Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Kvótakerfið eða verndunnarstefna Hafró ,,sökudólgurinn"?

Frá því að kvótakerfinu var komið á um miðjan níunda áratug síðustu aldar, hefur sá afli sem Hafró telur óhætt að veiða, nær undantekningalaust verið minni en árið áður eða þá staðið í stað.  Nú er það svo að stefna Hafró er sögð vera til þess fallin að vernda og byggja upp fiskistofna, hér við land.  Hvernig má það vera að stefna Hafró, sem sögð er hafa þann tilgang að vernda fiskistofna hér land, verði til þess að stöðugt er minna og minna úthlutað af aflaheimildum ár hvert?

Núna segja mér menn er stúderað hafa fiski og líffræði og fylgst með því sem að er að gerast í kringum okkur að eftir nærri þriggja áratuga og jafnvel lengri  ,,vernd" Hafró á fiskistofninum í íslenskri landhelgi að þá ætti staðan í dag að vera sú, að við værum að veiða 450 þús tonn. af þorski ár hvert, í stað ca. 150 þús. tonna.

 Framsal aflaheimilda, hefur um árabil verið andstæðingum kvótakerfisins þyrnir í augum.  Framsalið, sem slíkt, er ekki gallalaust frekar en kvótakerfið sjálft.  En líklegast er þetta skásta kerfið sem í boði er, þegar því var komið á, jafnt sem og í dag.  Enda hlýtur öfund margra fiskveiðiþjóða, er margar hverjar mega muna sinn fífil fegri, í garð Íslendinga vegna kvótakerfisins, að benda til þess að einhvers staðar í ferlinu, hljótum við að hafa gert rétt með kvótakerfið, sem slíkt.

 Það hlýtur því að liggja beinast við, að haldi kvótakerfið sem slíkt, að þá hljóti eitthvað að vera að verndunnarstefnu Hafró, sem áratugum saman hefur ekki skilað neinu öðru en minni afla ár hvert.  Aflasamdráttur áranna sem verndun fiskistofnanna hefur verið stjórnað úr Hafró, hefur leitt af sér, varð svo til þess að svokölluðu framsalskerfi var komið á.  Í því kerfi var útgerðum er urðu fyrir það mikilli skerðingu aflaheimilda, að þær voru hættar að bera sig, gefinn kostur á því að selja sig út úr greininni í stað þess að fara í þrot.  Auk þess var framsalið til þess, að þær útgerðir er lifðu skerðinguna af, gátu ekki bara keypt sér meiri kvóta og aukið þar með veiðar sínar, heldur gátu útgerðirnar, skipt á veiðiheimildum sín á milli, eftir því hvaða veiðar hentuðu hverri útgerð, hverju sinni.

 Eins og ég skrifa hér að ofan, þá væri líklega hægt að veiða allt að því þrefalt meira af þorski, en við gerum í dag, væri stefna Hafró að gera sig.  Eins má þá telja líklegt að framsal aflaheimilda, hefði aldrei orðið í eins ríkum mæli og raunin er, þó svo að líklegt megi telja að einhverjar útgerðir hefðu hætt starfsemi og einhverjar útgerðir skipt við aðrar útgerðir á aflaheimildum í tegundum, sem að þeim hentar að veiða hverju sinni. 

Þá væri einnig nær öruggt að sá mikli fólksflótti frá Vestfjörðum og annars staðar af landsbyggðinni væri mun minni, enda væri þá næg vinna hringinn í kringum landið við fiskveiðar og vinnslu, ásamt vinnu við aflegð störf.

 Það hlýtur því að koma að því fyrr en seinna, að menn kjafti í sig kjark og þor og fari að skoða með gagnrýnum augum stefnu Hafró. Hverju sú stefna sé að skila okkur og hvort sú stefna sé rétt eða röng og sé stefnan röng, eins og margt bendir til, að koma þá með tillögur sem beina okkur á rétta braut. 

Siðan ég man eftir mér, þá hefur yfirstjórn Hafró, gengið í ,,erfðir", þ.e. að nánasti samstarfsmaður forstjóra hverju sinni, hefur á endanum orðið forstjóri, þegar sá eldri lætur af störfum. Það er því nær vonlaust að ætlast til þess að innan Hafró blási nýir vindar, eða stefna Hafró í gegnum tíðina sé tekin til, gagngerrar endurskoðunnar af stofnuninni sjálfri, þar sem stofnunin, væri þá að endurskoða verk yfirmanna sinna í gegnum árin.


mbl.is Standi við sátt um samningaleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjaldborgarlógík á fréttastofu RÚV.

Í fréttum sjónvarps í kvöld kom fram eftirfarandi fullyrðing í fréttainnskoti, til kynningar á þættinum Landinn: ,,Þó að atvinnuleysi sé minnst á Vestfjörðum, þá er mestur fólksflótti þaðan á öllu landinu."   Er ekki réttara að orða þetta þannig að, atvinnuleysi er minnst á Vestfjörðum á öllu landinu, vegna þess að svo margir hafa flutt þaðan?  

Áþekk ástæða er svo líka fyrir því að atvinnuleysi er minna á landsvísu, en spár gerðu ráð fyrir.  Ef bætt er við þeim fjölda á atvinnuleysisskrá sem  flutt hefur erlendis, farið í skóla eða farið af vinnumarkaði af öðrum ástæðum, í stað þess að fara á atvinnuleysisskrá, þá stemmir sú tala við þær atvinnuleysisspár sem norræna velferðarstjórnin hreykir sér fyrir að hafa hrakið.

Nærtækara væri því fyrir Jóhönnustjórnina, að tína til einhver ný störf (önnur en þau er ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa hannað fyrir einkavini) og benda á þau , ætli stjórnin að hreykja sér af góðum árangri í atvinnumálum.


Trúverðugleiki FME undir frostmarki.

Þegar þáverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon,  skipaði  Gunnar Andersen í starf forstjóra FME, þá var það nefnt að Gunnar hefði komið að hönnun þessa kerfis, er Sigurður G. minnist á og notað var við meint lögbrot.  Var sú ábending látin eins og vindur um eyru þjóta, þó svo að íslenska fjármálakerfið á þeim tíma hafi fyrst og fremst þurft að skapa á sér traust. 

  Þó var sett í gang innan FME, einhvers konar ,,sýndarrannsókn" á fortíð Gunnars hjá Landsbankanum, án þess þó að Gunnar viki á meðan.  Það hlýtur að vera einsdæmi að þegar eftirlitsstofnun, rannsakar feril forstjóra síns, þá starfi forstjórinn þar áfram eins og ekkert sé.

 Þó svo að Gunnar beri af sér allar sakir og víki sæti, þegar málefni Landsbankans eru rannsökuð, af þeirri stofnun er hann sjálfur stýrir, þá er ekki þar með sagt að hann hafi engin áhrif á rannsóknina og/eða meðferð rannsóknargagna.

Einnig rýrir það trúverðugleika FME töluvert, að FME réð endurskoðunnarfyrirtækið PWC, til þess að rannsaka fall Sparisjóðs Keflavíkur.  Síðan sú ráðning fór fram, á ábyrgð Gunnars þá hafa skilanefndir Glitnis og Landsbankans,  stefnt PWC fyrir dómstóla, vegna meintrar aðstoðar PWC við bókhaldssvik bankanna tveggja árin fyrir hrun þeirra.  Þessar dómstefnur virðast þó engu breyta hjá FME, varðandi það hver rannsaki  fall Sparisjóðs Keflavíkur. 


mbl.is Segir Gunnar Andersen höfund kerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn ÍLS forðaði sjóðnum frá meiri hneisu, en sjóðurinn er nú þegar í eftir........

..eftir setu Jóhönnu og Árna Páls í embætti félagsmálaráðherra.

Þegar Árni Páll Árnason var félagsmálaráðherra, reyndi hann hvað hann gat til þess að koma Yngva Erni Kristinssyni að sem framkvæmdastjóra  Íbúðalánasjóðs. Gekk meira að segja svo langt að fyrra ráðningarferlið fokkaðist upp, vegna ósættis Árna Páls  og stjórnar ÍLS, sem vildi ráða annan aðila sem framkvæmdastjóra ÍLS.

Yngvi Örn var einn að flugumönnum Samfó í Landsbankanum, þar sem hann starfaði  síðustu misserin fyrir hrun, sem framkvæmdastjóri Verðbréfasviðs. Auk þess sem að hann var einn af ráðgjöfum Ingibjargar Sólrúnar í efnahagsmálum.Fyrir þau störf, var hann verðlaunaður í Félagsmálaráðuneyti Árna Páls, með ýmsum sporslum, er flestar voru kallaðar ,,sérverkefni" eða ,,ráðgjafastörf".


Nær öruggt má einnig telja að Yngvi Örn hafi staðið Árna Páli hvað næst og lagt það flest til sem Árni Páll, kallaði aðgerðir til lausnar skuldavanda heimilana, þetta eina og hálfa ár sem Árni Páll sat í stól félagsmálaráðherra.

Yngvi Örn Kristinsson er einn þeirra, sem sérstakur saksóknari sótti til yfirheyrslu í dag, vegna gruns um stórfelld lögbrot í Landsbanka Íslands, árin fyrir hrun.


Þora stjórnvöld ekki að birta ,,nýju neysluviðmiðin".

Í tengslum við aðgerðir stjórnvalda til lausnar skuldavanda heimilana, gáfu stjórnvöld það út að reiknuð yrðu út ný neysluviðmið.  Enda er það nauðsynlegt að hafa slík viðmið við hendina, eigi úrræði vegna skuldavandans að vera markviss og skila árangri.

Núna er ca. mánuður liðinn síðan áðurnefnt neysluviðmið átti að liggja fyrir.  Varla er hægt að gera ráð fyrir því að útreikningur þessra neysluviðmiða, taki allan þennan tíma, sem orðinn er tvöfaldur, miðað við þann tíma sem áætlað var í upphafi að útreikningurinn tæki. 

Nærtækari skýring hlýtur því að vera sú, að nýreiknuð neysluviðmið séu mun hærri en lágmarkslaun í landinu og atvinnu og örorkubætur og af þeim sökum þori stjórnvöld ekki að birta þjóðinni, ,,nýju neysluviðmiðin".


Neitun íslenskra kjósenda við Icesavekröfum Breta og Hollendinga var bindandi....

af þeim sökum kemur ekkert annað til greina, en að nýr samningur verði lagður fyrir þjóðina líkt og Icesave II.

 Alveg burtséð frá því að forsætisráðherra hafi kallað þjóðaratkvæðið um Icesave 6.mars 2010, marklausan skrípaleik, þá breytir það því ekki að kosningin var bindandi.

Hafi einhver gleymt úrslitum þeirra kosninga, þá skal það upplýst hér að 98,2% þeirra sem tóku afstöðu í þjóðaratkvæðinu, höfnuðu kröfum Breta og Hollendinga.  

Þó svo að spuni Bretavinnugengisins gangi út á það að Íslendingar hafi eingöngu verið að kjósa gegn vöxtunum er voru á ólögvörðum kröfum Breta og Hollendinga, þá er ekki hægt að slá slíku föstu og er það í rauninni ólíklegt að vextirnir hafi verið ástæða höfnunar þjóðarinnar á samningnum.  

Líklegast er að þjóðin, eða sá hluti hennar er hlýddi ekki heimsetukvaðningu forsætisráðherra, hafi verið að greiða atkvæði gegn því að Ríkissjóður (skattgreiðendur) tæki á sig skuldir einkabanka.  Enda hvergi til bókstafur um slíkt í lögum, hvorki í íslenskum, né í evrópskum.

 Í könnun þeirri sem vitnað er í í fréttinni sem þetta blogg, hangir við, kemur einnig fram að stærstur hluti þeirra, er afstöðu taka, vita ekki hvernig nýr Icesavesamningur lítur út og þar með ekki hvað þeir eru fylgjandi að samþykkja.  

 Nær öruggt er að niðurstaða þessarar könnunnar hefði orðið önnur og þá Bretavinnugenginu í óhag, hefði  spurningin í könnunni verið: "Ertu fylgjandi eða andvíg/ur því að íslenska ríkið greiði Bretum og Hollendum 26,1 milljarð á þessu ári í vexti vegna Icesave og alls 56 milljarða til ársins 20016?"   Þess má geta að lán AGS er afgreitt verður við síðustu endurskoðun sjóðsins dekkar aðeins 73% af þessum 26 milljörðum.

Niðurstaðan í Icesave-þjóðaratkvæðinu var bindandi og þýðir í raun að íslenska þjóðin, treysti ekki stjórnvöldum, eða Alþingi til þess að taka ákvörðun, vegna nýgerðs samnings í Icesavedeilunni.  Íslenska þjóðin vill því eiga síðasta orðið í málinu, líkt og hún hafði þann 6. mars 2010.

 Hunsi stjórnvöld og Alþingi þá bindandi niðurstöðu, þá er þessum sömu aðilum, ekki treystandi til þess að virða niðurstöður ,,ráðgefandi" þjóðaratkvæðis um ESB-aðild, komi til slíks.  Verði niðurstaða þeirrar kosninga sú að íslenska þjóðin ,,ráðleggi" stjórnvöldum það að samþykkja ekki þann samning, sem þá liggur fyrir, eru meiri líkur en minni að samningurinn verði lítillega ,,fegraður". Að því loknu verði svo breyttur samningur lagður fyrir Alþingi, sem stjórnarfrumvarp og þá væntanlega samþykktur, enda myndi annað leiða til stjórnarslita.


mbl.is Tæpur helmingur vill samþykkja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FME lætur meintan sakborning rannsaka fall sparisjóðs.

Fram kom í fréttum á síðasta ári, að bæði skilanefndir Landsbankans og Glitnis, væru að undirbúa málsókn gegn endurskoðunnarfyrirtækinu PWC.  Skilanefnd Glitnis ætlaði að reka sitt mál í New York, en því var vísað þar frá dómi og verður nær örugglega þá rekið hér á landi.  Mál það sem skilanefnd Landsbankans hyggst höfða, hefur hins vegar ekki verið þingfest, svo ég viti til.

 Ákærur skilanefndanna beggja lúta að því að endurskoðunnarfyrirtækið hafi í rauninni ,,aðstoðað" eigendur bankanna við fölsun á ársreikningum bankanna.  Enda eru yfirsjónir endurskoðenda PWC þvílíkar, að þær hljóta að hafa verið með vilja gerðar.

 Þrátt fyrir ákærur þessara skilanefnda og væntanlegar málsóknir, þá er FME með PWC í vinnu við að rannsaka, hvað gekk á áður en SP-KEF fór á hausinn og lenti í fangi ríkisins, árið 2009.  Það sem gerir þetta í raun enn sjúkara er að skilanefndir bankanna, starfa undir eftiliti FME og á ábyrgð þess.


Bara einn farvegur í boði og hann er hannaður í Brussel.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur eða fáviska (meðvituð eður ei) meðal þingmanna Vg., hvort sem þeir greiddu atkvæði með eða á móti ESB-umsókninni, að hægt sé að velja málinu, einhverja mismunandi farvegi.  Sá eini farvegur sem í boði er, er upptaka þeirra laga og reglugerða ESB sem við eigum eftir að gera og semja síðan um tímabundnar undanþágur á þeim lögum og reglum, sem við teljum skerða hvað helst íslenska hagsmuni. Með örðum orðum: ,,Að fresta gildistöku þess um nokkur ár, er við teljum skerða hagsmuni okkar hvað mest.

Samningurinn sem slíkur hlýtur á endanum að byggjast á því að aðlögun Íslands að regluverki og verklagi ESB verði staðfest, með einhverjum tímabundnum undanþágum.


Hins vegar er ég á því að ráðgefandi þjóðaratkvæði í lok ferilisins, sé nánast ,,skrípaleikur og markleysa", svo vitnað sé í orð forsætisráðherra, vegna Icesaveþjóðaratkvæðisins. Segi þjóðin ,,nei" þá verður líklegast farið í það að ,,fegra" nýfelldan samning og honum svo aftur vísað til þjóðarinnar. Jafnvel oftar en einu sinni, þangað til ,,viðunnandi" niðurstaða fæst. Þau orð að klára verði þetta samningsferli til að fá málið útúr heiminum, eru eflaust líkt og boðað ráðgefandi þjóðaratkvæði, markleysa.


Í það minnsta var lítið mark, þannig séð, tekið á bindandi niðurstöðu þjóðaratkvæðis í Icesavedeilunni. Nei yfir 90% þeirra er hlýddu ekki heimsetuboði forsætisráðherra, þýddi ekki að þjóðin vildi borga, bara ekki svona mikið eins og Icesave II kvað á um. Samningnum og þeim ólögvötðu byrðum sem settar voru ( og eru reyndar einnig að hluta til í Icesave III), var einfaldlega hafnað. Þeirri höfnun breytir ekki, eða í það minnsta ætti ekki að breyta, hvort sem vextir þessara ólögvörðu krafna séu 3% eða 5,5%.


mbl.is Þingið endurnýi umboð til ESB-umsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyftulógík Vinstri grænna.

Það hefur löngum verið staðreynd, að það sem fer upp, fer niður aftur, líka lyftur.  Það að þvæla eitthvað um ferðir lyfta í húsbyggingum í stað þess að svara spurningum fréttamanna um óskyld mál, er í rauninni óvirðing við almenning. Almenning sem treystir því, að fréttamenn hafi þann aðgang að stjórnmálamönnum, að þeir geti spurt þá spurninga og fengið svör um þau mál, sem eftst á baugi eru hverju sinni. 

Hins vegar er eins og ,,villikettirnir" í Vg., geti ekki tjáð sig öðruvísi, en í formi yfirlýsinga sem þeir senda fjölmiðlum, eða þá á Facebooksíðum sínum. En það að þeir geti tjáð sig face2face við þjóðina, með milligöngu fréttamanna, virðist vera þeim ómögulegt, sér í lagi þegar líkur eru á að forysta flokksins gæti heyrt hvað þeir hafa fram að færa fyrir þjóðina. Þá er gott að geta gripið til þess að fræða þjóðina um það, að lyftur sem fara upp, fara svo niður, eftir að þær hafa farið upp.

Innkoma Ögmundar í spjall fréttamanna við þau Ásmund Einar og Lilju, var í skásta falli skondin, en raun skammarleg.  Það að leggja það til að fréttamenn spyrji að, einhverju öðru en því sem í raun er í gangi, er í rauninni ákall um fréttamennsku er viðhöfð var hér í aðdraganda hrunsins, þar sem fjallað var um menn og málefni á þann hátt sem kom best út fyrir eigendur bankana og aðra útrásarvíkinga. 

Spurning hvort Ögmundur, óski eftir því að vera spurður að einhverju öðru, þegar og ef að einhverjum blaðamanni dettur í hug að spyrja hann um afstöðu hans til staðgöngumæðrunarmálsins á Indlandi.

 En líklegast er mergur málsins ekkert flóknari en svo, eins og síðuritari hefur haldið fram um nokkurt skeið, að villikettir Vg. hafa ákveðið ,,tuðleyfi", gegn því að passað verði upp á að nægjanlegt magn atkvæða skili sér í hús, í atkvæðagreiðslum í þinginu.  Enda sú stefna sem birtist í stjórnarsamstarfinu í andstöðu við flest í stefnu Vinstri grænna og smá uppréisn, án alvarlegra afleiðinga, til þess að róa grasrótina.

Var meira að segja haft eftir félaga Svavari í Silfrinu á sunnudaginn var, að flest gengi hjá ríkisstjórninni, þrátt fyrir það að menn væru ekki alltaf sammála, enda væri þess ætíð gætt, að alla vega 32 atkvæði skiluðu sér í hús í atkvæðagreiðslum í þinginu.

 Pólitískur hávaði villikattanna, glatar trúverðugleika sínum, með hverjum degi, sem líður og hverri yfirlýsingu þeirra, sem fjarar svo út í einhverjum ,,lyftubröndurum" eða ,,pöntunum" ráðherra á þeim spurningum sem ,,æskilegast" sé að spyrja.


mbl.is Enn tekist á hjá VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

,,Villikattafárið".

Hvort sem þingflokkur Vinstri grænna hefur rætt svokölluð deilumál sín á milli eða ekki, er vart neinna nýrra tíðinda að vænta.

 Þessir þrír villikettir, sem nú um stundir kvæsa hæst,  hafa allir lýst því yfir að þeir muni verja ríkisstjórnina falli.  Það þýðir á mannamáli, að þeir munu ekki standa í vegi fyrir stefnumálum ríkisstjórnarinnar, hverju nafni sem þau muni kallast. 

Hins vegar áskilja þau sér rétt til þess að kvæsa, þegar vökva þarf grasrótina.

Þetta þýðir þá einnig að Lilja Mósesdóttir er sátt við aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart skuldavanda heimilana.  Hún sagði jú í sjónvarpsþættinum Návígi, hjá Þórhalli Gunnarssyni, að ef að ríkisstjórnin ætlaði ekki að gera neitt sem skiptir máli varðandi skuldavandann, þá vildi hún kosningar.  Stuðningur hennar við ríkisstjórnina hlýtur því að þýða það að hún sé sátt við aðgerðirnar.  Í það minnsta lýsir hún yfir stuðningi við stjórnina, en lætur það ógert að krefjast kosninga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1607

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband