Leita í fréttum mbl.is

Allt eins skýrt og af er látið?

Það má segja að úrslitin kosninganna í gær séu skýr, þ.e. tveir þriðju sem þátt tóku vilja að tillögur stjornlagaráðs verði að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem lagt verði fram á Alþingi. Eða að breytingarferli, í einhverri mynd, á stjórnarskránni haldi áfram. 

Afgerandi eru úrslitin með auðlindir í þjóðareign. Þjóðkirkjuákvæði verður áfram í stjórnarskrá samkvæmt þessum úrslitum. Persónukjör leyft í meira mæli, þ.e. opnaður möguleiki á auknu persónukjöri en því ekki komið á.  Jöfnun atkvæðisréttar nær örugglega samþykkt á landsvísu, þó að í tveimur landsbyggðarkjördæmum sé töluverð andstaða við slíkt.  Nær öruggt er einnig að beint lýðræði verði í þessum  tillögum sem Alþingi fær til umfjöllunar, sem nýtt frumvarp að stjórnarskrá.

Kjörsóknin hefði þó mátt vera mun meiri, til þess að gera umboðið skýrara og sterkara.  Rök eins og þeir sem sátu heima, leyfðu þeim sem kusu að ráða fyrir sig og að kjörsókn hafi verið með svipuðu móti og þjóðaratkvæðum í löndunum í kringum okkur, duga kannski í bili. Hið minnsta.  

Atkvæði þeirra sem heima sátu, verða virk þegar kosið verður til Alþingis í vor. Í það minnsta flest þeirra.  Enginn getur með vissu sagt, hvað olli heimsetu þessa fólks í kosningunum í gær.  Hvort að því fólki sé einfaldlega „bara sama“ eða hafi skýra afstöðu til málsins.  En  hafi af einhverjum ástæðum eins og t.d. þeirri að um ráðgefandi kosningu var að ræða og að forsætisráðherra hafi lofað breytingum á stjórnarskrá hvernig sem kosningarnar færu, ákveðið að sitja heima.

Þegar gengið verður til þingkosninga í vor, mun væntanlega heimasetufólkið bætast í hóp kjósenda. Þó ekki verði beinlínis kosið um úrvinnslu þingsins á tillögum stjórnlagaráðs, nema kosið verði sérstaklega um hana, þá mun sú vinna eflaust vera undir. Líkt og öll hin stóru málin.

Enginn veit hvaða einkunn lögfræðihópurinn sem Stjórnlaga og eftirlitsnefnd þingsins skipaði til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs gefur þeim.  Hvort hópurinn telji einhver ákvæði ekki standast, einhverjum þeirra sé  ofaukið o.s.f.v..  Eins er það óljóst hvort eða hvaða breytingum tillögurnar taka í meðförum þingsins.

Í ljósi þess að tillagan um jöfnun atkvæðisréttar var felld í tveimur kjördæmum,  má alveg leiða að því líkum, að þingmenn þaðan verði hikandi við samþykkt hennar eða hreinlega bara berjist gegn henni. Enda gæti áframhaldandi þingseta þeirra staðið og fallið með því hvernig þeir tækla þá tillögu.

Nokkuð víðtæk sátt er um í þinginu að einhvers konar auðlindaákvæði verði í stjórnarskrá.  Enda eru þau úrslit mest afgerandi  í kosningunum.Hins vegar er eflaust himinn og haf meðal þingmanna um orðalag slíks ákvæðis. 

Að öllum líkindum verður ákvæði um þjóðkirkju sett í nýja stjórnarskrá, þó eflaust verði deildar meiningar um slíkt ákvæði í þinginu.

Persónukjörið mun væntanlega ná í gegn.  En eins og það ákvæði hljómar, þá er það í rauninni verkefni næstu þinga að koma því á. Sé til þess vilji á þeim þingum.  Það er því ekki hægt að segja að persónukjör hafi beinlínis verið tryggt.

Beina lýðræðið nær nokkuð örugglega í gegn þó allt eins megi búast við því að þröskuldurinn verði eitthvað hærri en  10% sem talað hefur verið um.

Afdirf annarra tillagna, en þeirra sem ekki var beinlínis kosið um, eru hins vegar óljós ennþá.  Enda hafa afar fáir þingmenn gefið upp afstöðu sína til þeirra. 

Ég gæti svosem alveg ímyndað mér að innan allra flokka á þingi sé vilji til þess að ráðherrar séu ekki samtímis þingmenn einnig. Þó eflaust sé slíkt ekki samróma álit í öllum flokkum. Svo eitthvað sé nefnt.

Það er því kannski ekki beinlínis hægt að tala um sigur eða tap einhverra í þessum kosningum í gær.  Enda allteins hægt að áætla að stór hluti já-anna í þeim hafi fremur lýst vilja fólks til breytinga á stjórnarskrá, fremur en beinlínis hafi það verið að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs sem slíkar. Er þá kannski nær að líta til svara við spurningum 2-6, ætli fólk að tala um skýra efnislega niðurstöðu úr þessum kosningum. 

Hlutdeild manna í sigrinum er því kannski víðtækari en af er látið.  Enda flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar á Íslandi, hvort sem eiga fulltrúa á þingi eða ekki, talað fyrir breytingum  á stjórnarskrá. Eins og t.d. auðlindaákvæði.  Þó vissulega séu þær breytingar mismiklar eftir flokkum.

Hinn eiginlegi sigurvegari verður að lokum þjóðin. En til þess að svo verði, verður ekki bara að ríkja víðtækari sátt um stjórnarskrárbreytingar en nú er. Heldur þarf stjórnarskráin  einnig í fyllingu tímans að standa tímans tönnn og gagnast þjóðinni á þann hátt sem stjórnarskrám er ætlað.


mbl.is „Er afskaplega stolt af þjóðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Skoðanakönnun um örfá atriði nýrra draga að stjórnarskrá. Afskaplega ómerkilega að verki staðið. Ekki gripið á því ákvæði sem mestur styrinn hefur staðið um.

Viðbrögð stjórnaliða vekja mér ekki beinlínis ugg heldur skelfingu.

Árni Gunnarsson, 21.10.2012 kl. 17:09

2 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Já Árni. Ef að ég tek bara þann hóp jáara sem að ég þekki, þá ætluðu allir sem einn að segja já, vegna þess að þeir vildu breytingar. Ekki vegna þess að þeir beinlínis styddu tillögur stjórnlagaráðs.

Ég held að ég geti fullyrt að þeir séu ekki þeir einu sem að slíkt gerðu.

Ein ummæli Eiríks Bergmanns í Silfrinu í dag, vöktu athygli mína. En þau voru eitthvað á þá leið, að stjórnlagaráðið hefði breytt eitthvað tillögum sínum í mars síðastliðinn. En þær breytingar hafi ekki verið í textanum sem kosið var um.

Kristinn Karl Brynjarsson, 21.10.2012 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Kristinn Karl Brynjarsson
Kristinn Karl Brynjarsson
Ég hef mínar skoðanir, ekki endilega alltaf réttar.  Málefnaleg innlegg velkomin, en þeim sem geta ekki tjáð sig öðruvísi, en með svívirðingum um síðuhöfund, aðila þess máls, sem til umræðu er, hverju sinni eða með uppnefningum, er bent á eigin bloggsíðu.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband