samkvæmt frétt á eyjan.is Guðfríður Lilja fylgjandi því að ákæran verði dregin til baka. Þá vilja 33 til 34  gegn 29 til 30,  í það minnsta, draga ákæruna til baka.


mbl.is Birgitta: Stormur í vatnsglasi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Milduð afstaða sjávarbyggða, keypt með misrétti fyrir aðra?

Stjórnvöldum og fleirum reyndar, er tíðrætt um að arðurinn af sjávarútvegsauðlindinni eigi að renna til þjóðarinnar allrar og því sé hækkun veiðigjalds nauðsynleg.

Það er í sjálfu sér alveg  hægt að fallast á það sjónarmið, svo framarlega sem veiðigjaldið er innan skynsamlegra marka.  Reyndar er erfitt að ímynda sér það, að núverandi stjórnvöld innheimti skatt, sem veiðileyfagjaldið vissulega er, innan skynsemismarka.  En það er önnur saga.

Það hlýtur því að skjóta soldið skökku við þegar í tillögum starfshóps sem fjallar um ný lög um stjórn fiskveiða, gerir hluta þjóðarinnar hærra undir höfði með tillögum sínum og leggur til að að misréttið verði nánast, lögbundið sem tekjustofn til valinna sveitarfélaga.  

,,Í  tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldi skiptist þannig að 50% renni í ríkissjóð, 40% til sjávarbyggða og 10% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi.“

Eins og kunnugt er, þá fékk kvótafrumvarp það sem lagt var fram á síðasta vorþingi falleinkunn nær allra sem fjölluðu um málið. Þar með talið frá sveitarstjórnum sjávarbyggða, eða frá  þeim byggðum þar sem sjávarútvegurinn er  kjölfestan í atvinnulífinu.

Það hljóta samt að vakna upp spurningar hvort stjórnvöld telji sveitarfélög eins og Mosfellsbæ, Garðabæ, Fljótsdalshérað og fleiri sem ekki eru beint þekkt fyrir sjávarútveg, ekki vera hluta af þjóðinni.  Því varla verður þeim sveitarfélögum greitt af þessum 50% prósentum sem eyrnamerkt eru ríkissjóði.

Sé það virkilega svo, að stjórnvöldum sé einhver alvara með því að þjóðinn öll eigi að njóta arðsins af sjávarauðlindinni, þá hlýtur veiðigjaldið að eiga að renna til hennar allrar, með jafnari hætti, en þessar tillögur gera ráð fyrir. 

Ef þessi skipting veiðigjaldsins er eitthvað heilög, 50 – 40 -10, þá væri eflaust réttlátast að láta 40% renna til atvinnuuppbyggingar, á landinu öllu óháð því hvort um sé að ræða sjávarbyggð eða ekki. 

Eins gæti  það sem ekki fer til markaðs og þróunnarmála, runnið beint í ríkissjóð, sem er jú eini lögbundni móttakandi arðs þjóðarauðlindum.

 Stjórnvöld á hverjum tíma, sem fara jú með ráðstöfunnarvald á auðlindinni, í umboði þjóðarinnar, gætu þá ráðstafað þeim fjármunum á þann hátt, sem er þjóðinni fyrir bestu, á hverjum tíma.  Hvort sem það verði til atvinnuuppbyggingar, til eflingar á velferðarkerfinu eða til samgönguúrbóta, svo eitthvað sé nefnt.

Það er því allt eins líklegt, að tillögum starfshópsins sé fyrst og fremst ætlað til að milda umsagnir sveitarstjórna sjávarbyggðanna, en hafi í rauninni minnst með það að gera að leyfa þjóðinni allri að njóta arðsins af sjávarauðlindinni.

 


mbl.is Ánægja með ráðstöfun veiðileyfagjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband